10.12.1971
Efri deild: 28. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 18 í C-deild Alþingistíðinda. (2855)

122. mál, snjóbílar vegna heilbrigðisþjónustu

Flm. (Steingrímur Hermannsson) :

Herra forseti. Ég hef ásamt 1. þm. Vesturl. leyft mér að leggja fram í deildinni á þskj. 163 frv. til laga um aðstoð ríkisins við kaup og rekstur á snjóbílum, þar sem þeirra er þörf vegna heilbrigðisþjónustu.

Ég hygg, að ég þurfi ekki að fara mörgum orðum um þá erfiðleika, sem víða eru í dreifbýlinu í sambandi við heilbrigðisþjónustu. Hér á hinu háa Alþ. hafa fjölmargir hv. þm. á undanförnum árum lagt sig mjög fram við að ráða bót á þessum erfiðleikum. Bent hefur verið á fjölmargar leiðir, sem gætu orðið til þess að bæta það ástand, sem nú ríkir, og hygg ég, að Alþ. hafi með umr. um þessi mál sýnt mjög ákveðinn vilja sinn í þá átt að bæta heilbrigðisþjónustu dreifbýlisins. Því miður hygg ég þó, að það sé staðreynd, að fremur hefur hallað undan fæti, a. m. k. víða, í þessu sambandi. Læknislaus héruð eru mörg og hefur að jafnaði, að ég hygg, farið fjölgandi.

Sérstaklega hefur þetta ástand verið erfitt, þar sem samgöngur eru lélegar eða jafnvel engar vegna snjóa mikinn hluta vetrar, ekki sízt í mörgum útgerðarstöðum, þar sem hætt er við slysum og langan tíma getur tekið að komast til læknis. Sem betur fer hefur á nokkuð mörgum stöðum á landinu rutt sér til rúms notkun snjóbíla, einkum á Austfjörðum og Vestfjörðum, og hygg ég, að óhætt sé að segja, að þessi tæki hafa reynzt mjög mikilvæg ekki sízt í sambandi við heilbrigðisþjónustu, en jafnframt einnig til almennra samgöngubóta.

Einnig hefur verið tekinn upp sá siður, að Alþ. hefur veitt, samkvæmt sérstökum umsóknum, nokkra styrki, bæði til kaupa á snjóbílum og einnig til rekstrar á þeim, og hefur Alþ. þannig í verki staðfest mikilvægi þessara tækja.

Sú lausn, sem helzt virðist vera rætt um nú í heilbrigðismálum dreifbýlisins, er fyrst og fremst fólgin í því að koma upp heilsugæzlustöðvum á nokkrum stöðum í hverjum landshluta, en ljóst má öllum vera, að heilsugæzlustöðvar sem slíkar eru til lítils megnugar, ef læknarnir, sem þar sitja, fá ekki komizt til hinna ýmsu staða í viðkomandi umdæmi. Ég hygg, að þegar þessar stöðvar eru vel komnar á fót, þá muni reynast rétt, að öflugir og góðir snjóbílar verða taldir hin sjálfsögðustu tæki við slíkar stöðvar. Okkur flm. þessa frv. sýnist því tímabært orðið að binda aðstoð ríkisins við kaup og rekstur snjóbíla nokkuð fastari böndum en verið hefur og jafnframt með frv. um slíka aðstoð að vekja athygli á mikilvægi þessara tækja í hinum ýmsu tilfellum, sem ég hef drepið á.

Við höfum sett í frv. ákveðnar hundraðstölur, sem framlag ríkisins miðast við. Ég skal viðurkenna, að þessar tölur eru ef til vill nokkuð úr lausu lofti gripnar, þó að við höfum reynt að kynna okkur þessi mál eins og við frekast gátum, og sýnist mér sjálfsagt, að n., sem fær þetta mál til athugunar, kanni þær tölur nokkru nánar. Við höfum jafnframt talið rétt að setja þá eðlilegu takmörkun, að framlag til rekstrar skuli þó aldrei vera meira en rekstrarhalli. Við höfum einnig sett það skilyrði fyrir framlagi, að skilað sé rekstrarreikningi, en það mun yfirleitt ekki hafa verið gert í þeim tilfellum sem Alþ. styrkir slíkan rekstur nú. Með þessu hyggjumst við binda þetta, eins og ég sagði áðan, nokkuð fastari böndum.

Ég vil einnig vekja athygli sérstaklega á 3. gr. þessa frv., þar sem áherzla er lögð á, að Vegagerð ríkisins skuli athuga, hvort snjóbílum verði við komið, og heimilað er að greiða úr Vegasjóði kostnað við lagfæringar á akstursleiðum í því skyni að gera fært fyrir snjóbíla á vetrum og jafnframt að merkja akstursleið, þar sem þörf krefur.

Ég held, að þetta sé mjög mikilvægt ákvæði, sem þörf hefur verið á víða. Ég þekki sjálfur þess dæmi, að aðeins lítilfjörlegur hliðarhalli eða annar erfiðleiki í landslagi getur valdið því, að snjóbílum verður varla við komið, en þetta mætti lagfæra með afar litlum kostnaði. Auk þess hygg ég, að víða mætti hafa slíkt betur í huga, þar sem vegir eru lagðir almennt.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta, sé ekki ástæðu til þess, enda fylgir þessu nokkur grg., sem skýrir málið frekar. Ég vil aðeins að lokum leggja áherzlu á þá skoðun okkar flm., að hér geti verið um mikilvæga aðstoð vegna heilbrigðisþjónustu að ræða, og legg áherzlu á þá von okkar, að þetta mál fái góða afgreiðslu í hv. d., og vil ég svo leggja til að umr. lokinni, að málinu verði vísað til heilbr.- og félmn.