08.12.1971
Efri deild: 24. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 280 í B-deild Alþingistíðinda. (293)

86. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Frsm. meiri hl. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég stend nú hér upp og kveð mér hljóðs út af fáeinum atriðum, sem ég þarf að koma á framfæri. Þannig er, að ég hafði borið fram brtt. við brtt. frá minni hl. fjhn., 6. tölul. þeirrar brtt., þar sem í fyrsta lagi var gert ráð fyrir því að orða till. þeirra með svolítið öðrum hætti og ítreka eða undirstrika, að þetta ætti fyrst og fremst við viðkomandi landshlutasamtök sveitarfélaga og einnig að ráðstöfun fjár ætti sér stað, eftir því sem við yrði komið. Nú hefur það gerzt, að hv. talsmaður minni hl. fjhn. hefur dregið till. sina til baka, en borið fram nýja till. með þessu eina orði í, þ.e. „viðkomandi“ landshlutasamtök, og stendur þá mín brtt. þannig af sér, að aðaltill. er fallin á brott. Ég sé mig því tilneyddan að bera hana fram á nýjan leik, þó að mér þyki að vísu harla afkáralegt, að ekki skuli vera hægt að komast að endanlegu samkomulagi um þetta smávægilega orðalag, sem þarna er. Ég taldi mig hafa rökstutt það nægilega hér áður, að eðlilegt væri að orða þetta með örlitíð öðrum hætti, en úr því að samkomulags er ekki kostur, þá verð ég víst að endurflytja þessa till. En hún hljóðar þá svo, það er brtt. við brtt. við frv. til l. um Framkvæmdastofnun ríkisins frá minni hl. fjhn., 6. tölul., frá Ragnari Arnalds:

Mgr. orðist svo: Stjórn Byggðasjóðs skal hafa samráð við viðkomandi landshlutasamtök sveitarfélaga við ráðstöfun fjár úr sjóðnum, eftir því sem við verður komið.“

Það er sem sagt bara seinasti setningarliðurinn, sem ágreiningur er um. Ég vildi nota tækifærið og láta þess getið, að mér hafa orðið á pennaglöp, þegar ég skilaði frá mér brtt. á þskj. 154. Þar segir í 3. lið, við 11. gr.: „Greinin orðist svo: „Pennaglöpin eru fólgin í því, að þarna á að standa: „1. mgr. orðist svo.“ Mér hefur láðst að taka eftir því, að framhald greinarinnar er á næstu siðu, og ef þetta yrði samþ. með þessum hætti, þá félli það niður, sem þar stendur. Þetta eru sem sagt pennaglöp, sem ég vil leyfa mér að óska eftir, að verði leiðrétt, um leið og till. er borin upp. Ég reikna nú ekki með, að svona lítilfjörleg leiðrétting kosti það, að bera þurfi fram sérstaka brtt. og vil mælast til þess við forseta, að ef enginn hreyfir andmælum, þá verði greinin borin upp með þessum hætti. Og ég vil leyfa mér að þakka hv. 2. þm. Norðurl. e., samnm. mínum í fjhn., fyrir að hafa bent mér á þessi pennaglöp.

Það er nú kominn nokkur gustur í þessar umr., og þær gætu sjálfsagt staðið nokkuð fram á nótt, ef menn óskuðu eftir því. En ég reikna með, að flestir vilji nú fara að stytta þetta.

Hv. síðasti ræðumaður spurði hér með þjósti miklum, hvort til stæði að fella gengið á næstu vikum eða koma upp miklum gjaldeyrishömlum núna rétt fyrir jólin ofan á allt annað. Ég vil leyfa mér að gleðja hv. þm. með því, að hann þarf áreiðanlega ekkert að óttast og hann getur áreiðanlega átt ánægjulega jóladaga í vændum óáreittur af gengisfellingum eða annarri óáran. Það er nú svo, að komin er til valda ríkisstj. í landinu, sem mun ekki taka upp þann sið, eins og var nú háttur hinnar fyrri ríkisstj., að fella gengið næstum því árlega.