16.05.1972
Efri deild: 83. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í C-deild Alþingistíðinda. (2979)

278. mál, Fósturskóli Íslands

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég ætla aðeins að ítreka það, sem ég sagði hér í umr. í sambandi við frv. um dagheimili fyrir börn, að þetta frv. er auðvitað nauðsynlegt samfara því frv. um dagvistunarstofnanir, því að ella væri ekki unnt að reka þær. Ég ítreka það, að ég harma, að dráttur hefur orðið á framlagningu þessa frv., en n. sú, sem skipuð var til þess að undirbúa frv., lauk störfum í febrúarmánuði s. l. Þessi dráttur gerir það að verkum, að það sýnist vera borin von, að þetta frv. nái fram að ganga á þessu vori, og því geta orðið tafir á því, að þessi nauðsynlega skipulagsbreyting geti komizt á.

Ég vil leyfa mér að beina þeim tilmælum til hæstv. ráðh., að hann reyni að gera það sem í hans valdi stendur til þess að auðvelda þessa skipulagsbreytingu á skólanum og þannig, að hann geti sem fyrst tekið til starfa í hinu nýja formi á næsta vetri, en það þurfi ekki að bíða eftir heilu skólaári til þessa. Það er að vísu svo, að ýmis einstök atriði í þessu frv. geta orkað tvímælis og verið hér skiptar skoðanir um, og Alþ. og hv. d. þurfa auðvitað að gefa sér tíma til að skoða þau. En af vel er að málinu unnið, ætti fljótlega eftir byrjun þingstarfa næsta haust að vera unnt að afgreiða málið frá d., og í ljósi þess að vart er að heildarstefnu til um ágreiningsmál að ræða, þá eru þessi tilmæli mín borin til hæstv. ráðh., að hann greiði götu undirbúningsstarfs þeirra skipulagsbreytinga, sem frv. hefur inni að halda.