03.11.1971
Efri deild: 9. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í C-deild Alþingistíðinda. (2954)

50. mál, almannatryggingar

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég skal strax í upphafi taka það fram, að ég stend ekki hér upp til þess að andmæla því frv., sem hér er til umr., heldur get ég, eins og hv. síðasti ræðumaður, 3. þm. Reykn., lýst yfir eindregnum stuðningi mínum við það og þá einu breytingu, sem í því felst, en hún er sú að flýta gildistöku þeirra laga um 5 mánuði, sem fráfarandi ríkisstj. flutti og fékk samþ. á síðasta Alþ. Sú breyt. er áreiðanlega til bóta fyrir þá, sem þarna eiga hlut að máli, og ber að fagna henni. Þetta er mismunurinn á málflutningi núv. stjórnarandstöðu og hinnar fyrrv., sem hafði, ja, gjarnan þau orð, sem varla eru eftir hafandi, um þetta frv., þegar það var flutt á sínum tíma, þó að fyrri hluti ræðu hæstv. trmrh. nú væri kafli úr þeirri ræðu, sem var framsöguræða fyrir frv., þegar það var flutt á síðasta vori, og endurtekning á því, sem þar var sagt. Þá var þetta frv., sem hér er nú flýtt gildistöku á, en það er eina breytingin í þessu frv., þá var það ýmist kallað hundsbætur eða lélegt framlag ríkisstj. til þessara mála. Afrek núv. hæstv. ríkisstj. er svo það eitt að flýta gildistökunni um 5 mánuði, en því atriði ber út af fyrir sig að fagna, og vísa ég um það til ummæla hv. 3. þm. Reykn. einnig. En í grg. og fjárlagakafla hæstv. ráðh. nú, heilbr.- og trmrh., þýtur svolítið öðruvísi í þessum skjá heldur en þaut á s. l. vori, þegar við vorum að flytja þetta frv. Nú segir hæstv. ráðh. eða hans rn. í grg. með núv. fjárlagafrv.: „Meginorsök þeirrar hækkunar“, þ. e. a. s. á ríkisútgjöldunum, „er framlag til lífeyristrygginga og á rætur sínar að rekja til breytingar á lögum um almannatryggingar, sem samþ. var á síðasta þingi og fól í sér verulega bótahækkun almennt, annarra en fjölskyldubóta.“

Ég endurtek það, að það þýtur svolítið öðruvísi í þessum skjá nú. Það mátti annað sjá s. l. vor í því blaði, sem hann ritstýrði þá, og annað mátti skilja af ummælum hæstv. ráðh. þá, þegar hann var stjórnarandstæðingur hér á þingi, að maður ekki tali um sjálfa kosningabaráttuna, eins og hún var háð, og þau heiðarlegheit, sem fram komu þar.

Síðari hluti ræðu hæstv. ráðh. var svo um það að skýra frá hugleiðingum í nýrri n., sem hann hefði skipað til endurskoðunar á tryggingalöggjöfinni. Nú er það mín persónulega skoðun, og ekki sízt eftir að hafa kynnzt þessum málum um 6 ára skeið sem þáv. ráðh., að tryggingalögin séu eitt það í íslenzkri löggjöf, sem sífellt verði að vera í endurskoðun. Ber því að fagna því, að framhald hefur verið á því, sem áður var fyrir hendi, að um framhaldsendurskoðun á þessum lögum sé að ræða. Þeim verður að breyta stöðugt með breyttum lífsháttum og breyttum þjóðfélagsháttum og setja ný ákvæði í lögin í staðinn fyrir þau, sem úrelt eru. Það er mín skoðun og hún er óbreytt, að þarna þurfi að vera um stöðuga endurskoðun að ræða.

Það var fundið fyrrv. ríkisstj. mjög til foráttu, að þegar — eins og hv. stjórnarandstæðingar sögðu þá — illa stóð á fyrir henni í einhverjum málum, þá átti hún að afsaka sig með því, að það væri komin n. í málið. Ég hef ekki tölu á þeim n., sem útungað hefur verið af núv. hæstv. ríkisstj. þá þrjá mánuði, sem hún hefur setið að völdum. Það þurfti að koma nú og endurtaka flutning á frv., sem fráfarandi ríkisstj. hefur samið um þessi mál, án þess að hafa nokkuð nýtt til málanna að leggja annað en mjög loðnar hugleiðingar núv. endurskoðunarnefndar í tryggingamálum. Það er því ástæða til að spyrja hæstv. ráðh., hvort sem hann vill svara því nú eða síðar: Er það meining hæstv. núv. ríkisstj. að taka inn í lög þær brtt., sem fyrrv. stjórnarandstæðingar fluttu á síðasta þingi? Við þessu væri ágætt að fá svar, því að þá átti þetta að vera lafauðvelt.

Miðað við það, að við vorum þá nýstignir upp úr öldudal efnahagserfiðleika, þá treystumst við ekki til þess á þeirri stundu, sem frv. var samið, um s. l. áramót, að gefa loforð um gildistöku fyrr en um næstu áramót. Sem betur fer landslýðs alls vegna hefur orðið geysileg breyting á öllu útflutningsverðmæti þjóðar okkar frá þeim erfiðleikatímum og það svo, að verðlag á t. d. frystiafurðum, sem er einn stærsti útflutningsliður okkar, hefur hækkað um meira en helming. Aðrar fisktegundir hafa hækkað flestallar verulega, að rækju og humar undanteknum, og hefur það gerbreytt öllu útliti til hins betra í íslenzku þjóðlífi. Þeir, sem fyrst ættu að njóta þess, eru tryggingaþegar og næstlægst launaða fólkið í landinu, sem þó hefur óskerta heilsu. Þess vegna spyr ég: Ef hægt var að flytja þær brtt. af nokkurri sanngirni, sem fyrrv. stjórnarandstæðingar fluttu á síðasta þingi, er þá ekki full ástæða til að endurflytja þær till. nú, ef hv. núv. stjórnarliði hefur verið nokkur alvara í þeim tillöguflutningi og þeim blekkingavaðli, sem viðhafður var við flutning frv. á síðasta þingi? Þess vegna ítreka ég spurningu mína: Er það meiningin að taka brtt. þáv. stjórnarandstæðinga inn í frv. nú? Ég segi: Hafi alvara verið að baki þeim brtt. þá, þá er full ástæða til að ætla, að núv. ríkisstj. geti framkvæmt þær með hliðsjón af þeim batnandi horfum, sem eru í öllum útflutningsmálum okkar í dag. Og ég segi, að það sé mikið gleðiefni fyrir alla landsmenn, og ég fagna því, að mjög hefur skipt um til hins betra í þeim efnum, svo mikla erfiðleika sem við höfum haft af því tímabili, sem á undan var gengið um 21/2-3 ára skeið, en sem betur fer er yfirstigið nú.

Annarri spurningu langaði mig til að beina til hæstv. ráðh. Ég vil nú ekki hafa sama hátt á og fyrrv. stjórnarandstæðingar að krefja hann svars á stundinni, en það er hans mál að meta, og ég fyrtist ekkert, þó að hann óski frests til að svara þessu, en það er mjög mikilvægt í sambandi við hugleiðingar manna og meðferð málsins í n. Ég á nú sæti í þeirri n., sem væntanlega fær málið til meðferðar, þannig að frekari kostur gefst þá að fjalla um málið þar, og get ég þess vegna stytt mál mitt nú. En það er sú spurning: Ætlar ríkissjóður áfram að taka á sig það greiðsluhlutfall, sem hann tók á sig við gildistökuna 1. ágúst s. l.? Ég hygg, að það sé nauðsynlegt fyrir hv. alþm. og ekki sízt þá n., sem málið fær til meðferðar, að vita um þankagang ríkisstj. í þessu efni.

Ég get, eins og ég sagði í upphafi þessara orða minna, tekið undir nánast flest af því, sem hv. 3. þm. Reykn. sagði, og hans till. um meðferð málsins. Þær eru flestar komnar frá samtökum þeirra aðila, sem hann minntist á þar. Ekki vil ég sízt taka undir það, að nauðsynlegt er með hliðsjón af þeirri verðbólgu, sem ríkt hefur og ríkir í landinu með kannske aldrei meira fjöri en í dag, að krónutölurnar, sem verið hafa í lögum um of langan tíma, verði afnumdar og fundið ákveðið hlutfall, þannig að ekki þurfi um það að deila eða breyta lögum í hvert skipti, sem launahækkanir eða annað verðbólguástand eykur áhrif sín í landsmálunum á hverjum tíma, eins og við höfum því miður orðið varir við að undanförnu.

Í sambandi við þann tryggingadómstól, sem hæstv. ráðh. minntist á áðan, þá hefði ég haldið með hliðsjón af því, hvernig tryggingaráð hefur verið skipað, og ætla má, að sé vilji ríkisstj. á hverjum tíma, að þar eigi allir þingflokkar að hafa sína fulltrúa, til viðbótar því, sem hv. 3. þm. Reykn, talaði um, að samtök þeirra, sem bóta njóta úr almannatryggingunum, ættu þar einnig fulltrúa, að hugsanlegt væri að útvíkka starfsemi tryggingaráðs og örva það til fljótari afgreiðslu, þannig að ekki þyrfti að koma upp nýju nefndaapparati í sambandi við úrskurði þá, sem nauðsynlegt er að gera í þessum málum á hverjum tíma. Ég held, að þarna væri frekari ástæða til þess að ætla, að tengslin milli Tryggingastofnunarinnar. sem er framkvæmdaaðilinn um úthlutun bótafjárins, og tryggingaráðs verði ekki rofin með þriðja aðila, sem sé svonefndum tryggingadómstóli. Þetta er hugmynd, sem ég varpa fram að lítt hugsuðu máli, en tel þó ástæðu til að minnast á hér.

Ég skal svo ekki á þessu stigi málsins — samkv. því, sem ég áðan sagði, á ég kost á því að fjalla um málið í hv. heilbr.- og félmn. — lengja þessar umr., en ég tel nauðsynlegt að rifja upp fyrir hæstv. ráðh. og fylgismönnum núv. hæstv. ríkisstj., að brtt. þær, sem þeir lögðu fram, þegar fyrrv. ríkisstj. flutti það frv., sem hér er nú flutt óbreytt að öðru leyti en um gildistökuna, þær brtt. eru til á prenti.