08.12.1971
Efri deild: 24. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 258 í B-deild Alþingistíðinda. (285)

86. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég verð að leyfa mér að beina þeim tilmælum til hv. 4. þm. Norðurl. v. út af þeim ummælum, sem hann lét falla hér áðan, sérstaklega í sambandi við hagrannsóknadeild, og vitnaði þar til grg. okkar í minni hl. fjhn., að hann lesi þá grg. betur. við höfðum alls ekki gagnrýnt það, að hagrannsóknadeildin heyri beint undir ráðh., heldur felst það í till. okkar, að svo verði eftirleiðis sem hingað til. Í annan stað verð ég að biðja hv. þm. að lesa betur, þegar hann fullyrðir það hér í ræðustól, að hann eigi erfitt með að meðtaka þann sannleik, að Sjálfstfl. sé hlynntur heilbrigðri áætlanagerð.

Saga þess er mjög ítarlega rakin í nál. okkar, hvernig fyrrv. ríkisstj. átti frumkvæði að því, að hér var beitt áætlanagerð, t.d. í sambandi við landshlutaáætlanir, framkvæmdir ríkisins, einstakar atvinnugreinar o.fl. Hitt kom mér hins vegar ekki á óvart, þótt við hv. 4. þm. Norðurl. v. hefðum nokkuð mismunandi skoðanir á áætlanagerð og tilgangi hennar.

Ef einhver hefði spáð því á síðastliðnu vori, að frv. eins og það, sem hér liggur fyrir, yrði lagt fram á Alþ. til samþykktar á hausti komanda, hefðu þau hin sömu ummæli verið kölluð skrök eða vondar getsakir. Svo einörð og einbeitt er hin íslenzka þjóð í skoðun sinni á mikilvægi frjálsræðis til athafna og framkvæmda, að hún ætlar engum sinna stjórnenda fyrir fram að vilja hneppa það í viðjar, annað hvort eða hvort tveggja.

Við fyrstu skoðun þessa frv., sem hér liggur fyrir, verður það ljóst, að þar er beinlínis ákveðið, að dregið skuli saman það vald, sem nú er í höndum einstaklinga og félagasamtaka um allt land og það afhent voldugri miðstjórn í Reykjavík. Er það gert í því formi, að setja skal á laggirnar geysilegt skrifstofubákn, þar sem m.a. skal meta þýðingu ótiltekinna fjárfestingarframkvæmda og ákveða, í hvaða röð í þær skuli ráðizt og hvar eða jafnvel hvort það skuli gert. Hins vegar er það sagt berum orðum, að með því að setja þessa stofnun á laggirnar megi ætla, að ríkið fari að sinna forustuskyldu sinni í atvinnumálum, eins og hv. 4. þm. Norðurl. v. komst að orði við 1. umr. málsins, og hv. þm. þótti ekki nógu fast að orði kveðið, heldur hnykkti hann á ummælunum með því að bæta við, með leyfi hæstv. forseta, „óhjákvæmilegri og nauðsynlegri forustuskyldu sinni í atvinnumálum.“ Enginn vafi leikur á, að þessi hv. þm. veit, hvað hann syngur í þessum efnum, eða hann ætti a.m.k. að vita það, þar sem hann er sá maður, sem ég ætla, að hafi verið mjög í ráðum við samningu frv. Honum ætti því ekki að verða skotaskuld úr því að geta sér þess til, hvað sé í pokanum.

Hins vegar ber mjög að fagna þeim ummælum hæstv. forsrh., sem hann viðhafði hér í hv. d. í dag, að það væri ekki stefnt að þjóðnýtingu, það yrði ekki farið inn á þá braut. Er sú yfirlýsing einkar þýðingarmikil, að hún skuli hafa komið hér fram við umr. málsins.

Þá er sá skilningur hæstv. forsrh., sem hann hefur á því, hvers konar áætlanagerð skuli fara fram í Framkvæmdastofnuninni, ekki síður athyglisverður, þar sem svo var að heyra sem hann teldi, að áætlanagerðin yrði sama eðlis og verið hefur, að öðru leyti en því, að nú yrði ákvörðunin um fjármagnsútvegun og áætlanagerðina á sömu hendi. Ég skildi hann a.m.k. svo, og leiðréttist það þá, ef rangt er hermt, en það er þá óviljandi.

Á hinn bóginn komst hv. 11. þm. Reykv., Tómas Karlsson, svo að orði um þessa stofnun, að markmið hennar væri að vera hjálpartæki til að tryggja algjöra stefnubreytingu í atvinnu- og efnahagsmálum. Það er nú samkv. hans skilningi að söðla um í skipulagshyggju og áætlunarbúskap að gera ráðstafanir til þess að tryggt sé, að áætlunum sé fylgt og þær framkvæmdar. Ég fæ nú ekki annað séð af orðum hv. þm. en skammt sé í það, sem við sjálfstæðismenn höfum kallað með sanni að búa við óbærilega ríkisforsjá og ríkisafskipti af atvinnumálum. Það þarf því engan að undra, þótt við leggjumst gegn þessu frv., og því fremur, þar sem allt hið góða, sem þar er að finna, hefur þegar komizt til framkvæmda og er í lögum og sannar í reynd gildi sitt. Nefni ég þar t.d. skynsamlega áætlanagerð, hagrannsóknir, aukna samvinnu og samræmingu stofnlánasjóða og Atvinnujöfnunarsjóð, sem með nýrri og raunhæfri byggðastefnu hefur markað þáttaskil, þannig að aldrei er nú um hin sérstöku mál byggðarlaganna talað nema í anda þeirrar stefnu. Hefur það m.a. verið staðfest á fjölda þskj. nú í vetur og ekki hvað sízt í sjálfri grg. þess frv., sem hér er til umr., þótt þar gæti að vísu þess misskilnings, að þetta sé nýmæli.

Í grg. frv. segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Ákveðið er, að stofnunin framfylgi byggðaþróunarstefnu með sérstakri áætlanagerð. Jafnframt er þessi áætlanagerð með sérstökum hætti tengd mjög traustu böndum við fjármagnsöflun til þeirra framkvæmda sem áætiaðar og ákveðnar eru á hverjum tíma. Fjármagn Byggðasjóðs er stóraukið.“

Þetta er að vísu nýtt, og í öðru lagi:

„Framkvæmd þessarar byggðastefnu er svo að auki tryggð með sérstökum tengslum við landshlutasamtök sveitarfélaganna, bæði að því er varðar áætlanagerð og kostnað landshlutasamtakanna af því starfi. Þá er einnig ákveðið að taka upp samstarf við landshlutasamtök verkalýðsfélaga og atvinnurekenda í sama skyni.“

Ég hygg, að það sé alkunna hér, að fráfarandi ríkisstj. efndi með atvinnumálanefndunum til mjög mikils samstarfs við verkalýðsfélög og vinnuveitendur í sambandi við atvinnumál.

Eins og ég áðan sagði, verður um geigvænlegan samruna valds að ræða í þessari væntanlegu Framkvæmdastofnun ríkisins, eins og hæstv. forsrh. raunar viðurkenndi, þegar hann sagði eitthvað á þá leið, að hann hefði kosið að láta þriggja manna framkvæmdaráð fara þar með daglega stjórn, þar sem valdið væri svo mikið, að hann vildi ekki fela það neinum einum manni, það væri meiri trygging að hafa þá þrjá. Það er mjög á huldu, hversu mikið vald verður í raun og veru falið þessu þriggja manna framkvæmdaráði, þessum pólitísku kommissörum, eins og þeir eru jafnan nefndir.

Ég varð var við það hér í dag, að það fór eitthvað í taugarnar á hæstv. forsrh. og einnig í taugarnar á hv. frsm. meiri hl. fjhn., að við sjálfstæðísmenn skyldum kalla kommissarana pólitíska. Þannig gerði hv. 4. þm. Norðurl. v. því skóna, að einhver deildarstjóranna yrði skipaður í framkvæmdaráðið. Svo var einnig að heyra á hæstv. forsrh. um hríð, að hann hefði þar í hyggju ópólitískan mann, unz sannleikurinn kom í ljós og hann viðurkenndi, að framkvæmdaráð verður skipað pólitískum trúnaðar- eða eftirlitsmönnum ríksstj., eins konar kommissörum. Vitnaði hann í því sambandi til heimildar þeirrar, sem felst í Lögum um Stjórnarráð Íslands, að heimilt sé að skipa aðstoðarmenn ráðherra, sem fylgi ráðuneytum, eins konar aðstoðaráðherra. Þetta var sú hliðstæða, sem bent var á af hæstv. forsrh. Það er því ljóst orðið og viðurkennt, sem alltaf var vitað, að framkvæmdaráðið er í raun og veru ekkert annað en lítil aukaríkisstj., þar sem völdin eru í öfugu hlutfalli við stærðina, og raunar er annar mismunur sá, að hin stærri ríkisstj. ber ábyrgð fyrir Alþ., bæði fyrir sig og hina ríkisstj. Hins vegar ber hver kommissaranna væntanlega ábyrgð gagnvart þeim flokki, sem hann er fulltrúi fyrir. Óþarft er þó að vera með miklar getsakir í þessu efni, reynslan mun senn skera úr, hvernig tengslum kommissaranna verður háttað og hvers eðlis þeir eru. Mun þá og á sannast, að svo illa sem mönnum er við þessa þrenningu nú og hlutverk hennar, þá verður mönnum þó enn verr við tilkomu hennar síðar, eftir að áhrifa hennar tekur að gæta í athafnalífinu og bitna á lífskjörum fólksins í landinu.

Í þessu sambandi þykir mér rétt að vekja athygli á ummælum, sem hv. 4. þm. Norðurl. v. viðhafði hér við 1. umr. málsins um kommissarana og völd þeirra. Þá fór hann ekki dult með, að hann lítur á stjórn stofnunarinnar sem eins konar afgreiðslustofnun, sem litla þýðingu hefur aðra en þá að vera eins konar gæða, stimpill eða vörumerki, annað sæju kommissararnir um, en hv. þm. komst svo að orði, með leyfi hæstv. forseta: „Það leiðir því af líkum, að enda þótt framkvæmdaráðið fjalli allítarlega um þessi mál öll, þá hlýtur stjórnin að setja þar sinn lokastimpil á.“

Ég get ekki skilið svo við hið pólitíska eðli kommissaranna, að ég láti ekki í ljós undrun yfir þeim ummælum hæstv. forsrh., sem hann viðhafði hér í hv. d. fyrr í dag, að við sjálfstæðismenn umfram aðra hér í hinu háa Alþ. hefðum vantrú á pólitík og pólitískum mönnum í trúnaðarstöður. Við höfum ekkert reynt að draga fjöður yfir neitt í þessu sambandi hér í þessari hv. d. né í nál. okkar, þvert á móti létum við þess þegar getið, að framkvæmdaráðið væri pólitískt í eðli sínu, og þess vegna væri Framkvæmdastofnun ríkisins pólitísk í uppbyggingu, en það hafa hins vegar aðrir menn gert. Þeir hafa viljað tala sem allra minnst um hið pólitíska eðli framkvæmdaráðsins þangað til nú, að ekki þýðir lengur að dyljast, og það kalla ég að hafa vantrú á pólitík og þeim, sem við hana fást, og þó sérstaklega sinni eigin pólitík, að hafa ekki kjark til að segja þegar í stað, hvernig allt er í pottinn búið. Þetta er mitt mat á því. Allir aðrir geta svo haft sitt mat, en það hygg ég, að sé sannmæli, að við sjálfstæðismenn þurfum ekki að bera kinnroða fyrir og gerum það heldur ekki, þótt einhverjar aðgerðir í atvinnulífinu beri flokksstimpil okkar. Það vita allir, sem þann stimpil sjá, að þar er ekki verið að þrengja að neinum, þar er ekki verið að skammta neitt né koma á nýjum hömlum.

Einkum voru það þó ein ummæli hæstv. forsrh., sem ég vil sérstaklega gera aths. við, en ég hygg, að hann hafi sagt orðrétt hér í hv. d. við umr. í dag: Ég staðhæfi það, að það hafa engir fremur en sjálfstæðismenn notað pólitíska aðstöðu sína. Og nú reynir á það, í hvaða merkingu hæstv. forsrh. notar orðið pólitískur. Ef það er jákvæðrar merkingar, og ég hef enga ástæðu til þess að ætla annað eftir ræðu hans hér í dag, voru þetta vissulega orð í tíma töluð, sanngjörn og viturleg niðurstaða eftir langan stjórnmálaferil.

Í brtt. meiri hl. fjhn. á þskj. 154 er m.a. lagt til, að vald Framkvæmdastofnunarinnar verði enn aukið frá því, sem í frv. segir, með því að lagt er til, að stjórn hennar geti með samþykki ríkisstj. sett almennar reglur um, hvers konar framkvæmdir skuli hafa forgang umfram aðrar og að opinberum sjóðum og öllum lánastofnunum í landinu, ríkisbönkum, einkabönkum, sparisjóðum og innlánsdeildum kaupfélaga, — ég skil það svo, það verður þá leiðrétt, ef rangt er með farið, að þarna sé einnig átt við innlánsdeildir kaupfélaganna, sé skylt að haga lánveitingum sínum í samræmi við það án tillits til ákvæða þeirra laga, sem um þessa sjóði og lánastofnanir fjalla. Það geta menn svo metið hver fyrir sig, til hvers konar glundroða beiting slíks valds mundi leiða.

Mér þótti það svo athyglisvert innlegg, sem hv. l 1. þm. Reykv. hafði hér eftir fyrrv. hv. þm., Ólafi Björnssyni, og hv. 2. þm. Norðurl. e. Ég er honum þakklátur fyrir það, þótt ég að hinu leytinu sé í nokkrum vafa um, að hv. þm. sé alvara í því, að hann sé sama sinnis og þeir ágætu menn í sambandi við stjórn heildarfjárfestingarinnar í landinu og stöðu hinna einstöku sjóða og lánastofnana gagnvart ríkiskerfinu, en það mun fljótt á það reyna.

Við höfum í minni hl. fjhn. flutt um það brtt. á sérstöku þskj., að 3. málsgrein 12. gr. falli brott, en eftir standi 1. og 2. málsgr. Þá höfum við í minni hl. fjhn. gert það að till. okkar, að Byggðasjóður skuli lúta sérstakri þingkjörinni stjórn. Ástæðan til þess er augljós. Í svo viðamikilli stofnun sem Framkvæmdastofnun ríkisins verður samkvæmt frv., er hætt við, að Byggðasjóðurinn verði út undan, og ég tók sérstaklega eftir því, að hv. 11. þm. Reykv. var mér sama sinnis í ræðu sinni hér í dag um umfang stofnunarinnar, þegar hann sagði, með leyfi hæstv. forseta, að verkefni stofnunarinnar snúist um sjálfan kjarnann í landsmálapólitík landsins. Ég minni enn fremur á það, að sú hefur einnig verið hugsun framsóknarmanna, og vitna ég í því efni til stjórnarsáttmálans, að Byggðasjóðurinn skuli lúta sérstakri stjórn. Í sama anda var grein, sem hv. 4. þm. Reykv., form. þingflokks Framsfl., skrifaði í blað sitt, Tímann, hinn 17. okt. s.l., en þá sagði hann, með leyfi hæstv. forseta:

„Í samræmi við það, sem er rakið hér á undan, hafa framsóknarmenn flutt á mörgum undanförnum þingum frv. um, að komið verði á fót sérstakri byggðajafnvægisstofnun, sem verði gerð fær um að sinna því stóra verkefni, sem hér er við að fást. Ætlunin hefur verið, að þessi stofnun leysti af hendi svokallaðan Atvinnujöfnunarsjóð, sem var stofnaður með lögum frá 1966, en starfsemi hans hefur verið allsendis ófullnægjandi. Gert var ráð fyrir, að byggðajafnvægisstofnunin tæki við eignum og tekjustofnum sjóðsins og fengi þar að auki árlegt framlag, sem næmi 2% af öllum tekjum ríkisins. Hlutverk stofnunarinnar væri að annast rannsókna- og áætlanagerð og veita viðbótarlán til atvinnuuppbyggingar, í sumum tilfellum vaxtalaus. Þá gæti hún í vissum tilfellum veitt bein framlög eða gerzt meðeigandi í fyrirtækjum. Þá hefði hún heimild til að veita sveitarfélögum viðbótarlán til að koma upp íbúðarhúsnæði, þar sem skortur á hæfum íbúðum hindraði eðlilegan vöxt byggðar.“

Þetta var, eins og ég sagði, 17. okt. s.l. Þá voru framsóknarmenn eða a.m.k. hluti þeirra enn sömu skoðunar, þeirrar, að vert væri og rétt, að sérstök stofnun fjallaði um byggðamálin, stofnun, sem lyti sérstakri stjórn, stofnun, sem forustumenn byggðarlaganna gætu leitað til og reitt sig á. En nú er öðruvísi sungið. Nú er talað um nauðsyn á nægilegri heildaryfirsýn eða eitthvað í þá áttina, talað um hagræðingu, eina stjórn, en ekki tvær, eins og það séu einhver rök, að betra sé að hafa eina stjórn, sem ekki kemst yfir það, sem hún á að gera, en tvær, sem verk sín geta leyst skilmerkilega af hendi. Hvað sem því líður hef ég ekki enn sannfærst um, hverjar séu hinar raunverulegu orsakir þessarar kúvendingar, og ég skal heldur ekki segja, hverjar séu orsakirnar til þess, að mér finnst svo lítið bera á því, að baráttumál Framsfl. fái að njóta sín í þessari ríkisstj. En hitt hugði ég þó, að Framsfl. eða a.m.k. einstakir þm. hans mundu ekki svo gjarnan láta undan siga, þegar hinir sérstöku hagsmunir strjálbýlisins eru annars vegar. Gefur það vissulega tilefni til frekari upprifjunar í fyrrnefnda grein hv. 4. þm. Reykv., með leyfi hæstv. forseta:

„Því miður vildi fyrrv. ríkisstj. ekki fallast á umrætt frv, framsóknarmanna né aðrar ráðstafanir, sem stefndu að sama tilgangi. Hún talaði fallega um landsbyggðarstefnuna í orði, en sýndi henni litla rækt á borði. Það er hins vegar eitt af aðalloforðum núv. stjórnar að gera nýtt, stórt átak til eflingar byggðajafnvæginu og til viðréttingar þeim landshlutum, sem höllustum fæti standa. Af hálfu Framsfl. verður lögð á það rík áhersla, að við það loforð verði staðið.“

Svo mörg voru þau orð.

Það frv., sem hér liggur fyrir, sýnir, hvernig við efndirnar er staðið, með því að ákveðið er, að Byggðasjóður verði eins konar útibú frá stórri og umfangsmikilli stofnun. Ég vil þó ekki vanþakka það, að fjármagn Byggðasjóðs hefur verið aukið verulega, þótt það að vísu hafi ekki verið aukið í þeim mæli, sem fyrri skoðanir framsóknarmanna gáfu e.t.v. tilefni til að ætla, að verða mundi.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um frv. það, sem hér liggur fyrir. Ég ítreka þó enn þann kvíðboga, sem ég ber í brjósti fyrir því, að hið mikla vald, sem í frv. er, sé fært í hendur örfáum mönnum, verði misnotað og hafi þannig lamandi áhrif á athafnalífið í landinu og uppbyggingu þess. Á hinn bóginn vekur það vissulega góðar vonir, hvert viðhorf hæstv. forsrh. er í þessum efnum, en hann hefur marglýst því yfir þvert ofan í það, sem hv. 4. þm. Norðurl. v. hefur sagt, að með frv. þessu sé ekki stefnt til þjóðnýtingar né fjárfestingarhafta. Þvert á móti sé tilgangurinn sá að rétta einstaklingsframtakinu örvandi hönd. Ég skil orð hæstv. forsrh. svo, að þrátt fyrir allt sé hann þeirrar skoðunar, að frumkvæðið í atvinnulífinu eigi ekki að vera í höndum ríkisvaldsins, heldur í höndum einstaklinganna, fólksins, sem landið byggir. Ég vænti þess því, að hæstv. forsrh. beiti áhrifum sínum til þess, að vægilega verði með það ægivald farið, sem með frv. þessu er fært í hendur örfáum mönnum.