12.04.1972
Neðri deild: 59. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í C-deild Alþingistíðinda. (2929)

241. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Það er svo stutt liðið á kvöldið, að ég sé nú ekki ástæðu að láta hjá líða að gera örfáar, en aðeins fáar og stuttar aths. við hið undarlega tal, sem mér finnst hér vera haft í frammi í sambandi við þetta frv. að hv. stjórnarandstæðingum. Það er t. d. fjölyrt um það, að n., sem undirbýr þetta mál, hafi unnið eftir einhverri forskrift, og það er farið að tala um stjórnarsáttmálann, það muni hafa verið einhver fyrirmæli, sem erfið reyndust fyrir n. til að vinna eftir. Hvað er í stjórnarsáttmálanum um landbúnaðarmál? Um landbúnaðarmálin eru örfáar setningar. Kjarnapunkturinn er sá að gera heildaráætlun um alhliða landgræðslu og skipulega nýtingu landsgæða. En auk þess eru tekin upp í stjórnarsáttmálann nokkur atriði varðandi framfarir í landbúnaði, sem ekki tókst á 12 ára valdatíma viðreisnarstjórnarinnar að fá framkvæmd. Það eru t. d. tekin þar upp ákvæði um úrbætur í lánamálum. Sumt af því er þegar búið að framkvæma, eins og hækkun húsnæðislána og hækkun lána til jarðakaupa, sem voru búin að standa óbreytt að krónutölu árum saman. En það er ekkert sérstakt í stjórnarsáttmálanum um það, sem hér var verið að gera, þ. e. að endurskoða lög um Framleiðsluráð. En hvaðan var sú forskrift, sem n. vann eftir í þessu máli? Hún er frá bændasamtökunum. Bændasamtökin hafa á undanförnum árum gert samþykktir um nauðsyn þess að endurskoða þessi lög. Í samræmi við þær óskir var við því snúizt að gera þá endurskoðun og vinna að henni af röggsemi, en ekki á margra ára tímabili, eins og útlitið var að yrði í 7 manna n. sælu, sem ég átti sæti í. Þarna var forskriftin komin, og eftir henni var vissulega unnið. Hvernig átti annað að vera en að unnið yrði eftir þeirri forskrift, þar sem í n. voru að meginhluta menn nátengdir bændasamtökunum ellegar beint úr bændastéttinni komnir ellegar menn, sem höfðu á undangengnum árum, eins og prófessor Ólafur Björnsson, einmitt unnið alveg sérstaklega að undirbúningi landbúnaðarlöggjafar? Það var varla hugsanlegt annað en farið yrði eftir þessari forskrift í meginatriðum, og það var þessi forskrift, sem n. hafði sér til leiðbeiningar.

Svo er verið að tala um það hér, að bændur hafi efnazt einhver lifandi ósköp á undanförnum árum. Jafnframt hafa verið birtar hér tölur um tekjur bænda. Og þó að menn greini nokkuð á um þær á einstökum atriðum vegna misskilnings, þá eru allir sammála um, að aðalatriðið í þeim er það, að tekjur bænda hafa ekki náð því, sem ráð var fyrir gert í lögum né að vera hliðstæðar við tekjur annarra vinnandi stétta, eins og það er orðað, eða nánar tiltekið þeirra viðmiðunarstétta, sem menn komu sér saman um að hafa til hliðsjónar. Þrátt fyrir þetta, þó að þarna muni miklu bændum í óhag, þá er hv. þm., fyrrv. landbrh., að tala um það, að bændur hafi efnazt einhver ósköp á undangengnum árum alveg sérstaklega. En ef þeir hafa aukið eignir sínar þrátt fyrir þennan halla í tekjuviðmiðun við aðra, hvernig stendur þá á því? Jú, það er auðséð, það getur ekki af öðru verið en af tveimur ástæðum: Annars vegar þeirri, að bændastéttin hefur í heild lagt hart að sér til þess að auka uppbyggingu og eignarmyndun í atvinnugreininni, og hins vegar þeirri, að hún hefur notið lánsfjár eins og aðrir, sem í framkvæmdum standa á þessu landi, og sú notkun lánsfjár hefur einnig orðið til eignaaukningar, vegna þess að lánin eru nokkuð löng og verðbólguvöxturinn hefur hjálpað til þess að greiða þau niður og á þann hátt stuðlað einnig að eignaaukningu. En það er eiginlega broslegt að heyra menn vera að tala um það, um leið og þeir eru að rifja upp þessar neikvæðu tölur um tekjur bænda úr skýrslum Hagstofu og annarra slíkra stofnana, — heyra þá um leið vera að tala um einhvern sérstakan og furðulegan, vil ég segja, eignaauka eða að bændur hafi hagnazt alveg sér í lagi á þessu árabili.

Hv. þm. hafa leyft sér að segja það hér, að það gangi eins og rauður þráður gegnum þetta frv. viðleitni til þess að draga úr dugnaði bænda. Hvers konar tal er þetta og hverju þjónar svona tal? Það á að draga úr dugnaði bænda, ef breytt er formi niðurgreiðslna eða gefin heimild til þess. Og svo er óskapazt yfir ákvæðum um verðjöfnun. Það er óskapazt yfir því og nánast fordæmt í ræðu hérna rétt áðan að verðjafna skal milli héraða. Þetta gerði hv. 1. þm. Sunnl., fyrrv. landbrh. Hvað er búið að gera á undanförnum árum annað en þetta undir stjórn hans sem þáv. landbrh.? Þetta hefur verið gert í ýmsum greinum, í sambandi við mjólkurframleiðslu fyrst og fremst. Það hefur verið verðjafnað á milli héraða samkv. þeim lögum, sem hann sjálfur beitti sér fyrir að endurnýja á sínum tíma. Og svo er hann að fordæma þetta nú. Þessu kann ég afar illa. Þetta finnst mér raunar vera tal hins metta, sem heldur sig standa tveim fótum í jötu á framleiðslusvæði, þar sem tiltölulega góð skilyrði eru, miðað við íslenzkar aðstæður, og betri en í öðrum landshlutum. En þá gleymir hann því, sem búið er að gera á undanförnum árum og undir hans stjórn.

Þetta er í stíl við það, að þegar langt var komið rafvæðingu sveitanna í þéttbýlustu héruðunum, þá var slakað á rafvæðingunni í dreifbýlinu, þannig að hún datt niður í brot af því, sem hún hafði verið á ári undir stjórn þessa sama manns. (Gripið fram í.) Þetta er hliðstæða eigi að síður og gefur manni nokkra skýringu á þessu tali, svo furðulegt sem það er. En verðjöfnun í mörgum myndum og samhjálp margvísleg hefur verið snar þáttur í merkri félagsmálasögu íslenzkra bænda á undangengnum árum og það verður ekki aftur snúið í þeim efnum, hvað sem þessi hv. þm. segir nú. Það verður ekki gert.

Ég veit ekki, hvort þessi hv. þm. hefur eiginlega gert sér fulla grein fyrir mismunandi ákvæðum 39. gr. Annars vegar er talað um verðmiðlun almennt og þar er að finna ákvæði um þau atriði, sem ég nefndi áðan og framkvæmd hafa verið á undanförnum árum. Þau hafa verið gerð nokkru víðtækari í frv. heldur en þau eru nú, í samræmi við vilja og stefnu bænda. Ég held, að hann rugli þessu saman annars vegar og hins vegarákvæðum 16. gr., þar sem talað er um beina aðstoð við byggðarlög í erfiðleikum. Í 16. gr. er ekki talað um að leggja neitt gjald á framleiðsluna, en þar er talað um að afla tiltekins fjár til þessara tilteknu hluta. Ríkisstj. ber ábyrgð á því, að þessi fjáröflun sé framkvæmd hverju sinni, og það er bent á þá leið að afla þess fjár úr Byggðasjóði eða á annan hátt.

Hvað er það, sem í þessu felst? Við skulum líta á það, að áður starfaði hér Atvinnujöfnunarsjóður, sem Byggðasjóður hefur tekið við af. Atvinnujöfnunarsjóður hefur á undanförnum árum fyrst og fremst stutt þéttbýliskjarnana til uppbyggingar og starfa, en ekki sveitirnar, — yfirleitt ekki. Meginþátturinn í störfum Atvinnujöfnunarsjóðs á undanförnum árum hefur beinzt að því að stuðla að atvinnuuppbyggingu í þéttbýliskjörnum, þó að það sé ekki án undantekninga. En með ákvæðum 16. gr. er stefnt að tvennu. Það er annars vegar stefnt að því að tryggja það og fá því nokkurt form, þó það sé ekki fastmótað í þessum ákvæðum, að sveitirnar sem slíkar fái einnig hlutdeild í því fjármagni, sem Byggðasjóður hefur yfir að ráða. Hins vegar á að tryggja með ákvæðum þessarar greinar hlutdeild bænda í ákvörðunum um ráðstöfun þess fjár, sem á þann hátt yrði varið til landbúnaðar.

Það er aftur og ítrekað reynt að gera tortryggileg ákvæði 7. gr. um það, að heimilt sé að semja, um leið og samið er um verðlag, um aðra þætti á milli ríkisvaldsins og bændasamtakanna. Þetta er algerlega út í hött. Ég sýndi fram á það áður í kvöld, að það hefur áður viðgengizt að semja um slíka þætti, um leið og samið er um verðlagninguna. Ég viðurkenni það ekki, og ég heyrði, að hv. þm., fyrrv. landbrh., vildi ekki heldur talfæra það, að í nokkru hefði þá verið slakað á eðlilegum kröfum í sambandi við verðlagninguna sjálfa þrátt fyrir þessa samninga. Og það felst í engu í ákvæðum þessarar greinar, ef þau eru lesin með aðgát og af fullum skilningi.

Menn hafa verið að ræða hér um það, að útflutningsbætur hafi í raun og veru alltaf dugað. Þetta er ekki rétt, eins og hv. 4. þm. Norðurl. e. vék að áðan í sinni seinni ræðu og hafði komið inn á áður, að þær hafa ekki gert það að öllu leyti. Það hefur komið fyrir, að það hefur vantað á verðið og það hefur þurft að taka verðjöfnunargjald, bæði af kjöti og mjólk, þegar útflutningsbætur hafa ekki dugað. Og hitt er þá ekki síður alvarlegt, að við höfum oft orðið að búa við algert öryggisleysi varðandi þetta, öryggisleysi um það, hvort tækist að jafna út eða hvort það tækist ekki. Og það, sem hér er um að ræða í 3. gr. frv., er einfaldlega að hafa tiltæk lagaákvæði, sem geri það mögulegt að verðjafna, ef útflutningsbætur vantar, m. ö. o. að koma í veg fyrir, að það óvissuástand, sem við höfum áður kynnzt, verði ekki til á ný. Og þó að við höfum sloppið án stóráfalla, en þó með mjög verulegum áföllum, eins og hv. 4. þm. Norðurl. e. gerði grein fyrir áðan, þá er enginn kominn til að segja, að það geti ekki hallað meir undan síðar heldur en gert hefur á þessu tímabili sem við höfum búið við þetta kerfi. Það, sem hér er um að ræða, er eingöngu það að fá bændum í hendur öryggistæki, sem heimilt er að nota, ef á þarf að halda, og svo hitt, að binda ríkisstj. í málið, þannig að ríkisstj. og ráðh. geti ekki setið aðgerðalaus og horft á, eins og hann gerði á sínum tíma, þegar Framleiðsluráð taldi sig neytt til þess að setja á hið svokallaða innvigtunargjald. Og ég vil segja það, að þetta er ábyrg stefna manna, sem vilja sjá fótum sínum forráð. Ég hygg, að það séu engar deilur um það í Stéttarsambandi bænda né heldur hér á milli einstakra hv. þm., að það sé æskilegt að hafa einhvern svona möguleika, það séu engar deilur um það í raun og veru, þó að menn greini á um hitt, á hvern hátt þetta skuli gert, og sumir hallist að því, að skynsamlegt sé að framkvæma þessa verðjöfnun með kjarnfóðurgjaldi, m. a. af því að kjarnfóðurgjaldið ætti að verka hemlandi á framleiðsluna undir þeim kringumstæðum, þegar menn eiga erfitt með að afsetja hana. Það er um það, hvort þetta sé heppileg aðferð, sem menn deila, a. m. k. þeir, sem tengdir eru bændasamtökunum og bændastéttinni, en ekki hitt, hvort verðjöfnun skuli framkvæmd.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri. En mér fannst hv. 1. þm. Sunnl. hafa dregið mikið inn í sinni seinni ræðu, og mér þykir vænt um það. Við höfum vitanlega oft unnið saman að málefnum bænda, þó að það væri ekki alltaf tómt sólskin. Ég man nú t. d. eftir því, þegar hv. þm. tók okkur í hnakkann í ræðu í ráðherrabústaðnum einhverju sinni í boði á þann hátt, að sumir gengu jafnvel út. Við vorum ekki alveg sammála þá. En við því er aldrei neitt að segja, þó að menn séu ekki alveg sammála, en oft var unnið vel saman. Og eins og ég vék að fyrr í kvöld, þá stóðum við saman um það hér á Alþ. yfirleitt, ég og mínir flokksbræður og hann og hans flokksbræður, að breyta lögum um Framleiðsluráð, og fleiri slík heildarlög hafa verið unnin sameiginlega. Og ég vona, að þessi hv. þm. sjái sig nú um hönd og stuðli að því, að þetta mál nái fram að ganga í aðalatriðum og bændasamtökin fái þannig vilja sínum framgengt.