13.05.1972
Efri deild: 80. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í C-deild Alþingistíðinda. (2986)

279. mál, dagvistunarheimili

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Ég vil ekki láta hjá líða að svara fsp. hv. 2. þm. Reykv. um, hvað líði frv. um Fóstruskólann, sem hann skýrði réttilega frá, að skilað hefði verið á síðasta vetri frá n., sem undirbjó það mál. Ég get upplýst, að ákveðið hefur verið að flytja það frv. sem stjfrv. Ætlunin var, að það gæti orðið samferða því frv. um aðstoð ríkisins við dagvistunarheimili, sem hér liggur fyrir. Af því varð þó ekki vegna anna í prentsmiðju, en engu að síður vænti ég, að frv. um Fósturskóla muni sjást, áður en þessu þingi lýkur. (Gripið fram í: Það er komið.) Jæja, það vill svo til, að það er verið að útbýta því á borðin, svo að menn geta skoðað þessi tvö mál í samhengi, og ég ætlaði einmitt að hafa það mín lokaorð að taka undir þau ummæli hv. þm., að hér verður að róa á bæði borð. Það verður að fylgjast að fjárstuðningurinn við dagvistarstofnanirnar og ráðstafanir til að efla menntun fullgilds starfsliðs til að starfa við þær stofnanir.