04.05.1972
Efri deild: 75. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 181 í C-deild Alþingistíðinda. (2974)

271. mál, hafnalög

Jón Árnason:

Herra forseti. Ég vildi aðeins segja nokkur orð við þessa umr. um frv. til hafnalaga. Enda þótt hafnalögin, sem í gildi eru, séu aðeins frá árinu 1967, þá er það orðið sýnt og það var samþ. á síðasta Alþ. þáltill. um að endurskoða þurfi þessi lög. Það var sýnt, að það var þörf á því, sérstaklega vegna ýmissa greiðsluerfiðleika, sem margar hafnir voru komnar í. Það fór ekki fram hjá alþm., að staða margra hafnarsjóða var mjög erfið og því brýn nauðsyn á að taka þessa löggjöf til endurskoðunar. Ég fagna því, að þetta frv. liggur nú fyrir, og ég tel, að margvíslegar endurbætur felist í þessu frv., enda þótt það kunni að vera, að einstakar greinar frv. og ákvæði þurfi nánari athugun, sem þarf þá að fjalla nánar um í nefnd. Það hefur stundum komið fram hjá hv. þm., að þeir teldu, að það væru fleiri hafnir en nú eru, sem eigi að gera að landshöfnum. Persónulega er ég þeirrar skoðunar sjálfur, að ekki eigi að stefna í þá átt með hafnirnar að gera þær að landshöfnum. Ég álít, að hitt sé miklu skynsamlegra, að styrkja að verulegu leyti stofnkostnaðinn og sjálfa uppbyggingu hafnanna. en láta síðan sveitarfélögin um reksturinn. Það segir sig sjálft, að hinar ýmsu hafnir úti um landið hafa misjafnlega góða aðstöðu til þess að standa undir stofnkostnaði og rekstrarkostnaði hafnanna, en því minni sem hlutur þeirra verður í stofnkostnaðinum sjálfum, þeim mun viðráðanlegra verður það fyrir hafnarsjóðina eða sveitarfélögin, en margir sveitarsjóðirnir verða nú að standa undir stofnkostnaðinum með hafnarsjóðunum og að sjálfsögðu verður þetta miklu viðráðanlegra, eftir að hlutur þeirra hefur minnkað eins og er gert ráð fyrir í þessu frv. Samkvæmt upplýsingum, sem hæstv. ráðh. gaf áðan, þá mun reynslan hafa verið sú, að með gildandi lögum mun þátttaka hins opinbera í hafnarframkvæmdum, sem áttu sér stað á árinu 1971, hafa numið um 60%, þegar þá er lagt til grundvallar, að nokkur hluti af hafnarframkvæmdunum, það má segja dýrari hluti hafnarframkvæmdanna, sem er yzta umgjörðin, hafi verið styrktur með 75%, en 60% innri uppbygging hafnanna. Nú er í stórum dráttum lagt til, að allar hafnarbyggingarnar sjálfar verði með 75% styrk frá ríkissjóði og að hafnarsjóðirnir leggi þá fram á móti 25%. Ég álít, að það komi hér vel til móts við það, sem þurfti að gera, að auka framlag hins opinbera í þessu sambandi, og eftir að búið er að gera þessar breytingar varðandi hafnarframkvæmdirnar eða kostnaðinn við þær, þá verði mun fleiri hafnir færar um að standa undir fjárhagslegum kostnaði, og rekstri hafnanna. Það hefur komið skýrt í ljós á undanförnum árum við afgreiðslu fjárl. á hverju einasta ári, að það hafa verið fjölmargar hafnir sem hafa verið svo í standandi vandræðum með sín fjárhagsmál, að ríkissjóður hefur orðið að taka á sig á hverju ári meira og minna af greiðslum af ríkisábyrgðarlánum, af því að viðkomandi hafnarsjóðir og sveitarfélög hafa ekki verið fær um að standa við þær skuldbindingar, sem hafa verið í sambandi við umrædd hafnalán.

Ég ætla ekki við þessa umr. að fara að ræða einstakar greinar þessa frv., en stóð upp m. a. til þess sérstaklega að vekja athygli á bráðabirgðaákvæði II, sem er aftast í frv. Hæstv. ráðh. sagði, að sú breyting mætti segja að væri ekki efnisleg, sem væri í frv. frá því, sem n. lagði til, en það er þó kveðið skýrara á um þau skilyrði, sem fyrir styrknum verða. Þar segir, með leyfi forseta: „Skilyrði fyrir því, að styrkur þessi sé greiddur, er að eigi séu fleiri en ein dráttarbraut í hverju sveitarfélagi og þar sé jafnframt rekin skipasmíðastöð og veruleg útgerð að dómi samgrn. Rn. getur jafnframt sett það skilyrði fyrir styrkveitingu til þessara dráttarbrauta, að viðkomandi hafnarsjóður eða sveitarsjóður verði eigandi dráttarbrautar að eigi minni hluta en 50% í formi sameignarfélags eða hlutafélags:

Þannig var þetta orðað hjá n., sem útbjó þetta frv., og það er þetta heimildarákvæði, sem rn. eða hæstv. ráðh. hefur breytt og gert, eins og fram kemur í frv., afdráttarlausara, en þar segir í 5. tölulið:

„Um dráttarbrautina sé stofnað hlutafélag, þar sem framlög ríkis og sveitarfélags verði eignarhluti þeirra, enda nemi hann a. m. k. 50% hlutafjár:

Það, sem ég vildi leggja áherzlu á sérstaklega í sambandi við þetta, var það, að n. tæki til athugunar, hvort ekki væri hægt að fara þarna einhvern milliveg. Ég skil aðstöðu ráðh. mjög vel í þessu sambandi, að hann hafi ekki viljað taka á sig að dæma, hvort þetta ætti að koma til framkvæmda í hverju einstöku tilfelli eða ekki, því að þarna var aðeins um heimild að ræða, eins og þetta var orðað hjá n. En ég tel, að það séu kannske möguleikar á því að fara þarna einhvern milliveg, þannig að t. d. sveitarfélagi og hafnarsjóði verði gefinn kostur á því að verða hluthafi eða eignaraðili að allt að 50% í hverri, dráttarbraut eða skipasmíðastöð út af fyrir sig. Mér finnst, að það skipti kannske miklu máli í þessu sambandi, hvort greinin væri afgreidd þannig, því að það kann vel að vera, að jafnvel þótt sé nauðsynlegt að koma upp dráttarbraut og skipasmíðastöð á ýmsum útgerðarstöðum úti á landi, þá sé ekki fyrir hendi vilji eða geta hjá viðkomandi sveitarfélagi til þess að leggja fram eða vilja taka 50% að fullu í kostnaðinum eða hlutafjármagninu, sem væri þá fyrir hendi. Það gæti vel verið, að það væri hægt þá að fallast á að breyta þessu þannig, að þessi heimild yrði þá alltaf fyrir hendi, að skilyrðin væru þannig, að eigendur viðkomandi dráttarbrautar opnuðu heimild til þess, að viðkomandi sveitarfélag og ríkissjóður ættu kost á því að eiga 50%, en það yrði samt sem áður ekki, ef viðkomandi sveitarfélag eða ríkissjóður hefði ekki áhuga á að eiga þessi 50%. Þá útilokaði það ekki, að viðkomandi skipasmíðastöð gæti notið þeirra hlunninda, sem felast í þessu bráðabirgðaákvæði.

Það var aðeins þetta, sem ég vildi koma sérstaklega á framfæri og beina til n., að hún athugaði möguleika á að umorða þessa grein eða athugaði, hvort það væri ekki rétt í meðförum málsins áður en hún kemur til 2. umr. Ég tel, að það sé um svo stórt mál að ræða, enda þótt flestöll ákvæði í þessu frv. séu þannig, að það sé ekki að vænta þess, að það verði um mikinn ágreining að ræða milli þm. um efni frv. Samt sem áður verður því ekki neitað, að hér er um stórt mál að ræða, og ég tel það mjög hæpið, þó að fullur vilji sé fyrir hendi, að það verði á þessum fáu dögum, sem eftir eru af þessu þingi, hægt að ljúka afgreiðslu þessa máls. Æskilegast hefði það verið. En þá er nauðsynlegt, að það verði búið að ljúka því að leita umsagna um málið, eftir því sem talin verður þörf á að gera, og það liggi þá fyrir tilbúið til afgreiðslu, þegar þing kemur saman í haust. Ef það væri, þá gætu hafnamálayfirvöldin vitanlega tekið tillit til þess, sem er í þessu frv. um gagnasöfnun, sem nauðsynleg er til þess að geta lagt málefni hafnanna fyrir t. d. við afgreiðslu næstu fjárlaga. Mér finnst það gæti verið í höndum ráðh. að láta slíka gagnasöfnun fara fram, enda þótt frv. væri ekki afgreitt á þessu þingi, en fljótlega þegar þing kæmi saman í haust, og þá væri hægt að starfa og taka tillit til þess við afgreiðslu næstu fjárlaga og hafnamála yfirleitt á komandi hausti.