12.04.1972
Neðri deild: 59. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 123 í C-deild Alþingistíðinda. (2928)

241. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það er nú orðið áliðið og ég mun ekki tefja þess vegna þessar umr. lengi. En ég geri ráð fyrir því, að það hafi ekki farið fram hjá hv. þm., þegar hv. 1. þm. Sunnl. var að tala hér áðan, að öll hans verk í þessi 12 ár hefðu verið þannig, að það væri a. m. k. óþarfi að gera endurskoðun á slíkum lögum. Sem sagt, verk hans hafa verið það fullkomin að hans mati, miðað við þann málflutning, sem hann hefur hér haft í frammi, að það væri eiginlega ósvinna að láta sér detta það í hug, að hægt væri að bæta þar nokkuð um.

Þm. talaði um það, að bændur hefðu verið látnir afskiptalausir hér áður og það hefði ekki komið þess vegna fram, hvernig hagur þeirra hefði verið. Það er auðséð, að hv. þm. hefur ekki áttað sig á því, að sú stefna, sem hann tók upp, þegar hann settist í ráðherrastólinn, var að stórhækka vextina. Bankavextirnir voru t. d. um tíma 12% og vextirnir í Stofnlánadeildinni voru hækkaðir úr 2.5% á íbúðarhúsalánunum upp í 4% og úr 4% upp í 6.5% af öðrum lánum, fyrir utan svo stofnlánadeildarskattinn, sem hann innleiddi, þannig að þau vaxtakjör, sem bændur bjuggu við, eftir að hann varð ráðh., voru yfirleitt 10–11% í raun og veru, ef stofnlánadeildarskatturinn var tekinn með. Þetta var breytingin, sem varð á þessum málum, þegar hv. þm. tók við landbrn. Og svo er hann að tala um, að nú sé ekki hugsað eins um bændurna og áður í sambandi við þeirra kjör, þó að þessi hafi verið breytingin á málunum, þegar hann tók við.

Hv. þm. gat um það, að ég hefði sagt, að ég tæki ekki mark á tölum Hagstofunnar. Ég sagði að ég þyrfti að vita, hvernig þessar tölur væru fengnar, áður en ég tæki þær góðar og gildar. Og miðað við það skattskýrsluform, — ég tók það fram, — sem bændur hafa búið við, miðað við það, að t. d. renturnar eru settar á þeirra einkaskýrslu, og eins og frá þessum málum er gengið, þá verður maður að vita, hvernig þessar tölur eru fengnar, til þess að sjá, hvort þarna er um hliðstæðan samarnburð að ræða. Og hvernig stendur á því, að t. d. tölur frá Stéttarsambandi bænda og tölur frá Hagstofunni hafa ekki farið saman á undanförnum árum? Hvernig stendur á því? Það er vegna þess, að það er reiknað út frá allt öðrum forsendum. Sú er ástæðan.

Það var nú dálítið einkennilegur málflutningur hjá hv. þm., sem hann beitti nú síðast í ræðu sinni, og raunar gefur það dálitla innsýn í, hvernig hann hefur unnið, sem kemur mér ekkert á óvart, í ,sínum ráðherrastól. Hann sagðist hafa strikað út það, sem honum hefði sýnzt í sambandi við frv., sem komu fram, og svo fannst honum það vera ákaflega undarlegt, ef við gætum í n. breytt frv., sem kæmi frá ríkisstj. Það er von, að maðurinn sé undrandi. Þetta var yfirleitt ekki hægt, á meðan hann sat í ráðherrastól og meðan viðreisnarstjórnin sat að völdum. Það var ekki hægt að breyta neinum staf. Þm. voru hér handjárnaðir, stjórnarliðið, og urðu bara að gera svo vel og greiða atkv. eins og ráðh. sögðu. Það er ákaflega eðlilegt, að þessi hv. þm. sé undrandi á þessari breytingu, að nú skuli það vera orðið þannig, að þm. geti farið að beita sér fyrir breytingum, ef þeir koma sér saman um þær og halda, að þær séu til bóta. (Gripið fram í.) Nei, það er merkilegt, að þetta skuli geta átt sér stað. En þm. er búinn að vera svo lengi í ráðherrastól og búinn að binda sig svo fast í þessi vinnubrögð að hann verður náttúrlega alveg undrandi, og það hefur ekki farið fram hjá neinum, sem hlustuðu á mál hans áðan.

Í sambandi við innvigtunargjaldið sagði þm., að það hefði ekki komið að sök, þó að vantað hefði 18 aura á mjólkurlítrann. Það hefði ekki komið að sök, þó að vantað hefði 5 kr. á hvert kg af kindakjöti. En ég er hræddur um, að bændunum, sem urðu fyrir því, að það vantaði þetta verð á þeirra framleiðslu þetta ár, hafi fundizt, að það kæmi að sök, þó að þessi hv. þm. liti þannig á málið, meðan hann var í ráðherrastól, að það kæmi ekki að sök. (Gripið fram í.) Ég get ekki gert að því, þó að þm. hafi lítinn skilning, það er hans mál.

Í sambandi við það, að það hafi verið góð samvinna á milli bænda og neytenda um verðlagninguna, þá man ég ekki betur en það hafi verið mismunandi, þetta samkomulag, og ég heyri það á málflutningi hv. 1. þm. Sunnl., að hann gerir ráð fyrir því, að hann komi aftur í ráðherrastól, því að hann kvíðir fyrir því, ef hann getur ekki skýlt sér á bak við þessa samninganefnd, sem var kölluð samninganefnd neytendasamtakanna. En ég man vel árið 1967, þegar hinn frægi dómur kom, og ég sagði það fyrir á hv. Alþ., að sá dómur mundi verða á þann veg, að bændur fengju enga hækkun, vegna þess að við vissum, að þessari n. var í raun og veru stjórnað af ríkisstj., enda kemur það í ljós núna, að hv. þm. er alveg undrandi á því og skilur ekkert í því, Trúir ekki öðru en að n., sem samdi þetta frv., sem við erum hér að fjalla um, hafi fengið einhver sérstök fyrirmæli um, sjálfsagt frá ríkisstj., hvernig ætti að semja frv.

Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða þetta meira að sinni. En ég tók það fram í ræðu minni áðan, að ég mundi beita mér fyrir nokkrum breytingum á frv. (Gripið fram í: Hvaða breytingum?) Ja, ég get upplýst þm. um það t. d., að það er um þá breytingu á 39. gr., að það verði lagt svipað eða sama gjald á allar þær vörur, sem verðábyrgð nær til, en ekki eins og er nú í lögum, að það sé bara út á þá grein, sem vantar í hvert sinn. (Gripið fram í: Og fleira?) Ég ætla ekki að svara þm. frekar að þessu sinni. Ég sé, að 1. þm. Sunnl. er farinn hér úr fundarsal. En ég vildi óska eftir því, að hann hjálpaði mér við eitt, og það væri að láta athuga um það, svo það kæmi glögglega fram, hvernig framkvæmdamáttur þess fjár, sem Stofnlánadeildin hefur lánað á undanförnum tveimur áratugum, er í raun og veru, þannig að það liggi á borðinu, hvort framkvæmdir á þessum áratug, sem hann sat hér í ráðherrastól, hafa verið eins og hann segir eða hvort það hefur verið, eins og ég sagði áðan, að framkvæmdirnar hefðu verið minni í hans ráðherradómi en áður var.