08.12.1971
Efri deild: 24. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í B-deild Alþingistíðinda. (289)

86. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Frsm. minni hl. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Mér láðist hér áðan að gera grein fyrir einni af brtt. þeim, sem greint er frá á þskj. 156, frá minni hl. fjhn. Það er 6. tölul. og brtt. er við 32. gr., um það, að við gr. bætist ný málsgr.: „Stjórn Byggðasjóðs skal hafa samráð við landshlutasamtök sveitarfélaga við ráðstöfun fjár úr sjóðnum.“

Hv. 4. þm. Norðurl. v. og hæstv. forsrh. lýstu sig efnislega samþykka þessari brtt., en hv. 4. þm. Norðurl. v. gat ekki alveg fellt sig við orðalagið, svo fortakslaust sem það var, og hefur borið fram sérstaka brtt. um sama efni. Hins vegar hafði hæstv. forsrh. þá einu aths. að gera við brtt. okkar í minni hl. fjhn., að það kæmi ekki fram í henni, að um væri að ræða samráð við viðkomandi landshlutasamtök sveitarfélaga. Ég er honum alveg sammála um það, að auðvitað er óþarfi að hafa samráð við önnur landshlutasamtök en þau, sem lánið eða fjárveitingin á til að ganga, eða það umdæmi, sem landshlutasamtökin taka yfir og lánið á til að ganga. Því leyfi ég mér að óska eftir því við forseta, að inn í þessa brtt. verði skotið „viðkomandi landshlutasamtök“, þannig að hún hljóði svo:

„Stjórn Byggðasjóðs skal hafa samráð við viðkomandi landshlutasamtök sveitarfélaga við ráðstöfun fjár úr sjóðnum.“

Ég vil svo aðeins drepa á þau fáu atriði, sem hæstv. forsrh. gat um, fyrir utan svör hans við fsp. hv. 5. þm. Vestf. Hann gaf þá skýringu, að framkvæmdaráð Framkvæmdastofnunarinnar væri ábyrgt gagnvart ríkisstj. og nefndi sem hliðstæður og dæmi gjaldeyrisnefnd, viðskiptaráð, nýbyggingaráð og fjárhagsráð. Þetta eru nú hin slæmu fordæmi, sem við bendum á, sem eru víti til varnaðar, og ábyrgð stjórna þessara stofnana gagnvart ríkisstj. var alls ekki til fyrirmyndar. Þess vegna held ég, að fátt sýni betur, að hér er farið inn á ranga braut, að sjálfur hæstv. forsrh. nefnir einmitt þær stofnanir, sem við bentum á, að þessi stofnun muni líkjast, þegar á að svara spurningunni, fyrir hverjum framkvæmdaráð beri ábyrgð. Ég gat ekki kosið mér betri staðfestingu á orðum okkar og aðvörunum.

Þá vildi hæstv. forsrh. álíta, að það gætu verið margar skoðanir um, hvernig koma skyldi áætlanagerð fyrir, og um það er ég honum mjög sammála. Ég er þeirrar skoðunar, að sjálfs er höndin hollust í þessum efnum, og flestar rekstrareiningar eru þess umkomnar að gera áætlanir á sínu sviði. Þær verða svo auðvitað að endurskoðast af þeim aðilum, sem þessar rekstrareiningar sækja til í einu eða öðru formi, t.d. varðandi lánsfé, og á því stigi málsins verður að taka afstöðu til, hve æskilegar og arðvænlegar framkvæmdir um er að ræða fyrir þjóðarbúið í heild, og þannig á áætlanagerð sér stað og ákvörðunartaka með eðlilegum hætti, dreifð meðal fólksins í landinu, komandi frá fólkinu til hins opinbera til samræmingar, en ekki að ofan sem fyrirskipun frá stjórnvöldum.

Ég held, að það sé ekki rétt skilgreining hjá hæstv. forsrh., að það skilji okkur að stjórnmálalega, að stjórnarflokkarnir vilji hafa áhrif á framvinduna, setja sér markmið og velja sér leiðir, en við viljum láta framvinduna sjálfa skeika að sköpuðu og skipa okkur í farveg. Ég held, að hvorir tveggja vilji hafa áhrif á framvinduna, og munurinn sé sá, að sjálfstæðismenn vilja hafa áhrif með því að skapa valfrelsi, ábyrgð og ákvörðunarvald hjá einstaklingunum sjálfum og þeirra samtökum sín á milli, eins og t.d. íbúar í sveitarfélagi geta skapað sér markmið og fundið hagkvæmustu leiðir á hverjum tíma. Aðalatriðið í hugum okkar sjálfstæðismanna er það, að ábyrgðina og ákvörðunarvaldið má ekki taka frá einstaklingunum. Miðstjórn í Reykjavík eða í höfuðborg má ekki taka valdið frá hinum dreifðu byggðum og má ekki taka sér svo mikið vald, að ríkisstj. ríki og drottni yfir þegnunum og sitji eftir atvikum e.t.v. yfir þeirra hlut að meira eða minna leyti. Þá teljum við bezt farið, þegar einstaklingarnir sjálfir með samhjálp stjórnvalda sinna geta markað sér leið að þeim markmiðum, sem þeir sjálfir hafa sett.