03.11.1971
Efri deild: 9. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í C-deild Alþingistíðinda. (2956)

50. mál, almannatryggingar

Auður Auðuns:

Herra forseti. Það var í framhaldi af þeim svörum, sem hæstv. trmrh. gaf við þeirri fsp., hvort upp yrðu teknar í till. stjórnarinnar þær brtt., sem þáv. stjórnarandstæðingar fluttu við meðferð almannatryggingalaganna hér á Alþ. s. l. vor. Hann hefur gefið þær upplýsingar, að tekjutryggingin muni verða látin koma til framkvæmda, að mér skilst, strax frá áramótum væntanlega, en um aðrar brtt. eða hækkanir, sem hér voru bornar fram á sínum tíma af stjórnarandstöðunni þáv., sagði hann það, að þær mundu að sjálfsögðu verða teknar til athugunar og yrðu þá eftir atvikum látnar koma til framkvæmda í áföngum. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðh., hvort þetta beri að skilja svo, að um næstu áramót muni eingöngu tekjutryggingin koma til framkvæmda. Ég býst við því, að margir hafi áhuga á að vita, hvort það muni vera von á hækkun annarra bóta frá því, sem tryggingalögin gera ráð fyrir, þau tryggingalög, sem koma að fullu til framkvæmda um næstu áramót.

Eins og við öll minnumst, sem hér áttum þá sæti í þessari hv. þd., þá kom fram hér sægur af brtt., sem allar voru til hækkunar á bótum eða aukningar á fjölda þeirra, sem bótanna skyldu njóta. Ég var að líta yfir umr. frá því í fyrra vegna ákveðins atriðis, sem ég þurfti að kynna mér, ekki beint í sambandi við þetta frv., og þar rakst ég á eitt, sem mér finnst að geti í rauninni verið samnefnari fyrir kröfur stjórnarandstæðinga þá, þó að brtt. hafi að vísu ekki allar gengið svo langt. En þar sé ég, að við 1. umr. um almannatryggingafrv. hér í þessari hv. þd. segir hv. núv. deildarforseti í þessari hv. þd., sem því miður er nú fjarverandi:

„Ég vil svo aðeins að lokum segja það,“ — segir hv. þm. þá — „að mér finnst höfuðgallinn á þessu frv. vera sá, að lífeyrisgreiðslurnar og bæturnar samkv. lögunum séu of lágar, og það hefði ekki verið nein ofrausn, þó að þær hefðu verið tvöfaldaðar frá því, sem nú er. Og það hefði verið raunverulega alveg lágmark þess, sem hugsanlegt var, að við gætum sætt okkur við.“

Svo mörg voru þau orð. Í ljósi þessara orða, þessara ummæla og þeirra mjög mörgu og miklu brtt., sem fram komu, þá finnst mér ekki úr vegi að bera fram þessa fsp., sem ég áðan orðaði: Er það aðeins tekjutryggingin, sem á að hækka um næstu áramót, eða verða það einnig aðrar bætur?

Hv. 1. landsk. þm. minntist á það áðan, að ríkisstj. hefði verið mikilvirk í nefndaskipun, eftir að hún tók við völdum, og ég verð að viðurkenna, að maður ruglast oft í ríminu við að gera sér grein fyrir því, í hvaða mál hafa verið settar n. og í hvaða mál hafa ekki verið settar n. En ég þóttist þó muna það, að til endurskoðunar á almannatryggingalögunum hefði verið skipuð n. af hæstv. trmrh., og ég var að rifja upp, hverjir eiga sæti í þessari n., og þá get ég ekki stillt mig um, af því að ég var að fara yfir umr. og lesa ræðu núv. deildarforseta okkar við það tækifæri, að vitna í það, sem hann segir um endurskoðunina, sem fram hafi farið á almannatryggingalögunum og leiddi til þess frv., sem í fyrra var lagt fyrir þingið. Hann segir:

„En um þá endurskoðun, sem hér hefur farið fram, vil ég fyrst segja það, að ég tel, að undirbúningur og framkvæmd þessarar endurskoðunar hafi verið í samræmi við verstu siðvenjur, sem tíðkazt hafa um endurskoðun stórra lagabálka á undanförnum áratugum undir viðreisnarstjórninni. Hér hefur pólitísk n. verið sett til starfa og pólitískir gæðingar að mestu leyti, þó að ég vilji ekki segja, að það sé ekki út af fyrir sig um margt mætra manna þar að ræða, en það hefur verið forðazt, sem átti að vera regla varðandi endurskoðun á slíkum stórum og þýðingarmiklum málaflokkum sem þessum, að þar væri um breitt, pólitískt samstarf að ræða, t. d. mþn., sem skipuð væri fulltrúum allra þingflokka:

Eins og ég segi, ég gat ekki stillt mig um að vitna í þessi ummæli, þegar ég renndi augunum yfir þau nöfn, sem sýna okkur nefndarskipun hæstv. trmrh. Í henni eiga sæti, ef ég man rétt, Geir Gunnarsson alþm., Adda Bára Sigfúsdóttir varaformaður Alþb., Tómas Karlsson ritstjóri Tímans og varaþm., mikið starfandi í Framsfl., og Halldór S. Magnússon, sem ég ætla, að hafi verið efsti maður á framboðslista Samtaka frjálslyndra og vinstri manna í Reykjaneskjördæmi í síðustu kosningum. Ég býst við, að hæstv. núv. deildarforseta hafi ekki órað fyrir því, að hann ætti eftir að snoppunga núv. trmrh. svona rækilega, þegar hann setti fram þessa skoðun sína.

Ég ætla ekki að gera nefndarskipunina frekar að umtalsefni. Ég er þó ekki frá því, að betur hefði mátt til takast, en ég vona, að hæstv. ráðh. gefi mér einhver svör við því, hvort það muni frá næstu áramótum mega eiga von á hækkun annarra bóta en tekjutryggingarinnar.