22.03.1972
Efri deild: 61. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í C-deild Alþingistíðinda. (2866)

228. mál, fiskvinnsluskóli

Flm. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Vegna framkominna spurninga frá hv. 5. þm. Vestf. vil ég upplýsa, að við flm. þessa frv. teljum okkur hafa haft allan þann undirbúning á, sem nauðsynlegur er, og raunar eins og hann rakti. Við höfum rætt frv. í þingflokki okkar, það var ýtarlega rætt þar, og ég hygg mér sé óhætt að segja, að þar kom fram, að hæstv. ríkisstj. hefur í huga að skoða þetta mál allt í heild sinni mjög ýtarlega. Ljóst er, að það tekur nokkurn tíma. Talið var, að skoðun okkar flm. væri eðlileg, að nauðsynlegt væri að hreyfa þessu sérstaka máli fremur fyrr en síðar, vegna þess að skólinn festir bráðum rætur, — það er verið að tala um að kaupa undir hann húsnæði. Á þetta var fallizt, og með fullu samþykki lögðum við því þetta frv. fram.

Ég geri mér fulla grein fyrir því, að sú ýtarlega endurskoðun, sem þessi mál í heild sinni þurfa að fá, getur tafið framgang þessa máls. Þó væntum við þess, að hv. þm. sýni vilja sinn í þessu máli og það fái meðferð við þá athugun, sem fram undan er.

Ég vil fullvissa hv. þm. um, að við skoðuðum málið og það var mjög vel skoðað, þó að ég hafi enga heimild og geti ekki lýst yfir ákveðnum stuðningi hæstv. ríkisstj. við málið. Eins og ég sagði áðan, það þarf að skoða í heild sinni.