03.11.1971
Neðri deild: 9. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 11 í C-deild Alþingistíðinda. (2840)

44. mál, almannatryggingar

Flm. (Pétur Pétursson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 45 frv., sem hefur oft áður verið flutt svipaðs eðlis hér á hv. Alþ., en er þó að því leyti öðruvísi, að í staðinn fyrir, að oftast hefur áður verið talað um það að tannlækningar falli að öllu leyti undir sjúkrasamlagskerfið í landinu, þá hef ég hér lagt til að tannlækningar á fólki upp að 20 ára aldri séu felldar undir sjúkrasamlagskerfið.

Ég sagði, að málið hefði oft verið áður flutt, og ég geri það nú í trausti þess, að hv. þm. vilji fallast á þá skoðun mína, að það sé ekki óhyggilegt að koma þessu sjálfsagða máli á í áföngum. Nú þegar er það svo, að ríkissjóður og sveitarfélög og bæjarfélög greiða talsvert háar upphæðir fyrir tannlækningar skólabarna, nefnilega skólabarna á aldrinum 7–14 ára, en þau munu vera eitthvað um 37 þús. í landinu. Þær upphæðir, sem hafa verið greiddar til þessara hluta á síðustu tveimur árum, þ. e. a. s. 1969 og 1970, eru af ríkisins hálfu um 7½ millj. hvort ár, var samtals 15.2 millj. 1969, þ. e. a. s. um 8 millj. frá sveitar- og bæjarfélögum, en fór samtals upp í 19.1 millj. á árinu 1970. Það er þannig þegar farið að greiða talsvert af tannviðgerðum í landinu, en þetta er bara gert í gegnum skólakerfið, að hálfu leyti af ríkinu og að hálfu leyti frá bæjarfélögum, eða því sem næst. En við þetta er þó það að athuga, að í ýmsum byggðarlögum, þar sem ekki er tannþjónusta fyrir hendi, vill mjög dragast úr hömlu, að þetta sé raunverulega gert.

Það er því um að ræða, ef þetta frv. verður samþ., að tannlæknaþjónusta talsvert stærri hóps kæmi til greina, en innan við 20 ára aldur í landinu eru um það bil 87 þús. manns. Nú eru engar tannviðgerðir á yngstu börnum, svo að ég gizka á, að þetta yrðu 15–20 þús. manns, sem bættust hér við í þessum áfanga. Þetta er auðvitað enginn lokaáfangi, en ég er að gera mér vonir um, að ef þetta yrði samþ., mundi það þróast til þess, að sjúkrasamlögin tækju þetta meira og meira upp á sína arma. Vitanlega þarf einhverja peninga til að greiða þetta, og ég hef hugsað mér, að það komi einfaldlega fram í sjúkrasamlagsgjöldum til viðbótar við þær fjárhæðir, sem þegar eru greiddar af opinberri hálfu til þessara hluta.

Mér finnst, að þessi tannlæknamál ungs fólks séu svo þýðingarmikið mál fyrir allt fólk í landinu, að það sé ómögulegt að horfa fram hjá því. Það er hörmulegt til þess að vita, að tennur í fólki eru kannske látnar skemmast af því, að aðstandendurnir hafa kannske ekki efni á því að láta gera við tennurnar, og þetta vitum við sjálfsagt öll, að dæmi eru til um. Það verður líka að minnast þess, að eftir því sem farið er fyrr að gera við tennur, þá er enginn vafi á því, að viðhald þeirra verður bæði ódýrara, fyrir nú utan það, hvað þetta er miklu betra fyrir fólk sjálft. Mér finnst, að sameiginlegt átak þurfi að koma til í þessu efni. Stundum hefur vantað tannlækna hér á landi. En nú held ég, að það sé ekki. Nú held ég einmitt, að til sé nægur tannlæknaafli til að taka við þessu verkefni.

Ég hefði auðvitað viljað þetta frv. í þeirri veru, að allar tannlækningar komi hér undir. En ég tel hyggilegra að reyna að freista þess, hvort ekki er hægt að ná samkomulagi um þetta mál nú í ljósi þess, að það er þegar byrjað á þessum aðgerðum, og þarna er í raun og veru verið að stíga aðeins eitt spor fram á við í þessum efnum. Ég vildi mega vænta þess, að hv. þdm. sæju sér fært að standa að þessu máli, eða a. m. k. kanna það mjög rækilega frá öllum hliðum, áður en því er kastað til hliðar.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri nú, en legg til, herra forseti, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.