16.05.1972
Efri deild: 83. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í C-deild Alþingistíðinda. (2996)

282. mál, sameinaður framhaldsskóli

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég vil fagna því, að þetta frv. er hér fram komið, um leið og það er miður, að tími vinnst tæpast til að afgreiða það á yfirstandandi þingi, ef haldinn er sú áætlun að ljúka þingi fyrir næstu helgi. Ég hlýt þó að láta í ljós þær óskir, að áfram verði unnt að vinna að undirbúningi málsins, svo að framkvæmd þess tefjist ekki.

Það mun hafa verið 19. febrúar 1970, sem samþ. var samhljóða í borgarstjórn till. frá borgarfulltrúa Sjálfstfl. um undirbúning að stofnun tilraunaskóla á gagnfræða- og menntaskólastigi, sem annars staðar hefur verið nefndur. Það var gert á þeim grundvelli, að borgarstjóri teldi, að vaxandi fólksfjöldi, fjölbreyttari atvinnuhættir og starfsskipting gerðu nauðsynlegt hér í Reykjavík sérstaklega að hefja undirbúning að skipulagningu á framkvæmd og markmiði kennslunnar í skólum borgarinnar, einkum að því er varðaði gagnfræðaskóla og námsefnd þeirra, og yrði gerð tilraun í einum af skólum borgarinnar, að fengnu samþykki menntmrn., með framhaldsskóla, er næði til 19 ára aldurs, þar sem velja mætti um fjölbreytt nám og mismunandi námsbrautir. Væri markmið slíks skóla annars vegar að búa nemendur sem bezt undir að hefja störf í ýmsum greinum atvinnulífsins, en miðaði hins vegar að því að veita þeim nemendum, sem hygðu á frekara nám, nægilegan undirbúning til inngöngu í háskóla eða hliðstæða tækniskóla og sérskóla. Allýtarleg grg. fylgdi þessari till. og var hún samþ. í borgarstjórn og samþ. að fela fræðsluráði Reykjavíkur undirbúning málsins og leggja grg. um hana fyrir borgarstjórn fyrir 1. júlí 1971. Fræðsluráði var heimilað að ráða sérstakan man.n til þess að undirbúa málið, og í júní 1970 réðst Jóhann S. Hannesson fyrrv. skálameistari til þessa starfs og vann að því og hefur unnið að þessu máli síðan, eða frá 1. sept. 1970. Hafa einstakir þættir málsins jafnóðum verið ræddir á fundum fræðsluráðs, og í fyrstu viku júlímánaðar s. l., 1971, lágu í endanlegu formi fyrir till. og grg. með þeim. Það hefur svo verið rætt í borgarstjórn 15. júlí 1971 og var þá til fyrri umr. þar, en ákveðið var að leita samstarfs við menntmrn. áður en seinni umr. færi fram í borgarstjórn.

Eins og menn muna, þá var svo í ársbyrjun 1970, þegar þessi till. var upprunalega samþ. í borgarstjórn, að þá stóð ýmiss konar endurskipulagning menntamála fyrir dyrum, þótt að mestu væri óráðið, hvernig henni yrði skipað. Frv. til l. um menntaskóla lá þá fyrir Alþ. og varð að lögum og í því er heimild til að setja á stofn í tilraunaskyni menntaskóla, sem séu óháðir tilteknum ákvæðum laganna.

Eins og hv. alþm. muna, var á síðasta þingi lagt fram frv. til l. um grunnskóla og var gert ráð fyrir því, að menntmrn. gæti veitt einstökum fræðsluumdæmum heimild til að starfrækja tilraunaskóla með undanþágu frá ákvæðum fræðslulaga og reglugerða. Hefði það frv. náð fram að ganga, hefði með þessum frv. báðum verið til staðar heimild til þess að hefja þessa tilraunaskólastarfsemi, sem hér er um að ræða, að því er ég bezt fæ séð og mér hefur verið fortalið. En grunnskólafrv. hefur ekki verið lagt fyrir yfirstandandi Alþ. og verður væntanlega ekki til meðferðar á Alþ. fyrr en næst þegar það kemur saman, og því er nauðsynlegt, þar sem einnig getur verið dýpra á því frv. og það umfangsmeira en svo, að ætlast megi til, að það verði afgreitt fljótlega í byrjun næsta þings, þá er nauðsynlegt að fá þá heimild um stofnun sameinaðs framhaldsskóla, sem þetta frv. felur í sér.

Ég skal ekki rekja það, að meðan á þessum undirbúningi stóð hefur komið fram nál. frá verk- og tæknimenntunarnefnd, og ber áliti hennar mjög saman við það undirbúningsstarf, sem unnið hefur verið að á vegum Reykjavíkurborgar að stofnun þessa tilraunaskóla.

Ég fór þess á leit við menntmrn. með bréfi, dags. 26. júlí s. l., að tilnefndir yrðu fulltrúar ríkis og borgar til viðræðu um málið, og með bréfi menntmrn. til mín, dags. 9. sept. s. l., var á þessa málaleitan fallizt, og skipaði rn. af sinni hálfu Andra Ísaksson deildarstjóra í menntmrn. til að taka þátt í viðræðunum, en af hálfu borgarinnar var Jónas B. Jónsson fræðslustjóri til kvaddur. Þessir viðræðuaðilar urðu sammála um till. að samningi þeim, sem hér er um að ræða og frv. byggir á. Var sá samningur samþ. í borgarstjórn í des. s. l. Það verður að segjast, að það hefði átt að vera unnt að taka frv. þetta til meðferðar fyrr og fá það afgreitt á þessu þingi, og því hlýt ég vegna þessara tafa að beina því til hæstv. ráðh., að slíkur dráttur verði ekki til þess að seinka undirbúningi að stofnun skólans.

Það er nauðsynlegt, að einhverjir þeir, sem verða starfandi við skólann, geti þegar á næsta vetri aflað sór framhaldsmenntunar erlendis og sérþekkingar á rekstri skóla, sem hliðstæðir eru væntanlegum framhaldsskóla. Þá þarf að hefjast handa um hönnun skólans og undirbúning byggingarframkvæmda, en það verður tæplega unnt, nema einhverjir starfsmenn séu ráðnir að skólanum. Af því að þetta mál var í öllum aðalatriðum frágengið, að því er mér skildist, af hálfu rn. og borgaryfirvalda um eða upp úr áramótum, er sú töf, sem orðið hefur, bagaleg. En ég vænti þess, að hæstv. ráðh. geri allt, sem í hans valdi stendur, til að ráða bót á því.