03.05.1972
Neðri deild: 68. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 136 í C-deild Alþingistíðinda. (2937)

269. mál, vátryggingarstarfsemi

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er nýlega lagt fram, og geri ég ráð fyrir því, að þm. hafi e. t. v. ekki kynnt sér það rækilega. Hér er um allviðamikið mál að ræða og hafði ég a. m. k. ekki gefið mér tíma til að lesa það nægilega rækilega í gegn, en hef þó farið lauslega í gegnum það.

Mér sýnist, að þetta frv. sé framhald af þeirri stefnu, sem hér hefur verið mótuð í vetur, sérstaklega af hv. iðnrh., að færa æ meira vald frá hinum einstöku byggðarlögum, einstökum félögum og einstaklingum yfir á miðstjórnarkerfið, sem staðsett á að vera hér í Reykjavík. Þegar verið var að ræða hér í gær frv. til raforkulaga, þá var rækilega á þetta atriði bent og þá einnig það, að mjög greinilega kæmi fram í því frv. á mörgum stöðum, að ríkið ætti að vera aðili að þeim málum a. m. k. að 60%. Við lauslega talningu í sambandi við þetta frv. sýnist mér, að nafn hæstv. trmrh. komi fyrir hvorki meira né minna en 36 sinnum, og hygg ég þó, að ég hafi ekki tekið það alls staðar upp, og í sambandi við þetta er alls staðar um að ræða leyfi til að gera þetta eða bann við að gera hitt. (Gripið fram í.) Ég sagði trmrh. Það er því alveg auðséð og í enn þá ríkara mæli en ég hygg í nokkru öðru frv. farið inn á að setja þessi mál, tryggingamálin, mjög undir ríkisvaldið og miðstjórnarkerfið hér í Reykjavík þar sem um er að ræða fyrirhugað tryggingaeftirlit.

Ég skal aðeins fara yfir þær greinar, sem ég staldraði við í frv. Það er þá fyrst um að ræða 10. gr., en þar segir svo í 4. mgr.: „Stjórn gagnkvæms vátryggingarfélags skulu skipa 3 menn hið fæsta. Ráðh. er heimilt að skipa einn mann sem fulltrúa vátryggingataka í stjórn hvers félags: Hæstv. ráðh. benti á, að hér væri farið eftir ákvæðum í sænskum lögum, og skal ég ekki rengja, að það sé rétt með farið. En þetta stingur nokkuð í stúf við það, sem kom fram í umr. í gær í sambandi við það mál, sem þá var hér rætt, raforkumálin. Þar var hvergi nokkurs staðar minnzt á það, að þannig væri staðið að málum á Norðurlöndum. Ég benti á það og las upp skýrslur um, hvernig þessu máli væri háttað þar í sambandi við dreifingu raforkunnar, en það var forðazt þar alveg af hæstv. ráðh. að minnast nokkuð á það, hvernig þeim málum væri komið fyrir á Norðurlöndum. Það var auðvitað gert vegna þess, að það hentaði honum ekki í því tilfelli. Hér, þegar þarf að herða á ákvæðunum, þá hentar vel að vitna í sænsk lög, sem sennilega ganga lengst í þessum efnum.

Þetta mun vera nokkuð nýtt ákvæði í íslenzkum lögum, að ef stofnað er til viðskiptafyrirtækis, einstaklingar stofna til viðskiptafyrirtækis og krafizt er mikils fjármagns til stofnunar þess, eins og gert er í þessu frv., þá skuli ríkisvaldið koma til og megi skipa þar einn stjórnarmann eða fulltrúa í stjórn til viðbótar þeim stjórnarmönnum, sem kosnir hafa verið af hinum réttu eigendum fyrirtækisins. Manni hlýtur að detta í hug, að hér sé kannske byrjun á því, sem koma skal í framtíðinni, að viðskiptafyrirtæki einstaklinga verði háð þessum kvöðum, ef ráðh. sýnist svo, að ríkisvaldið megi grípa inn í og skipa stjórnir í hin einstöku viðskiptafélög, — því að auðvitað eru vátryggingar ekkert annað en viðskipti, það þarf ekkert um það að ræða. Ég vil benda á það hér og undirstrika, að ég tel það mjög hæpna stefnu að setja þetta í íslenzk lög, að þar sem er um frjáls félög einstaklinga að ræða og þar sem þeir hafa lagt fram fjármagn og vilja auðvitað ráða yfir sínu fjármagni og stjórn þess fyrirtækis, sem þeir hafa stofnað til, þá skuli vera sett í lög, að ráðh. geti skipað þeim einn stjórnarmann í viðbót við það, sem þeir hafa sjálfir ákveðið. Hvernig færi nú, ef ráðh. dytti í hug að skipa einhvern aðila í stjórn slíks fyrirtækis, en eigendum þess væri mjög illa við að starfa með honum og treystu sér ekki til þess? Ég hygg, að þar gætu orðið allverulegir árekstrar og gætu valdið frekar glundroða og tjóni heldur en það yrði til bóta fyrir fyrirtækið.

Þá staldra ég einnig við 17. g. r., þar sem segir í 3. mgr.: „Ráðh. skal skipa sérstakan endurskoðanda, löggiltan, sem á vegum tryggingaeftirlitsins endurskoðar reikninga félaganna.“

Nú er það svo, að öll vátryggingarfélög hér á landi munu hafa löggiltan endurskoðanda til að yfirfara sína reikninga. Ég hygg, að það sé orðin hin almenna regla, og það er tekið fram annars staðar í þessu frv., að svo skuli vera, og við það er ekkert að athuga. Þetta er alveg sjálfsagt, að þeir menn, sem hafa aflað sér sérmenntunar á þessu sviði, starfi við tryggingarfélög, eins og eðlilegt er, að hér starfi við atvinnureksturinn yfirleitt. En til viðbótar þessu á ráðh. sá, sem fer með þessi mál hverju sinni, að skipa sérstakan endurskoðanda, löggiltan, til þess að yfirfara þá reikninga, sem hinir löggiltu endurskoðendur fyrirtækisins hafa lagt fram og gengið frá. Mér sýnist þetta vera allmikið vantraust á stétt endurskoðenda, ef þeim er ekki lengur trúað fyrir því að skila réttum reikningum, sem hægt er að treysta, án þess að ríkisvaldið þurfi að koma þar á eftir og skipa nýjan endurskoðanda til þess að yfirfara þeirra gjörðir og þá reikninga, sem þeir hafa lagt fram og telja sig hafa skilað sem réttum og fullgildum.

Ég staldra einnig við 24. gr., en hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Líftryggingarfélag skal tryggja sér þjónustu tryggingastærðfræðings, sem hefur á hendi nauðsynlega tryggingatæknilega reikninga og athuganir fyrir félagið.

Sá einn má taka að sér slíkt starf fyrir líftryggingarfélag, sem fengið hefur til þess sérstakt starfsleyfi trmrh.“

Það dugar ekki í þessu tilfelli, að líftryggingarfélag ráði sér mann með fulla menntun og fulla þekkingu og fulla kunnáttu til að rækja það starf, sem tryggingarfélagið telur, að honum beri að gera, og það vill fela honum, heldur þarf þarna að koma til sérstakt leyfi ráðh., að slíkur maður með fulla menntun og þekkingu megi starfa við þetta tiltekna tryggingarfélag. Það þarf að sækja um leyfi til ráðh., hvort það megi ráða hann í þjónustu sína. Ég segi: Er ekki verið að fara hér allfrekt inn á athafnafrelsi einstaklinganna, ef þeir ofan á sína menntun og þá sérþekkingu, sem þeir hafa aflað sér, þurfa að fá sérstakt leyfi ráðh. til að starfa hjá einkafyrirtæki? Mér sýnist, að þetta atriði þurfi vissulega endurskoðunar við og þarna sé gengið lengra en eðlilegt er, að gert sé í íslenzkum lögum.

Þá staldraði ég við 32. gr. eða kafla um skráningu og tilkynningarskyldu vátryggingarfélaga. 32. gr., fyrsta grein þess kafla, hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Trmrh. skal halda skrá um öll þau félög og stofnanir, sem heimild hafa til að selja vátryggingar hér á landi.“

Það nægir ekki einu sinni, að rn. haldi þessa skrá, heldur skal tekið fram í lögum, að ráðh. skuli sjálfur halda þessa skrá. Við höfum nú orðið þess áskynja í vetur, að ráðh. hafa haft það mikið að gera í sínu starfi, að þeir hafa orðið að biðja um frí frá þingstörfum til þess að geta sinnt ráðherrastörfum sínum. En það virðist ekki vera í þessu tilfelli, þar sem ráðh. sjálfur á að sitja annaðhvort á sinni skrifstofu eða heima hjá sér og halda þessa skrá yfir tryggingaskylda aðila. Ég held, að það dygði alveg að orða þetta þannig, að rn. héldi þessa skrá. Ég bara bendi á þetta, þó að það skipti ekki efnislega neinu máli.

3. mgr. 33. gr. hljóðar þannig: „Telji tryggingaeftirlitið ekki, að þörf sé fyrir þá starfsemi, sem félagið hyggst reka, né að starfsemi þess sé til eflingar heilbrigðri þróun vátryggingarstarfsemi í landinu eða til hagsbóta fyrir vátryggingartaka og vátryggða, getur trmrh. neitað að skrá félagið í vátryggingarfélagaskrá og veita því starfsleyfi. “

Þarna dugar ekki, að samtök, við skulum segja samtök félaga, samtök einstaklinga, vilji leggja fram verulegt fjármagn, um 20 millj. að lágmarki, eins og hæstv. ráðh. hér nefndi, að í frv. væri gert ráð fyrir og er að sjálfsögðu rétt með farið. Það dugar ekki, að þessir aðilar meti það sjálfir og þori að leggja fram þetta fjármagn til þess að hefja tryggingarstarfsemi. Það dugar ekki þeirra mat, hvort það sé starfsgrundvöllur fyrir slíkt félag eða ekki. Það verður að fara í rn. og spyrja þá aðila, sem þar sitja, hvort það sé starfsgrundvöllur á þessum eða hinum staðnum á landinu til að reka slíka starfsemi eins og hér er um að ræða. Ég tel þetta hreina fjarstæðu og aftur hreina skerðingu á athafnafrelsi þeirra manna, sem fjármagni vilja hætta í sambandi við tryggingarnar, þannig að ég held, að þessa grein þyrfti vissulega að skoða.

37. gr., í kaflanum um eftirlit með vátryggingarfélögum, hljóðar svo:

„Setja skal á stofn tryggingaeftirlit, sem hefur eftirlit með starfsemi vátryggingarfélaga og rekstri þeirra samkv. ákvæðum laga þessara og reglugerða settra samkv. þeim.

Ráðh. setur í reglugerð nánari ákvæði um verksvið og skyldur tryggingaeftirlitsins. Þarna er verið að koma á opinberu eftirliti með viðskiptastarfsemi, sem einstaklingar hafa lagt í. Það getur vel verið og má vel vera rétt, að það þurfi að hafa einhvers konar eftirlit með þessu. En í þeim greinum, sem á eftir koma, er valdsvið þessa eftirlits það mikið, að mér sýnist þarna vera einnig mjög gengið á rétt þeirra einstaklinga og aðila og athafnafrelsi þeirra, ef þeir vilja að þessum málum vinna.

Þá segir í 40. gr., 3. mgr.: „Tryggingaeftirlitið skal kanna almenna skilmála vátryggingarfélaga og gæta þess, að þeir séu í samræmi við lög og góða viðskiptaháttu í vátryggingarviðskiptum. Reynist svo ekki vera, skal nema brott það, sem tryggingaeftirlitið telur sig ekki geta samþykkt:

Það, sem hér segir um tryggingaskilmála, gildir einnig um iðgjöld. Það er sem sagt búið að taka það úr höndum aðila, sem til slíkra félaga hafa stofnað, hvaða iðgjöld þeir vilja bjóða sínum viðskiptavinum. Ef það að mati ráðh. eða þessarar n. er ekki í samræmi við það, sem þeir telja að sé eðlilegt, þá hafa þeir leyfi til að breyta iðgjöldunum. Ég hygg, að þarna sé einnig mjög langt gengið og ekki inn á rétta leið, því að auðvitað eiga vátryggingar að vera bein viðskiptafyrirtæki. Ef einhver getur boðið betri kjör en annar, þá á hann að njóta þess. Þetta er hin almenna grundvallarregla viðskiptanna. Sá, sem getur gert betur í einhverri grein, á að njóta þess, en ekki vera settur undir ríkisvald, hann megi kannske ekki gera það, sem hann telur rétt, þeir kæmu úr rn. og segðu: Þetta er ekki það, sem okkur sýnist. Þú verður að hækka þín iðgjöld eða haga þínum skilmálum á þann veg, eins og okkur sýnist uppi á rn.

42. gr. frv., sem einnig er í sambandi við tryggingaeftirlitið, hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta :

„Tryggingaeftirlitið getur krafið þá, er vátryggingarstarfsemi reka, um hvers konar gögn og upplýsingar, sem því þykir þurfa. Þá getur það rannsakað eða látið rannsaka alla starfsemi þessara aðila og á rétt á að fá óhindraða og tafarlausan aðgang að bókhaldi og skjölum þeirra:

Mér sýnist, að hér sé verið að gefa þessum aðilum beinan lögreglurétt. Réttur einstaklinga er verndaður í stjórnarskránni að vissu marki og ég hygg, að þetta sé eitt af því, sem ekki verði gert, nema viðkomandi aðilar fái beint lögregluvald til þess að vaða inn á skrifstofu á hvaða tíma sólarhrings kannske sem er eða heimili viðkomandi ráðamanna og heimta lagt fram allt bókhald og fá óhindraðan aðgang að því og öllum skjölum, sem bókhaldinu fylgja. Ég held, að þarna sé alldjúpt tekið í árinni og gengið á persónurétt og persónufrelsi einstaklinganna. Ef að dómi rn. og ráðh. væri eitthvað athugavert við starfsemi einhvers tryggingarfélags, þá hefur hann auðvitað þá leið samkv. lögum, sem í gildi eru, að láta fara fram þá rannsókn, sem honum sýnist, á starfsemi fyrirtækisins. Hann þarf ekki að vera að gefa þessari sérstöku n. beint lögregluvald, án þess að hún þurfi að fá nokkurn úrskurð frá lögreglustjóranum eða æðri stjórnvöldum, það beri að gefa henni beint lögregluvald til þess að vaða inn á skrifstofur og í bókhald og skjöl þeirra aðila, sem þarna eiga hlut að máli.

48. gr. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Vátryggingarfélög þau, er starfa samkv. sérlögum, skulu innan tveggja mánaða frá gildistöku laga þessara senda trmrh. umsókn um starfsleyfi og skráningu í vátryggingarfélagaskrá:

Mér datt í hug, þegar ég las þessa grein, eitt vátryggingarfélag hér á landi, elzta vátryggingarfélagið á landinu, en það á 110 ára afmæli núna í ágúst n. k. Það er Bátaábyrgðarfélag Vestmannaeyja. Það hefur starfað óslitið í 110 ár. Samkv. þessu lagafrv. þarf það nú að sækja um starfsleyfi eftir 110 ára sleitulaust starf. Þó að aldrei hafi borið neitt upp á, þó að það hafi aldrei þurft að vera upp á nokkurn komið, nokkurn aðila, hvorki opinberan né einstakan aðila, þá þarf það nú að sækja um leyfi til stjórnvalda að fá að halda rekstrinum áfram. Ég segi: Er það virkilega svo, að hæstv. ráðh. detti í hug að bjóða þeim félögum, sem búin eru að starfa áratugum saman eða í meira en heila öld, að þau þurfi allt í einu að koma upp í rn. og spyrja knékrjúpandi, hvort þau megi halda áfram starfsemi sinni? Ég vek athygli á þessu hér, vegna þess að þetta félag hefur frá upphafi starfað samkv. sérstökum lögum sem félagsmenn þess hafa sett sér. Það er að einu leyti, ef ég man rétt, háð lögum um bátaábyrgðarfélög, lögum frá 15. apríl 1967, en í 6. gr. þeirra laga segir, að bátaábyrgðarfélag það, sem nú starfar, sé undanþegið ákvæðum þessara laga. Ég get ekki um það sagt á þessu stigi, hvort þetta 110 ára gamla félag uppfyllir í öllum atriðum þær kröfur, sem gerðar eru í þessu frv., en ef það gerir það ekki og þeir, sem því stjórna, finna sex eitthvað misboðið með því og draga að senda ráðh. eða rn. beiðni, þá er það skýrt tekið fram í 55. gr., að trmrh., eins og þar segir, skuli þegar í stað skipa rannsóknarnefnd til að kanna hag félagsins og gera till. um ráð til úrbóta. Ég verð að segja, að mér finnst með þessu lengra gengið en ég tel eðlilegt, það sé verið að ganga þarna mjög freklega á rétt bæði þessa félags og annarra félaga, sem lengi hafa starfað. Það félag, sem ég tilnefndi áðan, hefur starfað sleitulaust í 110 ár, eins og ég sagði. Það varð á löngu tímabili, að ég hygg, fyrir hlutfallslega meiri skakkaföllum, meira bátatjóni heldur en gerðist víðast hvar um land. Það stóð það allt saman af sér vegna fyrirhyggju þeirra manna, sem þessu félagi stjórnuðu. Það hefur alla tíð gætt þess að endurtryggja það mikið af sínum tryggingum, að það gæti alltaf staðið við allar sínar skuldbindingar. Það getur vel verið, að ráðh. og þeirri n., sem um þetta á að fjalla, finnist þetta tóm vitleysa, en þetta hefur þó gerzt og þetta hefur tekizt á þann veg, að þetta félag hefur dafnað og blómstrað þau ár, sem það hefur starfað, og aldrei þurft að vera upp á neinn komið, hvorki opinberan aðila né annan í sambandi við starfsemi sína eða þær skuldbindingar, sem það hefur á sig tekið.

Ég skal nú ekki fara um þetta fleiri orðum, enda ekki ástæða til þess, þar sem hæstv. ráðh. hefur lýst yfir, að hann ætlist ekki til þess að frv. nái fram að ganga nú á þessu þingi, heldur sé það afhent þm. til athugunar og það komi til umr. og afgreiðslu, þegar Alþ. kemur saman á hausti komanda. Ég tel þetta vel farið hjá ráðh. og tel sannarlega ekki vanþörf, að þetta mál verði skoðað mun betur og að horfið verði frá þeirri meginstefnu, sem er í frv., að gera alla aðila, sem þarna eiga hlut að máli, beint háða á mjög óeðlilegan hátt í mörgum tilfellum stjórnvöldum landsins. Vátryggingarstarfsemin hér í landinu hefur, þó að auðvitað í þessu tilfelli hafi kannske einhvers staðar orðið á misbrestur, þróazt þannig, að ekki er um nein stór skakkaföll að ræða.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð, en ég vildi láta þessar aths. mínar koma hér fram við 1. umr.