08.11.1971
Neðri deild: 10. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í C-deild Alþingistíðinda. (3006)

52. mál, Jafnlaunadómur

Flm. (Svava Jakobsdóttir):

Herra forseti Með frv. því, sem hér er lagt fram, er ætlunin að ná tvíþættu marki í launamálum kvenna og jafnréttisbaráttu kynjanna. Annars vegar að fá skýlaus ákvæði í lög um launajafnrétti og hins vegar að fá tryggingu fyrir framkvæmd þessara laga.

Jafnréttisbarátta kvenna hefur raunar staðið áratugum saman hér á Íslandi, en að undanförnu hefur henni vaxið ásmegin og hún hefur eflzt að mun. Baráttunni hafa bætzt nýir liðsmenn úr hópi kvenna og karla, sem skilja, að réttindamál kvenna eru ekki afmarkað svið í mannlífinu, heldur samofinn þáttur í þeirri heildarviðleitni að tryggja sjálfsögð mannréttindi hverjum einstaklingi. Það er ekki unnt að taka neikvæða afstöðu til réttindabaráttu kvenna nema afneita um leið grundvallarhugmyndum okkar um mannhelgi og mannréttindi.

Aðalefni þess frv., sem hér liggur fyrir, er stofnun jafnlaunadóms, en til grundvallar störfum hans eru ákvæði þau, sem birt eru í 1. og 2. gr. frv., þar sem kveðið er á um jöfn laun karla og kvenna fyrir jafnverðmæt störf og um bann við misrétti í atvinnulífinu vegna kynferðis. Helzta lagastoð kvenna í launamálum er lög nr. 38 frá 1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, þar sem kveðið er á um, að konur og karlar skuli hafa jafnan rétt til sömu launa fyrir sömu störf, svo og lög nr. 60 frá 1961, um launajöfnuð kvenna og karla, þar sem það var lögfest, að laun kvenna skyldu hækka til jafns við laun karla í almennri verkakvennavinnu, verksmiðjuvinnu og verzlunar- og skrifstofuvinnu. Þessi lög brúuðu bilið milli launataxta kvenna og karla í sérstökum starfsgreinum, og má raunar segja, að tilgangi þeirra hafi verið náð árið 1967.

Orðalag 1. gr. þessa frv. er í samhljóðan við orðalag samþykktar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 100, sem Ísland fullgilti árið 1958 og skuldbatt sig raunar þá til að hrinda launajafnrétti í framkvæmd, og má því segja, að ekki sé seinna vænna að reka nú endahnútinn á. Þessu ákvæði er ætlað að ná til allra starfandi kvenna í landinu, hvaða starf sem þær vinna og hver svo sem atvinnurekandinn er. Jafnframt felur þetta orðalag í sér nýtt gildismat og ný viðhorf. Núgildandi lög um launajafnrétti fela í sér þann skilning manna, að mælistikan á launaákvörðun til kvenna, sé karlmaðurinn. Laun skulu hækka til jafns við laun karla, stendur í lögum frá 1961. Og þó, ef betur er að gáð, er raunar til annar mælikvarði. Þegar litið er yfir starfsmat ríkisins, þá kemur ákveðið og athyglisvert mynztur í ljós. Ekkert af hinum svonefndu kvenna störfum er metið hærra en húsmæðrakennarastarfið. Þau störf, sem fyrr á tímum fylgdu húsmóðurstarfinu sjálfkrafa, svo sem heilbrigðis- og hjúkrunarstörf, eru enn talin hliðargreinar og þar af leiðandi verr launuð, enda þótt þessi störf séu að verða æ sérhæfðari og krefjast æ lengra náms. Karlmaðurinn og húsmóðurstarfið, lengra er ekki unnt að hnika mannsandanum, þegar á að ákvarða laun til kvenna. Nú er ég alls ekki að telja eftir laun til húsmæðrakennara. En hins ber að gæta, að kennsla þeirra veitir engin atvinnuréttindi og próf úr húsmæðraskóla eru í rauninni engin skylda í einkalífinu heldur, a. m. k. veit ég ekki til þess, að prestur krefji brúði um vottorð frá húsmæðraskóla, áður en hann framkvæmir hjónavígslu.

Karlmaðurinn er afar óheppileg og óeðlileg mælistika, þegar á að ákvarða laun til kvenna, því að reynslan sýnir, að það horfir til stórvandræða, þegar þessa mælistiku vantar í einhverri starfsgreininni, — þegar enginn er til að vinna sama starfið og konan. En það, sem er þó mest um vert í þessu sambandi, er, að það er naumast sæmandi annað en gera ráð fyrir því í lögum, að laun til kvenna ekki síður en til karla séu metin eftir verðmæti þess starfs, sem þær inna af hendi sem sjálfstæðir einstaklingar, en séu ekki bundin samanburði eða skilyrðum eftir kynferði. Það orðalag, sem er gert ráð fyrir í 1. gr., hlýtur líka að teljast í samræmi við það starfsmat, sem tekið hefur verið upp á undanförnum árum í fjölmörgum starfsgreinum. En reynslan sýnir, að jafnrétti karla og kvenna til launa á enn langt í land þrátt fyrir löggjöf. Framkvæmd laganna verður að tryggja svo sem kostur er. Með fullgildingu samþykktar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 100, um jöfn laun til karla og kvenna fyrir jafnverðmæt störf, skuldbatt íslenzka ríkið sig til að tryggja, að jafnrétti kæmist raunverulega til framkvæmda. Í samþykktinni eru tilgreindar ýmsar leiðir, sem fara skuli í þeim efnum, og hljóðar ein þeirra svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Með ráðstöfunum, sem komið er á eða viðurkenndar eru með lögum til ákvörðunar á launum.“

Í enska textanum er orðið „machinery“, og liggur beinast við að skilja það sem sívirkt afl með því valdi, nægi til þess að ákvarða laun og meta störf út frá jafnréttissjónarmiðum. Það yrði hlutverk jafnlaunadóms að vera slíkt afl, dómstóll, er kvæði upp úrskurð í ágreiningsmálum, er rísa kunna, er ástæða er til að ætla, að jafnréttissjónarmið hafi verið fyrir borð borið við launaákvörðun: Og jafnlaunadómi er ætlað að gera meira. Honum er ætlað að dæma í kærumálum, er rísa vegna meintrar mismununar eftir kynferði í sambandi við atvinnumöguleika, hækkun í starfi, vinnuskilyrði og hvers konar hlunnindi, er starfinu fylgja. Ákvæði 2. gr. er í anda samþykktar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 111, um misrétti með tilliti til atvinnu og starfs, sem Ísland fullgilti árið 1964, og það er eru fremur sniðið eftir ákvæðum í alþjóðasáttmála Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, sem Ísland hefur undirritað, en getur varla fullgilt; fyrr en jafnrétti á þessum sviðum hefur verið tryggt í framkvæmd.

Þetta frv. um jafnlaunadóm er til orðið af brýnni þörf. Raddir um misrétti kynjanna eru að verða æ háværari og rannsóknir, sem til eru, bera því vitni, að ásakanirnar eru ekki tilhæfulausar. Þetta frv. er borið fram í þeirri sannfæringu, að íslenzku þjóðfélagi sé vansæmd að því misrétti kynjanna, sem tíðkast í atvinnulífinu, og því beri skylda til að hafast eitthvað að. Hvarvetna, þar sem rannsókn hefur farið fram á raunverulegum launakjörum karla og kvenna, sem vinna sömu störf og samkv. sama launataxta, kemur í ljós, að körlum eru í raun greidd hærri laun, án þess að nokkrar eðlilegar skýringar á því sé að finna. Orðalagið „sömu laun fyrir sömu störf hefur reynzt mikill aflvaki hugarflugsins. Ótrúlegustu starfsheiti hafa verið fundin upp til þess að koma í veg fyrir, að kona vinni sama starf og karlmaður. Og þá er öllum kunnugt, hve fátt er um konur í stjórnunarstörfum. Þrátt fyrir háan starfsaldur og nægilega menntun og starfsþjálfun heyrir það nánast til undantekninga, ef konu er boðið að flytja sig hærra upp. Þess eru dæmi, að ungir og reynslulitlir karlmenn enn ráðnir í yfirmannastöður og gerðir að yfirmönnum kvenna, sem höfðu helgað vinnustaðnum mikinn hluta starfsævi sinnar. Þess eru dæmi, að vinnuveitandi auglýsi sérstaklega eftir konum og bjóði fram sérstök kjör, sem hann telur henta konum sérstaklega, en noti síðan þessi sömu kjör sem átyllu til þess að meina þeim sjálfsögð réttindi, sem starfinu fylgja. Það er ýmsum ráðum beitt. Enda þátt konur sjái e. t. v. í gegnum þau öll, eru möguleikar þeirra til að ná rétti sínum næsta takmarkaðir, meðan svo er háttað, að sá aðilinn, sem misréttinu beitir, hefur einn völd til þess að lagfæra það. Í málum, sem hér um ræðir, hlýtur að teljast torvelt og tímafrekt að fara hina almennu dómstólaleið.

Ég vil leggja á það áherzlu, að jafnlaunadómi er ætlað að fjalla mun eitt afmarkað svið, — þegar grunur leikur á um brot á skýlausum jafnlauna- eða jafnréttislögum í atvinnulífinu. Honum er engan veginn ætlað að koma í staðinn fyrir þá rannsókn á jafnrétti þegnanna, sem þáltill. núv. hæstv. iðnrh. kvað á um og samþ. var á síðasta Alþ. Slík rannsókn hlýtur að vera mjög víðtæk og ná til þjóðfélagsins í heild. Slík rannsókn veitir dýrmæta þekkingu, sem getur orðið grundvöllur til raunhæfra úrbóta. En það misrétti, sem við höfum þegar sannanir fyrir, megum við ekki lengur láta átölulaust.

Ýmsir kvennahópar hafa að undanförnu gert hlutlægar rannsóknir á launakjörum á ýmsum vinnustöðum. Niðurstöður þeirra hrekja ýmis tilbúin rök, sem gripið hefur verið til, þegar mönnum hefur verið í mun að réttlæta ranglætið og leita skynsamlegra skýringa á órökrænni hegðun. Þessar niðurstöður ættu að vera þeim til aðvörunar, sem vilja halda því fram, að mismunandi launakjör karla og kvenna eigi sér ætíð eðlilegar orsakir. Því hefur t. d. oft verið haldið fram, að lág laun kvenna stafi af því, að þær hafi minni menntun en karlar og séu óstöðugri vinnukraftur. Slíkar fullyrðingar eru dæmi um það, hvernig talað er um konur, eins og þær væru samfelldur massi í þjóðfélaginu, en ekki um það bil 100 þús. einstaklingar. En ef við brjótum nú þennan massa upp í starfandi einstaklinga á hinum ýmsu vinnustöðum, sýna tiltækar rannsóknir, að hvorug fullyrðingin stenzt. Rannsókn, sem gerð var í bönkum landsins á s. l. ári, tók m. a. til athugunar varanleik í starfi. Kom í ljós, að komur höfðu hærri meðalstarfsaldur en karlar, en samt hélzt meginþorri þeirra í kauplægstu flokkunum. Og þá er ekki síður athyglisverð könnun, sem er nýlokið og fjallar um laun, menntun og starfsaldur starfsfólks á vinnustað hér í Reykjavík, en niðurstöður þessarar könnunar eru birtar í nýútkomnu hefti Samvinnunnar. Þar kemur skýrt í ljós, að kynferði er miklu sterkari valdur í stöðuveitingum og launaákvörðun en menntun. Í þessari rannsókn kemur fram, að konur með yfir 16 ára starfsaldur og svonefnda miðlungsmenntun, þ. e. a. s. stúdentspróf, verzlunar- eða samvinnuskólapróf, komast ekki hærra en í 10. launaflokk, en karlar með sömu menntun og sama starfsaldur, eru ekki lægri en í 14. launaflokki. Sá hæsti í þessum samanburðarflokki er í 21. launaflokki. Þarna er um að ræða 11 flokka mismun á konum og körlum með sömu menntun og sama starfsaldur. Sömu sögu eru að segja af því starfsfólki, sem hefur einvörðungu svonefnda lágmenntun, þ. e. a. s. skyldunám eða gagnfræðapróf. Karlmaður í þessum menntunarflokki var í 14. launaflokki, en konur í 5.–10. Á þessum vinnustað var ekki til að dreifa ónógri menntun kvenna sem skýringu á launamismuninum, og svo er ugglaust farið á fleiri vinnustöðum. Raunar er ekki fráleitt að fullyrða, að menntun sé misjafnlega metin til verðs eftir því, hvort karl eða kona hefur aflað hennar, og styðja þá niðurstöðu rannsóknir, sem gerðar hafa verið í grannlöndum okkar. Vinnuveitandi getur haft þessa þróun í hendi sér með því m. a. að taka það fram í auglýsingum, hvort hann óski eftir karli eða konu í starfið. Í ýmsum löndum eru þegar uppi gagnráðstafanir gegn þessari tilhneigingu í starfsráðningu. Á Norðurlöndum er unnið að algerri endurskoðun allra starfsheita með jafnréttissjónarmiðið í huga, og í Vestur-Þýzkalandi mun bannað með lögum að auglýsa eftir starfsfólki á þennan hátt. Ekki þótti tímabært að hengja nein slík ákvæði þessu frv. En rétt er að vekja athygli á, að þarna leynist oft kjarni misréttisins. Í fjölmörgum tilvikum er starfið hið sama, en búningurinn eða starfsheitið annað, einvörðungu til þess gert að mismuna kynjum í launum. Og ekki eru allir jafnhreinskilnir og sá, sem gaf upplýsingar um starf nokkurt, sem laust var, og sagði, þegar hann var spurður um launin: Það eru 16 þús. fyrir konu og 19 þús. fyrir karlmann.

Þegar misréttið uppgötvast á vinnustað, þá er það mjög mikilsvert fyrir þann aðila, sem rangindum er beittur, að geta snúið sér til dómstóls, sem býr yfir því valdi, að úrskurður hans jafngildi ráðningarsamningi. Það nýmæli er í þessu frv., að starfshópar eða félagssamtök, sem telja atvinnurekanda hafa brotið gegn ákvæðum 1. og 2. gr., geta lagt kærumál fyrir jafnlaunadóm án málsaðildar þess einstaklings eða einstaklinga, sem hið meinta lagabrot beinist gegn. Réttargæzlan á þessu afmarkaða sviði er þannig að marki fengin í hendur áhugamönnum um jafnrétti kynjanna. Slík réttargæzla er í fullu samræmi við nútímaleg viðhorf, viðhorf, sem kalla allan almenning til æ meiri ábyrgðar og afskipta um málefni samfélagsins. Að baki slíkri skipan mála liggur sú sannfæring, að brot gegn einstaklingi geti um leið verið brot gegn heild og með því að gefa heildinni réttargæzlu í hendur á þessu sviði verði brautin rudd til jákvæðari og hraðari þróunar í jafnréttisátt. Slíkt réttarfar felur í sér aukið lýðræði, aukið vald hagsmunahópa, sem svíður undan ranglæti og misrétti, enda þótt það beinist ekki að þeim persónulega.

Ég sagði áðan og tek fram í grg., að þessi skipan mála væri nokkurt nýmæli. Algert nýmæli er hún þó ekki í íslenzku réttarfari. Fyrirmyndin er sótt til þjóðveldisaldar. En forfeðrum okkar þótti nokkurs um vert um lagasetningar sumar, að virðing fyrir þeim héldist og málið væri ekki látið kyrrt liggja, þótt réttur málsaðili sækti ekki til saka. Mátti þá hver sem vildi gerast sóknaraðili, eða eins og það er orðað í Grágás á einum stað, með leyfi forseta: „Á sá sök, sem sækja vill.“

Samkv. íslenzkum nútímarétti er actio popularis yfirleitt ekki heimil í íslenzku réttarfari. Fræðimenn hafa verið með bollaleggingar um að leyfa actio popularis frekar en nú er, bæði á sviði stjórnarfarsréttar, þar sem um er að ræða athafnir í opinberri sýslu, sem oft snerta allan almenning óbeinlínis, svo og á sviði almenns réttarfars. Vil ég í þessu sambandi vitna í bók Ólafs Jóhannessonar, núv. hæstv. forsrh., Stjórnarfarsrétt, en þar segir á bls. 322, með leyfi hæstv. forseta:

„Svokölluð actio popularis er yfirleitt ekki lögum samkvæm hér á landi. En með actio popularis er átt við það, að hver eigi sök, sem vill. Því mætti hreyfa, hvort ekki væri rétt að víkja frá þessari meginreglu, þegar um er að tefla ágreining um embættistakmörk yfirvalda og lögmæti yfirvaldsákvarðana.“

Með hliðsjón af þessum orðum tel ég mörg og þung rök mæla með því, að actio popularis verði heimiluð í lögum eins og þeim, sem hér er lagt til, að sett verði, þar sem um er að ræða réttarvörzlu um grundvallarmannréttindi. Sjálf lít ég svo á, að ákvæði 1. og 2. gr. þessa frv., ef að lögum verða, séu svo mikilvæg, að gæzla þeirra sé vel geymd í höndum þeirra, er sýna sannan vilja til að þau nýtist hverjum einstaklingi samfélaginu öllu til heilla.

Herra forseti. Ég legg til, að málinu verði vísað til 2. umr. og til allshn.