08.12.1971
Efri deild: 24. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 236 í B-deild Alþingistíðinda. (280)

86. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. fjhn. fyrir það, að hún hefur afgr. þetta mál. Hún hefur skipzt í tvo hluta, meiri hl. og minni hl., eins og vænta mátti. Meiri hl. leggur til, að frv. sé samþ., en gerir nokkrar brtt., en minni hl. hefur þá aðalstefnu í þessu máli að leggja til, að frv. sé fellt, en flytur svo eins og til vara nokkrar brtt. við það.

Framkomið nál. minni hl., svo og ræða hv. frsm. minni hl. gæfi út af fyrir sig tilefni til þess að fara um það nokkrum orðum. Ég skal þó reyna að stilla máli mínu í hóf, vegna þess að mér er hugleikið, að þetta mál fái hér sem skjótasta afgreiðslu. En um nál. minni hl. verð ég að segja það, að mér finnst það byggjast að allt of miklu leyti á sjúklegu ímyndunarafli. Það úir og grúir af órökstuddum getsökum, sem ekkert tilefni er gefið til, hvorki í frv., grg. með því né í framsöguræðum hér á Alþ. Þvert á móti hefur verið tekið skýrt fram, bæði í grg. og eins í framsöguræðum, að það er ekki ætlunin að stefna í þá átt, sem hv. frsm. minni hl. víll vera láta eða fram kemur í áliti minni hl. Þar er talað um, að það eigi að stofna til þjóðnýtingar, það sé stefnt að pólitískri misnotkun, það sé stefnt að haftakerfi, skömmtunarkerfi o.s.frv. í stíl við hið gamla og góða fjárhagsráð, sem hv. sjálfstæðismenn veittu forstöðu á sínum tíma.

Þar af er skemmst að segja, að fyrir þessu skrafi er ekki stafur, eins og ég sagði, hvorki í frv. sjálfu né í grg. Og það hefur heldur ekkert slíkt komið fram í framsöguræðum, sem gefi tilefni til þvílíkra ályktana. Það er ekki minnzt á þjóðnýtingu í þessu frv. Og að hverju leyti er stefnt í þjóðnýtingarátt með því? Það er stefnt að áætlunarvinnubrögðum. Hv. sjálfstæðísmenn segjast ekki vera andstæðir áætlunum, segjast meira að segja hafa verið forgangsmenn og brautryðjendur í því efni, ef rétt sé skoðað. Ekki geta hagrannsóknir verið taldar stefna að þjóðnýtingu. Ekki getur starfsemi Framkvæmdasjóðs verið talin stefna að þjóðnýtingu. Framkvæmdasjóður hefur starfað hér um langt skeið, var arftaki Framkvæmdabankans. Ef ég man rétt, þá stóðu sjálfstæðismenn að stofnun hans og síðar að því að breyta Framkvæmdabankanum í Framkvæmdasjóð. Ekki getur verið talið, að það sé stefnt að þjóðnýtingu með stofnun Byggðasjóðs eða með eflingu Byggðasjóðs í stað Atvinnujöfnunarsjóðs, sem starfað hefur. Ég tel það enga þjóðnýtingu þótt gert sé ráð fyrir því hlutverki Framkvæmdastofnunarinnar að stuðla að stofnun nýrra fyrirtækja, ekki frekar opinberra fyrirtækja eða í eigu sveitarfélaga heldur en fyrirtækja á vegum einstaklinga. Ég held, eins og ég hef áður sagt, að með frv. þessu sé verið, og það er a.m.k. ætlunin, að rétta einstaklingsframtaki þannig örvandi hönd. Er það kannske bannorð hjá hv. sjálfstæðismönnum, að fyrirtækjum, jafnvel einkafyrirtækjum, sé veitt aðstoð af opinberri hálfu þegar á þarf að halda, annaðhvort við stofnsetningu eða síðar þegar þau komast í erfiðleika? Mér hefur virzt, að reynslan kenni annað. Ég hef ekki orðið var annars en að sjálfstæðísmenn hafi, þegar þannig hefur staðið á, viljað stuðla að því með ýmsum hætti að greiða götu slíkra fyrirtækja, já, með opinberum framlögum. Það eru fyrirtæki m.a., sem þeim hafa ekkert verið fjarskyld, það er hægt að nafngreina mörg slík fyrirtæki. Á slíkt skylt við þjóðnýtingu? Það er nú meira að segja á þessum tímum annað slagið verið að koma til okkar og það m.a. af ágætum sjálfstæðismönnum og verið að óska eftir því, að ríkið skerist í leikinn og leggi framlag í fyrirtæki.

Nei, það er ekki verið að stefna að neinni þjóðnýtingu með þessu frv. Það er ekki að því leyti til verið að fara inn á neinar nýjar götur í því, en það er hins vegar rétt hjá hv. frsm. minni hl., að það er farið inn á nýjar brautir í þessu frv. að því er áætlanagerð, ákvörðunartöku og fjármögnun varðar. Hann gerði mikið úr því, að það, sem skildi á milli þessa frv. og þeirra áætlanagerða, sem sjálfstæðismenn höfðu forustu um og honum þóttu góðar, væri það, að þá hefði ekki verið samtvinnaðar áætlanagerðin og ákvörðunartakan. Það er rétt, það var ekki. Þess vegna, því miður, urðu of margar áætlanagerðir, sem gerðar voru og gerðar hafa verið á þessum tíma, pappírsgagn. En hér er það meiningin að tengja saman áætlunina sjálfa, ákvörðunartökuna og fjármögnunina til þess að hrinda þessari áætlun í framkvæmd. Með því á að tryggja það, að áætlanir verði ekki bara falleg pappírsgögn, sem fara í pappírskörfu, heldur komist út í raunveruleikann.

Hv. sjálfstæðismönnum verður tíðrætt um pólitíska misnotkun og eru með þær getsakir í því sambandi, að það sé stefnt að henni með þessu frv. Nefna þeir því einkum til stuðnings skipan framkvæmdaráðs. Það eigi að vera ópólitískir embættismenn, sem þar sitji. Ég verð nú að segja: öðrum ferst, en ekki þér. Það er annars dálítið einkennilegt, ef pólitík á að verða eitthvert sérstakt bannorð hér á Alþ., ef það á að vera rótfest skoðun í sölum Alþ., að það sé einhver ljóður á ráði manna, að þeir séu pólitískir, að pólitískir menn séu síður hæfir til starfa en aðrir, það þurfi helzt einhverja ópólitíska sauði til þess að standa fyrir starfrækslu.

Ekki hefur það verið talið hæfa hér á Alþ. Ekki hefur það almennt verið talið hæfa í bæjarstjórnum og borgarstjórn, en ýmsar bæjarstjórnir hafa samt farið inn á þá braut að velja sér framkvæmdastjóra, ekki úr ákveðnum pólitískum flokki, sem kannske væri stærstur í þann og þann svipinn í þeirri bæjarstjórn. En þarna er frá ein greinileg undantekning. Það hefur aldrei átt sér stað í Reykjavík, og hv. frsm. minni hl. hefur ekki verið þeirri kenningu sinni trúr, sem hann var að prédika hér áðan, í borgarstjórn Reykjavíkur. Þar situr hann, forustumaður Sjálfstfl., sem borgarstjóri, ekki utan borgarstjórnar, nei, hann verður líka að vera í borgarstjórn og hafa þar sitt atkvæði, og þær eru ekki fáar nefndirnar á vegum borgarstjórnar Reykjavíkur, sem hæstv. borgarstjóri situr í. Nei, ég held, að hann ætti að tala varlega um pólitík í sambandi við opinber störf, og ég held, að þeir, sem búa í glerhúsi, ættu ekki að byrja á því að kasta grjóti.

En þetta var nú bara dæmi um borgarstjórnina. Það væri víðar hægt að fletta upp og sýna það, hversu óskaplega hv. sjálfstæðismenn hafa verið frábitnir því í verki að láta pólitíska menn koma nokkuð að opinberri stjórnsýslu, t.d. allar stjórnsýslunefndirnar, sem voru starfandi í tíð fyrrv. stjórnar, sem hæstv. ráðh. þurftu sjálfir að sitja í, eins og í bankaráðum, eins og í raforkuráði, eins og í atvinnumálanefndunum á sínum tíma o.s.frv. o.s.frv. Hafa ekki sjálfstæðismenn verið afskaplega frábitnir því, að pólitískir menn settust í stöðu bankastjóra og gegndu þar bankastjóraembætti? Það væri nú hægt að rifja upp þá sögu. Og talsverður aðgangsmiði í bankastjóraembætti hefur það nú virzt á undanförnum árum að vera þm. Sjálfstfl., og ég þarf ekki því til sönnunar að rifja það upp, hverjir hafa af hálfu Sjálfstfl. verið skipaðir bankastjórar á undanförnum árum, það er mönnum í fersku minni. En það væri hægt að gera það, ef minni manna væri farið að bila. Nei, ég held, að það sé alveg óþarfi fyrir hv. sjálfstæðismenn að koma hér fram og þykjast vera einhverjir hreinir englar í þessum sökum. Ég staðhæfi, að það hafa engir fremur en hv. sjálfstæðísmenn notað pólitíska aðstöðu sína í þessu þjóðfélagi.

Hitt er svo annað mál, sem hv. frsm. meiri hl. vék að, að þetta tal hv. frsm. minni hl. er í raun og veru tilefnislaust, vegna þess að það er ekkert í þessu frv., sem segir, að það sé aðgöngumiði til þess að komast í framkvæmdaráð að hafa einhverja ákveðna pólitíska skoðun eða að hafa látið nokkuð að sér kveða í pólitík, það er ekkert komið á daginn um það. Það veit enginn um það. Þetta er ímyndun og getsakir. Það er ekki sett neitt skilyrði, sem þessir menn þurfa að fullnægja. Það sem meira er, að sú leið, sem hv. minni hl. vill benda á og vill fara í þessu efni til þess að tryggja það, að mér skilst, að það séu alls ekki neinir menn, sem séu viðriðnir pólitík, sem komi nálægt þessari stofnun, tryggir það nú, held ég, naumast. Það er ekkert í þessu frv. um það, hverjum skilyrðum forstöðumenn þessara deilda, sem þarna er um að ræða, þurfa að fullnægja, engin skilyrði sett, og það er ríkisstj., sú óguðlega ríkisstj., sem skipar þá, að vísu að fengnum tillögum stjórnar stofnunarinnar. Úr því að það er verið með þessar getsakir í garð ríkisstj. um það, að hún muni velja svona óskaplega hættulega og lélega menn til þess að vera í framkvæmdaráði, ætli það gæti nú ekki hugsazt, að hún hefði þá augun á því alveg eins, þegar hún færi að skipa forstöðumenn deilda, ef þeir ættu að skipa framkvæmdanefnd?

Ég held, að hv. minni hl. hafi nú ekki tekizt alveg að setja undir þann leka, sem þeir ætluðu að gera, með þessari till. sinni, en auk þess mótmæli ég því skrafi, sem hér er haft uppí um þá menn, sem fást við pólitík og standa í pólitískri baráttu — að reyna að koma því orði á þá, að þetta séu hálfgerðir annars flokks menn, sem ekki sé treystandi almennt til þess að fara með trúnaðarstörf. Ég held, að það sé mjög röng skoðun. Ég held, að það sé mjög hættuleg skoðun. Ég held, að það sé skoðun sem sé fallin til þess að grafa undan heilbrigðu pólitísku lífi í landinu, ef það á að reyna að koma þeim stimpli á þá menn, sem eitthvað hafa gefið sig við pólitík, að þeir séu helzt óalandi og óferjandi. Ég tek ekki undir það.

Hitt liggur svo í augum uppi, að hvort sem pólitískir menn eða ópólitískir, ef til eru, verða valdir í forstöðu þessarar stofnunar, þá gefur það auga leið, að ríkisstj., sem á svo mikið undir því væntanlega, að starfsemi þessarar stofnunar takist sæmilega, reynir áreiðanlega að vanda val þeirra manna. En ég skal ekki vera að tala lengra mál um þetta, ég vil aðeins undirstrika það, sem er aðalatriðið, að það er ekkert komið fram og ekkert í frv. um það, sem gefur tilefni til þessara bollalegginga um, að það eigi að setja einhverja kommissara, eins og þeir hafa verið svo fyndnir að orða það, það er ekkert slíkt komið fram. Hins vegar vil ég taka það skýrt fram, að ég tel það síður en svo goðgá, að valdir verði pólitískir menn í forstöðu þessarar stofnunar, vegna þess að henni er ætlað að vera ríkisstj. til aðstoðar við mótun þeirrar stefnu, sem ríkisstj. vill fylgja og stjórnin hefði lítið gagn af aðstoðarmönnum, sem væru á allt annarri skoðun en hún í því efni, og þessum mönnum er líka að verulegu leyti ætlað að sjá um það að framfylgja þeirri stefnu, sem mótuð er, og það ætla ég, að mönnum sé skiljanlegt og ljóst, að það sé heppilegra að hafa menn til þess, sem hafa þá svipaða skoðun og hafa trú á þeirri stefnu, sem á að fylgja fram, en ekki þá, sem eru henni andstæðir. En því hef ég gerst svo fjölorður um þetta, að þetta virðist vera eitt meginatriðið, sem þeir finna þessari stofnun til foráttu.

Í því sambandi vék hv. frsm. minni hl. að því, að með skipan eða uppsetningu þessa þriggja manna framkvæmdaráðs mundi vera ætlunin að halda lengra á þeirri braut, sem mótuð hefði verið, þegar ákveðið var, að ráðherrar gætu tekið sér sérstaka ráðherraritara, sem ættu að fylgja þeim eftir. Ég man nú ekki betur en að það hafi verið viðreisnarstjórnin og hv. sjáifstæðismenn, sem beittu sér fyrir lagasetningu um stjórnarráðið í þeim anda og á þá lund, að ráðherrum var heimilað að taka sér þessa sérstöku ráðherraritara og aðstoðarmenn, sem eiga að hafa sama starfstíma og ráðherrar í þeim skilningi, að þeir eiga að fara um leið og ráðherrarnir. (Gripið fram í: Ég var ekki að gagnrýna það.) Nei, auðvitað ekki, af því að það voru sjálfstæðismenn, sem komu þeirri skipun á, en það má vel til sanns vegar færa hjá hv. frsm. minni hl., að það er kannske ekki öldungis ólík hugsun, sem býr að baki þessu ákvæði í frv. og einmitt ákvæðunum um aðstoðatmenn ráðherra í stjórnarráðslögunum.

Ég var líka dálítið hissa á ræðu hv. frsm. minni hl. Ég gat ekki betur heyrt en að grunntónninn í ræðu hans og mikið af efni ræðu hans fjallaði um það, að sjálfstæðismenn væru miklir áhugamenn um áætlanagerð. Þeir hefðu verið hinir eiginlegu brautryðjendur í því, sem kalla mætti áætlanagerð hér á landi, og æði mikið af ræðu hans fór í það að lesa upp úr gömlum ræðum og skýrslum, sem lutu að því að sanna það, að það hefðu verið sjálfstæðismenn, sem hefðu bent á þessa leið, þeir hefðu komlið þessu í framkvæmd. Hitt er rétt að taka fram, að hann vildi láta líta svo út, að þær áætlanir hefðu verið góðar og nokkuð annars eðlis en þær áætlanir, sem hér er um að ræða, og munurinn er sá, sem ég hef áður minnzt á og skal ekki endurtaka, að þar varð að láta sitja við áætlanagerðina, en ákvörðunartakan slitin frá og ekki séð fyrir fjármagni nema í takmörkuðum tilfellum. En nú er þetta tengt saman.

Hv. frsm. minni hl. sagði, að það hefði verið meiningin áður fyrr að dreifa áætlanagerðinni um ríkiskerfið og á milli ríkisstofnana, að því að mér skildist, og helzt niður til fólksins, þannig að þetta ætti að koma neðan frá. Ég kannast nú ekki við þessa áætlanagerð frá fyrrí tíð. Ég held, að sú áætlanagerð, sem hér hefur þekkzt, hafi verið gerð á vegum Efnahagsstofnunarinnar. Hitt er svo annað mál, að þegar Efnahagsstofnuninni var ekki séð fyrir nægilegum starfskröftum og áætlanir af þeim sökum gengu hægar en óskir stóðu til, þá hurfu sum landshlutasamtökin að því ráði að taka þetta að nokkru leyti í sínar hendur, sumpart með aðstoð þó frá Efnahagsstofnuninni. Og ekki get ég heldur séð, að þær áætlanir, sem hafa verið teknar upp á vegum hins opinbera og eru ágætar, eins og vegáætlun, hafnaáætlun, rafvæðingaráætlun o.s.frv., séu sérstaklega sóttar til fólksins. Það eru þessar opinberu stofnanir, sem með þau málefni hafa að gera, sem fyrst og fremst, stundum með aðstoð Efnahagsstofnunarinnar, hafa látið gera þessar áætlanir, og það er ekki meiningin að gera í þessu efni nokkrar breytingar með þessu frv. Hinar opinberu stofnanir eiga eftir sem áður að gera sínar áætlanir um sínar opinberu framkvæmdir. Þær geta, ef hagkvæmt þykir, leitað til Framkvæmdastofnunarinnar um aðstoð í þessu efni, eða eins og segir í frv., þær geta látið Framkvæmdastofnunina fást við þær, ef svo um semst.

Ég skal nú láta þessar almennu aths. nægja. Það hafa verið lagðar hér fram brtt., allmargar brtt. frá meiri hl. Það er ekkert óeðlilegt við það, og ég held reyndar, að ég hafi tekið það fram í framsöguræðu minni, að ég teldi það ekkert óeðlilegt, þó að fram kæmu einhverjar brtt., og það er ekkert óeðlilegt við það, þó að eitthvað reynist í þessari frumsmíð, sem hér er um að tefla, ekki alfullkomið, og þó að reynslan kenni það og menn sjái það við betri athugun, að eitthvað megi betur fara. Um þessar brtt. meiri hl. er það að segja, að ég get á þær allar fallizt. Þær eru reyndar flestar þannig, að það er ekki um verulegar efnisbreytingar að ræða, heldur orðalagsbreytingar og það tekið skýrar fram, sem ætlunin var að hafa með þeim hætti, sem nú segir skýrt í brtt. meiri hl. Þannig er það t.d., þegar í 12. gr. er tekið fram nú í brtt., að það skuli vera stjórn stofnunarinnar, sem setur þær almennu reglur, sem þar er um að tefla. Þar stóð Framkvæmdastofnunin, það var nánast vangá. Ég lýsti því í framsöguræðu minni, að það væri sjálfsagt meiningin, að það væri stjórn stofnunarinnar, sem ætti að setja þessar almennu reglur. Og sama er raunar að segja um þá breytingu, sem er við 4. gr., í 1. málsgr. þar. því lýsti ég líka í framsöguræðu minni í 1. umr., að það væri ætlunin að þarna væri bara um tímabundna skipun að ræða, þannig að þessir menn fylgdu ríkisstj., og þess vegna hef ég vitaskuld ekkert við það að athuga. Þetta hefur verið tekið alveg skýrt þarna fram, að þeim má segja upp með eins mánaðar fyrirvara. Það er eðli þessa starfs alveg eins og ráðherraritaranna og ráðherranna líka, að það á ekki að verða neitt varanlegt starf.

Hitt má segja, að það sé nokkuð nýtt, sem stendur í 2. málsgr. 1. brtt., brtt. við 4. gr., þar sem gert er ráð fyrir því, að stjórn Framkvæmdastofnunarinnar taki ákvörðun um launakjör framkvæmdaráðsmanna og annarra starfsmanna. Ég vil taka það skýrt fram, að það er mín skoðun og mín stefna, að það eigi að ákveða launakjör allra opinberra starfsmanna með samsvarandi hætti og það eigi að ákveða þau í hinu almenna launakerfi. Frá þessu eru hins vegar nú veigamiklar undantekningar, t.d. er allt bankakerfið undanskilið, og laun bankamanna, bankastjóra og annarra eru ákveðin af bankaráðum. Ég get þess vegna eftir atvikum fallizt á, að það megi líkja þessari stofnun að mörgu leyti við þvílíkar stofnanir, að það sé ekki fráleitt, a.m.k. til að byrja með, að láta stjórn stofnunarinnar ákveða launakjörin, en að sjálfsögðu hlýtur það að mínum dómi að verða athugunarefni framvegis að fella þetta allt saman og koma öllum opinberum starfsmönnum inn í hið almenna launakerfi.

Aðrar þær breytingar, sem þarna er um að ræða, eru ekki þess háttar, að ég sjái neina ástæðu til þess að segja neitt um þær sérstaklega, ég fellst á þær. Ég vil aðeins geta þess til skýringar við 11. brtt., sem er við 38. gr., að þeim, sem að frv. stóðu, og þeim, sem sömdu það, var að sjálfsögðu ljóst, að þarna var um tiltekin störf að ræða, sem þurfti að ráðstafa, en það var þá haft í huga, að eðlilegra væri að gera það með breytingum á viðeigandi lögum eftir að þessi lög höfðu verið sett eða í kjölfarið á þessu frv., en það má vitaskuld hafa þann háttinn á, sem hér er á hafður, að skjóta þessu inn í þetta frv., og það fer vel á því að mínum dómi, og ég fellst alveg á það.

Um brtt. minni hl. er það að segja, að það leiðir nú af því, sem ég hef sagt, og liggur í hlutarins eðli, að ég get ekki yfirleitt á þær fallizt, þ.e. ekki fallizt á þær brtt. minni hl., sem raska í grundvallaratriðum skipulagi og stjórn stofnunarinnar. Hitt skal viðurkennt, að margt í þessum efnum getur orkað tvímælis og er álitamál. Þannig er það, ég skal viðurkenna það, um hagrannsóknadeild, hvort það hefði átt að halda áfram þeim vísi eða þeim hluta Efnahagsstofnunarinnar sem sérstakri stofnun. Það er ýmislegt, sem getur stutt þá skoðun, en að hinu ráðinu var nú horfið, m.a. af því og líklega einkum af því, að það þótti meiri hagræðing í því að reyna að fækka stofnunum og draga þetta saman í eina stofnun og reyna að gera starf þessarar deildar sem sjálfstæðast með því að hafa hana sjálfstæða.

Viðvíkjandi því, sem aths. var gerð um, að það stæði ekki í þessari gr., eins og væri í núgildandi lögum, að hún skyldi vera ríkisstj. til ráðuneytis í efnahagsmálum, þá hef ég satt að segja skilið það svo, að það væri enginn vafi á því, að ríkisstj. hefði samsvarandi aðgang að þessari hagrannsóknadeild eins og hún hefur nú að Efnahagsstofnun, þar sem það segir beinlínis, að deildin annist þær hagfræðilegu athuganir fyrir ríkisstj., er hún kann að óska eftir. Ég hef litið svo á, að þetta væri svo víðtækt orðalag, að það tæki til allra þeirra upplýsinga, sem ríkisstj. óskaði eftir að fá. Upp úr hinu legg ég minna, hvor um er að ræða frumkvæði rannsóknadeildarinnar eða ekki, ég hygg satt að segja, — þar með er ég ekki að áfellast, síður en svo, þá ágætu menn, sem starfa í Efnahagsstofnuninni, — að það hafi ekki kveðið mikið að því, að þeir hefðu frumkvæði um að gera ábendingar til ríkisstj. Til slíks er ekki hægt að ætlast. Það er auðvitað sá eðlilegi máti, að ríkisstj. óskí eftir athugun á þessum hlutum, en þá er það auðvitað mikils vert, að þeir, sem taka þá athugun til meðferðar, séu sjálfstæðir og geti sett fram sín sjónarmið, án þess að þau litist af óskhyggju ríkisstj., það viðurkenni ég, og það hefur verið meiningin að reyna að gera þetta þannig úr garði, að þeir sérfræðingar, sem störfuðu að þessu, gætu haft slíka stöðu. En hitt held ég, að ekki væri neinum til góðs, að fara að gera þá breytingu á stjórn stofnunarinnar, að ætla forstöðumönnunum að skipa framkvæmdaráðið, ef menn gera á annað borð ráð fyrir því, að forstöðumennirnir séu sérfræðingar. Ég er nefnilega þeirrar skoðunar, að það eigi að búa þannig um sérfræðingana að þessu leyti, að þeir dragist ekki inn í hin pólitísku átök, því að þó að þeir vilji og geri allt eins vel og þeir geta, þá fer aldrei hjá því, að það vaknar tortryggni. Við höfum svo sem heyrt það og orðið varir við það á undanförnum árum. Kannske höfum við fyrrv. stjórnarandstæðingar stundum látið þjóta óviðeigandi orð og án þess að til þeirra hafi verið unnið, einmitt um slíkar stofnanir. Nei, ég held, að um sérfræðingana þurfi að búa þannig, að þeir eigi ekki á hættu að verða dregnir inn í stjórnmálabaráttuna um of, og það er m.a. af þeirri ástæðu, að sú hugsun liggur hér til grundvallar að það sé girðing þvert þarna á milli. Framkvæmdaráðið verður að vera við því búið að sæta pólitískri gagnrýni og taka þátt í slíku, og það getur ekki haft neitt út á það að setja. Það er hins vegar hart fyrir sérfræðinga að búa við slíkt, sérfræðinga, sem stundum eiga þess ekki kost og kunna ekki við það að bera hönd fyrir höfuð sér í opinberum málgögnum og hafa þess vegna í raun og veru aðra og ólíka aðstöðu til þess að verja og standa fyrir sínum skoðunum heldur en aðrir.

Vitaskuld má lengi deila um það, hvernig stjórnarfyrirkomulag svona stofnunar eigi að vera, hvort það eigi að vera einn maður, sem væri forstjóri, hvort það eigi að vera fjölskipað, stjórn þriggja manna o.s.frv. Auðvitað geta sumir sagt: Það er hagræðing í því að hafa bara einn mann. Við eigum ekki að vera alltaf með þessar nefndir og slíkt. En ég verð að segja það sem mína skoðun, að það sé svo mikið vald fengið í hendur þessari stofnun, að ég vil ekki fela einum manni það. Ég held, að það sé meiri trygging í því fólgin, að það séu þrír menn. Og ég hef ekki lakari trú á pólitískum mönnum en það, að ég treysti því, að ef saman eru komnir þrír stjórnmálamenn, hver úr sínum stjórnmálaflokki, þá sé ekki ýkjamikil hætta á því, að um pólitíska misnotkun verði að ræða.

Hitt fer ekki á milli mála, að hin pólitíska stefnumótun verður auðvitað með ákveðnum hætti. En það má segja, að sú stefnumótun sé nú alveg tvímælalaust meira í höndum stjórnar stofnunarinnar en í höndum framkvæmdaráðsins, og það er einmitt séð fyrir því með vali stjórnar stofnunarinnar, að þar gæti flestra pólitískra sjónarmiða, a.m.k. þeirra, sem nú eiga fulltrúa á Alþ.

Það er rétt, sem hér hefur komið fram og bent hefur verið á, að í málefnasamningi ríkisstjórnarinnar var gert ráð fyrir því, að Byggðasjóður lyti sérstakri stjórn, og hefur nú hv. minni hl. tekið upp brtt., sem lýtur að því að færa stjórnarfyrirkomulag stofnunarinnar í það form. En það er bezt að segja það hreint út, að við athugun málsins komumst við, sem að þessu stöndum, á þá skoðun, að það væri heppilegra að hafa hér eina stofnun og eina stjórn í stað þessara tveggja, sem upphaflega var ætlunin, — að það yrði meira samræmi og meiri hagræðing í því að hafa þetta á hendi einnar stjórnar. En það er vitaskuld um þetta eins og fleira, að það getur verið álitamál. En þessi varð niðurstaðan af athugun okkar, og við teljum það horfa til hagræðingar að setja þannig eina stjórn yfir hvort tveggja. Og ég held, að það sé engin ástæða til að óttast, að ekki geti gætt þessara svo kölluðu byggðasjónarmiða í slíkri stjórn. Stjórnin á að vera valin af Alþ. Stjórn Atvinnujöfnunarsjóðs hefur verið valin af Alþ., þannig að stjórn Byggðasjóðs er kosin með alveg nákvæmlega sama hætti og stjórn Atvinnujöfnunarsjóðs hefur verið kjörin, og ekki vat í þeim lögum neitt ákvæði, sem ætti að tryggja einhver sérstök byggðasjónarmið þannig t.d., að stjórnarmenn skyldu vera búsettir á ýmsum landshornum, það var ekkert slíkt ákvæði. Og það hefur alveg verið upp og ofan með það, hvar stjórnarmenn Atvinnujöfnunarsjóðs hafa verið búsettir. Ef það er þetta, sem menn eiga við, þegar þeir eru að tala um byggðasjónarmið, þá held ég, að það geti alveg eins átt við í þessari stjórn, þótt hún eigi jafnframt að fara með stjórn stofnunarinnar yfirleitt. Ég held líka, að það komi glöggt fram í þessu frv., að það er einmitt meiningin, að þessi stofnun og stjórn hennar hafi náið samband við landshlutasamtök, og að því leyti til er það ekki rétt, sem hv. frsm. minni hl. reyndi að gefa í skyn, að hér ætti allt að koma ofan frá. Það er einmitt tekið berum orðum fram, að byggðaáætlanir skuli gerðar í samráði við sveitarstjórnir og landshlutasamtök sveitarfélaga, svo og landshlutasamtök verkalýðsfélaga og atvinnurekenda. Ég kannast ekki við það, að slíkt ákvæði hafi verið áður í lögum varðandi áætlanagerðir. Ég veit, að það hefur verið farið talsvert eftir því í framkvæmd, að það hefur verið leitað álits og tillagna, en ég efast satt að segja um, að það hafi verið nokkuð lögboðið um það. En það er virkilega meiningin, að það skuli haft samráð við nefnda aðila, og þess vegna er það, að ég get fyrir mitt leyti alveg fallizt á þá hugsun, sem kemur fram í síðustu brtt. hv. minni hl., sem segir, að stjórn Byggðasjóðs skuli hafa samráð við landshlutasamtök sveitarfélaga um ráðstöfun fjár úr sjóðnum. Ég er algjörlega fylgjandi þessari hugsun. Mér finnst þessi brtt. samt ekki alveg ná því, sem hún þyrfti að ná, því það getur vitaskuld ekki verið ætlunin að stjórn Byggðasjóðs þurfi að bera fjárveitingar almennt úr sjóðnum undir öll landshlutasamtök, heldur er auðvitað átt við það, að hún leiti tillagna eða umsagna eða hafi samráð við landshlutasamtök þau, sem hafa yfir að segja því svæði, sem fjárveitingunni er ætlað að fara til.

Ég held, að með því að gera þetta skýrara, þá getum við fallizt á þessa till. eða brtt. í þessa átt.

Herra forseti, ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri.