08.12.1971
Efri deild: 24. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 244 í B-deild Alþingistíðinda. (281)

86. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Tómas Karlsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið. Ég ætlaði mér aðallega að gera aths. við nokkur atriði, sem fram höfðu komið hjá hv. sjálfstæðismönnum og frsm. minni hl. fjhn. Hæstv. forsrh. hefur nú gert að umtalsefni ýmislegt, sem ég ætlaði að drepa á, og getur það því stytt mál mitt, en öðrum þræði ætlaði ég að minna hv. þdm. á það, að þessi mál hafa áður verið til umr. hér í hv. d. Þau voru allmikið rædd á breiðum grundvelli, þegar til umr. var frv., sem framsóknarmenn fluttu hér í hv. d., um Atvinnumálastofnun. Þá komu fram viss sjónarmið frá þáv. talsmönnum Sjálfstfl. hér í hv. d., sem ég tel þörf á, að minnt sé á og að þeir, sem nú tala hér fyrir hv. minni hl. fjhn., hafi í huga.

Markmiðið með þessari lagasetningu, sem hér er í undirbúningi, er það, að verið er að setja upp hjálpartæki til að tryggja sem bezt framkvæmd sjálfs kjarnans í stefnu núv. ríkisstj., eða með öðrum orðum að tryggja sem bezt algjöra stefnubreytingu í atvinnu- og efnahagsmálum, frá því fyrirhyggjuleysi og handahófi, sem var vissulega einkenni landsstjórnar hér á landi síðastliðinn áratug, og söðla um yfir til skipulagshyggju og áætlunarbúskapar.

Markmiðið er að vinna að eflingu atvinnuveganna með skipulegum áætlunarvinnubrögðum og reyna að standa þannig að málum, að tryggt sé, að áætlunum sé fylgt og þær verði framkvæmdar. En til þess að það megi takast skaplega, telja stuðningsmenn núv. ríkisstj., að koma þurfi á fót heildarstjórn í fjárfestingarmálum, og það er höfuðatriði þessa máls. Til þess jafnframt að tryggja sem bezt, að áætlanagerð og heildarstjórn fjárfestingar stuðli að hagfelldri byggðaþróun í landinu, sem sé samhæfð almennri uppbyggingu atvinnuvega landsmanna, hefur núv. ríkisstj. og stuðningsmenn hennar talið skynsamlegast og vænlegast til árangurs að byggðajafnvægisstarfsemin sé í sem nánustum tengslum við heildarstjórn fjárfestingarmála, er á að vera í höndum þeirrar stofnunar, sem á að setja á stofn samkv. þessu frv., þ.e. Framkvæmdastofnun ríkisins.

Um það má auðvitað deila, hvort sú leið, sem valin hefur verið í þessu frv., hafi verið sú eina rétta til að ná þeim markmiðum, sem ég hef nú lýst í stærstum dráttum og stefnt er að. Og það er ekki nema eðlilegt, að upp komi skiptar skoðanir um það, hvort þetta val hafi verið rétt, en valið hlýtur þó að verða hjá þeim þingmeirihluta, sem styður þessa ríkisstj. Og hann hefur valið þessa leið. Það kom t.d. til greina, í staðinn fyrir að velja þessa leið, að setja upp sérstakt efnahagsmálaráðuneyti og fela því þau verkefni, sem þessari stofnun eru falin, að öllu leyti eða einhverjum hluta og þá einhverjum öðrum stofnunum vissan hluta þeirra verkefna, sem þessari stofnun á að fela. Persónulega hefði ég eins vel getað fellt mig við það, að sett væri upp efnahagsmálaráðuneyti á Íslandi með víðtæku starfssviði. Þar sem slík ráðuneyti eru starfandi í nágrannalöndunum, eru þau. lykilráðuneyti, mjög mikilvæg ráðuneyti. Yfir þau eru valdir menn, sem við köllum hér „ópólitíska“ með réttu eða röngu. Þar situr ráðh., sem ber ábyrgð á þeirri starfsemi, sem þar fer fram.

Þessi leið var ekki farin, heldur sameinuðust menn um þá, sem mörkuð er í þessu frv., að koma upp Framkvæmdastofnun ríkisins og að sú stofnun heyrði undir forsrn. og þar með ríkisstj. í heild. Og vegna þess að þetta er samsteypustjórn þriggja flokka, var eðlilegt, að stofnun eins og þessi heyrði undir alla ríkisstj., því að þessari stofnun er falið mjög veigamikið og víðtækt vald, og auðvitað er það pólitískt vald, því að verkefni þessarar stofnunar snúast um sjálfan kjarnann í landsmálabaráttunni hér á landi. Það er sjálfur kjarninn í þeim pólitísku átökum, sem eiga sér stað milli flokka um stefnuna í landsmálum, sem þarna er um að ræða, og því er ekki óeðlilegt, að ríkisstj. vilji ganga þannig frá málum, að tryggt sé, að þar séu menn, sem hún geti litið á sem sína trúnaðarmenn, sem þar bera ábyrgð á málum.

Og eins og kom fram hér hjá hæstv. forsrh., þá er þetta alls ekki óeðlilegt og getur ekki sýnzt óeðlilegt í augum núv. hv. stjórnarandstæðinga, sem stóðu að því frv. um stjórnarráðið, sem samþykkt var á síðasta þingi eða þinginu þar áður og þáv. ríkisstj., sem studd var þeim flokkum, sem nú skipa stjórnarandstöðu, flutti. Þar var einmitt gert ráð fyrir því, m.a. með þessar röksemdir í huga, að það væri nauðsynlegt fyrir ráðh. að hafa trúnaðarmann, sem hann treysti fullkomlega, og þá væntanlega pólitískan trúnaðarmann, til þess að annast framkvæmd vissra mikilvægra mála, þar sem um væri að tefla sjálf átökin í landsmálabaráttunni og þar sem um væri að ræða að tryggja framkvæmd höfuðmála þeirrar ríkisstj., sem sæti á hverjum tíma. Og ég vil benda hv. stjórnarandstæðingum á það, að með því, að þessi leið var valin, og það er þingkjörin stjórn, sem er æðsta stjórn þessarar stofnunar, þá er stjórnarandstöðunni gefinn miklu betri kostur á því að fylgjast náið með, hvað gerist í þessari stofnun, m.a. hafa áhrif á sjálfa stefnumótunina, því að hv. stjórnarandstæðingar munu hafa þrjá menn af sjö í þessari stjórn, ef vel tekst til um kosningu hennar, og með þeim hætti geta þeir fylgzt með daglegum störfum, og með þeim hætti er girt fyrir það, að þeir aðilar, sem telja, að þessir svo kölluðu kommissarar, sem hér eru svo títt nefndir, brytu á einhverjum aðila, sem teldi sig eiga undir högg að sækja til þessarar stofnunar. Þá gætu þeir snúið sér til hv. stjórnarandstæðinga og fulltrúa þeirra í stjórn þessarar stofnunar og tekið málið upp þar.

Og ég vil aðeins til viðbótar því, sem hæstv. forsrh. sagði hér um þetta efni, minna á það, að samkv. frv. er ætlazt til þess, að það sé stjórn stofnunarinnar, þar sem hv. stjórnarandstæðingar eiga aðild, sem setji þær almennu reglur um t.d. fjárfestingarmál, sem þessum framkvæmdastjórum, framkvæmdaráði, ber auðvitað að fara eftir. Fari þeir ekki eftir þeim almennu reglum, þá verður málið að sjálfsögðu tekið upp af hv. stjórnarandstæðingum eða fulltrúum þeirra í stjórn stofnunarinnar. Þess vegna finnst mér, að margt af því, sem hér hefur verið sagt um þetta frv. og æðstu stjórn þess, sé meira og minna út í hött og byggt á fullkominni ósanngirni, þegar haft er í huga, að það var hægt, og jafnvel er hægt að rökstyðja það, að það hefði verið eðlilegra að fara ýmsar aðrar leiðir heldur en hér hafa verið valdar.

Með tilliti til þess, að hér er um framkvæmd á kjarna stjórnarstefnunnar að ræða, og við vitum, að það eru atvinnu- og efnahagsmál, sem skipta sköpum í störfum ríkisstj. bæði hér og hvarvetna annars staðar, og þar sem landsmálabaráttan markast fyrst og fremst á þessum sviðum stjórnmála, á sviði efnahagsmála og atvinnumála, er ekki óeðlilegt, að ríkisstj. tryggi áhrif sín í þessari stofnun.

Í nál. hv. minni hl., sjálfstæðismanna, kemur fram, að hv. minni hl. óttast mjög, að heildarstjórn fjárfestingarmála með þeim hætti, sem lagt er til í þessu frv., muni leiða til ofurvalds, eins og segir í nál. minni hl., með leyfi forseta:

„Til marks um það ofurvald, sem þessum pólitísku „kommissörum“ er veitt í frv., er, að verksvið þeirra er ekki skilgreint til neinnar hlítar, og ekki verður annað séð en að þeim sé einum ætlað að gefa umsagnir um einstakar lánsumsóknir frá einkaaðilum eða sveitarfélögum og fái þannig vald til að „raða“ umsóknum að vild. Geta þeir þannig í framkvæmdinni haft sömu óheillaáhrifin á athafnalífið í landinu og lamandi haftakerfi hefur áður haft.“

Ég tel mig hafa svarað þessum órökstuddu sleggjudómum að nokkru nú þegar, en vil aðeins minna í þessu sambandi á málflutning hv. sjálfstæðismanna á þinginu 1969, þegar frv. framsóknarmanna um Atvinnumálastofnun var hér til umr. í hv. d. Þeir höfðu þá ýmislegt við það frv. að athuga. Í fyrsta lagi, að þeir teldu, að í því fælist ákvæði um innflutningshömlur, sem auðvitað var byggt á misskilningi, og því var mótmælt, en í öðru lagi byggðu þeir afstöðu sína á, hvernig ætlazt var til, að stjórn þeirrar stofnunar, sem þar um ræddi, yrði skipuð. Skal ég koma nánar að því síðar. En þeir tóku vel í þetta frv. að öðru leyti og skilaði hv. þáv. meiri hl. fjhn. þessarar hv. d. jákvæðu nál. um það frv. Og það var fyrst og fremst vegna þess, að þeir töldu, að ákvæði frv. um heildarstjórn fjárfestingar væru það merk, og það væri svo rík nauðsyn á heildarstjórn fjárfestingar í landinu þá, þrátt fyrir þá margföldu og ágætu áætlanagerð, sem hv. frsm. minni hl. fjhn. lýsti, að í gangi hefði verið allan tímann, að nauðsynlegt væri að taka þau mál fastari tökum en gert hafði verið. Og í þessu nál. meiri hl. fjhn. þá, sem prófessor Ólafur Björnsson, þáverandi þm., mælti fyrir hér í d., sagði m.a. þetta:

„Um ráðstafanir þær, sem frv. gerir ráð fyrir, að gerðar verði í fjárfestingarmálum, gegnir hins vegar öðru máli. Allri fjárfestingu, sem einhverja þýðingu hefur, er í rauninni þegar stjórnað í þeim skilningi, að í hana verður ekki ráðizt, nema til komi leyfi eða fyrirgreiðsla í einni eða annarri mynd frá einhverjum opinberum aðila. Eru engar líkur á því, að hér verði breyting á í náinni framtíð. Meiri hl. gerir sér vel ljóst, að sú víðtæka stjórn, sem hið opinbera þegar hefur á þessum málum [þetta var 1969), er ekki svo vel samhæfð og skipulögð, að tryggt sé, að sú fjárfesting, sem þjóðarbúskapnum má teljast mikilvægust hverju sinni, sitji í fyrirrúmi fyrir öðrum.“

Þetta frv., sem hér er til umr. nú, er einmitt til þess að tryggja þetta, sem þeir játuðu, að á vantaði þá. Og stefnubreyting sú, sem hér á að verða í efnahags- og atvinnumálum, snýst fyrst og fremst um þetta. Og í ræðu, sem hæstv. fjmrh. flutti við 1. umr. þessa frv. framsóknarmanna um Atvinnumálastofnun, játaði hann með nokkrum dæmum, hvað við væri átt, í þeim orðum, sem ég vitnaði hér til. Og ég vil leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hér nokkrar glefsur úr ræðu hæstv. þáv. fjmrh., Magnúsar Jónssonar, sem hann flutti 13. des. 1968, þegar þetta frv. framsóknarmanna var til 1. umr. Magnús Jónsson, þáverandi fjmrh., sagði eftirfarandi:

„Mín skoðun er sú, að það þurfi að efna til miklu meira samstarfs milli bankakerfisins og stofnsjóða. Þessir aðilar geta tvímælalaust án beinna hafta haft afgerandi áhrif um það, hvernig fjárfestingin þróast í landinu, og það er enginn aðili í landinu, sem getur gert þetta með auðveldari hætti en bankakerfið með nægilegri samvinnu og skipulagi sin á milli. Það eru til stofnsjóðir í öllum atvinnugreinum í landinu, sem eru flestir tengdir ríkisbönkunum, og það er þess vegna mjög auðvelt með óbeinum hætti að orka í þá átt, hvert fjárfestingunni er stefnt. Og ég skal fúslega játa það hér, að ég álit, að það hafi verið allt of lítil samvinna milli stofnlánasjóða og bankakerfisins yfirleitt um það, hvernig hefur verið unnið að lánveitingum til uppbyggingar á ýmsum sviðum. Það er í senn of mikið af því, að fyrirtæki hafi verið sett á laggirnar án þess að hafa hliðsjón af því, hvort þau hafi haft starfsgrundvöll, miðað við, að það er kannske annar banki, sem hefur lánað í hliðstætt fyrirtæki. Og það hefur einnig verið allt of lítið gert af því að leggja raunhæfan grundvöll að nauðsynlegum áætlunum um rekstrarafkomu viðkomandi fyrirtækja. Það hafa verið um of þeir starfshættir ríkjandi, að fyrirtæki, sem út af fyrir sig er gott og gilt og getur haft þjóðhagslega þýðingu, hafi ekki fengið þann starfsgrundvöll með rekstrarlánum, að það hafi getað starfað með eðlilegum hætti. Og það er of mikið af því, að fyrirtækjum sé dreift á milli banka, þannig að þau verði að leita eftir lánum á mörgum stöðum, í stað þess að hafa einn viðskiptabanka.“

Í framhaldi af þessu segir ráðh. nokkru síðar: „Ég er ákveðið þeirrar skoðunar, að þarna sé pottur brotinn, þ.e.a.s. þessi lýsing, og að það þurfi að vinna að kerfisbundinni samvinnu og samstarfi þessara lánastofnana í landinu og að það sé sú eðlilegasta leið til að „kontrolera“ það, sem er gert ráð fyrir í þessu frv., þ.e. frv. framsóknarmanna, að þurfi að gera, og ég viðurkenni að þurfi að gera á ýmsum sviðum.“

Nokkru síðar segir hv. þáv. fjmrh.: „Við þekkjum allt of raunalegar sögur þess, að fyrirtæki, sem komið hefur verið á laggirnar með lánum úr stofnsjóðum og jafnvel rausnarlegum lánum, hafa farið forgörðum fyrir þá sök, að enginn viðskiptabanki hefur viljað taka þau í viðskipti.“

Enn fremur segir ráðh. þáv.: „Kannske greinir okkur ekki svo á um, að það þarf nákvæmlega á sama hátt og ég sagði áðan um ríkisframkvæmdir“ — ráðh. hafði lýst áætlanagerð, er þáv. ríkisstj. hafði tekið upp varðandi ríkisframkvæmdir — „að sjá til þess, að takmarkað fjármagn sé nýtt sem bezt, og vissulega höfum við dregið vissan lærdóm af því síðustu árin, ekki vegna þess, að það hefði verið mikið öðruvísi hægt á því að halda, hvort sem hefði verið ríkisnefnd eða haftakerfi, miðað við þá fjárhagsþróun, sem þá var í þjóðfélaginu, það er ekki skoðun mín, heldur hitt, að við höfum þó lært af þessu, og ég hygg, að þjóðin hafi af því lært, að það verður að fara með gát í þessum efnum, þótt það yrði svo, að það yrði ekki talið gull og grænir skógar, ef svo má segja, sem bíði manna. Ef ráðizt er í ein og önnur mannvirki og framkvæmdir, þá verður þó að gera sér grein fyrir því vendilega, hvaða afleiðingar það getur haft og hvort þetta sé líklegt að skila sama hagnaði til langs tíma, og það er alla vega ljóst, að miðað við það áfall, sem okkar þjóðarbú hefur orðið fyrir, þá ber hina brýnustu nauðsyn til þess að gera sér til hlítar grein fyrir því, að það takmarkaða fjármagn, sem við höfum nú yfir að ráða, sé fyrst og fremst notað til þeirra þarfa, sem líklegt er, að komi þjóðarbúinu að sem allra beztum notum.“

Þetta sagði Magnús Jónsson, þáv. fjmrh., í des. 1968 og játaði þá, að of takmörkuð og ósamfelld áætlanagerð, sem hv. frsm. minni hl. fjhn. bar svo mikið lof á hér áðan í sinni framsögu, væri óhæf, og það þyrfti að gera þar bragarbót og skýrði með dæmum, hvernig þetta hefði leikið ýmis þjóðþrifafyrirtæki, þannig að þau hafi farið um vegna skorts á samvinnu milli banka og fjárfestingarsjóða. Það er einmitt þetta, sem er megintilgangur þessa frv. að lagfæra. Það er meiningin að reyna að skera þessa meinsemd burt úr íslenzku efnahags- og atvinnulífi. (Forseti: Ræðumaður, ef teljandi er eftir af ræðunni, verð ég að biðja um, að henni verði frestað þangað til á eftir.)

Herra forseti. Ég skal reyna að ljúka ræðunni í örfáum orðum. Ég tel, herra forseti, að ég hafi raunverulega komið því til skila, sem var höfuðerindi mitt hingað, að benda á það, sem áður hefur farið frá hv. sjálfstæðismönnum um þessi málefni, og það misræmi, sem er á málflutningi þeirra þá og nú, en ég get vel stytt mál mitt hér, og kveð mér þá hljóðs að nýju, ef ég sé ástæðu til.