13.05.1972
Efri deild: 80. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í C-deild Alþingistíðinda. (2985)

279. mál, dagvistunarheimili

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. 2. þm. Vesturl. og fagna því, að þetta frv. er fram komið, um leið og það ber að harma, að ekki er unnt að afgreiða það á þessu þingi, og hefði verið æskilegra, að það hefði séð dagsins ljós fyrr á þinginu. Eins og ákvæði þessa frv. bera með sér, þá mun það ekki verða virkt samkv. þeim fyrr en við byrjunarframkvæmdir á næsta ári. Borgarstjórn Reykjavíkur hefur oft og tíðum fjallað um þessi mál dagheimila-, skóladagheimila- og leikskólamál. Og á síðasta ári var gerð sérstök ályktun um að beina þeim tilmælum til Alþ., að samþykkt yrðu lög, sem hefðu þá skyldu ríkissjóðs inni að halda að greiða stofnkostnað þessara heimila að hálfu leyti í móti þessu er gengið að því er dagheimilin og skóladagheimilin snertir í þessu frv., en hins vegar ekki nema að ¼ varðandi leikskóla. Með tilliti til hinnar miklu þarfar, sem á þessum heimilum er, þá var hækkað framlagið af hálfu borgarsjóðs Reykjavíkur til stofnkostnaðar upp í 50 milli. kr., og það er álit okkar, að í Reykjavík veiti ekki af 100 milli. kr. framlagi til byggingarframkvæmda slíkra heimila.

En það er annað og meira auðvitað, sem til þarf að koma, heldur en húsnæðið, hinn ytri rammi. Það þarf og að huga að hinu innra starfi og þar er fyrst og fremst um nauðsyn á menntun fóstra að ræða. Í borgarstjórn hefur einnig verið samþykkt ályktun og tilmæli þess efnis að skora á löggjafarvaldið að gera Fóstruskólann að ríkisskóla. Fóstruskólinn er rekinn af Barnavinafélaginu Sumargjöf, og það hefur staðið honum persónulega mjög fyrir þrifum, að hann hefur verið fjárvana og allt fram að þeim tíma, að Reykjavíkurborg hljóp undir bagga með skólanum, verið í húsnæðishraki. Þetta er skóli, sem sinnir ekki eingöngu menntun fóstra fyrir barnaheimilin í Reykjavík, heldur og um land allt. Raunar hefur starfssvið fóstra verið víðtækara nú á síðustu árum en á barnaheimilunum einum. Þær eru víða mjög nýtir og þarfir og nauðsynlegir starfskraftar, og kemur þar t. d. til greina kennsla 6 ára barna. Ég vil þess vegna beina þeirri fsp. til hæstv. menntmrh., hvað líði störfum þeirrar undirbúningsnefndar, sem ég þykist vita, að hafi unnið að samningu frv. til l. um Fóstruskóla, og til þess að spyrja ekki um það, sem ég held, að ég hafi hugmynd um, nefnilega að þessi n. hafi lokið störfum og skilað frv. fyrir allmörgum mánuðum í menntmrn., hvað líði þeirri frv.-gerð og hvenær megi búast við framlagningu þess frv. Í þessu sambandi vil ég minna á það, að Fóstruskóli Sumargjafar hefur verið rekinn með halla undanfarin ár og fyrir þessum fjárskorti skólans var gerð grein, að því er ég hygg, í fjvn. hv. Alþ. og á Alþ. í umr. og við afgreiðslu fjárl. á s. l. vetri. Þrátt fyrir það felldu stuðningsmenn hæstv. ríkisstj. brtt. um mjög hóflega hækkun rekstrarstyrks til Fóstruskólans.

É tel, að svo góðra gjalda vert sem þetta frv. er, þá sé mjög dregið úr mikilvægi þess og þýðingu eða væntanlegum árangri af þeim lögum, sem samþykkt verða eftir meðferð frv., ef þess er ekki gætt að sinna menntun fóstranna, sem eiga að sinna hinu innra starfssviði á þessum heimilum. Ég hef ekki haft tíma eða tækifæri til þess að kynna mér þetta frv. í einstökum atriðum og vil því ekki gera það að umræðuefni að því leyti.