23.02.1972
Neðri deild: 43. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í C-deild Alþingistíðinda. (2906)

182. mál, Tæknistofnun sjávarútvegsins

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Því miður tafðist ég og var ekki kominn til fundar, þegar hæstv. sjútvrh. hóf ræðu sína og fylgdi þessu frv. um Tæknistofnun sjávarútvegsins úr hlaði, en ég vildi um þetta frv. segja nokkur orð.

Í sjálfu sér finnst mér þetta frv. í raun og veru ekki koma fram með nein markverð nýmæli, því að þau verkefni, sem þessari stofnun er ætlað að vinna, eru í höndum annarra stofnana. Út af fyrir sig getur verið gott í orði að segja, að sameina eigi allar tilraunir, allar nýjungar með veiðarfæri og rannsóknir í sambandi við tæknimál atvinnuveganna og þá sjávarútvegsins undir eina stofnun, en ég hygg, að í framkvæmd verði þetta engan veginn létt í vöfum eða eðlilegt. Nú er þessum málum háttað á þann veg, að vissar stofnanir hafa ákveðin verkefni með höndum, og sem dæmi um það ætla ég t. d. að nefna, að Hafrannsóknastofnunin annast fiskileit og tilraunir með ný veiðarfæri. Hún er kostuð á fjárlögum ríkisins, eins og fé er til hennar veitt hverju sinni. Hennar verksvið er mjög margvíslegt, eins og hæstv. sjútvrh. þekkir mjög vel, en það hefur ekkert staðið á þeirri stofnun, sem fyrst og fremst á að standa undir þessari tilraunastarfsemi að meta og vega þýðingu þeirra verkefna, sem eru efst á baugi hverju sinni, og veita fjármagni til þeirra, en þar á ég við Fiskimálasjóð. Fiskimálasjóður hefur í þó nokkuð mörgum tilfellum komið til móts við óskir og kröfur einstaklinga, atvinnufyrirtækja, hreppsfélaga í ákveðnum byggðarlögum um leit að t. d. skelfiskmiðum og haft þá um það mjög náið samráð við Hafrannsóknastofnunina, gert það að skilyrði fyrir styrkveitingum sínum, að Hafrannsóknastofnunin hafi þar mann um borð og skilað sé skýrslum um árangur þeirra verkefna, sem verið er að styrkja hverju sinni. Ég held, að þessi mál hafi verið í nokkuð góðu lagi. En þó eru engin mál það fullkomin, að það megi ekki breyta þeim og færa til betri vegar og þá sannarlega í þessu máli. Í sambandi við þetta má segja, að verkefni slíkrar stofnunar, bæði þessi hluti af hlutverki Fiskimálasjóðs og það verkefni, sem þetta stjfrv. um Tæknistofnun sjávarútvegsins gerir ráð fyrir, þau auðvitað fara fram víðs vegar um landið og eru engan veginn staðsett á neinum einum og ákveðnum stað, að öðru leyti en því, að skrifstofuhaldið hefur verið hér í Reykjavík og þá um leið yfirstjórn þeirrar stofnunar.

Brtt., sem hv. 8. landsk. þm. flytur um, að þessi stofnun, ef þetta frv. verður að lögum, hafi aðsetur á Akranesi, er viðleitni út af fyrir sig í þá átt að draga úr því, að miðstöð alls sé hér á Reykjavíkursvæðinu. En ég hygg, að við, sem erum tvímælalaust þeirrar skoðunar, að við eigum að færa hin fjölmörgu verkefni út um byggðir landsins, eigum fyrst og fremst að vinna að því og finna þær stofnanir, sem skilja eitthvað verulegt eftir sig úti um byggðirnar, bæði útvega sem flestu fólki atvinnu og koma með sem mest fjármagn, sem verður þessum byggðum til góðs. En ég held, að þó að þetta frv. verði að lögum, þá verði þetta tiltölulega lítilvægt atriði í þeirri viðleitni, án þess að ég sé á nokkurn hátt að kasta rýrð á þessa brtt. eða mæla gegn henni.

Þegar við athugum gildandi lög um Fiskimálasjóð, þá segir í 4. gr. þeirra laga, að Fiskimálasjóður veitir styrki til hafrannsókna. Eftir að þessi lög voru sett, voru sett lög um Hafrannsóknastofnunina og þá löngu síðar. En ég hef áður sagt að Fiskimálasjóður hefur komið til móts við starfsemi Hafrannsóknastofnunarinnar á þessu sviði, til rannsókna á fiskigöngum og fiskstofnum. Sama er einnig að segja um tilraunir til veiða með nýjum aðferðum eða nýjum veiðarfærum, tilraunir við verkun og vinnslu sjávarafurða, markaðsleit fyrir sjávarútveginn og aðrar rannsóknir og nýjungar þarfir sjávarútvegsins, og öll styrktarstarfsemi sjóðsins skal vera í samráði við ríkisstj. og hún heyrir undir sjútvrh., hvert einasta atriði eða hver einasta till., sem stjórn Fiskimálasjóðs gerir till. um. Ég get því ekki við lestur þessa frv. sannfærzt um það, að verið sé að stíga mikilvægt spor í þá átt að bæta úr í þessum efnum. Að vísu má benda á ákveðin dæmi þess í þessu frv., sem ekki eru beint tekin fram í lögum um Fiskimálasjóð, eins og t. d. að halda námskeið fyrir starfandi sjómenn til að bæta þekkingu þeirra og kynna tækninýjungar. Ég vil taka það fram, að lögin um Fiskimálasjóð eru það rúm og samstarfið á milli Fiskimálasjóðs og sjútvrn. bæði fyrr og nú hefur verið með þeim hætti og það góð samvinna, að það væri hægt að hafa þetta allt saman innan ramma þeirra laga. Ég tel það t. d. hafa mikla þýðingu í sambandi við kaup og væntanlega komu margra nýrra skuttogara að veita sjómönnum og þá einkum yfirmönnum, sem eiga að vinna á þessum nýju skipum og við nýja tækni, styrk til að kynna sér starfsaðferðir á skipum annarra þjóða. Og ég tel það miklu meira virði en jafnvel að halda einhver námskeið hér á mölinni. Ég tel það líka vera mjög mikils virði bæði að kynna okkar sjómönnum vinnubrögð á þessum skipum og jafnvel um leið að kynna forvígismönnum verkalýðsfélaganna eða réttara sagt sjómannasamtakanna vinnuafköst og störf á þessum skipum með tilliti til nýrrar samningsgerðar um kaup og kjör á þessum skipum. Ég tel, að þjóðfélagið þurfi á engan hátt að sjá eftir þeim fjármunum, sem færu til þessara hluta.

Ég vil svo aðeins víkja að hinni almennu tilraunastarfsemi með ýmsar gerðir veiðarfæra. Fiskimálasjóður hefur veitt marga styrki og til margra hluta, m. a. veitti Fiskimálasjóður í mörg ár styrki til þess að greiða fyrir og standa að smíði á beitingarvél, sem gæti gerbreytt aðstöðunni til línuútgerðar í landinu. Mér er fyllilega kunnugt um það, að hæstv. núv. sjútvrh. er mikill áhugamaður um þetta mál. Hér er um að ræða tvö verkefni, tvenns konar verkefni, annars vegar að flytja inn vél, sem Norðmenn hafa fundið upp og smíðað, reyna hana við íslenzkar aðstæður, og svo aftur á hinn bóginn að halda áfram styrkveitingum til aðila, sem lengst hefur haldið út og notið hefur nokkurra styrkja í þessu sambandi. Ég er ekki einn af þeim, sem vilja stöðva fjárframlög til slíkrar tilraunastarfsemi, þegar búið er að eyða töluverðu fjármagni til hennar og þegar menn og fleiri en hugvitsmennirnir sjálfir hafa þá skoðun, að hugmyndin sé þess virði, að það beri að veita meira fjármagn til hennar. Hins vegar verðum við að hafa í huga, að öll tilraunastarfsemi og allar uppfinningar eru að verulegu leyti fyrst í stað í svo mikilli óvissu, að við vitum ekki, hvort það fjármagn, sem til þeirra fer, skilar sér nokkurn tíma aftur. En þó að það sé ekki nema örlítill hluti af því, sem verður að veruleika og verður til hagsbóta fyrir atvinnulífið, þá borgar sig að láta slíka styrki og slíkt fjármagn af hendi.

Á þessu stigi málsins vil ég ekki mæla gegn þessu frv. En ég vil með þessum orðum benda á, að það fer mjög inn á starfssvið Fiskimálasjóðs. Tekjuöflunin til þess að standa undir þessari stofnun er með þeim hætti, að tekjur Fiskimálasjóðs eru skertar að sama skapi. Ég hefði talið það vera hyggilegra í raun og veru að gera breytingu á lögum um Fiskimálasjóð, jafnvel ef hæstv. ráðh. er þeirrar skoðunar, að meira af fjármagni Fiskimálasjóðs fari í tilraunastarfsemina, að binda það þá í lögum. Ég segi fyrir mitt leyti sem einstaklingur, að ég tel, að það kæmi mjög til greina. Hér er aðeins verið að koma með viðbót til styrktar starfsemi Fiskimálasjóðs.

Einn þátt í starfsemi Fiskimálasjóðs hef ég ekki gert að umtalsefni, en það er markaðsleit. Fiskimálasjóður hefur í nokkrum tilfellum metið og vegið umsóknir og beiðnir, sem komið hafa fram frá samtökum, sem varða útflutningsverzlunina, um að styrkja þau til markaðsleitar sérstaklega, þegar verið hefur um mjög fjárfrekar ferðir eða verkefni að ræða, og sjávarútvegsráðherrar, a. m. k. þeir, sem ég hef haft samskipti við frá því að ég kom á þing, hafa allir þrír tekið mjög vel undir þessa starfsemi.

Svo vil ég einnig koma að því, að ein grein í starfsemi Fiskimálasjóðs er bein lánastarfsemi. Það er að vísu ekki stór grein í starfi sjóðsins, því að sjóðurinn má aðeins veita hámarkslán 600 þús. kr. til hverrar einstakrar greinar í sjávarútvegi, og ég held, að a. m. k. okkur, sem höfum haft svo að segja dagleg kynni og margra ára tengsl við sjávarútveginn, hafi þótt gott að eiga þar hauk í horni til þess að brúa bil, þegar búið hefur verið að fá lán úr stærsta stofnlánasjóðnum. Ég tel því, að það sé þörf á að halda þeirri starfsemi áfram, enda heyrði ég ekki á hæstv. ráðh., að þar væri neinnar breytingar að vænta.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð miklu fleiri. En ég vænti þess, að sú n., sem fær þetta frv. til meðferðar, beri það mjög ýtarlega saman við gildandi lög um Fiskimálasjóð og athugi, og hafi þá um það mjög náið samráð við hæstv. sjútvrh., hvort ekki megi komast að þeirri niðurstöðu, að við náum sama tilgangi, því að í raun og veru stefnum við að því sama, og eins og ég sagði í upphafi máls míns, þá má auðvitað ýmislegt út á lög um Fiskimálasjóð setja og vafalaust má finna að mörgu í starfsemi þess sjóðs, sem er nauðsynlegt að bæta úr, og geta komið fram um það skynsamlegar ábendingar.