08.12.1971
Efri deild: 24. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 283 í B-deild Alþingistíðinda. (296)

86. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég sé ástæðu til þess að gera nokkrar aths. og raunar mótmæla orðum hv. 11. þm. Reykv. út af nál., sem hann vitnar í og ég undirritaði ásamt fleirum 17. marz 1969. Hann er þar mjög að reyna að koma því inn hjá hv. þdm., að eitthvert samband sé á milli þessara væntanlegu kommissara og þess fyrirkomulags, sem lagt var til í frv. um Atvinnumálastofnun, fjárfestingu og gjaldeyrisnotkun, sem var borið fram og var mál nr. 114 á þinginu 1968. Hér er gersamlega blandað saman málum, og, með leyfi forseta, verð ég að gera nokkurn samanburð á þessum tveimur frv., því að tilefni gafst ærið til þess, og virðist sem hv. stuðningsmenn stjórnarflokkanna hafi nógan tíma til umr., og verðum við þess vegna að fá tíma líka til þess að svara.

Í 12. gr. segir: „Hlutverk Atvinnumálastofnunarinnar er: 1. Að semja áætlanir til langs tíma um þróun atvinnuveganna og marka stefnu í atvinnumálum þjóðarinnar.“ Í lið 4 segir: „Að hafa á hendi heildarstjórn fjárfestingar- og gjaldeyrismála og þá einkum með því að setja um þau almennar reglur.“ Í 5. gr., eins og gert var hér grein fyrir áðan, segir nákvæmlega um skipan stjórnar, en hún er alveg óháð og er ekkert kveðið á um samband stjórnar við hæstv. ríkisstj. á hverjum tíma. En þessu er allt öðruvísi farið í frv. núna og engan veginn sambærilegt. Frv. um Atvinnumálastofnun var á allt annan veg, og það kemur rækilega fram í nál., sem við undirrituðum á sínum tíma, þáv. meiri hl., og röktum það, sem í því er frá okkar sjónarmiði, og þarf raunar ekki að fara nánar út í það. En að ætla að blanda því saman og segja, að tengslin núna séu lausn, þannig að þetta geti allt verið slétt og fallegt með þessum þremur mönnum, er auðvitað alger fjarstæða. Og það hefur komið fram hér hjá hæstv. forsrh., að við séum að draga í efa hæfni manna, sem eru í stjórnmálum, í pólitík, til þess að geta skipað vissar trúnaðarstöður. Það er fjarri mér.

Ég vil undirstrika það, sem kom fram í hans ræðu, að þegar Efnahagsstofnunin var sett á stofn fyrir allmörgum árum, höfðum við fámennt starfslið og lítt þjálfað, „en í dag“, sagði hann, „höfum við þjálfað starfslið og nokkra reynslu, og á því byggir þetta frv.“ Það er þess vegna, sem ég tel, að hér sé um skref fram á við að ræða, og því fylgjum við því í Alþfl. Við byggjum á því, sem fyrr var gert, og það er alveg út í hött að reyna æ ofan í æ að kasta hnútum að því, sem vel hefur verið gert á undanförnum árum, þó að viðreisnarstjórn hafi verið og núv. stjórnarandstöðuflokkar. Ég veit ekki, af hverju þessi handaþvottur þarf sí og æ að koma upp í umr. Af hverju þá? Af hverju að vera að byggja frv. á því, sem vel hefur verið gert undanfarið og vitna í það annað slagið og draga svo í land hinn sprettinn? Eða ef þetta hefur verið svona vont, hví þá að reikna með því, að einhverjir starfsmenn úr Efnahagsstofnuninni í dag verði starfsmenn í þessari hugsanlegu Framkvæmdastofnun? Þá byggjum við ekki á neinni reynslu. Og hvernig fer þá um ýmsa hluti? Nei, því er nú verr, að Akkillesarhællinn, veiki punkturinn í frv., er að troða þarna inn þessum sérstöku mönnum, og það er engin þörf á því, vegna þess að í 2. gr. er rækilega tekið fram, hvernig stjórn stofnunarinnar skal skipa, og Alþ. hefur þar val um, og ríkisstj. mun sjá til þess á hverjum tíma í gegnum sinn meiri hl., að þar sitji menn, sem styðja hana, og hún hefur þess vegna fullkomið stjórnunarlegt vald, sem eðlilegt er, og í brtt. okkar, sem við stóðum allir að og hv. 4. þm. Norðurl. v. orðaði, er einmitt kveðið svo á, að leita skuli umsagnar ríkisstj. hverju sinni, þegar um stórákvörðun er að ræða, og þetta tel ég eðlilegt.

En þessu var engan veginn svo farið í Atvinnumálastofnuninni. Hún hafði sjálfstæða, óháða stjórn, eða átti að hafa, sem þurfti engan veginn að leita til ríkisstj., og hún átti að marka stefnu í atvinnumálum þjóðarinnar alveg óháða ríkjandi stjórnarstefnu. Það gat auðvitað ekki farið saman. Þetta er ekkert skylt. En í dag erum við á því, að þetta eigi að fara saman. Þetta er alveg augljóst mál, mismunurinn á frv. Ég vildi bara undirstrika þetta rækilega, að það er ekki hægt að blanda þessu saman, og þess vegna varð ég að mótmæla þessum hugsunarhætti, sem kom hér fram í ræðu hv. í 1. þm. Reykv.

Það væri vissulega ástæða til þess að fara enn meira út í þetta frv. að gefnu tilefni, en ég vil undirstrika það, að gildi þessarar stofnunar og áhrif veltur gersamlega á góðri og skipulegri framkvæmd. Þetta vil ég undirstrika. Þrír pólitískir umboðsmenn draga úr þessum möguleika og setja leiðinlegan blæ á stofnunina.