22.11.1971
Efri deild: 14. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 211 í B-deild Alþingistíðinda. (273)

86. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég skal reyna að taka mér hæstv. forsrh. til fyrirmyndar, eins og vera ber, og lengja ekki þessar umr. mikið, þó að vissulega hafi margt komið fram í ræðum sumra hv. þm. hér, sem gæfi tilefni til nokkurra orðræðna.

Hv. 4. þm. Norðurl. v. gaf hér nokkrar athyglisverðar upplýsingar, sem ég þakka honum fyrir, og þeim mun verða haldið til haga, m.a. varðandi það, að nú ætti áætlanagerð að vera með allt öðrum hætti en hún hefði verið undanfarin ár. Hv. 5. þm. Vestf. vék einnig nokkuð að þessu atriði, og auðvitað skiptir meginmáli, hvernig þessi áætlanagerð er hugsuð og hvort hér er um að ræða byrjun á áætlunarbúskap, eins og hann er hugsaður á sósíaliska vísu, sem ekki nema viss hópur þjóða í heiminum tileinkar sér, eða áætlanagerð, sem allar vestrænar og þróaðar þjóðir telja sjálfsagða, og að meginstefnu til hefur áætlanagerð hingað til hér á landi verið byggð á þeim aðferðum við áætlanagerð. Og það, að hv. þm. telur þessar áætlanir mjög frumstæðar og ófullkomnar, gefur nokkuð eftirtektarverða ábendingu um, hvað það raunverulega er, a.m.k. af hálfu hans flokks, sem eigi að felast í þessu frv.

Það voru einnig önnur atriði eftirtektarverð, sem ég þakka honum fyrir. Það var, þegar hann ræddi um ádeilur minar á lánadeildarkafla frv., en þá tók hann það fram, að þótt ég að vísu hefði komizt nokkuð hvasst að orði og of róttækt, þá væri því ekki að neita, að hér væri bæði um að ræða samþjöppun valds og, eins og hann orðaði það, að ríkið færi að sinna óhjákvæmilegri forustu í efnahagsmálum. Þetta er ég honum einnig þakklátur fyrir að upplýsa og gott að vita, hvað þetta merkir þá nokkru nánar en felst í frv., sem ég tel vera til staðfestu því, sem ég hafði haldið fram í minni upphaflegu ræðu hér.

Hv. þm. taldi það ákaflega barnalegt hjá mér að tala um, hvernig stæði á því, að þeir væru hafðir þrír, þessir kommissarar, í frv. Hvernig dytti mér í hug, að það væri hægt að hafa annaðhvort tvo eða fjóra menn í nefnd. Það vill nú svo til, að ég er í stofnun, þar sem eru tveir menn, sem stjórna, tveir bankastjórar, og það eru fleiri slíkar stofnanir til, og ég hef aldrei vitað neitt vandamál í því efni og ekkert sérstakt, sem leiðir til þess, að nauðsyn sé, að þarna sé oddaaðstaða. Ef unnið er með skipulagsbundnum hætti að afgreiðslu mála, og mér skilst, að þarna eigi ekki að koma raunverulega til atkvgr. nema að litlu leyti, menn eigi að vinna þarna eftir almennum áætlunum, — ef taka á það gott og gilt, sem hæstv. forsrh. sagði við túlkun á frv., þá fara þar ekki fram atkvgr. um úthlutanir eða annað þess konar — þá er það auðvitað ekkert vandamál, hvort mennirnir eru tveir, þrír eða fjórir. Hitt sagði ég í ræðu minni, að ég skildi ákaflega vel, af hverju þeir væru þrír, og ég held, að hv. þm. víti líka mætavel, hvernig á því stendur.

Ég vil taka það skýrt fram út af ræðu hv. 1. þm. Vestf., að það er fjarri því, að ég sé á móti athugun á arðsemi fyrirtækja. Langt í frá. Það er misskilningur á orðum mínum, ef ég hef komizt svo klaufalega að orði, að hann hefur skilið þau á þann hátt. Ég álít, að það hafi grundvallarþýðingu fyrir fyrirtækin sjálf, að það sé gert og þær leiðbeiningar séu ákaflega mikilvægar, sem nú er byrjað á í stórum stíl í bankakerfinu og af hálfu ýmissa þjóða að kanna einmitt arðsemi fyrirtækja. En ég skil bara setninguna á töluvert annan veg en hann í gr., að þetta eigi ekki eingöngu að vera leiðbeiningaratriði, heldur geti það með þessum hætti orðið ærið mikið úrskurðaratriði þessara opinberu aðila, sem þarna taka ákvörðun um það, hvað gera skuli varðandi þessi fyrirtæki. Og í rauninni sé hægt að dæma þau úr leik með einhverjum slíkum aðferðum að taka upp verulegt eftirlit umfram það, sem felst í því að sannfæra menn, eins og iðulega tekst með frjálsum upplýsingum um arðsemi fyrirtækja, að koma þeim í skilning um, að það sé ekkert vit í því að setja slík fyrirtæki á laggirnar sjálfra þeirra vegna.

Við þekkjum nú öll hér í þessari hv. d., að þótt það sé ágætt að raða framkvæmdum og ágætt að hafa skipulag og engum detti í hug í nútímaþjóðfélagi að halda því fram, að það eigi að vera einhver óheft samkeppni og ekki neitt skipulag á hlutunum, þá er nú sannleikurinn sá, að við höfum ekkert ákaflega góða reynslu af haftakerfi, þar sem hægt var að koma við fullkomnu skipulagi. Og við búum því miður við atvinnulíf, sem er þess eðlis, að það er mjög erfitt að fást við áætlunarbúskap, þótt menn vilji taka hann upp. Ég vík hér aðeins að einu atriði, sem hv. 5. þm. Reykn. kom nokkuð inn á í þessu efni, og það má vel vera, að það hefði mátt saka fyrrv. ríkisstj. um það, að hún skyldi ekki stöðva byggingu síldarverksmiðja á sínum tíma, og vitanlega varð reynslan sú, að þær voru allt of margar byggðar, af því að síldin fór, en það er bara svo margt í okkar þjóðarbúskapi, sem er þessa eðlis. Eitthvað hefði verið sagt, ef ríkisstj. hefði þá stöðvað byggingu síldarverksmiðju á Austurlandi t.d. Segja má, að þjóðhagslega hefði verið miklu skynsamlegra að flytja síldina til gömlu verksmiðjanna á Norðurlandi og jafnvel á Vestfjörðum, þar sem þær voru til, heldur en að fara að byggja þarna nýja verksmiðju. Ég er ákaflega hræddur um, að jafnvel þó að við hefðum verið komnir með kommissarastjórn og þeir hefðu verið hinir ágætustu menn, þá hefði þetta orðið ákaflega miklum vandkvæðum bundið. Vegna þess hvernig okkar skipulag allt er á atvinnumálum og atvinnuþróun hér, þá er ákaflega erfitt, — og það hafa þeir sem hafa fengizt við áætlanagerð undanfarin ár, hinir mætustu menn, oft bent á, — að koma hér við áætlunarbúskap.

Ég er hv. 1. þm. Vestf. einnig algjörlega sammála um, að það er alveg nauðsynlegt, að opinberar stofnanir séu til, sem geti veitt atvinnurekstrinum þjónustu og leiðbeiningar, og það gleður mig stórlega, að hann lýsir sig fylgjandi einkarekstri og frjálsum atvinnuvegum, og við erum þarna algjörlega sammála, þótt við séum ekki sammála um það atriði, að það verði gert með því haftakerfi nýja, sem hér er ætlunin að koma á, en e.t.v. er hann annarrar skoðunar um þetta frv. en ég, og vonandi er hans skoðun rétt, að það felist alls ekki í því, sem er kvíði okkar hinna, sem teljum, að hér sé farið inn á nýjar leiðir, og þá hefði óneitanlega verið líka heppilegra, eins og hv. 5. þm. Vestf. benti hér á, að tala ekki allt of mikið um það, að hér ætti að fara inn á algjörlega nýjar leiðir og allar þær miklu nýjungar, sem eru í þessu frv. Því að ef ekki er ætlunin að taka hér upp nýtt skipulag, heldur að halda áfram og aðeins þróa það, sem þegar er búið að gera og komið er áleiðis í þessum efnum, þá á ekki að vera að tala um nýjungar, heldur aðeins að lagfæra og bæta það, sem fyrir er.

Aðeins að lokum eitt atriði, sem mig langaði til þess að bera fram fsp. um til hæstv. forsrh., til þess að vera ekki að lengja þessar umr. neitt. Ég tel það vera töluvert veigamikið atriði. Ég fékk hér senda bók í dag, m.a.s. í hátíðlegu umslagi og virðulegu, þannig að það hefur ábyggilega verið gert með það í huga, að maður tæki sér hana til fyrirmyndar. Ég hygg, að bókagjöfin sé jafnvel frá hæstv. forsrh. Það er stefnuskrá um málefnasamning ríkisstjórnar Ólafs Jóhannessonar, og hann vitnaði oft í þennan málefnasamning í frumræðu sinni, sem var heldur ekki neitt að undra. En það er eitt atriði í málefnasamningnum, sem brýtur í bága við eitt atriði í þessu frv. Það eru ákvæðin um Byggðasjóð, þ.e.a.s. stjórn Byggðasjóðs, sem ég álit mjög veigamikið atriði. Það er tekið fram í málefnasamningnum, að ætlunin sé að efla þennan sjóð, og það er allt gott og blessað, en ætlunin sé að hann sé undir sjálfstæðri stjórn. Þetta tel ég, þar sem ég hef nokkuð mikla reynslu af starfi þessa sjóðs, að hafi geysiveigamikla þýðingu, vegna þess að miðað við hlutverk sjóðsins, að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, — ég man nú ekki, hvort það orðalag er notað núna, en það hefur löngum þótt gott og gilt orðalag, og ég býst ekki við, að það sé ætlunin að breyta því, — þá veltur það að sjálfsögðu á miklu, hvernig valin er forusta þessa sjóðs. Ég er alls ekki viss um það, þótt það geti verið hinir mætustu menn, sem veljast í stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins, að það séu menn, sem eru sérstaklega kunnugir staðháttum víðs vegar um landið, en þannig hefur verið reynt að velja menn í stjórn Atvinnujöfnunarsjóðs, eins og hann hefur verið skipaður til þessa, og þar af leiðandi held ég, að þetta sé í málefnasamningnum nokkru veigameira atriði en kannske virðist í fljótu bragði, og mæli ég þar af nokkurri reynslu. Þótt stjórn sjóðsins sé pólitískt skipuð, þá hefur æxlazt þannig til, að í hana hafa valizt menn víðs vegar af landinu, sem hafa haft sérþekkingu á málefnum byggðarlaga sinna, og mér skilst, að það sé ekki ætlunin að breyta í grundvallaratriðum eðli og starfsemi þessa sjóðs. Því getur þetta haft töluvert mikla þýðingu, og þess vegna þætti mér fróðlegt að vita, hvort það sé einhver sérstök ástæða til þess, að frá þessu er horfið í málefnasamningnum, því að ekki hefur þessi stjórn verið það þung á fóðrunum fjárhagslega, að það hefði getað ráðið úrslitum í þessu efni, heldur hlýtur það að hafa verið eitthvað annað, sem hér kom til greina og veldur því, að frá þessu er horfið. Fyrir byggðirnar úti um landið er það að sjálfsögðu ákaflega veigamikið atriði að geta átt hér aðgang að mönnum í stjórn þessa sjóðs, sem þekkja til á hinum ýmsu stöðum, þannig að þeir verði kannske ekki of háðir neinu Reykjavíkurvaldi í því efni.