16.03.1972
Neðri deild: 52. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 12 í C-deild Alþingistíðinda. (2844)

44. mál, almannatryggingar

Frsm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Í þessu frv. felst það, að almannatryggingar skuli greiða kostnað við tannlækningar samlagsmanna, barna og fósturbarna, allt að 20 ára aldri.

N. hefur rætt þetta frv. og sent það til umsagnar ýmissa aðila: tryggingaráðs, landlæknis, nefndar, sem nú starfar að endurskoðun á tryggingalögunum og Tannlæknafélags Íslands. Kemur yfirleitt hvarvetna fram, að það sé æskilegt markmið, að kostnaður við tannlækningar sé greiddur af almannatryggingakerfinu. Sú hugmynd er orðin gömul. Það hefur verið rætt í áratugi að taka tannlækningar undir tryggingakerfið, en hingað til hefur það strandað á því, hversu kostnaðarsamt það yrði talið. Um skeið var meira að segja í lögunum heimild til þess að greiða kostnað af tannlækningum þeirra, sem eru innan 18 ára, en sú heimild var ekki notuð. Þess vegna var ákvæðið numið úr gildi og í stað þess sett almenn heimild til handa sjúkrasamlögum til að greiða tannlækningar. En sú heimild hefur ekki verið notuð að heitið geti, og hafa verið taldir nokkrir framkvæmdarörðugleikar á því að heimila sjúkrasamlögunum að nota sér þessa heimild.

Vegna þess að upplýst var fyrir heilbr.- og félmn., að almannatryggingakerfið sé í heildarendurskoðun, var n. sammála um, að ekki væri rétt, að frv. þetta kæmi til atkvæða á þessu stigi málsins, en varð sammála um að vísa því til ríkisstj. og gerir það í trausti þess, að það fái jákvæða afgreiðslu í endurskoðunarnefndinni.