11.11.1971
Sameinað þing: 12. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í B-deild Alþingistíðinda. (29)

71. mál, innlent lán

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Út af þessu frv. til l., sem hér liggur fyrir, er eitt atriði, sem er mér töluverður þyrnir í augum, og það er varðandi 3. gr., þar sem gert er ráð fyrir því, að spariskírteini þau, sem gefin skulu vera út, eigi að vera án framtalsskyldu. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Ríkisskuldabréfin og spariskírteinin, sbr. 1. gr., svo og vextir af þeim og verðbætur, skulu undanþegin skattlagningu og framtalsskyldu á sama hátt og sparifé.“

Nú er það svo, að undantaka þetta frá framtalsskyldu felur í sér mikla örðugleika fyrir skattaeftirlitið, því að það má með ýmsum leiðum fela fé, og ég sé ekki ástæðu til þess, að þetta ákvæði sé hér haft um framtalsskylduna, því að auðvitað hljótum við að forðast þá hluti, sem torvelda eftirlit skattalögreglunnar. Ég vil því varpa fram til hæstv. fjmrh. þeirri spurningu, hvað sé unnið við þetta atriði, að bréfin séu undanþegin framtalsskyldu. Að vísu má segja, að þetta hafi tíðkazt hjá fyrri stjórn, en það er ekki til eftirbreytni, og ég tel, að það væri vert af þessari stjórn að tryggja á sem beztan hátt starf skattalögreglunnar.