10.11.1971
Neðri deild: 11. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 5 í C-deild Alþingistíðinda. (2833)

58. mál, Fræðslustofnun alþýðu

Flm. (Sigurður E. Guðmundsson):

Herra forseti. Á síðustu árum hefur sú skoðun rutt sér til rúms hér á landi, að nauðsynlegt væri að gefa fullorðnu fólki kost á því að afla sér frekari menntunar, þekkingar eða þjálfunar en það hafði aðstöðu til á yngri árum sínum. Sannarlega er það fagnaðarefni, að augu manna skuli hafa opnazt fyrir nauðsyn þessa, því að vissulega er hér rétt stefnt. Ástandið í menntunar- og fræðslumálum hérlendis nú er þannig, að þeir, sem eru á æskualdri eða unglingsárum, eiga þess kost að sækja ríkisskólana og ber raunar skylda til þess. En auk þess, sem hið opinbera heldur uppi skyldunámskerfinu, rekur það bæði beint og óbeint mikinn fjölda skóla, bæði sérskóla og fagskóla. Sammerkt þeim öllum er þó það, að þeir eru að nær öllu leyti ætlaðir yngri mönnum, sem eru að leita sér undirbúningsmenntunar vegna lífsstarfs síns. En það er ekki aðeins, að ríki og sveitarfélög eigi og reki allt þetta mikla skólakerfi, heldur er einnig haldið uppi geysilega viðamikilli lána- og styrktarstarfsemi til sumra þeirra manna, sem einna lengst eru á veg komnir með nám sitt. Í öllum þessum efnum hefur orðið stórkostleg þróun á síðustu árum undir forustu fyrrv. menntmrh., Gylfa Þ. Gíslasonar, og er óhætt að fullyrða, að aldrei hafi mennta- og skólamál hér á landi tekið jafnstórstígum framförum og í hans ráðherratíð. Allt hið mikla og dýra menntunar- og skólakerfi, er ég hef nú vikið orðum að, er að sjálfsögðu greitt með fjármunum hins óbreytta skattborgara, mannsins, sem kominn er á fullorðinsár og vinnur hörðum höndum við að halda uppi heimili sínu og fjölskyldu og ríkisbúskapnum að sínu leytinu til, þ. á m. hinu dýra og umfangsmikla skólakerfi. Sjálfur hefur hann e. t. v. átt þess lítinn kost, að öðlast alla þá menntun og fræðslu á sínum yngri árum, sem börn hans og annað ungt fólk geta nú fengið. Þjóðin bjó og býr enn við takmarkaðan fjárhag, fyrr á árum og ekki síður þar áður átti ungt fólk ekki margra kosta völ um menntun, ætti það ekki til því efnaðra fólks að telja. Af þeim sökum fékk margur efnismaðurinn aldrei notið hæfileika sinna til fulls og enginn vafi er á því, að þannig fóru stundum miklir eðlislægir hæfileikar fyrir lítið, mönnunum sjálfum og þjóðinni allri til mikils tjóns. En til þess eru vítin að varast þau og ranglætið ber að leiðrétta. Fullorðið fólk á vitaskuld fullan rétt á því að fá að njóta frekari menntunar og fræðslu en það átti kost á í uppvexti sínum. En það er ekki aðeins, að það eigi fullan siðferðilegan rétt á slíku og það sé sjálfsagt réttlætismál að gefa því kost á að njóta slíkrar menntunar eða þjálfunar, heldur er hér líka um að ræða mikið hagsmunamál fyrir þjóðfélagið sjálft. Vitaskuld kostar það nokkuð, að fullorðnu fólki gefist kostur á aukinni og frekari menntun en það hefur haft tök á að afla sér til þessa. En þjóðfélagið kaupir aldrei of dýru verði vel menntaða og vel upplýsta þegna. Í þeim efnum á enginn að búa við forréttindi að því er varðar aðstöðu til náms og lánveitingar og styrki, enda er þjóðfélaginu mikils virði, að fullorðið fólk afli sér frekari menntunar, þekkingar og þjálfunar en það hefur áður átt kost á, óski það eftir því.

Í því frv., er hér liggur fyrir um Fræðslustofnun alþýðu, er gert ráð fyrir því, að jöfnuð verði námsaðstaða fullorðinna og yngra fólks. Ætlazt er til, að lagafrv. þetta, verði það samþ., leiði til þess, að fullorðið fólk geti leitað sér þeirrar menntunar eða þjálfunar, sem hugur þess stendur til, því sjálfu að kostnaðarlitlu eða kostnaðarlausu. Hér er sannarlega um stórt mál að ræða. Ætlazt er til, að fræðslustofnunin styðji með fjárframlögum margs konar menntunar- og fræðslustarfsemi, sem fullorðnu fólki gefist kostur á að njóta, en einnig styðji hún með fjárframlögum þá fjölskyldumenn, karla og konur, er eigi geta án þess stuðnings aflað sér slíkrar menntunar. Í því sambandi skal lögð áherzla á það, að tryggja verður að próf eða menntunaráfangar þeir, sem þetta fólk aflar sér á umræddum þekkingarbrautum, geti með eðlilegum hætti opnað því leið að hinu almenna skólakerfi. Í dag er það svo, að karl eða kona, sem komin er á miðjan aldur og vill annaðhvort taka upp sinn menntunarþráð að nýju eða hefja nám, verður að byrja þar sem frá var horfið eða jafnvel byrja á byrjuninni, og er það þá oft gert utan skóla. Að engu er metin mikil og dýrmæt lífsreynsla og mikill þroski, er þetta fólk hefur aflað sér. Þess í stað er það sett á skólabekk með reynslulitlum unglingum og í sama kerfi og þeir eru. Ég minnist þess, að ég heyrði gamlan og góðan vin minn, Ingvar Carlsson, skólamálaráðherra Svía, fjalla um þetta atriði meðal margra annarra á norrænni ráðstefnu mennta- og fræðslusamtaka alþýðu, er haldin var í nágrenni Stokkhólms sumarið 1970. Honum þótti fjarstætt það fyrirkomulag, að lífsreynsla og þroski fullorðins fólks væri að engu metið, er það loks fengi tækifæri til að byrja nám að nýju. Minnist ég þess, að hann taldi reynslu manna og þroska jafngilda tveggja eða þriggja ára námi í kennara- eða menntaskóla, og mun það víst ekki ofmælt. En ég skal ekki hafa fleiri orð um það, heldur víkja að nýju að því, sem áður sagði.

Við flm. þessa frv. gerum ráð fyrir því, að Fræðslustofnun alþýðu verði gert kleift að styðja með fjárframlögum fræðslustarfsemi, er nyti hennar viðurkenningar og væri ætluð fullorðnu fólki. Er þá átt við starfsemi á borð við námsflokka ýmissa sveitarfélaga, tungumálaskóla, handíða- og myndlistarskóla fyrir almenning, listaskóla, marga konar öðruvísi fræðslustarfsemi o. fl. þ. h. Í þessu sambandi vil ég minnast á og nota sem dæmi athyglisverða starfsemi, er hófst hér í Reykjavík fyrir um það bil tveimur árum, að ég ætla. Nokkrir ungir skólamenn tóku saman höndum um stofnun skóla, er þeir nefna Kvöldskólann. Er tilgangur hans að gefa þar yngra og eldra fólki kost á að stunda nám til gagnfræðaprófs. Aðsóknin mun vera mjög mikil og meiri en unnt er að sinna. En þar sem skólinn er einkaskáli, er krafizt hárra skólagjalda, og í ofanálag verða vitaskuld margir nemendanna að draga úr vinnu sinni vegna námsins. Ég er persónulega kunnugur manni vestan af fjörðum, 35 ára að aldri eða svo, fjölskyldumanni, er haft hefur atvinnu af leigubílaakstri. Hann átti þess ekki kost að taka gagnfræðapróf á sínum yngri árum, en hafði sterkan hug á því. Honum tókst að komast í þennan kvöldskóla og hann hefur nú lokið námi sínu, gagnfræðaprófinu. En það kostaði hann þúsundir kr. í útlögðum skólagjöldum, auk þess sem hann varð að draga við sig atvinnuna og konan hans að fá sér vinnu út á við. Á sama tíma getur svo annar maður, 20 árum yngri eða svo, aflað sér sömu menntunar ókeypis.

Við flm. erum þeirrar skoðunar, að úr slíku misrétti verði að bæta. Allir þegnar þjóðfélagsins eiga að sitja við sama borð í þessum efnum. Viss ókeypis grundvallarmenntun a. m. k., á í raun að standa öllum til boða, hvað sem aldri þeirra, efnahag, fjölskyldustærð og öðrum aðstæðum líður. Og í því sambandi vil ég enn á ný leggja áherzlu á nauðsyn þess, að venjulegu launafólki gefist kostur á fjárhagslegum stuðningi vegna launataps, er það kann að verða fyrir vegna námsins. Íslenzka ríkið veitir unglingum í dreifbýli fjárhagslegan stuðning til náms og einnig fjölmörgum námsmönnum, er nám stunda erlendis. Þarf ég ekki að rekja það mál, því að það er hv. alþm. öllum kunnugt. Vitaskuld er það mikið fagnaðarefni, að hagur þjóðarinnar skuli vera slíkur, að þetta er unnt. En það verður líka að búa svo um hnútana, að fjölskyldufólki verði gert fjárhagslega fært eða það a. m. k. styrkt fjárhagslega til þess að afla sér þeirrar menntunar eða þjálfunar, sem hér er rætt um.

Auðvitað er það svo, herra forseti, að unnt er að veita fullorðinsmenntun, sem svo er nefnd, eftir mörgum leiðum og með ýmsum hætti, og ekki þarf það allt að kosta mikla peninga. Sýnilegt er, að unnt er að beita bæði hljóðvarpi og sjónvarpi í því skyni í mun ríkari mæli en nú er gert, enda mun fyrrv. menntmrh., Gylfi Þ. Gíslason, hafa hugsað sér að hefja fullorðinsmenntunina á þeim vettvangi og hafði látið fram fara nokkurn undirbúning þar að lútandi. Sýnist mér einnig sem núv. hæstv. menntmrh. hugsi til hins sama, og er það vel. En vafalaust kemur ekki síður til greina, að fullorðinsmenntunin fari fram að einhverju leyti á vegum frjálsra fræðslusamtaka með sama hætti og gerist í nágrannalöndum okkar með miklum og góðum árangri. Frv. okkar gerir ráð fyrir miklum stuðningi við slíka starfsemi.

Ég vil ekki skilja við þennan þátt máls míns án þess að drepa á enn eitt atriði, sem ég tel að skipti miklu máli í þessu sambandi. Sem betur fer stefnir svo, að tómstundir manna aukast fremur en hitt og efni manna fara batnandi. Launþegasamtökin í nágrannalöndunum hafa gert sér ljósa grein fyrir nauðsyn þess, að stuðlað verði að því, að þessi bætti hagur manna verði þeim að sem beztu og mestu gagni. Þar á miklu hlutverki að gegna sú fullorðinsmenntun, almenningsfræðsla, sífræðsla eða hvað við viljum kalla hana, sem ekki er aðeins hliðstæð eða í ætt við hið venjulega skólanám, heldur er einnig á sviði léttara náms, t. d. á sviði listiðkunar, föndurs og annarra persónulegra áhugamála. Fræðslusamtök alþýðu í nágrannalöndunum halda uppi mikilli ríkisstyrktri starfsemi á þessu sviði, og gildir það raunar fyrir, öll önnur frjáls fræðslusamtök í nágrannalöndunum. Þessi starfsemi er öll saman ríkisstyrkt. Með þeim hætti gefst mönnum kostur á að verja tómstundum sínum nytsamlega og til uppbyggingar í stað þess, sem lakara væri. Tel ég, að hér sé um afar mikilvægt atriði að ræða, atriði, sem jafnvel mætti kalla öðrum þræði uppeldislegt og jákvætt í alla staði.

Í frv. er gert ráð fyrir því, að menn geti átt þess kost að afla sér endurþjálfunar, annaðhvort á vegum fræðslustofnunarinnar sjálfrar eða á vegum annarra aðila, er hún styrkti til þess. Ég tel vafalaust, að mikil þörf sé á starfsemi sem þessari. Öll munum við kannast við fólk, er vill leita sér þjálfunar á nýjan leik og þarf jafnvel beinlínis á því að halda. Gildir þetta bæði um þá, sem vilja eða þurfa að leita nýrra starfa, t. d. vegna breytinga á atvinnuháttum, og eins um hina, er ekki hafa starfað í atvinnulífinu um nokkurt skeið, en snúa svo aftur til þess. Hinir fyrri neyðast nú oft til að hverfa að lakari og verr launuðum störfum vegna aldurs síns eða vegna þess, að þeim gefst ekki kostur á endurþjálfun eða að læra ný störf. Meðal hinna síðarnefndu eru t. d. sjúklingar, er ná heilsu, eða húsfreyjur, sem hafa komið upp börnum sínum og vilja nú á nýjan leik taka til starfa á hinum almenna vinnumarkaði. Þjóðfélagið og atvinnulífið tekur satt að segja ekki fagnandi á móti þessu fólki. Atvinnurekendur vísa því oft og tíðum á þann bekk, sem þeir telja óæðri. Hér er bæði um ranglæti að ræða og heimskulega afstöðu af hálfu samfélagsins, sem nauðsynlegt er að bæta úr. Í annan stað gerir frv. okkar einnig ráð fyrir því, að launþegasamtökunum gefist kostur á að fá fjárhagslegan styrk til þess að koma upp fræðslustarfsemi fyrir trúnaðarmenn samtakanna sérstaklega. Í nágrannalöndunum er haldið uppi mikilli og vandaðri starfsemi af þessu tagi og er hún m. a. og í mörgum tilfellum kostuð af hinu opinbera. Það þykir nauðsynlegt, að þeir, sem gegna trúnaðarstörfum hjá launþegasamtökunum, eigi kost á sem víðtækastri fræðslu og þjálfun vegna starfa sinna. Er það vitaskuld í þágu þjóðfélagsins engu síður en það er í þágu samtakanna sjálfra. Hér á landi hefur ekki reynzt unnt að halda uppi jafnviðamikilli starfsemi á þessu sviði og þörf hefði verið á, og er þar raunar mikill munur á, því miður. Það er ætlan okkar flm. að leggja með frv. þessu grundvöll að því, að unnt verði úr að bæta.

Herra forseti. Ég hef farið hér nokkrum orðum um þá hugsun og þau sjónarmið, sem í þessu frv. felast og að baki því liggja. Um allt þetta mál mætti þó flytja miklu lengri ræðu, því að hér er um viðamikið málefni að ræða. Í nágrannalöndunum hefur fullorðinsfræðslan þróazt um langan aldur. Hún er upprunnin í alþýðusamtökunum sjálfum, og á þeirra vegum hefur hún verið mest og öflugust, þótt fleiri aðilar eigi nú hlut að máli. Alls staðar annars staðar á Norðurlöndum starfa sterk og víðtæk fræðslusamtök alþýðu, sem hafa stóra þætti fullorðinsfræðslunnar í sínum höndum. Svo þróuð sem fullorðinsmenntunin er þar, þá er engu að síður enn lögð mikil áherzla á að auka hana og efla. Þetta sýnir t. d. nýlegt fréttaskeyti, sem ég hef undir höndum frá norsku fréttastofunni. Segir þar frá ræðu, er Ivar Leweraas, framkvstj. Menningarsambands og fræðslusambands alþýðu í Noregi, hélt nýlega á fundi í Osló. Bendir hann þar á, að verkalýðshreyfingin verði að vinna að ummyndun menntunarkerfisins með það í huga, að auka jafnréttið og bæta lýðræðið. Leveraas segir í þessari ræðu sinni, að í Noregi sé um það bil 1% heildarkostnaðarins við fræðslu- og skólamál varið til fullorðinsfræðslu, en í Svíþjóð sé um það bil 10% varið í sama skyni. Við íslenzkir jafnaðarmenn getum til fulls tekið undir þau orð Leveraas, að með aukinni fullorðinsmenntun sé stefnt að stórauknu jafnrétti og bættu lýðræði.

Ég hef ekki haft mörg orð um einstök atriði frv. um Fræðslustofnun alþýðu, enda skýrir það sig sjálft að mestu leyti. Við teljum, að starf hennar fyrir fullorðinsfræðsluna í landinu eigi að vera í 4 meginfarvegum, þ. e. 1) fjárhagslegur stuðningur við fræðslustarfsemi, sem ætluð er fullorðnu fólki; 2) fjárhagslegur stuðningur við þá, sem námið stunda; 3) þjálfunar- og endurhæfingarnámskeið fyrir fullorðið fólk og stuðningur við slíka starfsemi á vegum annarra aðila, ef vill, og 4) fræðslunámskeið fyrir trúnaðarmenn í launþegasamtökunum, svo og fjárhagslegur stuðningur við þau, séu þau rekin á vegum annarra. Stærð hvers þáttar um sig takmarkast af því fjármagni, er til hans rennur. Teljum við, að sennilega mundi við hæfi, að um það bil 80% samtals árlegrar fjárveitingar rynni til tveggja fyrst töldu kaflanna, en samtals 20% til tveggja hinna síðarnefndu. Ég hygg, að frv. skýri sig sjálft að öllu öðru leyti.

Ég vil svo ljúka máli mínu með því, herra forseti, að láta þá von í ljós, að frv. þessu verði vel tekið og það fái vandaða meðferð hér í þinginu. Ég er sannfærður um, að verði það samþ., hefur verið stigið stórt og mikilvægt spor, ekki aðeins að því er varðar almenna fræðslu og menntun með þjóðinni, heldur hefur líka þar með verið lagður grundvöllur að stórauknu jafnrétti og bættu lýðræði. Með frv. er einnig stefnt að því, að allir þeir, sem þess óska, fái aðstöðu til að nema það, sem hugurinn þráir með öllu án tillits til efnahags, aldurs eða annarra aðstæðna. Það hlýtur að vera mesta réttlætismálið.

Með þeim orðum læt ég máli mínu lokið og legg til, að frv. verði að umr. lokinni vísað til 2. umr. og menntmn.