28.02.1972
Sameinað þing: 42. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2503 í B-deild Alþingistíðinda. (2733)

Varamenn taka þingsæti - rannsókn kjörbréfa

Forseti (EystJ):

Mér hefur borizt svo hljóðandi bréf: „Reykjavík, 24. febr. 1972.

Jónas Árnason, 5. þm. Vesturl., hefur í dag ritað mér á þessa leið:

„Þar sem ég er á förum til útlanda í opinberum erindum og mun því ekki geta sótt þingfundi næstu vikur, leyfi ég mér að biðja um fjarvistarleyfi og með skírskotun til 138. gr. laga um kosningar til Alþingis að óska þess, að sökum forfalla 1. varamanns Alþb. í Vesturlandskjördæmi taki 2. varamaður, Bjarnfríður Leósdóttir húsfrú, Akranesi, sæti á Alþ. í fjarveru minni.“ Þetta er yður, herra forseti, hér með tilkynnt.

Gunnar Gíslason,

forseti Nd.

Frú Bjarnfríður Leósdóttir hefur áður setið á Alþ. Á þessu kjörtímabili, og býð ég hana velkomna til starfa. Þá hefur borizt svo hljóðandi bréf:

„Reykjavík, 24. febr. 1972.

Benedikt Gröndal, 8. landsk. þm., hefur í dag ritað mer á þessa leið:

„Þar sem ég er á förum til útlanda í opinberum erindum og mun því ekki geta sótt þingfundi næstu vikur, leyfi ég mér að biðja um fjarvistarleyfi og með skírskotun til 138. gr. laga um kosningar til Alþ. að óska þess, að 1. varamaður landsk. þm. Alþfl., Bragi Sigurjónsson útibússtjóri, taki sæti á Alþ. í fjarveru minni.“

Þetta er yður, herra forseti, hér með tilkynnt með ósk um, að þér látið fara fram í Sþ. rannsókn á kjörbréfi varamannsins.

Gunnar Gíslason,

forseti Nd.

Samkv. þessu ber að láta fara fram skoðun á kjörbréfi Braga Sigurjónssonar, og bið ég hv. kjörbréfanefnd að framkvæma þá skoðun. En áður en hún hefst, vil ég lesa hér annað bréf:

„Reykjavík, 25. febr. 1972.

Páll Þorsteinsson, 3. þm. Austf., hefur í dag ritað mér á þessa leið:

„Þar sem ég vegna sérstakra anna heima fyrir mun ekki geta sótt þingfundi næstu vikur, leyfi ég mér að biðja um fjarvistarleyfi og með skírskotun til 138. gr. laga um kosningar til Alþ. að óska þess, að 1. varamaður Framsfl. í Austurlandskjördæmi, Tómas Árnason hrl., taki sæti á Alþingi í fjarveru minni.“

Þetta er yður, herra forseti, hér með tilkynnt með ósk um, að þér látið fara fram í Sþ. rannsókn á kjörbréfi varamannsins.

Eggert G. Þorsteinsson,

forseti Ed.

Samkv. þessu ber einnig að láta fara fram skoðun á kjörbréfi Tómasar Árnasonar. Ég vil biðja hv. kjörbréfanefnd að framkvæma þá skoðun, og verður gefið 10 mínútna fundarhlé til þess. — [Fundarhlé.]