12.04.1972
Neðri deild: 59. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í C-deild Alþingistíðinda. (2926)

241. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég hafði sagt það í dag, að ég byggist ekki við að tala meira í málinu við þessa umr., en ég hef hlustað hér á ræður þriggja hv. framsóknarmanna og það er náttúrlega ýmislegt í þessum ræðum, sem væri eðlilegt að mótmæla og gera athugasemdir við. En vegna þess hve áliðið er kvölds, þá býst ég nú við, að ég stytti frekar mál mitt.

Hæstv. landbrh. fór nú inn á flest af því, sem hv. 4. þm. Norðurl. e. og hv. 5. þm. Austf. voru að tala um, og býst ég við, að það sé þá vinnuhagræðing í því að snúa sér fyrst að hæstv. ráðh. og sjá svo, hvað eftir verður, sem svara þarf hjá hinum.

Hæstv. ráðh. talaði um það, að framleiðslustefna mín hefði ekki verið mikilvæg, það væri eiginlega svo komið, að við hefðum tæplega nóg af landbúnaðarvörum í landinu. Hæstv. ráðh. veit þó, að á þessu ári og á undanförnum árum hefur verið mikið flutt út af landbúnaðarvörum, mjólkurvörum og kjötvörum. Það verður minna af kjötvörum að þessu sinni, vegna þess að slátrunin var minni á s.l. hausti, enda mun sauðfé fjölga um 40 þús. á þessu ári. Það er þess vegna fjarstæða, þótt fólkinu hafi fjölgað að undanförnu og geri, að við höfum ekki enn umframframleiðslu í landbúnaði. En þessi umframframleiðsla mætti vissulega vera meiri, sérstaklega af sauðfjárafurðum. Og þess ber nú að geta, að á s. l. ári óx landbúnaðarframleiðslan um 9%, en það getur verið, að stefna nýju stjórnarinnar hafi haft einhver áhrif á þá aukningu. (Gripið fram í.) Ég ætla ekkert að fullyrða um það, ég get alveg unnt hæstv. landbrh. þess, að hann telji núv. ríkisstj. það til þakka, að landbúnaðarframleiðslan óx svona mikið á s. l. ári. Það hefur náttúrlega ekki verið af því, að fyrrv. stjórn hafi lagt grundvöllinn að því með aukinni ræktun og véltækni, — en látum aðra dæma um það.

Hæstv. ráðh. talaði um, að það væri ekki beysið, að þegar ég hefði farið úr ráðherrastólnum, þá hefðu um 200 bændur verið svo illa staddir, að legið hefði við gjaldþroti. Þetta er nú tæplega einn maður í hverjum hreppi á landinu til jafnaðar. En skyldi það vera nýmæli nú, að það finnist að jafnaði einn bóndi í hverjum hreppi á landinu, sem er illa staddur fjárhagslega? Það ber meira á þessu nú en áður, vegna þess að að þessu sinni hafa verið gerðar ráðstafanir til þess að bæta fyrir þessum mönnum og eltast við að rétta þeirra hag, þannig að þeir geti haldið áfram að búa. Áður voru þessir fátæku menn látnir afskiptalausir, og ég geri ráð fyrir því, að þeir hafi oft verið fleiri en 200 á landinu.

Það er enginn mælikvarði á stjórnarstefnuna, þótt finnist í landinu menn, sem komast illa af fjárhagslega. Til þess geta verið margar ástæður. Það getur verið heilsuleysi húsbóndans, það getur verið heilsuleysi konunnar, það getur verið kostnaður vegna heilsuleysis barnanna eða eitthvað þess háttar. Svo getur það auðvitað verið af því, að menn eru misjafnlega gerðir til búskaparins og annarra starfa. Mér finnst satt að segja, að hæstv. ráðh. vilji tína flest til, þegar hann fer að tala um það, að þetta sé eitthvað, sem eigi að ásaka fyrrv. ríkisstj. fyrir. Ég hygg, að það megi fullyrða og skýrslur sanni það, að bændur hafi yfirleitt efnazt mjög mikið á undanförnum árum. Sem betur fer hafa þeir gert það. Og það er alveg rangt, sem sagt var hér áðan, að bændur hefðu safnað skuldum án þess að safna eignum á móti. Það er sannleikur, að á síðasta áratug hafa framkvæmdir í landbúnaði verið meiri en nokkru sinni áður. Það liggur skjalfest fyrir.

Hv. 4. þm. Norðurl. e. var að tala um lánveitingar úr Búnaðarbankanum. Ég hef ekki fyrir mér skýrslur nú um lánveitingar úr Búnaðarbankanum, en hitt veit ég, að lánveitingar úr Búnaðarbankanum hafa verið miklar á undanförnum árum. Ég hef ekki borið það saman við það, sem var á áratugnum 1950–1960, en það man ég, að framkvæmdirnar á seinni áratugnum voru miklu meiri en á þeim fyrri og þær hafa verið gerðar fyrir fjármagn, sem fengið hefur verið að láni eða bændurnir hafa átt sjálfir.

Er þá fyrst til að taka, þar sem er túnræktin. Túnræktin var frá 1960–1971 til jafnaðar 4400 ha. 8 á ári, að ég held nærri nákvæmlega, en á áratugnum 1950–1960 2700 ha., og eins og ég sagði í dag, þá munar litlu, að túnin hafi stækkað um helming á þessum 12 árum. Ég man það, að rúmmetrafjöldi í heyhlöðum var milli 30 og 40% meiri á árunum 1960–1970 en á árunum 1950–1960. Ég man það, að fjós á árunum 1960–1970 voru 25% fleiri en á árunum 1950–1960. Ég man það, að votheyshlöður voru að rúmmáli 35% stærri en á fyrri áratugnum. Og við vitum það, að á seinni áratugnum hefur vélum, t. d. dráttarvélum, fjölgað um helming. Það var tæplega ein dráttarvél á hverjum bæ 1960, en þær eru 2 eða 2.3 í dag. Þannig er það með vélvæðinguna, þannig er það með ræktunina. En hv. 4. þm. Norðurl. e. segir, að framkvæmdirnar hafi verið minni. Ég veit ekki, hvort hv. 5. þm Austf. vill taka undir þetta. Hann hafði engar fullyrðingar uppi um þetta. Það liggur við að segja, að hæstv. ráðh. væri á sömu skoðun. En þetta er rangt, og það er enginn vandi fyrir þessa hv. ræðumenn að sannfæra sig um það, hafi þeir óviljandi verið með rangar fullyrðingar.

Hæstv. ráðh. var að tala um, að það væri skrýtið af mér að vera að tala um, að það væri ákvæði í þessu frv., sem gæti dregið úr dugnaði manna og framkvæmd. Hæstv. ráðh. sagði t. d. : Skyldi það draga úr dugnaði að gera skipulega áætlun og reyna að fá betri útkomu fyrir bændur? — Skyldi ég nokkurn tíma hafa haldið því fram, að þetta gæti dregið úr dugnaði manna? Nei, langt frá því. Það var ekki þetta, það var allt annað, sem ég átti við. Það var t. d. þetta að greiða niður, sem aldrei hefur verið framleidd. Satt að segja hélt ég, að þetta hefði verið sett inn í frv. alveg í ógáti, en hæstv. ráðh. lét orð að því liggja að þetta kæmi til greina. Ég sagði einnig í dag, að það gæti dregið úr dugnaði manna, ef mönnum væri refsað fyrir að framleiða mikið, t. d. það, að þegar framleiðslan er komin að einhverju magni þá eigi þeir að fá lægra verð fyrir vöruna. En mér þykir vænt um, að hæstv. ráðh. skammast sín fyrir þetta ákvæði í frv. Að þetta skyldi geta komið fyrir þessa ágætu menn, sem sömdu frv., og það skyldi hafa getað gerzt, að stéttarsambandsfundurinn léti þetta fram hjá sér fara án þess að mótmæla því, því skil ég nú ekkert í.

Ég sagði enn fremur, að það gæti dregið úr dugnaði manna, ef þeim væri refsað með því að skattleggja þá sérstaklega fyrir að framleiða vöru. T. d. á sá hluti bændastéttarinnar, sem framleiðir mjólk, að skattleggjast til að bæta fyrir einhverjum landshluta, sem stendur illa að vígi, eða bæta hag þeirra, sem illa eru settir. Ég fordæmdi þetta ákvæði í frv. um leið og ég sagði, að það gæti verið fyllilega réttmætt að hlaupa undir bagga með þeim bændum, sem væru illa settir, og þeim landshlutum, sem sérstaka þörf hafa fyrir það, en það eigi að gerast af almannafé, en ekki með því að skattleggja vissan hluta bændastéttarinnar aukalega umfram aðra þegna þjóðfélagsins. En þetta er stefna frv. og það er þetta, sem ég get ekki sætt mig við. Ég tel, að í okkar harðbýla landi eigum við ekki að stuðla að því að draga úr dugnaði og framtaki, heldur miklu frekar að ýta undir það.

Hæstv. ráðh. talaði um 5% fóðurbætisskattinn og vinnslustöðvarnar og var dálítið hneykslaður á því, að ég skyldi ekki fagna þessu ákvæði í frv., vegna þess að enn væri eftir að endurbæta mörg sláturhús og einnig nokkur mjólkurbú, t. d. í Eyjafirði. Við vitum, að það verður alltaf á hverju ári að endurbæta vinnslustöðvar landbúnaðarins og það verður alltaf að leggja eitthvert fjármagn í það. Það hefur Sexmannanefnd m. a. viðurkennt að nokkru leyti að undanförnu með því að áætla dreifingar- og vinnslukostnað þannig, að stöðvarnar gætu fengið nokkurt fjármagn til sín, og Stofnlánadeild landbúnaðarins hefur núna á seinni árum, — það er alveg rétt, það er ekki fyrr en nú á seinustu árum, — farið að lána til vinnslustöðvanna. Það var ekki fyrr, en sá skilningur er alveg upp kominn nú, að þess þurfi með. En það er rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að til þess þarf nokkru meira en þessi lán, og það kemur m. a. með því að fá það í gegnum verðlagningu búvörunnar og að nokkru leyti með styrkjum frá ríkinu. Til þess var Framleiðnisjóður m. a. stofnaður og í þessu skyni var fjárframlag tekið upp í fjárlög nú og nokkru áður. Ég held þess vegna, að eins og það hefur verið gert stórt átak í því að endurbyggja og endurbæta vinnslustöðvar landbúnaðarins að undanförnu, eins megi halda áfram að gera það án þess að taka þetta ákvæði í lög.

Þá sagði hæstv. ráðh., að sexmannanefndarkerfið hefði gengið sér til húðar, ég hefði einu sinni þurft að gefa út brbl. til þess að bjarga því máli. Það er rétt, að ég þurfti einu sinni að gefa út brbl., vegna þess að það var neitað að skipa í nefndina. En það var ekki nema eitt ár, sem þetta var svona, og alltaf síðan hafa Landssamband iðnaðarmanna og Sjómannafélag Reykjavíkur tilnefnt menn í n. Alþýðusambandið hefur neitað síðustu árin að tilnefna mann, en samkvæmt lögum um Framleiðsluráð var séð fyrir því, ef til þess kæmi, að einhver neitaði að tilnefna mann, með því að félmrh. tilnefndi þó mann í þess stað. En það er allmikill munur á því, hvort samtök neytenda eiga rétt á að tilnefna mann eða rétturinn er tekinn af þeim, og ég fullyrði það enn, sem ég sagði í dag, að einmitt þessi samvinna á milli bænda og neytenda hefur leitt til þess að skapa stóraukinn skilning á milli stéttanna og draga úr þeirri spennu og þeim misskilningi, sem oft var áður, þegar verðlagið var ákveðið á haustin. Og ég man eftir því haustið 1970, þegar verðlag búvörunnar hafði verið ákveðið og það hækkaði verulega, að ég var kallaður á fund í Húsmæðrafélagi Reykjavíkur til þess að ræða um verðlag búvörunnar. Ég bjóst við, að þetta gæti orðið nokkuð erfiður fundur, en það varð ekki. Það var vegna þess, að ég gat sagt það, sem rétt var, að fulltrúar neytenda hefðu samþykkt þetta verð, eftir að þeir höfðu sannfært sig um, að verðið væri sanngjarnt og eðlilegt. Þetta verður ekki hægt að nota eftirleiðis. Ef neytendur verða óánægðir með búvöruverðið, þá verða það fulltrúar, sem ríkisstj. hefur skipað, en ekki fulltrúar, sem neytendasamtökin hafa tilnefnt, sem unnið hafa að verðlagningunni, og á því er reginmunur.

Hæstv. ráðh. undraðist, að ég skyldi gera athugasemd við, að það mætti semja við ríkisstj. um styrki og framlög í staðinn fyrir verðhækkun á búvörunni. Hæstv. ráðh. sagði, að undanfarið hefði oft verið samið við ríkisstj. á ýmsan hátt, og það er rétt. En mér þótti vænt um, að hv. 5. þm. Austf. tók það fram, að þeir samningar hefðu aldrei gengið út yfir verðlagninguna, aldrei orðið til þess að lækka verðlagið. En hvernig er þetta orðað í frv., eins og það er núna? Gefur það ekki fyllilega í skyn, að framlög, sem ríkisstj. kannske vildi láta í samningum, gætu gengið út yfir verðið, þannig að bændur fengju ekki það verð, sem þeim bæri, ef það væri tekið á móti styrknum, sem væri látinn ganga til einhvers byggðarlags, sem væri illa úti, eða til bænda, sem væru illa settir?

Með leyfi hæstv. forseta, þá leyfi ég mér að lesa hér upphaf 7. gr. „Sexmannanefnd skal leitast við að ná samkomulagi um verðlagsgrundvöll, þar sem kveðið er á um framleiðslukostnað og magn afurða: Það þarf að leitast við að ná samkomulagi við ríkisstj. Þá segir: „Í því sambandi er heimilt að semja um sérstök fjárframlög ríkisins til landbúnaðarins, að því er varðar verðlagsmálin.“ Ég veit, að hv. alþm. hafa lesið þetta og skilja alveg, hvað í þessu felst. Með því að lögfesta þetta er verið að bjóða heim verzlun í viðskiptum, annars vegar að fá einhvern styrk handa vissum landshlutum eða vissum hópi bænda og hins vegar að slá af verðinu, sem allir bændur hefðu átt að fá. Ég held, að svona viðskipti, ef þau ættu sér stað, væru ekki holl, þau mundu ekki ýta undir framtak manna, heldur miklu frekar draga úr framtaki og stuðla að því, að menn héldu að sér höndum.

Hæstv. ráðh. talaði hér um tölurnar, sem fylgja grg. Hann nefndi hér mann frá Efnahagsstofnuninni, sem ég þekki ekki, getur verið ágætur og vandaður maður, Guðmundur Sigþórsson það er hann, sem hefur gefið upp þessar tölur, og af því að einhver starfsmaður hjá Efnahagsstofnuninni gefur upp nýjar tölur, þá ber að fara eftir þeim og virða þær og hafa þá svipaða skoðun og hv. 4. þm. Norðurl. e., þegar hann sagði hér áðan, að hann tæki ekki mark á tölum Hagstofunnar. Það virðist vera svo, að hæstv. landbrh. geri það ekki heldur, og ég segi nú bara: Það verða fleiri en ég, sem hneykslast á þessari töflu, sem hér er prentuð og er notuð sem viðmiðun. Ég tók það fram í dag, að ég tryði því ekki, að þetta væri viljandi gert, ég tryði því ekki á nm., og ég dróttaði því ekki að hæstv. landbrh., að hann hefði átt hlut í því að koma hér með rangar tölur. Það er rangt, sem hann var að gefa í skyn, að ég hafi nokkuð verið að dylgja um það, að hann ætti þátt í því, að þessar tölur væru hér prentaðar með. En hér eru komnar rangar tölur, — og hvers vegna eru þær komnar? Er ekki eðlilegt, að sumum detti í hug, að þær séu komnar vegna þess, að þær sýni, ef þær eru notaðar, verri útkomu, verri árangur hjá fyrrverandi stjórn í sambandi við það að útvega bændum fullt verð fyrir afurðirnar eða svipuð laun og viðmiðunarstéttirnar hafa haft? Ætli það verði ekki fleiri en ég, sem undrast það, að þessar tölur, sem hér eru prentaðar, eru allt aðrar tölur en þær, sem Hagstofan hefur gefið til og hafa verið notaðar undanfarin ár.

Ég geri ekki ráð fyrir því, að það verði margir, sem vilja taka undir orð hv. 4. þm. Norðurl. e., þegar hann segir, að hann taki ekki mark á tölum Hagstofunnar. Og ég öfunda hæstv. landbrh. ekki að því að hafa beint eða óbeint tekið undir þessa fullyrðingu. Ég er hér með Hagtíðindin, Hagtíðindin koma út mánaðarlega. Það eru skýrslur, sem allir hafa til þessa reitt sig á. Það er ekki fyrr en nú, að gefið er út þskj. og í það prentað, að þær tölur, sem Hagstofan hafi gefið út, séu rangar. Það er sagt hér í þskj., að viðmiðunarstéttirnar hafi haft 316 þús. kr. 1969, en Hagstofan segir, að það hafi verið 277 þús. í þskj. er sagt, að viðmiðunarstéttirnar hafi haft 276 þús. 1968, en Hagstofan segir 238400. Hann er mikill maður þessi Guðmundur Sigþórsson. (Gripið fram í: Þú ættir nú að vita það.) Nei, ég hef ekki vitað það, vegna þess að ég hef aldrei séð hann og ekki þekkt hann. (Gripið fram í.) Ég hef búizt við því, að þessi maður væri ágætur, og mér var bent á, að þetta væri hagfræðingur, og ég varð ekki var við annað en að nm. væru ánægðir með að fá hann. En þetta eru alveg ný kynni af þessum manni. Nú dettur mér ekki í hug að halda því fram, að hann hafi viljandi reiknað skakkt, heldur hljóta þessar tölur að vera til komnar vegna þess, að forsendurnar séu skakkar, sem reiknað er eftir. Þetta er eitthvað svipað því, þegar tölvurnar í Háskólanum voru mataðar vitlaust í haust. En ég gæti nefnt fleiri tölur. 1967 er talið hér í þskj., að viðmiðunarstéttirnar hafi haft 300 þús. kr., en Hagstofan segir 231 954, og þannig mætti telja lengi.

Finnst nú hv. þm. ekki eðlilegt, að athugasemd sé gerð við annað eins og þetta? Gæti það verið, að þessar tölur væru hér komnar skjalfestar til þess að hafa til viðmiðunar eftir stjórnarskiptin? (Gripið fram í.) Ég er ekki að gefa þetta í skyn, en ég vil bara spyrja, hvort þetta gæti verið. Það gæti verið þægilegt fyrir hæstv. landbrh. að geta vitnað í þessar tölur og sagt eftir eitt eða tvö ár: Svona var nú þetta, þegar ég tók við. Nú sjáið þið, hvernig þetta er, og kannske þætti eðlilegt eftir 23 ár að nota hagstofutölurnar aftur í samanburðinum, til þess að hann yrði hagstæður. (Gripið fram í: Er ekki gott að athuga, hvernig hagstofutölurnar eru fengnar?) Það er náttúrlega alveg sjálfsagt fyrir hv. 4. þm. Norðurl. e. að yfirheyra hagstofustjóra, setja hann á spurningabekk og yfirheyra hann um það, hvernig hann annist sína útreikninga hjá Hagstofunni og á hverju hann byggi hagskýrslurnar. Það verður hv. 4. þm. Norðurl. e. að gera. Ég ætla ekki að gera það. Ég hef álitið, að hagstofustjóri væri með hæfustu embættismönnum, samvizkusamur og vel að sér, og ég ætla, að hann hafi það álit hjá þjóðinni almennt. En svo vill til, að ég hef hér skjal, sem er bæði frá Efnahagsstofnuninni og Hagstofunni, og það er viðskiptafræðingur, sem fékk þessar tölur upp í báðum stofnunum, og þeim ber saman. Það eru tölurnar, sem ég las upp í dag. Það eru tölurnar, sem sýna, að það vantaði 1969 15.4% til þess að bændur hefðu sams konar tekjur og viðmiðunarstéttirnar, og mér fannst nóg, að það skyldi vanta. Þetta hefur batnað nokkuð á árinu 1970, vegna þess að þá vann bændastéttin á vegna batnandi árferðis og hefur vonandi aftur unnið á 1971. Þessar tölur sýna, að 1965 höfðu bændur og viðmiðunarstéttirnar fullkomlega sambærilegar tekjur. 1964 vantaði 0.6%, 1963 6%, 1962 5.1%, og þetta eru tölur, sem ber saman, frá Efnahagsstofnuninni og Hagstofunni. Þessum tölum verður vitanlega haldið til haga, ef hæstv. landbrh. fæst ekki til að leiðrétta þá töflu, sem hér hefur verið prentuð, og nota réttar tölur til viðmiðunar, þegar talað er um kjör bænda miðað við viðmiðunarstéttirnar. En það ætlast ég til, að gert verði, að hæstv. ráðh. berji ekki höfðinu við steininn, heldur vilji hafa það, sem sannara reynist.

Hæstv. ráðh. var að tala um það, að ég hefði gert mikið úr því, að smáu búin drægju niður meðaltalið, þegar verið væri að gera þennan samanburð. Ég spyr nú: Dettur nokkrum manni í hug, að hálft vísitölubú geti útvegað bændum fullar tekjur? En við vitum það, að enda þótt meðalbúin hafi stækkað á síðustu árum, þá eru enn mörg bú sem eru aðeins hálf vísitölubú og jafnvel minna en það. Þessi bú hljóta að gefa lágar tekjur og draga niður meðaltalið.

Þá kemur nú hæstv. ráðh. að fóðurbætisskattinum. Það var gaman að því, að hann las upp úr grg. frá 1960 með frv., sem ég flutti þá. Þetta frv. var samið af n. og hún lagði til, að það yrði lagður á fóðurbætisskattur, sem ég var á móti. Hæstv. ráðh. hefur nú verið 9 mánuði í ráðherrastóli, og ég geri ekki ráð fyrir því, að hann gangi sjálfur endanlega frá frv., en hann les þau ábyggilega yfir og hann segir til um það hvað eigi að strika út, eins og ég gerði. Ég strikaði út ákvæðið um fóðurbætisskattinn í frv. og ætlaðist vitanlega til, að grg. yrði leiðrétt líka, en þetta er allt annað en sá undirbúningur og sá flýtir, sem ég var að tala um í dag. Þó að grg. væri prentuð upp og væri ekki í samræmi við frv., þá hafði hún enga efnisbreytingu á frv., og ég minnist þess ekki, að það hafi verið fundið að frágangi frv. 1960 efnislega. Þetta var meinlaust grín hjá hæstv. ráðh., að lesa þetta upp, en það meiðir engan og gerir hvorki honum gagn né mér nokkurt ógagn.

Hæstv. ráðh. talaði um það, að nauðsynlegt væri að fá fóðurbætisskattinn til þess að tryggja það, að málin færu ekki í öngþveiti. Ég hef nú starfað ánægjulega með stjórn Stéttarsambands bænda og fulltrúum bænda í Sexmannanefnd í 12 ár, og sannleikurinn er sá, að alltaf var þessum málum bjargað.

Hv. 5. þm. Austf. talaði um innvigtunargjaldið og fannst það slæmt, þegar það var á lagt, en sagði svo í lokin: En sem betur fór varð lítið af þessu. Þessu var að mestu leyti skilað aftur, og þetta kom ekki að neinni sök. — Það er sannleikurinn í málinu. Stundum leit þetta kannske ekki sem bezt út, en málin leystust farsællega, þannig að fulltrúar bænda í stjórn Stéttarsambandsins og aðrir voru eftir atvikum ánægðir með það, hvernig þetta leystist allt saman með því að fá aukagreiðslur úr ríkissjóði, eins og minnzt var á hér áðan, 20 millj. kr. Það var sagt, að það hefði verið tekið frá Framleiðnisjóði. Framleiðnisjóður átti þá að fá 50 millj. kr., en fékk 30 millj. Það var matsatriði, hvað við ættum að kalla þetta, hvort við ættum að segja, að Framleiðnisjóður fengi 50 millj. eða bara 30 millj. og hitt væri bein greiðsla úr ríkissjóði. Og aukagreiðslur hafa komið hverju sinni til þess að bjarga málinu, þannig að þetta varð ekki neitt til skaða. Þess vegna segi ég það, að útflutningsbæturnar hafa að mestu leyti dugað til þess að útvega bændum fullt verð, en þó ekki, ef ekki hefðu komið aukagreiðslur til annars staðar frá, — aukagreiðslur, sem ríkisstj. hjálpaði til með að færu fram. Og ég hygg nú, að hæstv. landbrh. vilji hugsa þannig, að hann gæti nú kannske gert eitthvað í þessum málum, ef gæfi á bátinn, ekkert síður en fyrrv. ríkisstj., án þess að fara að lögfesta heimild til þess að leggja á fóðurbætinn 25% gjald.

Hæstv. ráðh. talaði um 7 manna n., að hún hefði átt að starfa lengi, það hefði ekki verið á eftir henni rekið. Það er rétt. Það var ekki mikið rekið á eftir þessari n., vegna þess að hún var skipuð til að endurskoða lög, sem ekki voru nema fjögurra ára gömul, þegar n. var skipuð í fyrstu, lög, sem höfðu verið afgreidd og samþykkt af miklum meiri hl. Alþ. og fulltrúar bænda höfðu lagt blessun sína yfir. Ég minnist ekki þess, að því frv., sem var lögfest 1966, hafi nokkuð verið, sem fulltrúar bænda voru á móti og töldu sig ekki vera ánægða með. Ég býst ekki við, að nokkur maður lái mér það, þótt ég hafi ekki talið ástæðu til þess að hraða sérstaklega endurskoðun laga, sem þannig voru til komin. En vegna þess að jafnvel góð lög geta orðið betri, þá var þessi n. skipuð og fékk erindisbréf um það að leita eftir því, hvað gæti betur farið í löggjöfinni, og ætla sér góðan tíma til þess. Og það er áreiðanlega rétt, sem hér var sagt í kvöld, að n. var búin að vinna allmerkilegt undirbúningsstarf. En hún fékk ekki að ljúka störfum, vegna þess að hæstv. landbrh. vildi flýta sér með endurskoðun á framleiðsluráðslögunum, enda stendur það í Ólafskveri, að það skuli gert. Og það samkomulag, sem ríkisstj. hefur gert sín á milli, þarf ekki að fara saman við það, sem er bezt fyrir bændur og tryggir bezt þeirra hagsmuni.

Ég býst við því, að það sé ýmislegt í þessu frv., sem Stéttarsamband bænda er óánægt með, enda kom það fram hjá hv. 4. þm. Norðurl. e., sem þykir gott að vera í þeirri n., sem þetta frv. fer til. Hann sagði, að hann mundi beita sér fyrir víðtækum breytingum á frv. (Sv: Ég sagði það alls ekki.) Hvað var það þá? (Sv: Nokkrum breytingum.) Nokkrum breytingum. Ja, það þýðir hvorki fyrir mig né hv. þm. að fara rangt með í þessu tilfelli, vegna þess að þetta er allt saman tekið upp. Ég skrifaði þetta ekki orðrétt, en ég held, að það sé alveg rétt, að þm. hafi heitið því að beita sér fyrir víðtækum breytingum, og ég segi hv. þm. þetta ekki til lasts, heldur hróss. En þetta sýnir, að fulltrúar á stéttarsambandsfundi voru ekki alls kostar ánægðir. Og ég hef talað við marga bændur, sem hafa fengið hugmynd um, hvað er í þessu frv., og þeir eru á móti því.

Ég met mikils fulltrúa, sem mæta á stéttarsambandsfundi bænda, en ég hef gert mér ljóst, að þeim getur yfirsézt alveg eins og okkur öllum hinum. Ég minnist þess, að bændasamtökin kölluðu saman aukafund hér um árið, það er ekki langt síðan, til þess að mótmæla inngöngu Íslands í EFTA. Þetta segi ég ekki til þess að lasta fulltrúa bænda, heldur til þess að sýna fram á, að þeim getur yfirsézt. Ég býst við, að flestir þeirra hafi séð eftir því litlu síðar að hafa tekið þannig skakka afstöðu til málsins. Og þegar það hefur gerzt einu sinni, þá getur það gerzt aftur.

Hæstv. ráðh. sagði, að það væri nú vitnisburður um það, hvernig málin stæðu eftir stjórnarskiptin, að bændasamtökin og Búnaðarfélagið óskuðu eftir breytingum á landbúnaðarlöggjöfinni yfirleitt. En hvernig er með landbúnaðarlöggjöfina? Er langt síðan landbúnaðarlöggjöfin var endurskoðuð? Það eru 5 ár síðan framleiðsluráðslögin voru endurskoðuð. Hvað eru mörg ár síðan jarðræktarlögin voru endurskoðuð? Eru það ekki 5 eða 6 ár? .Þau voru samþ. hér í hv. Alþ., að ég ætla, með shlj. atkv. Og ég man ekki eftir því, að fulltrúar bænda hafi þá ekki fengið sett inn í jarðræktarlögin það, sem þeir óskuðu að lögfesta.

Ég held þess vegna, að þegar þannig var að málum búið, þá sé ekki endilega nauðsynlegt að hraða endurskoðun, þannig að það gefist ekki tími til að semja frv. þannig, að þau séu sæmilega úr garði gerð. Sama máli er að gegna um búfjárræktarlögin. Það er álíka langt síðan þau voru endurskoðuð og samþ. af fulltrúum bænda samhljóða hér á hv. Alþingi. Ég man ekki betur en við endurskoðunina væri sett inn í lögin það, sem fulltrúar bænda og bændasamtökin vildu fá.

Nú er ég ekki, síður en svo, að finna að því, þó að Búnaðarþing óski eftir endurskoðun á þessari löggjöf. En það getur ekki verið vegna þess, að löggjöfin hafi verið svo slæm, að ekki væri hægt við hana að una, vegna þess að fyrir 4–5 árum þótti þetta ágætt og var samþ. af fulltrúum bændasamtakanna.

Hæstv. ráðh. talaði um ábúðarlögin, að það ætti einnig að endurskoða þau. Það er nú eitthvað lengra síðan þau lög voru endurskoðuð, og má vel vera, að það sé kominn tími til þess og ástæða til þess.

Hæstv. ráðh. kom aftur að frv. og n., sem hafði samið frv., og vegna þess hve mennirnir væru ágætir, sem í n. voru, þá hlyti frv. einnig að vera ágætt. Ég tók það fram í dag, að ég þekkti suma af þessum mönnum, sem í n. voru, og vissi, að það væru ágætismenn. En jafnvel þótt ágætir menn séu í einni n., þá er það engin trygging fyrir því, að það frv., sem þeir eru að semja, verði gallalítið, og sízt af öllu, ef þeir hafa fengið forskrift vegna málefnasamnings ríkisstj. um það, hvernig frv. ætti að vera í aðalatriðum, sízt af öllu þá. En það leikur grunur á því, að n. hafi fengið forskrift, vegna þess að fulltrúar bænda vildu allt annað en fulltrúar Alþb. og fulltrúar SF. Við skulum minnast þess, að 1966, þegar framleiðsluráðslögin voru endurskoðuð, þá var það Hannibal Valdimarsson, núv. hæstv. félmrh., sem skar sig út úr og vildi ekki fella sig við það frv., sem sjálfstæðismenn og framsóknarmenn sameinuðust um. Og það er keimur af þeirri skoðun, sem kom fram í n. 1966 hjá Hannibal Valdimarssyni. Það er sami keimurinn af þessu frv. Og Alþb: menn hafa haft aðra skoðun á þessu máli en þeir, sem telja sig sérstaklega fulltrúa bænda. N. varð þess vegna að taka tillit til þess, sem stóð í Ólafskveri. Áður en hún tók til starfa, var henni uppálagt að lesa það, sennilega bæði kvölds og morgna, eins og oft hefur áður verið sagt. Það er þess vegna ekki sök n. nema að nokkru leyti, hvernig þetta frv. er, enda kemur það fram hjá hv. 4. þm. Norðurl. e. og það hefur komið fram hjá fleiri bændum og bændafulltrúum, að þeir eru ekki ánægðir með frv. og þá stefnu, sem það mótar. Sú stefna er ekki holl. Það er sem rauður þráður í gegnum frv. að draga úr dugnaði manna og verðlauna jafnvel það, sem ekki gengur vel.

Ég hef nú í stærstu dráttum tekið fyrir það, sem hæstv. landbrh. var að tala um, þegar hann beindi orðum sínum til mín, og ég tel, að ég hafi að fullu hrakið þær fullyrðingar, sem hann var með, þegar hann var að dásama þetta frv. Ég skal viðurkenna, að það er miklu léttara fyrir mig að gagnrýna þetta frv., þegar stuðningsmenn ríkisstj. hjálpa mér til þess, eins og hv. 4. þm. Norðurl. e. og get ekki hugsað mér betri aðstoð en þá, sem hann hefur veitt mér með því að fagna því að eiga þess kost í landbn. að gera breytingar á frv. Við skulum, hv. 4. þm. Norðurl. e., láta það liggja á milli hluta, hvort þm. hefur fagnað því að geta gert víðtækar breytingar eða bara breytingar. Ég skal sætta mig við það, að þm. hafi fagnað því að eiga þess kost að gera breytingar á frv., en þegar handritið kemur, sjáum við, hvort „víðtækar“ stendur þar fyrir framan, og þá er það náttúrlega enn þá betra.

Ég veit ekki, hvort ástæða er til að fara að taka þetta nánar, sem hv. 5. þm. Austf. og hv. 4. þm. Norðurl. e. sögðu. Þetta hefur tvinnazt nokkuð saman, sem hæstv. ráðh. sagði og þeir, og í rauninni hef ég svarað þessum tveimur hv. þm. um leið og ég svaraði hæstv. ráðh. Það er bezt að fullyrða ekkert um að, hvort ég tek aftur til máls við þessa umr. Ég gerði það í dag, ég bjóst alls ekki við að þurfa að tala nema einu sinni við 1. umr. málsins. En það getur verið gott að eiga til góða nokkrar aths., vegna þess að bæði hv. 4. þm. Norðurl. e. og hæstv. ráðh. hafa enn búið sig undir að tala í málinu.