28.10.1971
Neðri deild: 7. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 194 í C-deild Alþingistíðinda. (2999)

28. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Benedikt Gröndal) :

Herra forseti. Það mun hafa verið skoðun Íslendinga um langan aldur, að sjómannastéttin nyti algerrar sérstöðu meðal atvinnustétta landsins. Þessi sérstaða stafar af því, hverjir starfshættir sjómanna eru, hve langar fjarvistir þeirra frá heimilum og hve mikil áhætta er oft fylgjandi störfum þeirra. Þessa sérstöðu hafa Íslendingar viðurkennt, m. a. með sérstökum skattaákvæðum fyrir sjómenn, sem verið hafa hér í lögum lengi. Er sömu sögu að segja í ýmsum öðrum löndum. Enda þótt almennt sé talið æskilegt, að sem fæstar undanþágur séu frá reglum um skatta einstaklinga, eru víða, t. d. í Noregi, algerlega sérstök ákvæði um skattlagningu sjómanna.

Hér á landi eru þær aðstæður, að það er nauðsynlegt að tryggja sjómannastéttinni að jafnaði nokkru hærri laun en tíðkast í landi, ef það á að vera tryggt, að góðir starfskraftar fáist á flotann. En fáist þar ekki góðir starfskraftar og sé ekki unnt að manna fiskiskip með eðlilegum hætti, kemur það fljótlega fram í minnkandi framleiðslu grundvallaratvinnuvegar þjóðarinnar og minnkandi útflutningsverðmætum.

Efnahagslíf Íslendinga hefur því miður verið miklum sveiflum háð, og þegar kreppuástand hefur ríkt, eins og síðast gerðist árin 1966–1969, hafa stjórnvöld orðið að gera ráðstafanir, sem gengu að ýmsu leyti nærri tekjum og afkomumöguleikum einstaklinga. Slíkar ráðstafanir koma oft hvað fyrst fram á sjómannastéttinni, vegna þess að laun sjómanna eru svo nátengd því verði, sem er á útflutningsafurðum okkar hverju sinni. En þess er að minnast, t. d. frá árinu 1968, þegar slíkar ráðstafanir voru síðast gerðar, að þær voru aðeins hluti af víðtækum efnahagsráðstöfunum, sem voru allþungbærar fyrir aðrar stéttir, raunar fyrir allar atvinnustéttir í þessu landi. Alþfl. stóð að slíkum ráðstöfunum 1968, en það var skoðun hans þá og það er skoðun hans sem, að þær hafi verið algerar neyðarráðstafanir, sem ekki varð komist hjá að gera vegna stórfelldra efnahagsörðugleika. Sem dæmi má minna á, að aðalútflutningsvara þjóðarinnar, fiskblokkin, var í verði fyrir neðan 20 cent, en í dag er verð fyrir sömu vöru um 45 cent. Það meira en 100%, sem munar á þessum örstutta tíma.

Alþfl. leit á þetta sem neyðarráðstafanir, sem að sjálfsögðu yrði að afnema á nýjan leik, eins fljótt og efnahagur þjóðarinnar og útflutningsatvinnuveganna leyfði. Fyrrv. ríkisstj. hafði þegar stigið tvö skref í þá átt, og Alþfl. fagnar því, að núv. ríkisstj. hefur með brbl. í sumar stigið þriðja skrefið.

Enda þótt ráðstöfununum frá 1968 hafi smám saman verið breytt, eftir því sem efnahagur hefur batnað, hefur verið augljóst á þessu ári, að gera verður frekari ráðstafanir til þess að tryggja, að góðir menn fáist til sjósóknar og hægt verði um allt land að manna bátaflota á eðlilegan hátt.

Við Alþfl.-menn í þessari deild höfum leyft okkur að flytja það frv., sem hér er til umr., en það fjallar um tekjuskatt, sem sjómönnum er gert að greiða. Frv. gerir í 1. gr. ráð fyrir breytingum á 14. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt. Í þeirri grein er fjallað um skattlagningu sjómanna, og eru þar veittir ýmsir sérstakir frádrættir, sem sjómenn njóta fram yfir aðra. Vegna þess að útsvarslög vísa til þessarar lagagreinar og þeir frádrættir, sem þarna eru skilgreindir, gilda einnig um útsvar, er ekki hægt að fara þá auðveldu leið að strika yfir ákvæði greinarinnar og setja almennar undanþágur í staðinn. Við höfum því farið þá leið að láta greinina standa, svo langt sem hún nær, vegna þess að hún mundi, ef frv. okkar verður samþ., fyrst og fremst gilda um útsvörin. Hins vegar leggjum við til, að aftan við 14. gr. komi ný mgr., sem hljóði svo:

„Sjómenn, sem skráðir hafa verið á íslenzk skip ekki skemur en 6 mánuði af skattári, skulu vera tekjuskattsfrjálsir upp að tilteknu tekjumarki, sem ríkisstj. ákveður.“

Það er sem sagt hugmynd okkar, að allur þorri sjómanna verði tekjuskattsfrjáls, þ. e. a. s. greiði ekki tekjuskatt til ríkisins. Við teljum ekki, að það sé unnt að veita sjómönnum frekari skattahlunnindi á kostnað sveitarfélaga í útsvari. Slíkt mundi koma ákaflega mismunandi niður á hin ýmsu sveitarfélög, þar sem gjöld sjómanna eru mismunandi mikill liður í tekjum þessara sveitarfélaga. Við viljum því eingöngu leggja þessi hlunnindi, sem við teljum rétt að veita, á ríkissjóð og væntum þess, að í svo góðu ári sem nú er verði þeirri hugmynd vel tekið. Þó að hér geti verið um að ræða aukin hlunnindi, sem muna sjómenn mjög miklu, geri ég mér vonir um, þó að ég hafi því miður ekki tölur um það, að þetta yrði ríkissjóði ekki svo þungbært, að hann mætti ekki við því. Við gerum ráð fyrir, að eitthvert hámark verði sett á þær tekjur, sem á þennan hátt má undanskilja tekjuskatt, og vegna síbreytilegs verðlags og annarra breytilegra aðstæðna teljum við rétt, að ríkisstj. ákveði þetta hámark hverju sinni. Enda þótt slíkt hámark verði sett, vil ég taka fram, að þeir menn í áhöfnum skipa, sem hafa meira en einfaldan hlut vegna ábyrgðarmikilla starfa og menntunarkröfu, eins og er um flesta yfirmenn skipanna, verða að njóta þessara hlunninda líka. Það er ekki síður mikilvægt, að unnt sé að fá góða yfirmenn til að stunda sjóinn, en margir þeirra, sérstaklega í vélstjórastétt, eiga nú kost góðra starfa í landi, og er því um að ræða verulega freistingu hjá þeim til að hætta sjámennsku.

Okkur er ljóst, að ýmisleg atriði í þessu sambandi má deila um, og fjórir hv. þm. Sjálfstfl. flytja frv., sem er einnig á dagskrá í dag, þar sem gert er ráð fyrir, að farin sé nokkuð önnur leið. Okkur er einnig ljóst, að það eru mismunandi sjónarmið í mismunandi verstöðvum, t. d. um það, hve skráningartímabilið skuli vera langt. Sumir telja, að einhver tekjuskattsfríðindi gætu komið til við styttri tíma en 6 mánuði og þá e. t. v. með tröppugangi, þannig að hlunnindi færu vaxandi eftir því sem skráningartíminn yrði lengri. Aðrir telja, að 6 mánuðir sé óþarflega stutt, og hyggilegra væri að hafa þetta mark hærra til þess að forðast hugsanlega misnotkun. Við höfum þó valið 6 mánuði, sem þegar eru fyrir í greininni, og er ekki lagt til, að því verði breytt.

Í umr., sem orðið hafa um kjör sjómanna á þessu þingi, hafa þegar komið fram ummæli af hálfu hæstv. sjútvrh. á þá lund, að vænta má stuðnings af hans hálfu við það, að sú hugmynd, sem fram er lögð í þessu frv., verði að veruleika. Núv. ríkisstj. hefur boðað endurskoðun á skattalögum og þá væntanlega á skattlagningu einstaklinga, sem heldur sat á hakanum miðað við skattalög fyrirtækja hjá fyrrv. ríkisstj. Ætti því frekar að vera tímabært að leggja fram þessa hugmynd og benda á, að raddir í þessa átt hafa einmitt á síðasta sumri og hausti borizt frá þeim mönnum, sem standa að útgerð víðs vegar um landið.

Ég vil skýra frá því hér, að síðan þetta frv. kom fram, hafa ýmsar raddir borizt til okkar um það, að verði unnt að veita sjómönnum frekari skattahlunnindi, þá væri ástæða til að athuga, hvort rétt væri að veita hið sama í sérstökum tilfellum við vinnslu aflans, t. d. í eftir- og næturvinnu, sem stundum verður að vinna til að bjarga afla. Ég vil aðeins nefna þetta til íhugunar fyrir þá, sem um þessi mál fjalla.

Herra forseti. Ég legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. og fjhn.