12.04.1972
Neðri deild: 59. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í C-deild Alþingistíðinda. (2922)

241. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Í þessu frv. eru því miður ekki fólgnar þær umbætur á málefnum íslenzks landbúnaðar, ekki þær breytingar á íslenzkri landbúnaðarstefnu, sem nauðsynlegar eru og hafa verið nauðsynlegar undanfarið. Til þess liggja án efa ýmsar ástæður. Ein ástæðan er sú, að ég tel þetta frv. hafa fengið óeðlilegan undirbúning.

Eins og kom fram hjá hv. fyrrv. landbrh., skipaði fyrrv. ríkisstj. n. sérfróðra manna til að gera athugun á því, hvort og þá hvers konar heildarbreyting kæmi til mála á stefnunni í málefnum íslenzks landbúnaðar og afskiptum hins opinbera af málefnum hans. Sú n. hefur verið lögð niður, en nýrri n. í skyndi falið að semja þetta frv. Þessi skyndivinnubrögð tel ég vera eina ástæðu þess, að frv. er svo gallað sem raun ber vitni um. Höfuðgalli þess er auðvitað sá, að í þessu frv. er ekki mörkuð ný heildarstefna í málefnum íslenzks landbúnaðar, eins og þó er nauðsynlegt. Það er höfuðannmarki frv. Ég mun síðan koma að því, að þrátt fyrir allt eru á frv. nokkrir kostir, þó að ég telji gallana meiri og þó sérstaklega þennan galla, að það vantar, að mörkuð sé í frv. ný heildarstefna, ný umbótastefna í málefnum íslenzks landbúnaðar.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að íslenzkt þjóðfélag styrkir landbúnað sinn með miklum fjárhæðum, og það á að gera það. Ástæður eru þannig á Íslandi, eins og í mörgum nálægum löndum, að nauðsynlegt er, að þjóðarheildin styrki þennan atvinnuveg, landbúnaðinn. Það er ekkert sérstakt um Ísland, þó að styrkirnir til landbúnaðarins hér á Íslandi séu án efa hlutfallslega meiri en gerist í a. m. k. flestum nálægum löndum, svo að ég tali mjög varlega. En þó að viðurkennd sé almenn nauðsyn á því, að þjóðfélagið í heild og þá ríkisvaldið stuðli að því með beinum og óbeinum styrkjum, að landbúnaður sé stundaður í landi eins og Íslandi, þá á þessi aðstoð auðvitað ekki að vera meiri en nauðsynlegt er, og aðstoðin á að vera þannig, að hún auki framleiðni í þessari atvinnugrein og lækki framleiðslukostnaðinn, þ. e. a. s. lækki landbúnaðarverðið frá því, sem ella mundi vera. Það er að mjög litlu leyti stuðlað að slíku í þessu frv., og það er höfuðgalli þess. Það, sem vantar, er lagasetning um málefni íslenzks landbúnaðar, þar sem stuðlað er að aukinni framleiðni í landbúnaðinum, til þess að hægt sé að lækka landbúnaðarvöruverðið til neytenda. Þetta er kjarni málsins. En ég held, að enginn, sem þetta mál kynnir sér rækilega, geti orðið í vafa um það, að beinn og óbeinn styrkur íslenzka þjóðfélagsins til landbúnaðarins er óeðlilega mikill, er óeðlilega þungbær ríkissjóði og skattborgurum. Ég minni aðeins á útflutningsbæturnar sem óumdeilanlega tölu í þessum efnum, en þær voru á s. l. ári um 400 millj. kr. M. ö. o. ríkissjóður sjálfur greiðir hverju einasta bóndabýli á landinu að meðaltali milli 70 og 80 þús. kr. árlega í útflutningsbætur, og er þá auðvitað ótalin öll sú feikimikla, sumpart beina og sumpart óbeina aðstoð, sem skiptir hundruðum milljóna kr., sem landbúnaðurinn nýtur í ýmsu öðru formi. Ég segi það enn, — ef takast mætti að koma í veg fyrir, að út úr orðum mínum verði snúið, sem ég geri mér ekki miklar vonir um að vísu, — að ég segi þetta ekki í þeim tilgangi fyrst og fremst að telja þetta eftir. Aðstoð við íslenzkan landbúnað er nauðsynleg og sjálfsögð. En hún á ekki að vera meiri en nauðsynlegt er, að því er engum gagn, auðvitað ekki skattborgurunum, sem borga peningana, og bændum er ekkert gagn að því heldur, þvert á móti, ef yfir lengri tíma er litið.

Það, sem vantar í þetta frv., er fyrst og fremst sú heildarskoðun á málinu, sem í því fælist að telja saman þær upphæðir, sem ganga til aðstoðar íslenzks landbúnaðar, ef svo mætti segja, að láta þær allar saman í einn sjóð og athuga síðan frá þjóðfélagslegu sjónarmiði ásamt sjónarmiði bænda og neytenda, hvernig þessum heildarsjóði yrði bezt ráðstafað í þágu þjóðarheildarinnar, auðvitað með hliðsjón af því, að það er meiningin að styðja atvinnurekstur sérstakrar stéttar, þ. e. a. s. bændastéttarinnar á Íslandi, stuðla að því, að við framleiðum sjálfir þær landbúnaðarafurðir, sem landkostir leyfa, að hér séu framleiddar:

Vandinn, sem við er að etja í þessum efnum, er fólginn í því, að fyrir heildarlandbúnaðarframleiðsluna fæst miklu minna en hún kostar í framleiðslu, það fæst miklu minna fyrir þær afurðir, sem íslenzkur landbúnaður framleiðir, en kostar að framleiða þær. Til þess liggja ýmsar orsakir, hversu mikið vantar á, að framleiðslukostnaðurinn fáist. Frumorsökin er sú, að verulegur hluti af landbúnaðarframleiðslunni, allt að 10%, er nú fluttur á erlendan markað fyrir miklu lægra verð en nemur framleiðslukostnaði, og mun ég koma að því hér á eftir. Önnur orsökin er sú, að það er of lítil fjölbreytni í framleiðslunni fyrir innanlandsmarkaðinn. Það væri hægt að fá meira verð fyrir þær landbúnaðarvörur, sem seldar eru á innlendum markaði, ef þær væru fjölbreyttari en þær eru. Og í þriðja lagi er meginorsökin sú, að það, sem er framleitt, bæði fyrir innanlandsmarkað og fyrir útflutningsmarkað, er framleitt í allt of litlum framleiðslueiningum á allt of litlum búum. Þetta eru þrjár meginskýringarnar á vandanum, sem við er að etja, þeim vanda, að það fæst minna fyrir framleiðsluna en framleiðslukostnaðinum nemur.

Mér er mjög til efs, að jafnvel hv. alþm., hvað þá íslenzkur almenningur, geri sér í raun og veru grein fyrir því, hvernig ástandið er núna í markaðsmálum landbúnaðarins erlendis. Mér er það mjög til efs, og þess vegna þykir mér rétt að skýra frá því, hvernig ástandið raunverulega er, til þess að undirstrika nauðsyn þess, að hér séu gerðar sérstakar ráðstafanir til að komast út úr þeim vítahring, sem íslenzkur landbúnaður og íslenzk efnahagsmál að þessu leyti eru í.

Framleiðslukostnaður á dilkakjöti er nú talinn vera um 135 kr. á kg. Útflutningsverð á beztu markaðina, þ. e. a. s. markaðina í Noregi, Svíþjóð og Danmörku, er 110 kr., sem má teljast mjög gott, miðað við ástand á öðrum mörkuðum og fyrri tíma, m. a. vegna samnings okkar sem aðila að EFTA. En við komum ekki nema litlum hluta af dilkakjötinu á þennan góða markað, á Noregs-, Svíþjóðar- og Danmerkurmarkaðinn. Við seljum verulega mikið magn til Færeyja og á aðra markaði, og þar er útflutningsverð á dilkakjöti, sem kostar 135 kr. í framleiðslu, 75 kr., og þó er þetta bezta landbúnaðarframleiðsla, sem stunduð er. 45% ostur kostar í framleiðslu hér innanlands 180 kr., en hann er seldur til útlanda fyrir 48–50 kr., þ. e. a. s. fyrir 20–25% framleiðslukostnaðarverðsins. Nýmjólkurduft kostar í framleiðslu 155–160 kr., en er selt til útlanda fyrir 52 kr. Smjör kostar í framleiðslu 330 kr. kg, en er selt til útlanda fyrir 105–110 kr. eða þriðjung framleiðslukostnaðarverðsins.

Þarf að fjölyrða um það, þjóðhagslega séð, að á þessu verður að verða breyting, því að mismuninn á því, sem erlendi neytandinn greiðir, og framleiðslukostnaðinum greiða íslenzkir skattgreiðendur í einu eða öðru formi. (Gripið fram í.) Já, ég skal víkja svolítið að því á eftir, það er að sjálfsögðu flókið mál, en höfuðatriðið í breytingunni á auðvitað að verða það, að draga úr offramleiðslunni, að þurfa ekki að selja á erlendan markað, gera ráðstafanir til þess, að ekki þurfi að selja á erlendan markað með þessu mikla tapi. Það á að skipuleggja framleiðsluna þannig, að framleiðslan sé fyrir innlenda markaðinn. Innlendir neytendur eru ekki of góðir til að greiða það verð fyrir vöruna, sem bóndinn raunverulega þarf til að njóta sams konar lífskjara og verkamaður, iðnaðarmaður og sjómaður við sjávarsíðuna. Ég tel ekki eftir mér og tel ekki eftir nokkrum öðrum neytendum að greiða bóndanum það verð, sem þarf til þess að njóta sómasamlegra lífskjara. En ég sé enga ástæðu til að hvetja íslenzka bændastétt til að framleiða kjöt handa Færeyingum og smjör handa einhverjum öðrum, þar sem íslenzkir skattgreiðendur eru látnir greiða helminginn og upp í 2/3 af verðinu. Þetta er fásinna — fullkomin fásinna, og það ætti enginn vandi að vera að haga skipulagningu í íslenzkum landbúnaði þannig, haga landbúnaðarrekstrinum þannig, að það sé framleitt fyrir okkur, sem búum í landinu, en ekki fyrir þá, sem búa í Færeyjum eða í Noregi eða í Bretlandi. Þeir geta séð fyrir sér sjálfir, við þurfum ekki að kosta matinn ofan í þá. (Gripið fram í.) Alveg sammála þessu, þeir hafa unnið að breytingum í dönskum landbúnaði, sem hníga í þessa sömu átt. Annars sýnir hv. þm. óþarfa fáfræði af viðskiptafræðingi og gömlum nemanda mínum að vera að taka danskan landbúnað til samanburðar í þessu efni. Sök sér væri, ef hann hefði nefnt norskan eða sænskan, því að sérstaklega í Noregi eru aðstæður miklu líkari okkar. En sænskir og norskir jafnaðarmenn hafa einmitt unnið að því á undanförnum árum, að landbúnaðarframleiðslan þar yrði ekki meiri en nauðsynlegt er til þess að seðja innlenda munna. Þess vegna hafa verið gerðar skipulagðar ráðstafanir, sénstaklega í Svíþjóð, til þess að draga úr landbúnaðarframleiðslu á óarðbærum búum í því skyni að minnka þennan vanda, sem var til hjá þeim, þó að það sé barnaleikur hjá vanda okkar, — minnka þennan vanda, sem var hjá þeim, þannig að Svíar nálgast nú það mark að þurfa ekkert að flytja út af innlendri landbúnaðarvöru, heldur er aðeins verið að framleiða landbúnaðarvöru á innlenda markaðinn og mæta þar með lífskjörin mjög verulega.

Ég segi um þetta frv. almennt, að í það skortir heildarsjónarmiðið, það skortir í það heildarskilninginn á því, í hverju vandi íslenzks landbúnaðar er fólginn. Þar af leiðandi er ekki von heldur, að í frv. séu fólgin ráð til þess að leysa vandann. Fyrst er að skilja vandann, svo er að láta sér detta í hug leiðir til þess að komast út úr honum. En þetta frv. ber vott um hvorugt, hvorki skilning á vandanum né heldur till. um það, að ráðin sé botn á honum. Þó er það svo, að í frv. eru ákvæði, sem ég tel vera til bóta, og skal sízt draga úr áherzlu minni á þau atriði.

Þá nefni ég fyrst og fremst ákvæðin í 3. gr. þar sem heimilt er að leggja allt að 25% gjald á innlent kjarnfóður. Þetta ákvæði tel ég til stórkostlegra bóta, vel að merkja, ef heimildin verður notuð, vegna þess að kjarnfóðurnotkun, eins og allir vita, er hér í algjöru óhófi. Kjarnfóður er notað þannig, að ekki er nokkurt minnsta vit í því frá efnahagslegu eða hagfræðisjónarmiði séð. Þetta ætti að geta stuðlað að því, að minnkun yrði á framleiðslu til útflutnings. Þetta ákvæði tel ég til bóta og ég vil, verði það að lögum, eindregið vonast til þess, að heimildin verði notuð. Ég er sannfærður um, að þetta er sína rétta sporið í frv., sem eitthvað kveður að, og skal sannarlega ekki standa á mér að viðurkenna það, sem rétt er gert af hálfu hæstv. landbrh. og ríkisstj. í heild.

En áður en greininni lýkur, — ekki gat greinin öll verið í lagi, því er nú verr og miður, — áður en greininni lýkur, er ákvæði um það, að einnig sé heimilt að leggja 5% viðbótarálag á útsöluverð kjarnfóðurs og nota það til þess að aðstoða við nýbyggingar vinnslustöðva landbúnaðar, mjólkurstöðva, sláturhúsa og annarrar hagræðingar vinnslustöðva í landbúnaði. Ástæðan til þess, að ég tek jafndjúpt í árinni og ég geri um 25% gjaldið, að það sé til bóta, er sú, að það mun stuðla að vissri hagræðingu í landbúnaðarframleiðslunni, gera hana skynsamlegri en ella hefði verið, og það á ekki að koma fram í útsöluverði landbúnaðarvörunnar, m. ö. o.: neytandinn á ekki að borga það. Þess vegna hef ég ekkert við þetta að athuga, heldur þvert á móti, ég fagna því.

Sama gildir ekki um 5% gjaldið, sem á að nota til þess að styðja byggingu mjólkurstöðva og sláturhúsa. Það 5% gjald eiga bændur ekki að borga, heldur á neytandinn að borga það. Það á að hækka landbúnaðarvöruverðið. M ö. o.: neytandinn á ofan á allt annað, sem hann nú gerir, að taka að sér 5% gjald á útsöluverð erlends kjarnfóðurs til þess að hjálpa landbúnaðinum að endurnýja sín mjólkurbú og sín sláturhús. Þetta skyldi maður eftir venjulegum reglum halda að væri verkefni bændastéttarinnar sjálfrar. Hver er sú stétt, sem þarf að standa í framkvæmdum og getur sent almenningi í landinu reikning, látið almenning í landinu borga? Ég skal nefna annað nærtækt dæmi. Allir vita, að það er þörf á stórkostlegum endurbótum í frystihúsum landsins. Það mun kosta mjög mikið fé að gera frystihús landsins þannig úr garði, að þau fullnægi þeim kröfum, sem til þeirra verður nú að gera, og líkt á sér stað með sláturhúsin. Hefur nokkrum manni dottið í hug, að hægt væri að hækka fiskverð í landinu og láta neytendur borga hærra verð fyrir fisk til þess að standa undir kostnaðinum við breytingar á frystihúsunum? Þessi hugmynd hefur ekki komið nokkurs staðar fram. Ég þekki engan mann, sem mundi láta sér detta slíkt í hug, enda væri það alveg fáránlegt, ef fiskneytendur ættu að fara að standa undir breytingu á frystihúsunum. (Gripið fram í: En ef ríkið borgaði nú eitthvað fyrir það?) Jú, jú. Það borgar þegar mikið í sláturhúsin og mjólkurbúin — (Gripið fram í.) Í frystihúsin, jú, það getur mjög vel komið til greina, og þá er eðlilegt, að landbúnaðurinn sitji við sama borð. Ekki skal ég standa á móti því. En hitt verður þm. að sjá, sem er alveg augljóst mál, að það gengur ekki að ætla neytendum landbúnaðarvara að standa undir óhjákvæmilegum og nauðsynlegum endurbótum á framleiðslutækjum í landbúnaðinum. Þetta er fjarstæða. Þetta er satt að segja offors. Þetta er frekja, sem ekki tekur nokkru tali. (Gripið fram í: Hver á að gera það?) Bændurnir sjálfir með hæfilegum og eðlilegum stuðningi ríkisvaldsins. (Gripið fram í.) Mikil lifandi ósköp eru fulltrúar bændastéttarinnar eitthvað viðkvæmir. Það má ekki minnast á, að landbúnaðurinn sé aðstoðaður, þá fara þeir að skjálfa og titra. Þeir eiga að tala í ræðustólnum, þannig að hægt sé að svara þeim skipulega á eftir, en halda sér á mottunni, meðan þeir standa í dyrum. (Gripið fram í: Þökk fyrir.) Það er ekkert að þakka. Menn verða að þola það, að sagður sé sannleikurinn um einfaldar staðreyndir. Ég hef ekkert sagt annað. (Gripið fram í.) Vill hv. þm. stilla sig, rétt á meðan ég lýk setningunni a. m. k. Menn verða að þola það að heyra sagðan sannleikann, og geti þm. bent á eitt einasta orð í því, sem ég hef sagt, sem ekki er satt og rétt, þá skal ég hlusta á hann hér í pontunni á eftir. En meðan hann stendur í dyrum og sumpart glottir og sumpart skelfur, þá sé ég ekki ástæðu til að anza honum meira að sinni. (Forseti: Hv. þm. á ekki sæti í þessari deild.) Má hann þess vegna ekki koma inn? (Gripið fram í: Nei.) Nú, hann á ekki sæti í deildinni og samt er hann gjammandi fram í. Þetta er bezta sönnun fyrir óstyrkleikanum, sem ég hef fengið hingað til — sú bezta.

Þetta var í framhaldi af því, að ég var að byrja á því að hæla 3. gr. fyrir 25% gjaldið, þó að ég hafi orðið að segja, að hún endaði illa vegna ákvæða um 5% viðbótargjaldið, sem neytendum er ætlað að greiða og ég vil andmæla alveg sérstaklega.

Öðru atriði í frv. vil ég líka andmæla, þó að ég ætli annars ekki að ræða frv. jafnýtarlega og síðasti ræðumaður gerði, og það er sú breyting, sem gerð er á samsetningu þeirrar n., sem ákveður landbúnaðarvöruverðið, frá því, sem verið hefur. Nú er gert ráð fyrir, að verðákvörðunin skuli vera í höndum fulltrúa bænda og fulltrúa ríkisstj., en áður var, eins og kunnugt er, ákvörðunarvaldið í höndum bænda og neytenda, sem menn hafa undanfarna áratugi talið eðlilegast. Nú eiga bændur að fá ríkisvaldið eitt sem viðsemjanda í þessu máli. Þessa breytingu harma ég mjög, og mér þætti vænt um að fá það upplýst í umr. hér á eftir, hvort öll ríkisstj. stendur að þessari breytingu. Við erum orðnir vanir því, hv. þm., að ríkisstj. klofni í alls konar málum. Það gæti verið, að hún hafi líka klofnað í þessu, þó að ekkert hafi verið bókað um það enn þá. Það er hugsanlegt. Og mig langar að fá að vita, hvort ráðh. Alþb. og ráðh. SF hafa samþykkt þetta, að neytendur hafi engin áhrif á verðlag landbúnaðarvöru, hvort það sé með þeirra samþykki, að fulltrúar neytenda séu útilokaðir frá því að hafa áhrif á verð landbúnaðarvörunnar, þó að þeir hafi haft slík áhrif allar götur síðan 1947 a. m. k. Enn fremur vil ég gjarnan fá að vita, hvort Alþýðusambandið hafi verið um þetta spurt.

Mér þykir satt að segja mjög ósennilegt, að samtök neytenda muni taka þessari breytingu með þökkum, jafnvel ósennilegt, að þau sætti sig þegjandi við hana. Hér er augljóslega stigið spor aftur á bak. Samtök launþega hafa barizt fyrir auknum réttindum á undanförnum áratugum. Ein þau réttindi, sem þau hafa fengið, er að fá hlutdeild í meðferð mikilvægrar vöru, sem neytendur þurfa að kaupa dag hvern. Sá réttur er nú af þeim tekinn. Það harma ég, því andmæli ég og vil fá skýringu á því, hvernig á því stendur og hverjir það hafa samþykkt.

Fleira skal ég ekki segja um málið á þessu stigi, en ljúka þessum orðum mínum með því að endurtaka það, sem ég sagði áðan, að því miður er þetta frv. ekki fullnægjandi lausn á vandamálum íslenzks landbúnaðar. Þau þarf að leysa af skynsemi. Þau þarf að leysa með réttmætan hag bændastéttarinnar fyrir augum og með hliðsjón af hagsmunum skattgreiðenda og þjóðarinnar í heild. ástand þessara mála er ekki þannig, að það geti talizt gott, ekki einu sinni þannig, að það geti talizt viðunandi. Það þarf hér gagngerar breytingar á, en þær er því miður ekki að finna í þessu frv. Þrátt fyrir nokkur góð nýmæli í þessu frv., sérstaklega eitt, sem ég þegar hef nefnt, þá er það í raun og veru hvorki fugl né fiskur miðað við þær þarfir, sem eru á umbótum í málefnum íslenzks landbúnaðar.