03.11.1971
Efri deild: 9. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 150 í C-deild Alþingistíðinda. (2952)

50. mál, almannatryggingar

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson) :

Herra forseti. Frv. það til l. um breyt. á l. nr. 67 frá 20. apríl 1971, um almannatryggingar, sem hér liggur fyrir, er flutt til staðfestingar á brbl., sem út voru gefin .19. júlí 1971, en með þeim brbl. er flýtt um 5 mánuði gildistöku laga um almannatryggingar, sem samþykkt voru á síðasta þingi. Eins og menn muna, urðu mjög miklar umr. um almannatryggingar á síðasta þingi í tilefni af þeirri lagasetningu. Það hafði lengi verið gagnrýnt af þáv. stjórnarandstöðuflokkum, að almannatryggingakerfið á Íslandi hefði dregizt aftur úr því, sem gerðist í nágrannalöndum okkar, og þar væri þörf verulegra umbóta. Það var gagnrýnt af þáv. stjórnarandstöðuflokkum, að frv. það, sem þá lá fyrir, gengi engan veginn nógu langt, og í annan stað var það gagnrýnt mjög, að gildistaka þess kæmi seint til framkvæmda. Voru fluttar um það till. að þáv. stjórnarandstöðuflokkum, að lögin tækju gildi tafarlaust, og til vara var flutt till. um, að lögin tækju gildi á miðju þessu ári. Því var mjög eðlilegt, þegar kosningar leiddu í ljós, að fyrrv. ríkisstj. hafði ekki lengur meiri hluta í landinu, en fyrrv. stjórnarandstöðuflokkar tóku að semja um myndun nýrrar ríkisstjórnar, að þeir ræddu mjög fljótlega um að gera það að einu fyrsta framkvæmdaatriði sínu að láta þessi lög koma til framkvæmda eins fljótt og auðið væri, og þetta voru fyrstu brbl., sem ríkisstj. gaf út, lög um það, að lífeyrisgreiðslur almannatrygginganna ættu að taka gildi 1. ágúst, í stað þess að ætlazt var til, að þau tækju gildi um áramót.

Þær breytingar, sem þá komu til framkvæmda, voru í stórum dráttum á þessa leið: Elli- og örorkulífeyrir einstaklings hækkaði úr 4900 kr. á mánuði í 5880 kr. Barnalífeyrir hækkaði úr 2149 kr. á mánuði í 3900 kr. Mæðralaun hækkuðu með 1 barni úr 430 kr. á mánuði í 516 kr., með 2 börnum úr 2333 kr. á mánuði í 2800 kr. og með 3 börnum eða fleirum úr 4667 kr. á mánuði í 5600 kr. Þá hækkuðu ekkjubætur úr 6140 kr. í 7368 kr. á mánuði og greiðast nú í 6 mánuði í stað þriggja áður. Hafi ekkja yngra barn en 16 ára á framfæri sínu, á hún rétt á bótum, sem nema 5525 kr. á mánuði í 12 mánuði í stað 4900 kr. í 9 mánuði áður. Þá greiðist ekkjulífeyrir nú að fullu við 60 ára aldur, en lækkar um 5% við hvert ár eða brot úr ári, sem vantar á aldurinn. Árlegur ekkjulífeyrir er nú 70500 kr., en var áður 50004 kr. Þá kom 1. ágúst til framkvæmda það nýmæli, að elli- og örorkulífeyrisþegum voru tryggðar lágmarkstekjur, þ. e. a. s. þegar tekjur elli- og örorkulífeyrisþega eru lægri en 8400 kr. á ári, þá skal hækka lífeyri hans í það, sem vantar á þá upphæð. Þeir elli- og örorkulífeyrisþegar, sem þannig var ástatt um, fengu þannig hækkun úr 4900 kr. á mánuði í 7000 kr. á mánuði.

Þá var einnig tekið inn í þessi brbl. það ákvæði, að frá og með l. ágúst skyldi fæðingarstyrkur aldrei vera lægri en svo, að nægi fyrir 7 daga dvöl á fæðingardeild, þar sem konan fæddi. En þannig var ástatt, að fæðingarstyrkurinn nægði ekki fyrir þessari dvöl á fæðingardeild, þannig að það var til þess ætlazt, að til kæmi greiðsla frá foreldrum í sambandi við barneignir, sem er auðvitað óeðlileg skipan, og það orðalag, sem í þessum brbl. felst, á að leysa þetta mál til frambúðar, þ. e. a. s. að þarna er ákveðið það lágmark á þessu gjaldi, að það nægi fyrir 7 daga dvöl á fæðingardeild.

Þá var ákveðið, að allur kostnaðarauki, sem leiddi af setningu þessara daga, skyldi greiðast úr ríkissjóði. Sá kostnaðarauki var allverulegur. Hann nam í heild nærri 300 millj. kr.

Ég vil vænta þess, að Alþ. afgreiði þetta frv. greiðlega. Að vísu kom það fram í sumum málgögnum stjórnarandstöðunnar, þegar þessi brbl. voru sett, að hér væri verið að efna til veizluhalda á heldur hæpinn hátt, að hér væri verið að framkvæma eyðslustefnu. En ég hygg, að þeir, sem þannig töluðu um skeið, hafi áttað sig á því, að þarna var um að ræða þarfir, sem vissulega verður að verja tiltækum fjármunum til. Hitt er svo annað mál, að þessi breyting, sem þarna kom til framkvæmda með brbl., er engan veginn nein fullnægjandi breyting á almannatryggingalögunum. Það vantar mikið á, að fyrirkomulag þeirra sé þannig, að við séum fullsæmdir af eða við stöndum jafnfætis þeim þjóðum, sem næst okkur eru, t. d. annars staðar Norðurlöndum. Þess vegna hefur verið sett í það sérstök n. að endurskoða tryggingakerfið í heild. Þessi n. hefur unnið kappsamlega að undanförnu og ég vænti þess, að fljótlega verði hægt að leggja hér fyrir þing till. um frekari breytingar á almannatryggingalögunum. Þær breyt., sem nú er rætt um að unnt verði að leggja fyrir Alþ. fljótlega, eru þær, að tekjutryggingin til aldraðs fólks og öryrkja verði enn hækkuð allverulega, og ég tel það vera eitt brýnasta verkefnið í sambandi við almannatryggingar að hækka þessar greiðslur. Það er ekkert fólk á Íslandi, sem býr við jafnnauman kost og einmitt þetta fólk, og ef við viljum stuðla að auknum jöfnuði hér á milli manna, þá er það eitt brýnasta verkefnið að bæta afkomu þessa fólks. Þær hugmyndir, sem þar eru uppi, eru þær, að tekjutryggingin skuli nema 120 þús. kr. á ári, þ. e. a. s. ef það vantar á, að elli- og örorkulífeyrisþegar hafi 120 þús. kr. í árslaun, þá skuli koma til hækkun á lífeyri, sem vantar á þá fjárhæð, þannig að það sé tryggt, að lágmarkstekjur verði 120 þús. kr. á ári, og sama gildi um hjónalífeyri, eftir því sem við á, þ. e. a. s. 90% af lífeyri tveggja einstaklinga, þannig að hjónalífeyrir verði þá 2l6 þús. kr. á ári og jafnframt verði fellt niður ákvæði um, að sveitarsjóðir greiði 2/5 hluta hækkunarinnar af hinum almenna lífeyri. Hér er um að ræða mjög veigamikla breytingu, og ég tel, að í henni mundi felast mjög veruleg endurbót á almannatryggingakerfi okkar.

Önnur atriði, sem rætt hefur verið um í n., eru, að stofnaður verði sérstakur tryggingadómstóll. Það koma oft upp álitamál og ágreiningsmál í sambandi við tryggingabætur og hefur verið erfitt að fá þau mál útkljáð á eðlilegan hátt. Stundum hefur orðið að reka þau fyrir venjulegum dómstólum, sem er óeðlileg skipan, þannig að um það er nú rætt að koma upp sérstökum tryggingadómstól, sem fjalli einvörðungu ummál af þessu tagi og geti útkljáð þau á tiltölulega stuttum tíma. Annað atriði, sem ég vil minnast á, er það, að til þessa hefur verið greiddur barnalífeyrir, ef faðir er örorkulífeyrisþegi, en við teljum eðlilegt, að barnalífeyrir verði einnig greiddur, ef móðir er öryrki, sem getur hvorki innt framfærsluskyldu af hendi með starfi á heimili né utan þess, og séu báðir foreldrar ófærir að inna framfærsluskyldu af hendi verði greiddur tvöfaldur barnalífeyrir. Þá teljum við eðlilegt, að heimilt verði að greiða launalífeyri með börnum, sem ekki reynist gerlegt að feðra. Þarna er um að ræða vandamál, sem eru mjög erfið fyrir ýmsa, eins og menn vita, og er sjálfsagt, að þetta atriði verði tekið inn í tryggingakerfi okkar. Þá er einnig af sama tagi sú hugmynd að greiða barnalífeyri vegna barna manna, sem sæta gæzlu- eða refsivist, enda hafi hún varað a. m. k. í 3 mánuði. Þá er talið eðlilegt að taka upp þá skipan til samræmingar, að bætur, sem ekkjur hafa fengið greiddar í 12 mánuði vegna fráfalls maka, verði einnig greiddar ekklum, og ákvæði um slíkar bætur í 12 mánuði í viðbót, ef eftirlifandi hefur barn innan 16 ára á framfæri sínu, þær verði greiddar til 17 ára aldurs barnsins.

Ég vænti þess sem sagt, að þessar till. og ýmsar aðrar muni fljótlega verða lagðar fyrir þingið. Önnur atriði, sem verið er að fjalla um í n., er það, að sjúkradagpeningar einstaklinga hækki og verði jafnháir sjúkradagpeningum kvæntra, en dagpeningar vegna hvers barns á framfæri hækki um tiltekna upphæð. Þá er það alkunna, að í málefnasamningi ríkisstj. var um það rætt, að það fyrirkomulag að innheimta tryggingagjöld sem nefskatta verði afnumið, en í staðinn verði þau innheimt eftir hinu almenna skattakerfi. Að þessu ber að sjálfsögðu að vinna, þetta er fyrirheit í stjórnarsáttmálanum, en það fellur auðvitað inn í þá endurskoðun á hinu almenna skattakerfi, sem nú er unnið að.

Önnur atriði, sem um er fjallað í n., er að lögleiddar verði örorku- og dánarbætur vegna sjómanna á bátum undir 12 tonnum að stærð í sama mæli og sjómenn á stærri skipum njóta nú samkvæmt kjarasamningum. Þá er einnig fjallað um það í n., að sjúkrasamlög greiði tannlækningar að einhverju leyti, sem væri mjög mikilvæg endurbót á núverandi tryggingakerfi, enn fremur að greiðsla ferðakostnaðar og dvalarkostnaðar sjúklinga, sem leita þurfi utan af landi til sérfræðinga, komi eftir föstum reglum frá Tryggingastofnuninni. Mörg fleiri atriði er fjallað um í þessari n., en eins og ég sagði áðan, þá hugsar n. sér að skila af sér í áföngum, þannig að viss tiltekin atriði geti komið til framkvæmda á undan öðrum, og þar ber hæst það atriðið, sem ég minntist á áðan, að hækka tekjutrygginguna. Það hefur verið kannað, hversu mikið það mundi kosta að hækka tekjutrygginguna upp í 120 þús. kr. á ári fyrir einstakling eða 216 þús. kr. fyrir hjón á ári, og það virðist munu kosta milli 200 og 300 millj. kr. á ári og þó sennilega nær 300 millj.

Mér þótti rétt að gera grein fyrir þessu í sambandi við þetta frv. um staðfestingu á brbl., til þess að hv. alþm. viti, að það er haldið áfram að vinna að þessum málum og að þær ákvarðanir, sem teknar voru þegar eftir að stjórnin tók við í sumar, eru aðeins upphaf að mun víðtækari breytingum, sem nú er unnið að.

Ég vil svo leggja til, að frv. verði vísað til heilbr.- og félmn.