03.05.1972
Neðri deild: 68. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 141 í C-deild Alþingistíðinda. (2938)

269. mál, vátryggingarstarfsemi

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson) :

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að fara í neinar langar almennar umr. eða fara að rifja upp umr., sem hér fóru fram í gær, eins og hv. þm. Guðlaugur Gíslason gerði áðan. En sá ágreiningur, sem fram kom í ræðu hans annars vegar og ræðu minni hins vegar, er ákaflega skýr og eðlilegur. Hann er í því fólginn, að ég lít á tryggingarstarfsemi sem félagslega starfsemi, sem beri að meta og skipuleggja frá félagslegum forsendum, en þessi hv. þm. vill líta á tryggingarstarfsemi sem venjulegan gróðarekstur, og hann er andvígur því, að allur almenningur eða opinberir aðilar hafi íhlutunarrétt um reksturinn. Þetta er ágreiningurinn í hnotskurn. Það er um þetta, sem deilan stendur. Þau atriði, sem hann gagnrýndi í frv., snerust öll um þetta, um þær till. mínar, að það sé litið á þessi félög sem félagslega starfsemi og að það eigi að gefa neytendum eða viðskiptavinum þeirra aukin réttindi frá því, sem nú er.

Þannig gagnrýndi hann það ákvæði 10. gr., sem ég minntist á í framsöguræðu minni, að ráðh. sé heimilt að skipa fulltrúa í stjórn þessara fyrirtækja. Eins og ég benti á, þá er þarna um að ræða veikara ákvæði en er í lögum annars staðar á Norðurlöndum. Þar er þetta skylda, en hér er það aðeins heimild. En hér tel ég vera um ákaflega veigamikið atriði að ræða. Hitt er rétt hjá hv. þm., að það verður að sjálfsögðu að setja einhverjar reglur um það, hvernig fulltrúinn er skipaður, og fara verður að því með fullri gát, því að það er síður en svo ætlun mín að fara að efna til einhverrar úlfúðar í þessum félögum, heldur einvörðungu að tryggja það, að viðskiptavinir félaganna hafi fullan rétt í sambandi við ákvarðanir, sem teknar eru efst uppi, fulla vitneskju um það, sem verið er að gera.

Á sama hátt hafði hann við það að athuga, að ríkisstj. skipaði sérstakan endurskoðanda af sinni hálfu til að fara ofan í fjármál þessara félaga. Það er auðvitað gert til þess, að tryggingaeftirlitið geti rækt þær skyldur, sem á það eru lagðar, og því aðeins geta menn gagnrýnt það, að þeir vilji ekki hafa neitt eftirlit með þessum félögum, heldur láta þau vera eins og frumskóg, eins og þau hafa oft verið, og ýta undir það, að þarna komi upp og eflist annarleg gróðasjónarmið, en ekki þau félagslegu sjónarmið, sem eiga að móta alla tryggingarstarfsemi hvernig svo sem rekstrarfyrirkomulag hennar er.

Hv. þm. var að fetta fingur út í það, að í 24. gr. er um það talað, að tryggingastærðfræðingur verði að hafa sérstakt starfsleyfi trmrh., þetta sé til marks um frekju og yfirgang þessa ráðh., sem allt vilji undir sig sölsa. En ég hugsa, að hv. þm. viti það gjörla, að ýmis starfsheiti eru að forminu til við það bundin, að ráðh. heimili þau. Þetta er formsatriði. Menn fara í tiltekið rn. og leggja þar fram gögn um það, að þeir hafi fengið rétt til að kalla sig tilteknu starfsheiti, og það er ekkert annað, sem í þessu felst. Þetta er gert á fjölmörgum sviðum og er þess vegna ekkert nýmæli og enginn yfirgangur á neinn hátt.

Hv. þm. hafði einnig við það að athuga, að tryggingaeftirlitið gæti breytt iðgjöldum, og taldi, að þar væri um að ræða háskalega skerðingu á frelsi þessara félaga. En ég tel þetta ákvæði vera ákaflega mikilvægt. Það hefur komið upp aftur og aftur hér á Íslandi, að tryggingarfélögin, sem hér hafa starfað, hafa haft um það samvinnu og samráð sín á milli, hvernig ætti að haga iðgjöldunum. T. d. hefur það komið ákaflega skýrt fram að undanförnu, þegar tryggingarfélögin hafa sótt á með hækkanir, sem hafa verið rökstuddar, að útreikningarnir hafa verið sameiginlegir fyrir öll félögin. Öll félögin þurftu að fá sömu hækkunina, bæði þau, sem voru vel rekin, og þau, sem voru illa rekin. Þetta er auðvitað engin samkeppni. Þetta er einokunarstarfsemi. Þessari einokunarstarfsemi er hægt að halda áfram, þegar þægilegt er að starfa fyrir þessi félög ekkert síður en þegar tímabundnir erfiðleikar eru, eins og verið hafa í sambandi við bílatryggingar, einar saman að vísu. En að sjálfsögðu verður tryggingaeftirlit að hafa heimild til þess að breyta iðgjöldum, ef það kemst á snoðir um það, að tryggingarfélög hafa samsæri sín á milli um að halda uppi allt of háum gjöldum.

Í ræðu minni hér áðan vakti ég sérstaka athygli manna á því, að í frv. fælist heimild ráðh. til þess að neita að skrá tryggingarfélög í vátryggingarfélagaskrá og veita því starfsleyfi, ef tryggingaeftirlitið teldi ekki þörf fyrir þessa starfsemi né að starfsemi þess væri til eflingu heilbrigðri þróun vátryggingarstarfsemi í landinu. Hér er um að ræða ákvæði, eins og ég sagði áðan, sem eru bæði í norskum, sænskum og finnskum lögum. Í norsku lögunum segir svo:

„Tillatelse skal likeledes nektes dersom oprettelsen av selskapet ikke ansees stemmende med forsikringstagernes, det offentliges eller almenhetens interessar.“ „Skal nektes“ — það er ekki heimildarákvæði, eins og í frv., heldur skylda. Það er lögð sú skylda á ráðh. að meta, hvort það er félagsleg þörf fyrir starfsemi slíks vátryggingarfélags, og ef matið er neikvætt, þá á hann að neita því um starfsemi. Svona hörð eru ákvæðin í norsku lögunum. Í íslenzku lögunum er sagt: „getur“, það er heimild. Á sama hátt segir í sænsku lögunum, að veita skuli leyfi, þ. e. a. s. heilbrigð þróun tryggingamálanna á að vera forsenda þess, að leyfi sé veitt til þessarar starfsemi. Og í finnsku lögunum er nákvæmlega sama sjónarmið, það er heilbrigð þróun tryggingamála, sem þarna er mælikvarðinn.

Það eru þessi félagslegu sjónarmið, sem nú hafa verið í stöðugri sókn að því er varðar afstöðu manna til tryggingarfélaga. Þessi sjónarmið eru uppi á Norðurlöndum og ákaflega víða, og ég tel vera mjög tímabært, að við fjöllum á sama hátt um þessi tryggingarmál á Íslandi. Ég held, að það sé samdóma álit allra manna, sem eitthvað hafa komið nálægt vátryggingarstarfsemi, að þróun þessara mála var um skeið ákaflega óskynsamleg og ákaflega kostnaðarsöm fyrir þjóðfélagið. Ástæðan til þess, að þessi hv. þm., Guðlaugur Gíslason, á erfitt með að skilja ákvæði af þessu tagi, er, að hann er af gamla skólanum. Hann fylgist ekki með í þeirri félagslegu þróun, sem er að gerast allt umhverfis okkur. Ég er aðeins að gera hér till. um það, sem þykir alveg sjálfsagt í öllum löndum umhverfis okkur, þar sem eru einhver félagsleg viðhorf til mála. En þau sjónarmið, sem þessi hv. þm. var með, að það ætti ekki að skipta sér neitt af gróðastarfsemi á þessu sviði, láta það alveg afskiptalaust, þetta eru fornaldarsjónarmið, sem menn aðhyllast alls ekki almennt nú, ekki heldur — það er ég sannfærður um skoðanabræður hans eða flokksbræður réttara sagt.