10.02.1972
Efri deild: 45. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í C-deild Alþingistíðinda. (2848)

168. mál, ljósmæðralög

Flm. (Páll Þorsteinsson) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. 6. landsk. þm. að bera fram þetta frv., sem hér liggur fyrir, um breyt. á ljósmæðralögum nr. 17 19. júní 1933. Ég sé ekki ástæðu til í sambandi við þetta frv. að ræða um mikilvægi ljósmóðurstarfsins. Ég geri ráð fyrir því, að allir hv. þdm. séu sammála um það, enda talar reynslan þar skýrustu máli, og á það ekki sízt við í byggðarlögum, sem eru langt frá læknissetri og þar af leiðandi hafa takmarkaða læknisþjónustu. En ég vil með örfáum orðum skýra þær breytingar á gildandi lögum, sem lagt er til að gerðar verði með þessu frv.

Staða ljósmæðra meðal hins fjölmenna hóps opinberra starfsmanna er að sumu leyti með nokkuð sérstökum hætti. Ljósmæður fá skipun til starfsins af hendi embættismanns ríkisins, þ. e. a. s. í sveitum landsins af hendi sýslumanna, en í kaupstöðum af hendi bæjarfógeta. Sumar ljósmæður eru þannig settar, að það má segja, að ljósmóðurstarfið sé fullt starfssvið og þeirra aðalstarf. En miklu fleiri einstaklingar í stéttinni eru þannig settir, að ljósmóðurstarfið getur ekki kallazt fullt starf, og launakjörin því miðuð við, að þau séu fremur þóknun en full embættislaun. Greiðsla ljósmóðurlauna í kaupstöðum er innt af hendi úr bæjarsjóði, en greiðsla ljósmóðurlauna í sýslum landsins er að 2/3 hlutum úr ríkissjóði, en að 1/3 hluta úr sýslusjóði.

Lögin sem hér er lagt til, að gerð verði nokkur breyting á, eru frá 1933 og því allt að 40 ára gömul. Á þeim tíma, sem liðinn er síðan þau voru sett, hafa gerzt miklar og margháttaðar breytingar í þjóðfélaginu, og snertir það þetta svið að vissu leyti eins og mörg önnur svið í þjóðfélaginu, þannig að sem ákvæði ljósmæðralaganna samrýmast ekki þeim öru breytingum, sem orðið hafa, og hefur því reynzt óhjákvæmilegt í framkvæmd að víkja frá bókstaf laganna.

4. gr. laganna, þar sem kveðið er á um launakjör ljósmæðra, er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Laun skipaðra ljósmæðra í kaupstöðum skulu greidd mánaðarlega úr bæjarsjóði, og fer um upphæð þeirra eftir því, sem bæjarstjórn ákveður í samræmi við launakjör annarra starfsmanna kaupstaðarins. Laun skipaðra ljósmæðra í umdæmum utan kaupstaða skal greiða að ½ hluta úr sýslusjóði og að 2/3 hlutum úr ríkissjóði. Launin greiða sýslumenn ársfjórðungslega fyrir fram og miðast upphæð þeirra við manntal umdæmis við síðustu áramót þannig: 1. Í þeim umdæmum, þar sem fólkstal er 300 eða minna, skulu árslaun vera 700 kr. 2. Í umdæmum, sem hafa fleiri en 300 manna, skulu árslaun vera 700 kr. að viðbættum 16 kr. fyrir hverja fulla 5 tugi manna, sem fram yfir eru 300. 3. Í umdæmum, þar sem eru tvær eða fleiri skipaðar ljósmæður, skal deila íbúatölu jafnt á milli þeirra og því næst reikna þeim laun á sama hátt og öðrum skipuðum ljósmæðrum, þó aldrei yfir 1600 kr. í byrjunarlaun. Launin skulu hækka eftir 3 ár um 85 kr. og eftir önnur 3 ár um 85 kr.

Eins og að líkum lætur, hefur ekki verið hægt í framkvæmd að fara eftir þessum bókstaf laganna, þó að þessi ákvæði séu enn talin í gildi. Það er því till. okkar, sem berum fram þetta frv., að þeirri skipan verði komið á, að launakjör skipaðra ljósmæðra skuli ákveðin með kjarasamningum eða kjaradómi á sama hátt og laun opinberra starfsmanna samkv. lögum nr. 55 28. apríl 1962. Þess skal getið, að í kjarasamningum, sem gerðir voru í árslok 1970, er tekið fram, að í 14. launaflokk sé skipað ljósmóður, en það mun einungis ná til þeirra örfáu einstaklinga í stéttinni, sem hafa fullt starf og ljósmóðurstarfið má því teljast aðalstarf þeirra. En ég hef það fyrir satt, að um launakjör annarra ljósmæðra, þ. e. a. s. þeirra, sem starfa úti á landsbyggðinni, hafi í framkvæmd verið farið þannig að, að þegar almennar launabreytingar hafi orðið, hafi heilbr.- og félmrn. gert till. um það, hverjar breytingar skyldu verða gerðar hverju sinni á þeirri þóknun eða því kaupgjaldi, sem ljósmæður úti á landsbyggðinni fá, og síðan hafi þær till. verið lagðar fyrir fjmrn. og það raunverulega ákveðið þessar greiðslur.

Nú vil ég taka fram, að við flm. þessa frv. höfum alls enga ástæðu til að ætla, að af hálfu rn. hafi verið nokkur tilhneiging til þess að halla á þessa starfsmenn, sem hér um ræðir, að þessu leyti. En við teljum það ekki eðlilega skipun, að rn., framkvæmdavaldið, þurfi á þennan hátt að vera að ákveða launakjör þó þetta fjölmennrar stéttar, sem þarna er um að ræða, og starfsmanna, sem hafa fengið bréf um skipun í opinbert starf, og teljum því eðlilegast, að þetta verði lagt á hendur þeirra, sem fara með kjarasamninga opinberra starfsmanna, eða kjaradóms.

Önnur ákvæði í 4. gr. eru óbreytt í frv. okkar frá því, sem er í gildandi lögum. Ég tel vel koma til álita, að sú skipan verði tekin upp, að ríkissjóður greiði hluta af launum allra ljósmæðra í landinu, hvort sem þær starfa í kaupstöðum eða sveitum. Það getur þá komið til athugunar við meðferð málsins, en við flm. höfum ekki gert till. um það í þessu frv.

2. gr. þessa frv. kveður svo á, að ljósmóðir, sem skipuð er í starf samkv. lögum þessum, eigi rétt á orlofi ár hvert á sama hátt og aðrir opinberir starfsmenn. Það má telja mjög eðlilegt og raunar sjálfsagt, að þessi réttur sé veittur, en það eru engin ákvæði um þetta efni í núgildandi ljósmæðralögum.

Þá er gert ráð fyrir því í þessu frv., að aftan við lögin komi ákvæði til bráðabirgða, svo hljóðandi :

„Á árinu 1972 skal hver sýslunefnd endurskoða skiptingu sýslunnar í ljósmæðraumdæmi, sbr. 2. gr. laganna.

Að endurskoðun lokinni skal sýslunefnd í hverju lögsagnarumdæmi gera ráðh. grein fyrir till. um skiptinguna og leita samþykkis hans á þeim.“

Í 2. gr. ljósmæðralaganna, sem hér er vitnað til, segir svo orðrétt:

„Hverri sýslu landsins skal skipta í ljósmæðraumdæmi, og gerir sýslunefnd það með samþykki ráðh. Skipa skal eina ljósmóður til að gegna hverju umdæmi, og hefur hún þar aðsetur, er sýslunefnd þykir hæfa.“

Vera má, að það sé misjafnt, í hinum einstöku héruðum, hve langt er síðan þessi skipting var gerð, en mér er kunnugt um það, að í sumum héruðum hefur skipting í ljósmæðraumdæmi ekki verið gerð síðan snemma á þessari öld. Og við teljum því, flm. þessa frv., mjög eðlilegt, að það séu sett fyrirmæli um það, að sú skipting, sem gilt hefur, skuli tekin til endurskoðunar.

Skipting í ljósmæðraumdæmi, eins og hún er nú í mörgum eða jafnvel flestum sýslum landsins, er miðuð við það, að hver sveit eða hvert sveitarfélag sé ljósmæðraumdæmi út af fyrir sig. Þessi skipting var eðlileg og kannske óumflýjanleg, á meðan landið var veglaust að heita mátti, öll vötn óbrúuð og bifreiðaeign var ekki til staðar eða a. m. k. ekki almenn eins og nú er orðið. En með þeim breytingum, sem orðið hafa, og með þeirri fækkun, sem orðið hefur í sumum sveitabyggðum, virðist hafa komið í ljós, að það sé mjög erfitt að fá ljósmæður til að gegna starfi í sumum hinna fámennari héraða, og teljum við því eðlilegt, að þetta verði tekið til endurskoðunar. En að sjálfsögðu hlýtur þessi endurskoðun, ef til kemur, að verða fyrst og fremst í höndum sýslunefndanna. Með því á að vera tryggt, enda þarf það að vera tryggt, að um þetta málefni fjalli menn, sem hafa staðgóða þekkingu í hverju héraði, og tekin verði til greina sjónarmið þeirra manna, sem eru gagnkunnugir staðháttum og aðstöðu í hverju byggðarlagi.

Þegar ákveða skal hvernig skipta á héraði í ljósmæðraumdæmi, þá ber að dómi okkar flm. að taka tillit til ýmissa sjónarmiða. Það ber að líta með sanngirni á sérstöðu einstakra byggðarlaga og hafa það í huga fyrst og fremst, að ávallt verði veitt svo góð þjónusta á þessu sviði sem kostur er. Það verður líka að taka tillit til samgangna innan héraðs, eigi aðeins á þeim árstíma, þegar samgöngur eru greiðastar, heldur engu síður, hvernig samgöngum er háttað á vetrum. Rétt er og að hafa hliðsjón af fólksfjölda í sveitarfélögum og gera sér grein fyrir því eftir fenginni reynslu, hvort auðveldara muni reynast að fá ljósmæður til starfa í allfjölmennum umdæmum fremur en í hinum fámennustu. Enn fremur verður að hafa það í huga í sambandi við skiptingu héraða í ljósmæðraumdæmi, að fyrirhugað er að gera með nýrri löggjöf breytingar á skipun læknishéraða og auka og bæta þjónustu við heilsugæzlu yfirleitt í landinu.

Þm. hafa átt þess kost að hafa með höndum grg. og till. um skipun heilbrigðisþjónustunnar, sem samin er á vegum nefndar, sem fjallað hefur um athugun á heilbrigðismálum í landinu. Og ég ætla, að á grundvelli þessara till. sé nú unnið að undirbúningi nýrrar löggjafar á þessu sviði. Ég hef komið auga á það, að í þessum till. er gert ráð fyrir því, að læknishéruðin verði stækkuð að miklum mun og komið verði á fót heilsugæzlustöðvum í mörgum eða í flestum héruðum, þar sem starfi a. m. k. tveir læknar. Og ég hef komið auga á það, að þar sem talin eru upp í þessum till. verkefni, sem á að inna af hendi í heilsugæzlustöðvum, þá er þar m. a. talað um mæðravernd og lít ég þannig á, að þar hljóti að verða óhjákvæmileg samvinna að vissu leyti á milli ljósmæðra og heilsugæzlustöðvar í hverju héraði.

Þá virðist það augljóst, að í sambandi við þá fyrirhuguðu skipulagsbreytingu á þessu sviði, sem nú er unnið að að undirbúa, þá beri sérstaklega að athuga, hvort hagkvæmt sé að auka verkefni ljósmæðra í umdæmum utan kaupstaða með því að þær jafnframt ljósmóðurstarfi veiti héraðslæknum aðstoð við almenna heilsugæzlu. Þetta mundi sérstaklega eiga við og geta komið sér vel í byggðarlögum, sem eru í allmikilli fjarlægð frá heilsugæzlustöð og í fámennum ljósmæðraumdæmum.

Að svo mæltu legg ég til, að frv. verði vísað til 2. umr. og heilbr.- og félmn.