03.05.1972
Neðri deild: 68. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 146 í C-deild Alþingistíðinda. (2940)

269. mál, vátryggingarstarfsemi

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Það er rétt, sem hæstv. trmrh. sagði hér áðan, að okkur greinir vissulega á í grundvallaratriðum, bæði í sambandi við þetta mál og mörg fleiri, sérstaklega um það, hve ríkan þátt stjórnvöld eigi að hafa eða hve mikil afskipti stjórnvöld eigi að hafa af atvinnurekstrinum og yfirleitt af einstaklingsframtakinu. Um þetta greinir okkur réttilega á í grundvallaratriðum. Ef á að líta á vátryggingarstarfsemi, eins og hæstv. ráðh. sagði að hann gerði, eingöngu frá félagssjónarmiði, þá mætti vissulega færa margt undir það í þjóðfélaginu, sem bæri þá að líta á sem félagsstarfsemi. Þetta er að vissu marki ekkert frábrugðið öðrum viðskiptum. Þarna er um að ræða seljendur og kaupendur. Kaupandinn metur, hvort hann vill skipta við þennan, hvort hann telur hann nægilega tryggan fyrir sig eða tryggari en aðra, og hagar sínum viðskiptum í samræmi við það. Ef það ætti að fara að vernda rétt neytenda í viðskiptum almennt, þá erum við komin að því, sem ég sagði hér áðan, að þá ættu stjórnvöld til að vernda þennan rétt að fara að skipa fulltrúa í stjórnir hinna almennu viðskiptafélaga, hvort sem væri á sviði verzlunar eða annars. Þarna er ekki um annað að ræða. Ef hið opinbera ætti með lögum að fara að gæta beint réttar neytandans að þessu leyti, þá væri alveg eins hægt að halda því fram, að það væri sjálfsagt að skipa fulltrúa í stjórn þeirra verzlunarfyrirtækja, sem bein viðskipti hafa við neytendur. Ég tel, að þetta eigi að vera á valdi neytenda, hvar þeir vilja hafa sín viðskipti, hvort sem það er á þessu sviði eða öðrum.

Að þetta þurfi endilega að vera félagsmálastarfsemi, eins og hér hefur komið fram, bæði hjá hæstv. ráðh. og hv. síðasta ræðumanni, þá vil ég nú ekki fullyrða um það, en ég man ekki betur en að elzta vátryggingarfélag eða stærsta vátryggingarfélag í heiminum, Lloyds í London, sé ekki byggt upp á neinum félagslegum grundvelli. Þar eru það viðskiptasjónarmiðin, sem ráða. Menn hætta þar fé til þess að hagnast á því, ef svo ber undir, og tapa því, ef illa fer. Þetta er hinn almenni gangur viðskipta, og ég hygg, að þó að hægt sé að tilgreina eitthvað annað í löggjöf annarra þjóða í sambandi við þessi mál, þá má það vel vera, og ég lét það koma fram í minni fyrri ræðu, að ég teldi eðlilegt, að eftirlit væri með þessu eins og öðru. Það er ekki það, sem okkur greinir á um. Ég tel hins vegar, að það eftirlit, sem gert er ráð fyrir í frv., gangi allt of langt, skerði frelsi einstaklinganna og gangi of langt að því leyti. Um þetta greinir okkur, hæstv. ráðh. og mig, vissulega á. Og þetta er, eins og ég sagði í upphafi, aðeins einn þátturinn í því, sem er að gerast á Alþ. nú, en það er alltaf með nýrri og nýrri löggjöf verið að ganga lengra á rétt einstaklingsins, færa valdið og athafnafrelsið frá honum undir stjórnvöld. Þetta höfum við séð í hverju frv. á eftir öðru hér á Alþingi.

Það getur vel verið, að það séu menn hér bæði í mínum flokki og öðrum, sem þykir þetta ágætt. Ég fellst ekki á það. Þetta er ekki gamaldags sjónarmið, ég fullvissa hæstv. ráðh. um, að þetta eru ekki nein fornaldarsjónarmið eða gamaldags sjónarmið. Ég hef fylgzt með starfsemi þess vátryggingarfélags, sem ég gat um áðan, í meira en hálfa öld og tel mig alveg dómbæran um það, eftir því sem ég hef þar séð, og þekki það, að það er hægt að reka vátryggingarfélög alveg án þess að þar þurfi nokkur að bíða tjón. Og þó í þessu tilfelli, í þessum þætti viðskipta verði einhver misbrestur á, þá ætti að setja alla verzlunina undir jafnstrangt eftirlit og hér er gert ráð fyrir í þessu frv., ef það ætti að vera nægileg ástæða. Fara ekki á hverju einasta ári eitt eða fleiri verzlunarfyrirtæki yfir um eða verða gjaldþrota? Ég held, að það sé svo. Ef það ætti að nota það sem rök fyrir því, að það ætti að setja verzlunina alla undir jafnstrangt eftirlit, opinbert eftirlit, eins og hér er gert, þá væri ég því nákvæmlega jafnósamþykkur og ég er þeirri meginstefnu, sem er í þessu frv. að þessu leyti. En bæði get ég vel fallizt á, að þessi þáttur viðskiptanna, eins og ég sagði, þurfi að vera undir eðlilegu eftirliti og það sé eðlilegt, að lög, sem eru orðin 60 ára gömul, séu endurskoðuð. Það er allt saman eðlilegt. Það er ekki það, sem okkur greinir á um, heldur bara þá meginstefnu, sem í frv. er og miðar öll í þessa átt, eins og ég hef áður greint, að það er verið að ganga enn frekar á rétt einstaklinganna til frjálsra athafna heldur en ég tel eðlilegt.

Ég vil nú beina fsp., af því að ég tel mig þurfa að vita það, — beina fsp. til hæstv. ráðh. í sambandi við Bátaábyrgðarfélag Vestmannaeyja. Ef svo skyldi reynast, að eftirlitið teldi starfsreglur þess félags, sem er búið að standa í 110 ár, eins og ég sagði, í einhverjum atriðum ekki vera í samræmi við það sem þessi lög gera ráð fyrir og það, sem kannske hinir nýskipuðu eftirlitsmenn vildu vera láta, ef það kæmi nú á daginn, að svo væri, mundi hann þá skipa rannsókn á því félagi eða krefjast þess, að það breytti öllum sínum starfsreglum, sem það hefur grundvallað sína starfsemi á í þetta langan tíma? Mundi hann krefjast þess af því, að það breytti sínum starfsreglum, eða setti það að öðrum kosti undir opinbera rannsóknarnefnd til þess að kanna starfsemina? Þetta tel ég, að ég þurfi að fá upplýst, vegna þess að þetta mál kemur vissulega til umr. heima í mínu héraði í sambandi við þessi lög. Og af það skyldi vera svo, að það ætti að raska starfsemi þessa gamla félags, grundvallarstarfsemi þess og reglum þess með þessum nýju dögum, þá mundi ég telja það mjög illa farið, því að ég tel, að það félag hafi sýnt það á þessum 110 árum, að það hafi verið alveg þess umkomið, þeir menn, sem því hafa stjórnað og stjórna í dag, eru alveg þess umkomnir að gæta hagsmuna þeirra aðila, sem þeir skipta við. En ég óska svars frá hæstv. ráðh. um það, hvort beri að líta þannig á, að þetta yrði gert, ef þessar reglur væru ekki alveg í samræmi við það, sem hans ágæta væntanlega n. teldi, að þær ættu að vera.