23.02.1972
Neðri deild: 43. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í C-deild Alþingistíðinda. (2908)

182. mál, Tæknistofnun sjávarútvegsins

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Ég fagna nú þeim áhuga, sem hér hefur komið fram í sambandi við það mál, sem hér er til umr., og er enn þá sannfærðari en áður um það, að hér er gripið á máli, sem er orðið brýnt að vinna að lausn á. Ég er síður en svo hissa á þeim aths., sem hér hafa komið fram frá einstökum þm. út af ýmsum atriðum, sem snerta málið. Ekkert af þessum aths. kemur mér í rauninni á óvart. Ég hef heyrt þessar aths. svo að segja allar áður og vantar þó nokkuð á, að allar þær aths. hafi komið fram í þessum umr., sem ég hef heyrt, þegar þetta mál hefur verið til umr. og í undirbúningi, og líklega stafar það af því, að þm. eru ekki í beinum tengslum við ýmsa þá aðila, sem svolítið hafa komið að þessum málum á undanförnum árum. Ég býst við því, að ef þeir hefðu átt hér sæti, þá hefðu þeir hver komið fram með sín sjónarmið og vissulega getað bent á það, að það finnst lagastafur fyrir því, að ekki ein, heldur margar stofnanir á Íslandi gætu látið sig skipta þessi mál, sem hér er verið að ræða um.

Hv. 8. landsk. þm., Benedikt Gröndal, minntist á það í aths. sínum, að það væri rétt að geta þess líka, að margir einstaklingar hefðu lagt fram drjúgan skerf á undanförnum árum í sambandi við tæknimál sjávarútvegsins. Þetta er vissulega rétt. Það er ekkert um það að villast, að margir einstaklingar hafa unnið að þessum málum og lagt á sig mikið erfiði og kostnað til þess beinlínis af sínum eigin fjármunum, allverulegar fjárhæðir, til þess að koma þar fram ýmsum nýjungum. Þetta er rétt. En þeir hafa líka sumir hverjir fengið nokkurn stuðning af hálfu opinberra sjóða.

Hv. 8. landsk. þm. minntist á það, að hann hefði þegar lagt hér fram brtt. um það, að þessari ríkisstofnun yrði ætlaður staður á Akranesi, en ekki í Reykjavík. Ég tel fyrir mitt leyti alveg sjálfsagt að athuga þessa hugmynd. Ég er ekki á nokkurn hátt bundinn við það, að stofnun eins og þessi þurfi fremur að vera í Reykjavík en í einhverjum nágrannabyggðarlögum. Mér er ljóst, að það er svo með þessa stofnun eins og reyndar mjög margar aðrar, að það er ýmislegt, sem Reykjavíkuraðstaðan, eins og hún er orðin, hefur fram að færa með sér og veitir þannig að vissu leyti betri aðstöðu í ýmsum tilfellum en staðir langt frá Reykjavíkursvæðinu, þó að það sé ekki í öllum. En ég tel að staðsetning stofnunar eins og þessarar t. d. hér á Suðurnesjum, í Hafnarfirði eða á Akranesi, gæti fyllilega komið til greina, og ég tel sjálfsagt, að það mál verði athugað út af fyrir sig.

Ég held nú, þegar rætt er um það atriði að ætla þessari stofnun annan stað en ráð hafði verið fyrir gert, að það blandist inn í þær umr., sem hér hafa orðið á Alþ. um það að dreifa stofnunum út um landið. Ég tek undir það fyrir mitt leyti, að það þarf að vinna að því. Ég held hins vegar, að þegar kemur að því að ná einhverjum verulegum árangri í þeim efnum, þá þurfum við að huga að ýmsum stórum og umfangsmiklum stofnunum, sem eru nú í Reykjavík og hafa verið í Reykjavík, en eru í ríkum mæli þjónustustofnanir fyrir allt landið, og það sé vel hægt að færa, þær úr Reykjavík eða a. m. k. vissan hluta af þessum stofnunum, og það skipti í rauninni fyrir byggðarlögin út á landi miklu meira máli heldur en jafnvel þó að stofnun af þessari stærð yrði valinn staður t. d. á Akranesi.

Hv. 2. þm. Vestf. gerði nokkrar aths. við frv., og mér fannst á honum, að honum fyndist, að í rauninni gerði þetta frv. ekki ráð fyrir miklum nýjum verkefnum umfram þau verkefni, sem Fiskimálasjóður hefði með höndum eða gæti unnið að. Ég minntist á það strax í minni framsöguræðu, að mér er þetta mjög vel kunnugt. Ég veit, að það er að finna ákvæði í lögum um Fiskimálasjóð, það er einnig að finna ákvæði í lögum um Hafrannsóknastofnun og einnig vitanlega í sambandi við verksvið Fiskifélagsins, enda hafa allir þessir aðilar meira og minna komið fram og sagt: Nei, látið þetta vera eins og það er. Þetta er okkar mál. — En ég hef verið í fiskimálanefnd, starfað þar og fylgzt með störfum hennar í mörg ár, og mér er fullkunnugt um það, að sú n. leysir ekki þau verkefni, sem hér er um að ræða, nema á svo ófullkominn hátt, að ég tel með öllu óviðunandi. Sannleikurinn er sá, að aðalverkefni Fiskimálasjóðs hefur verið nú um margra ára skeið að veita viðbótarlán ýmsum aðilum, sem standa í margvíslegum framkvæmdum í sambandi við sjávarútvegsmál. Auk þess hefur svo þessi sjóður veitt nokkuð af styrkjum ýmsum aðilum, venjulega litla styrki, sem stundum hafa komið að góðu liði. En af hálfu þessarar stofnunar hefur ekki nú um langa hríð verið hægt að tala um neina beina starfsemi eða forustu, sem þessi sjóður hefði þannig með höndum, að hann gæti leyst sjálfstætt af hendi einhver meiri háttar verkefni, enda hefur þessi sjóður ekki á að skipa neinu sérstöku starfsliði nema rétt til að ganga frá lánsskjölum og innheimta afborganir og vesti.

Mér hefur vitanlega komið í hug í sambandi við þessi mál nú, og reyndar áður, þegar þessi mál hafa verið til umr., hvort það ætti að dubba upp Fiskimálasjóð og fela honum þessi stóru verkefni og sjá um það, að sjóðurinn yrði byggður upp á þann hátt, að hann gæti leyst þessi verkefni, að hann hefði þá í þjónustu sinni ekki aðeins einn, heldur nokkra tæknifróða menn og verkstæði og gæti unnið jöfnum höndum sjálfstætt að því að leysa þessi verkefni, sem við vitum, að þarf að leysa, eða gæti tekið að sér að vinna úr þeim hugmyndum, sem til hans berast. Sannleikurinn um Fiskimálasjóð hefur verið sá, að til hans hafa verið að berast æ ofan í æ alls konar hugmyndir um tækniframfarir eða um tæknimálefni varðandi sjávarútveginn, og þessi sjóður hefur verið að veita mönnum styrki eða lán, og mér er kunnugt um þó nokkuð mörg dæmi sjávarútvegsins. þess efnis, að sjóðurinn hefur gert þetta hvað eftir annað út á sömu hugmyndina, af því að það hafa verið komnir nýir menn í Fiskimálasjóð, sem hafa ekki vitað fyllilega um það, sem búið var að gera í þessum efnum áður. Þetta er ósköp eðlilegt, vegna þess hvernig þar er staðið að verkum. Hér er aðeins um það að ræða, að sjóður með litla fasta starfsemi metur þær umsóknir, sem til hans berast hverju sinni, og komi þar fram góðar hugmyndir, þá telja sjóðsstjórnarmenn eðlilegt, að reynt sé að hlúa að þeim og sannprófa þær. En það er fjarri því, að sjóðurinn hafi aðstöðu til þess að fylgja því eftir, að endanlegum árangri sé náð.

Það var sem sagt vel hugsanleg ein leið í þessum efnum, en hún var að gera þessum sjóði kleift að yfirtaka þessi verkefni. Ég álít hins vegar, að Fiskimálasjóður hafi með höndum ýmis verkefni enn auk þessara af þessu tagi, sem hann eigi að sinna. Ég vil fyrir mitt leyti ekki að svo komnu máli fella niður þá starfsemi sjóðsins, að hann geti veitt viðbótarlán við hin fastmörkuðu stofnlán til ýmissa framkvæmda, nokkurs konar áhættulán, þar sem jafnvel er verið að ryðja nýjar rekstrarbrautir, og hann geti sinnt þeim mörgu verkefnum, sem hv. 2. þm. Vestf. minntist m. a. á. En ég er á þeirri skoðun, að ekki væri óeðlilegt, að vegna þeirrar starfsemi, sem þessi sjóður átti að hafa með höndum og hefur haft með höndum, væri ákveðið, að nokkur hluti af árlegum tekjum hans yrði tekinn og þeim varið gagngert í þessu skyni, til stofnunar, sem gæti unnið að þessu á áframhaldandi hátt. En þegar það var ákveðið, þá vil ég ekki heldur fallast á þá ályktun, sem hér kom fram hjá hv. 5. þm. Norðurl. e., að með þessu sé verið að veikja Fiskimálasjóð. Ég álít, að þeim hluta af tekjum sjóðsins, sem á þennan hátt er tekinn og ráðstafað í þessu skyni, sé áfram ráðstafað í það, sem þessi sjóður átti að hafa með höndum. Ef við hefðum létt af sjóðnum algerlega þessum verkefnum, en látið hann eftir sem áður halda öllum sínum tekjum, þá vorum við að auka tekjur sjóðsins til þeirra verkefna. En það var aðeins ofur eðlilegt, þegar þessu verkefni er létt af sjóðnum, að nokkur hluti af tekjum hans renni þá með verkefninu til þeirrar stofnunar, sem fyrst og fremst á að hafa verkefnin með höndum.

Það er mér svo fullkunnugt um, að löggjöf okkar er á þessa lund, eins og hv. 2. þm. Vestf., Matthías Bjarnason, minntist hér á, að það er talað um, að Fiskimálasjóður eigi að styrkja og styðja fiskirannsóknir og fiskileit og athuga fiskigöngur og þess háttar, og hann getur haft með að gera athuganir jöfnum höndum á markaðsmálum, veiðarfærarannsóknir og tilraunir á þessu eða hinu sviði. Verkefni sjóðsins er afskaplega vítt samkv. lögum. Ég tel hins vegar, að þessi mál hafi þróazt þannig, að það sé miklu eðlilegra, að Hafrannsóknastofnunin gefi sig fyrst og fremst að öllum fiskirannsóknum og fiskimiðaleit, en þar geti vitanlega Fiskimálasjóður ekki verið nema alger aukaaðili sem grípur inn í í alveg sérstökum tilvikum, eins og gert hefur verið. Ég tel líka, að það sé miklu eðlilegra, að Hafrannsóknastofnunin með þau gífurlegu verkefni, sem hún á óleyst og hún þarf að geta unnið að, vinni að þeim verkefnum og krefjist þá meiri fjármuna til þess að geta sinnt þeim, og þarf ekki að útskýra hér fyrir neinum hv. þm., hvaða verkefni það eru, heldur en það, að sú stofnun eigi að hafa sérstaklega með höndum almennar tæknirannsóknir fyrir sjávarútveginn. Mér er vel kunnugt um það, að á vegum þeirrar stofnunar eru uppi kröfur um það, af því að það finnast um það ákvæði í lögum, að það sé hún, sem eigi að hafa með höndum allar rannsóknir varðandi gerð fiskiskipa. Svo kemur bara önnur stofnun, sem segir: Það er ég, sem á að hafa þetta með höndum, því að það er miklu nær mínu verkefni.

Ég óttast sem sagt ekki um það, að Hafrannsóknastofnunin hafi ekki meira en nóg að gera á sínu eiginlega sviði og við það, sem að kallar hjá henni, þó að þessi þáttur yrði fyrst og fremst færður yfir til annarrar stofnunar. Ég tel, að viðvíkjandi þeim þætti, sem Hafrannsóknastofnunin hefur haft með að gera og unnið allmyndarlega að nú á síðari árum, þ. e. a. s. ákveðnum veiðarfæratilraunum, þar kæmi vissulega til greina ákveðið samstarf á milli þessarar stofnunar, sem hér er verið að ræða um, og Hafrannsóknastofnunarinnar á því sviði eða hrein verkaskipting á milli þeirra varðandi þetta atriði. Það álít ég nánast eins og hvert annað framkvæmdaratriði, en ekki að það eigi að verða til þess, að hér verði togazt á um verkefni, sem leiði síðan til þess, eins og gert hefur hjá okkur á undanförnum árum, að meginkjarni verkefnanna fáist ekki leystur.

Ég vil taka það fram í tilefni af því, sem hér kom fram hjá hv. 2. þm. Vestf., að því fer víðs fjarri, að þetta frv. sé flutt af mér varðandi Tæknistofnun sjávarútvegsins vegna þess, að ég hafi talið, að það vantaði ákvæði í lögum, að það mætti vinna að þessum verkefnum. Nei, sannleikurinn er sá, að það er að finna ákvæði um næstum öll þessi atriði í mörgum lögum. En það, sem fyrst og fremst vakti fyrir mér, var að reyna að koma því fram, sem hvað eftir annað hefur komið fram af hálfu sjávarútvegsmanna á undanförnum árum, að það þyrfti að ná tökum á þessu verkefni og leysa verkefnið. Við verðum að játa það eins og það er, að málið er þannig nú, að það er mjög veik starfsemi hjá okkur, sem snýr virkilega að því að vinna að tækniframförum í okkar grundvallaratvinnuvegi, sjávarútveginum. Það er mjög veik starfsemi. Á því sviði höfum við t. d. ekkert frambærilegt verkstæði eða vinnuaðstöðu og sárafáa tæknimenntaða menn á hinum ýmsu sviðum þessara mála, sem við þurfum þó virkilega á að halda í okkar þjónustu, þannig að þeir geti unnið að þessum störfum.

Hér kom fram frá hv. 5. landsk. þm. ábending um, að það væri e. t. v. rétt, að þessi nýja stofnun yrði felld undir þá heildarstarfsemi, sem unnið er að á vegum nokkurra stofnana og lög um rannsóknastofnanir í þágu atvinnuveganna fjalla um. Það getur vel komið til mála, að það sé rétt að ætla þessari stofnun þar stað. Það er sjálfsagt að huga að því. En ég held, að aðalkjarni málsins sé sá, að við þurfum að ná þessum aðalverkefnum inn í eina stofnun, sem hefur á að skipa tæknimenntuðu starfsliði og getur boðið sæmilega vinnuaðstöðu, ræður m. a. yfir verkstæðum, þar sem hægt er að gera tilraunir og vinna að því að fullgera vélar og tæki, —- það sé aðalatriðið. Ég veit, að m. a. Fiskifélag Íslands sækir það af talsvert miklum áhuga að hafa með alla þessa starfsemi að gera, og forustumenn þar halda því fram, að Fiskifélagið hafi sinnt þessum málum um langan tíma og það sé langeðlilegast, að þessi stofnun ætti beinlínis að vera á vegum Fiskifélagsins og Fiskifélagið ætti að fá aðstöðu til að ráða þessa menn í sína þjónustu og stjórna þessu öllu. En eins og ég segi, það eru aðrar opinberar stofnanir, sem halda hinu sama fram, og niðurstaða mín er sú eftir þá athugun, sem ég hef látið gera á þessum málum nú í fullu samræmi við það, sem hafði komið fram áður margsinnis hér á Alþ., — mín skoðun er sú, að það fari bezt á því að sameina þessa starfsemi í einni stofnun undir einni stjórn, án þess þó að ákveða nokkuð um það gagnvart stofnunum, sem hafa unnið að þessum málum, bæði vegna skyldleikans við sín verkefni í vissum tilfellum eða af almennum áhuga, án þess að það sé verið að ryðja þeim á nokkurn hátt út af þeim starfssviðum, sem þær hafa tekið sér á undanförnum árum. En hitt á að vera öllum ljóst, sem til þekkja, að það er ekki unnið núna að þessum málum á svo myndarlegan hátt sem þarf að verða hjá okkur.

Það má vel vera, að setja mætti inn einhverja gr. í frv. alveg beint um það, sem sagt er hér í grg., að þessi stofnun skuli hafa samstarf við ýmsar aðrar stofnanir. Auðvitað gæti slíkt líka verið beint reglugerðaratriði, og það skiptir auðvitað engu höfuðmáli. Það, sem skiptir aðalmáli, eins og ég hef sagt, það er, hvort það sé ekki tími kominn til þess að setja upp stofnun af þessu tagi, sem sinni þessum verkefnum, m. a. vegna þess að þeim sé ekki sinnt á þann hátt, sem okkur er þörf á nú.

Ég vil svo þakka góðar undirtektir, því að mér er það ljóst, að allir þeir, sem hér hafa talað, taka jákvætt undir það efni, sem frv. fjallar um. En eins og ég hef sagt, þá er ég ekkert hissa á því, þó að það komi hér fram skoðanir um það, að e. t. v. væri frekar rétt að fela þessi verkefni Hafrannsóknastofnuninni, Fiskifélaginu, Fiskimálasjóði eða enn öðrum stofnunum, sem hér hafa komið til greina. Þessar hugmyndir hafa hvað eftir annað komið upp á undanförnum árum, og það hefur orðið til þess kannske, að þessar stofnanir hafa verið að fást við þetta á þennan hátt, sem þær hafa gert, en á algerlega ófullnægjandi hátt.

Ég vil svo endurnýja þá ósk mína til þeirrar n., sem fær málið, að hún athugi allar þær ábendingar, sem hér hafa komið fram. Ég er algerlega opinn fyrir því að breyta þessu frv. Ég tel það sjálfsagt, ef meginmarkmiðinu verður náð, þ. e. a. s. að við náum sterkari tökum á því að leysa það verkefni, sem hér bíður óleyst í þessum efnum.