08.11.1971
Neðri deild: 10. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í C-deild Alþingistíðinda. (3011)

52. mál, Jafnlaunadómur

Flm. (Svava Jakobsdóttir):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka þeim hv. þm., sem hér hafa talað, stuðning og góðar undirtektir og ábendingar, sem ég mun vissulega telja mér skylt að taka til greina.

Ég vil fyrst víkja að því atriði, sem hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir og hv. 9. landsk., Ellert B. Schram, töluðu um, hvort sérstakur dómstóll mundi vera hin rétta leið. Vissulega kom til greina að athuga breytingu á félagsdómi í þessu skyni, en ég hvarf frá því ráði, m. a. vegna ástæðna, sem raunar komu fram líka í ræðu a. m. k. 9. landsk. þm., að það þyrfti að skapa það við horf, að menn beittu ekki misrétti eins og það væri sjálfsagður hlutur. En einhvern veginn er það nú svo, að menn eru ákaflega blindir á þetta hjá sjálfum sér. Þess vegna þótti mér réttara, að fram kæmi sérstakur dómur, lögbundinn, sem hreinlega gæti ekki farið fram hjá fólki, hvers eðlis væri, og sýndi, að íslenzku þjóðfélagi væri ekki alveg sama, hvernig farið væri með þessi mál. Dómur er í rauninni ekki hugsaður til þess að sýna atvinnurekendum hörku og óbilgirni, a. m. k. ekki meiri en þeir hafa sýnt konum fram að þessu. Það er margreynt, það er áratuga reynsla fyrir því, og ekki lengur hægt að horfa upp á það, að konur fari árangurslausar ferðir til atvinnurekenda og yfirmanns til þess að fá leiðréttingu sinna mála, en vinni síðan ævina út við þetta sama misrétti, sem enginn þykist geta að gert. Þetta hafa konur reynt sem hörku og óbilgirni, og þess vegna er þessi jafnlaunadómur til kominn.

Í sambandi við það, hvað væri heppilegasta takmarkið, þá hefur þetta verið þannig á Norðurlöndum, að ríkisstjórnirnar hafa skipað n., sem starfa að þessum málum, oft í samráði við vinnuveitendasamböndin sjálf. Þrátt fyrir mikið og gott starf, þá hefur árangurinn ekki verið sem skyldi. Þar er launamismunur enn geysimikill. Mig minnir, að laun kvenna í iðnaði séu í reynd 76% af launum karla þrátt fyrir launajafnrétti. Það næsta, sem ég hef komizt um hliðstæður jafnlaunadóms, er að finna í Bandaríkjunum. Kennedy forseti stofnaði þar sérstaka kvennanefnd eða kvenréttindanefnd, og í framhaldi af störfum þeirrar n. munu hafa verið sett lög um launajafnrétti og um leið var konum gert kleift að skjóta máli sínu til dóms samkv. 7. gr. laga um borgararéttindi frá 1965, ef þær töldu, að þær hefðu verið misrétti beittar á vinnustað eða í launaákvörðun. 1/3 af kærum til þessa dóms var frá konum í starfi, 2/3 af kærum vegna kynþáttamisréttis.

Hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir minntist á hlut stéttarfélaganna í þessum efnum, og það er vissulega réttmæt aths. En á hitt ber þó að líta, sem mér finnst aðalatriði málsins, að stéttarfélag hefur ekki úrskurðarvald. Stéttarfélag getur auðvitað knúið á um mál, en það getur ekki úrskurðað í kærumálinu.

Aðrar aths., — ég verð að játa, að ég hef kannske ekki náð þeim öllum, en mun vissulega taka þær til greina.