16.02.1972
Sameinað þing: 38. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2501 í B-deild Alþingistíðinda. (2724)

Varamenn taka þingsæti - rannsókn kjörbréfa

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Það er ekki út af kjörbréfinu sem slíku, sem ég hef kvatt mér hljóðs. Ég hef áður á þessu þingi látið í ljós aðvörunarorð um það, hvernig beitt er ákvæðunum til þess að taka inn varaþm. Og mér sýnist, að það sé farið að ríkja verulega varasamt frjálslyndi í því sambandi. Nú stendur fundur Norðurlandaráðs fyrir dyrum og við þurfum að fara þangað nokkrir þm. sem og ráðh. Í fyrra var sá háttur hafður á, að dregið var úr þinghaldinu af hálfu forsetanna svo sem verða mátti á meðan, og ég hefði haldið, að líkt yrði að farið nú með tilliti til þeirra þm., sem eru í Norðurlandaráði, og þess vegna hef ég t. d. sjálfur alls ekki gert ráð fyrir að kalla inn varamann fyrir mig, þó að þing væri hér án þess að nokkrar meiri háttar afgreiðslur færu fram á fundum í 2–3 daga.

Ég vil ítreka það, sem ég hef áður gert, að beina því til hæstv. forseta Sþ. og forsetanna sameiginlega, að þeir alvarlega athugi, hvaða venjur skapast hér í þinginu um það, að menn kalli inn varamenn fyrir sig. Það hefur komið fyrir, held ég, á þessu þingi og það væri gott að fá um það skýrslu, að menn hafa jafnvel kallað inn fyrir sig varamann og verið í burtu kannske einn eða tvo daga sjálfir. Bæði er það óeðlilegur kostnaður, sem af þessu leiðir, en í öðru lagi hlýtur þetta að hafa truflandi áhrif á störf þingsins, ef út í öfgar er farið. Ég ætla ekki að vera með neinar ásakanir í garð einstakra flokka hér eða einstakra manna. Það er fjarri mér. En ég ítreka: ég bið hæstv. forseta alvarlega um að athuga þetta. Það eru tiltekin ákvæði um þetta í þingsköpum, og það er áreiðanlega ætlunin, að menn taki ekki inn fyrir sig varamenn nema alveg í fyllstu forföllum, þannig að þeir geti alls ekki mætt í þinginu og varaþm. fái þá einhvern verulegan tíma.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri, en vildi láta þessa aths. koma fram hér.