21.04.1972
Neðri deild: 64. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 216 í C-deild Alþingistíðinda. (3017)

52. mál, Jafnlaunadómur

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Frv. til l. um jafnlaunadóm er nú til 2. umr. Þegar 1. umr. fór fram á öndverðu þessu þingi, benti ég á ýmis atriði, sem ég taldi þurfa sérstakrar athugunar við. Ég vonaðist til, að n. tæki þau atriði til athugunar, og svo hefur vissulega verið gert um mörg þeirra. Eftir stendur þó aðallega eitt mikilvægt atriði varðandi réttarfar, og það er, að dómstólshlutverk jafnlaunaráðs stendur enn þá inni í þessu frv., eins og það liggur hér fyrir.

Milli umr. hefur, eins og frsm. rakti, frv. verið sent til umsagnar allmargra aðila, og í nál. segir, að n. hafi orðið sammála um að gera nokkrar breytingar, einkum með hliðsjón af umsögn Dómarafélagsins. Það má nú kannske segja, að nákvæmara hefði verið að segja, að frv. hefði verið gjörbreytt eða jafnvel samið nýtt frv., því að það óvenjulega hefur gerzt, að hver einasta grein frv. er ný og fyrirsögnin líka í brtt. n. Ég bendi á þetta hér til athugunar fyrir hæstv. forseta. Efnislega er hér um að ræða nýtt frv., sem þarf athugunar við og er að því leyti til eins konar 1. umr. Ég mun þó ekki gera ágreining út af þessu atriði. Ég bendi á þetta, og slík atriði koma sannarlega til athugunar í sambandi við hið nýja frv. til þingskapalaga, sem hér liggur fyrir, og er þetta dæmigert sem atriði, sem þar gæti komið til skoðunar.

Ég mun ekki rifja upp ummæli, sem féllu við 1. umr., en hlýt þó að geta þess, að þar kom fram, að frv. í hinni upprunalegu gerð væri illa samrýmanlega réttarfarslegum meginreglum á Íslandi. Þar var um fræðileg álitaefni að ræða, og sá aðili, sem hefur látið í té umsögn, sem kalla má fræðilega um þetta mál, er Dómarafélag Íslands. Ég tel því ástæðu til, með leyfi hæstv. forseta, að lesa þá umsögn. Umsögninni fylgir bréf, þar sem skýrt er, að stjórn Dómarafélagsins hafi falið þeim Halldóri Þorbjörnssyni sakadómara og Unnsteini Beck borgardómara að kynna sér málið fyrir félagsins hönd og semja álitsgerð. Ég leyfi mér að lesa álitsgerð þeirra dómaranna :

„Dómarafélag Íslands hefur falið okkur undirrituðum að semja álitsgerð um frv. til l. um jafnlaunadóm, sem nú 1iggur fyrir Alþ. Frv. gerir ráð fyrir, að komið verði á fót dómstól, er nefnist jafnlaunadómur, sem ætlað er það hlutverk að dæma í málum, sem rísa út af kærum um brot á ákvæðum frv., ef að lögum verður, sbr. 1. mgr. 4. gr. frv. Við munum í þessari álitsgerð einkum fjalla um fyrirhugaða stofnun og starfsemi þessa dómstóls auk nokkurra atriða annarra, sem okkur virðast þurfa aths. við frá lögfræðilegu sjónarmiði. Að öðru leyti sjáum við ekki ástæðu til að tjá sjónarmið okkar um efnisatriði frv., enda væntum við, að stjórn Dómarafélagsins hafi ekki ætlazt til þess.

Í byrjun er rétt að vekja athygli á fyrstu tveim málsl. í upphafi grg. með frv. Þar segir svo:

„Þessu frv. um jafnlaunadóm, ef að lögum verður, er ætlað það hlutverk að tryggja framkvæmd laga um jafnrétti kynjanna í atvinnulífinu. Reynsla undanfarinna ára og áratuga sýnir, að lagasetning ein nægir ekki til þess, að fullkomið jafnrétti sé tryggt í þessum efnum.“

Með þessu er það sagt, sem einnig liggur í efni sjálfs frv., að því er ætlað að ná yfir réttarsvið, sem enn þá hefur ekki tekizt að forma um svo skýrar réttarreglur með löggjöf, að fullum tilgangi verði náð. Efnisreglur frv. bæta hér ekkert um. Í þeim felast markmið og stefnuyfirlýsing fremur en réttarreglur, sem gefi dómstólum nothæfar fyrirmyndir um úrlausn vandamála, sem rísa við framkvæmd þeirra. Af framansögðu leiðir, að jafnlaunadómur samkv. frv. verður ekki dómstóll í venjulegri né lagalegri merkingu þess orðs, heldur framkvæmdastofnun, sem ætlað er að móta reglur um atriði, þar sem skortir á nægilegar skýrar réttarheimildir. Það er því rangnefni að tala hér um dómstól og væri rétt að öðru óbreyttu að fella það orð niður úr nafni þeirrar stofnunar, sem hér er ráðgerð.

Hér hefur verið á það bent, að tilgangur frv. sé að fela jafnlaunadómi verkefni, sem ekki heyra stjórnskipulega undir dómsvaldið í landinu. Það atriði er fullrar athygli vert, hvort þau verkefni verða leyst í anda frv., án þess að höggvið sé nær rétti manna um frelsi til vinnusamninga en góðu hófi gegnir. Það samningsfrelsi er réttilega talið einn af hornsteinum þess lýðræðis, sem við búum við. En auk þeirra verkefna, sem hér hefur verið drepið á, mundi oft bera undir jafnlaunadóm úrskurði um réttarágreining, sem ella heyra undir þá dómstóla, sem fyrir eru í landinu. Okkur þykir sjálfsagt, að þau atriði heyri framvegis sem hingað til undir almenna dómstóla eða félagsdóm eftir atvikum. Til þess liggur tvennt: Í fyrsta lagi teljum við með öllu óhæft, að sama stofnun fjalli um dómsmál og mörg þau atriði, sem undir jafnlaunadóm frv. kunna að bera og eru víðs fjarri því að eiga skylt við dómsmál. Í öðru lagi er það skoðun okkar, að það leysi lítinn vanda að stofna til sérdómstóla um afmörkuð svið réttarkerfisins. Reynslan virðist hafa sýna, að slíkir dómar eru þungir í vöfum, hafa aukinn kostnað í för með sér og virðast ekki tryggja virkari, réttlátari né faglegri úrlausn réttaratriða en hinir föstu dómstólar.

Þess má minnast, að samkv. lögum er heimilt að kveðja til sérfróða eða sérhæfa meðdómendur við úrlausn hvers konar dómsmála, bæði opinberra og einkamála. Þessi heimild er notuð í vaxandi mæli. Þannig skapast innan hins fasta dómakerfis sérdómar um úrlausn einstakra mála, hvenær sem þess er þörf. Þessir dómar, sem myndaðir eru með þörf einstakrar úrlausnar fyrir augum, verða að jafnaði betur skipaðir sérfróðum mönnum en sérdómar, sem skipaðir eru föstum meðdómsmönnum til langs tíma.

Nokkur líking er með jafnlaunadómi frv. og kjaradómi samkv. lögum nr. 55 frá 1962. Sú stofnun er ekki dómstóll og var óheppilegt að velja henni þá nafngift, þó að að vísu megi til sanns vegar færa, að þar sé um að ræða lögbundinn gerðardóm í kjaradeilu ríkisins og starfsmanna þess. Það skilur þó á milli frv. og lagaákvæðanna um kjaradóm, að kjaradómur sker ekki úr réttarágreiningi. Úrlausn slíkra ágreiningsmála heyrir að því er kjarasamninga opinberra starfsmanna varðar undir félagsdóm. Það er því álit okkar, að stofnun sú, sem frv. leggur til að verði komið á fót, verði ekki dómstóll, henni verði ekki falin verkefni, sem í eðli sínu heyra undir dómstóla, en nafni hennar verði breytt í samræmi við það. Stofnuninni verði einungis falið að hafa með höndum óvilhallt mat á störfum, sbr. 1. tölul. 3. gr. samþykktar um jöfn laun karla og kvenna fyrir jafnverðmæt störf, er fullgilt hefur verið og birt með auglýsingu nr. 12 1958. Úrlausnir réttarágreinings varðandi þessi efni heyra hins vegar áfram undir lögsögu almennra dómstóla landsins. Verði þessari skipun komið á, sýnist rétt, að umrædd stofnun setji sér sjálf starfsreglur, svo sem t. d. er gert ráð fyrir í lögum um kjaradóm nr. 55 1952. Verði hins vegar haldið fast við að stofna sérdómstól í þá átt, sem frv. gerir ráð fyrir, þykir nauðsynlegt að vekja athygli á eftirtöldum atriðum:

Samkv. 3. mgr. 3. gr. frv. skal meðferð mála fyrir jafnlaunadómi lúta reglum um meðferð einkamála í héraði. Gert er ráð fyrir, að úrlausnum dómsins öðrum en refsidómum verði ekki skotið til æðra dóms. Ástæða virðist til að taka afstöðu til þess, hvort réttarfarsatriði í málsmeðferð sæti málskoti eða ekki. Reglur 5. gr. frv. um sóknaraðild eru vafasamar. Eðlilegt er, að sóknaraðild sé takmörkuð við þann einstakling, sem telur rétt brotinn á sér, eða e. t. v. einnig stéttarfélag hans, og þó því aðeins, að einstaklingur, sem í hlut á, sé því samþykkur. Almenn heimild ótiltekinna starfshópa eða félagasamtaka til þess að blanda sér í samninga vinnuveitenda og starfsmanna er fráleit og fjarri venjulegum réttarfarsreglum.

Vald til höfðunar refsimála er almennt í höndum ákæruvaldsins og einungis undantekning, að einstaklingum sé fengin saksóknarheimild. Af frv. verður ekki annað séð en sömu sóknaraðilar geti höfðað refsimál samkv. 7. gr. þess eins og einkamál. Þörf er að taka skýrar til orða um þessi efni, og einnig verður að benda á, að nauðsynlegt er að setja nánari ákvæði um það, hvers konar háttsemi varði refsingu samkv. lögunum,ef ætlunin er að halda fast við að hafa refsiákvæði í þeim.

Halldór Þorbjörnsson, Unnsteinn Beck:“

Hv. frsm. skýrðs aðalefni í umsögnum Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, Alþýðusambandsins og Vinnuveitendasambandsins, en allir þessir aðilar mæla gegn því, að stofnaður sé sérstakur dómstóll. Jákvæðar eru svo umsagnir frá Rauðsokkum, Aðstöðunefnd kvenna, og umsögn Kvenréttindafélags Íslands bendir á ýmsar breytingar, sem hafi verið teknar til greina af hv. n., en að öðru leyti taka þau samtök ekki afstöðu til, hvort æskilegt sé að hafa sérstakan dómstól eða ekki, enda er það aðalatriði, að hægt sé að fá úr þessum málum skorið, og því ég sammála. Hitt er annað mál, að við megum ekki haga afgreiðslu máls hér svo, að kastað sé inn í dómstólakerfi landsins nýjum dómstóli, án þess að athugað sé vandlega, í hverju fólgin eru andmæli fulltrúa íslenzkra dómara. Ég veit, að tilgangur flm. þessa máls er fyrst og fremst að gera launajafnrétti karla og kvenna virkara en það er. Þá viðleitni styð ég af heilum hug, og að því beinast þær brtt., sem ég hef hugsað mér að leggja fram við frv. Ég hafði ekki lagt þær fram fyrr í vetur, vegna þess að ég boðaði efni þeirra strax við 1. umr. og þótti eðlilegra að bíða eftir niðurstöðu hv. n., sjá hvað af þeim till. n. kynni að hafa verið tekið til greina og síðan að móta mínar till., ef mér þætti þess þurfa, eftir þeim tillögum.

Ég vil skýra frá því, að í þeirri prentuðu dagskrá, sem borin var út til alþm. í morgun, var þetta mál ekki á dagskrá. Ég hafði hugsað mér að móta endanlega till. um réttarfarsatriði í þessu máli fyrir fundinn í dag, en þegar ég sá, að málið var ekki á dagskránni, þótti mér vitanlega ekki ástæða til þess að hafa þær endilega tilbúnar í dag, þar sem mörg önnur mál voru á dagskránni, sem einmitt heyra undir þá n., sem ég á sæti í, og taldi ég mér því skyldara að sinna undirbúningi að því er þau varðaði. Hins vegar brá svo við, er ég kom hér í sæti mitt í þingsalnum, að útbýtt hafði verið fjölritaðri dagskrá, þar sem mál þetta hafði verið tekið á dagskrá. Ég hef að vísu fengið skýringar á því, af hverju það var, og finnst þær mjög skiljanlegar, en ég vil aðeins segja þetta til skýringar því, að ég hef ekki þegar prentaðar brtt. mínar í höndum. En mér finnst eðlilegt, að ég reki aðeins efni þeirra till., og mun svo sjá til þess, að þær liggi hér fyrir prentaðar, þegar málið kemur til endanlegrar atkvgr. Þá má einnig nefna það, að það væri auðvitað ekki góð afgreiðsla að ganga til atkv. um flóknar skrifl. brtt., sem maður aðeins hefði útlistað úr ræðustóli, allra sízt þegar 11 þm. eru staddir í salnum af 60.

Megintilgangur flm. með þessu máli var mjög virðingarverður, sá að tryggja framkvæmd laga um jafnrétti kynjanna í atvinnulífinu, og ég veit, að vilji hennar til að ná framkvæmd þessara mála á betra stig en nú er er einlægur. Það mætti spyrja, hvort hún e. t. v. hefði afsalað sér niðurstöðu frá þeirri n., sem mun hafa verið skipuð eftir þáltill., sem samþ. var hér á Alþ. í fyrra, um athugun á jafnrétti þegnanna og átti m. a. að kynna sér þetta mál. En mér er ljóst, að það mun ekki þýða að spyrja um það atriði, því að eftir upplýsingum, sem ég hef aflað mér, þá hafði sú n. a. m. k. til skamms tíma ekki einu sinni komið saman. Þetta sýnir, hver alvara hefur legið á bak við þá till., sem hv. núv. heilbr.- og trmrh. flutti hér í fyrra um rannsókn á jafnrétti þegnanna í þjóðfélaginu og átti m. a. að fela í sér rannsókn á jafnrétti karla og kvenna. Málum er þannig farið, að allir fulltrúar voru tilnefndir og skipaðir í n. í sumar, en hún hefur ekki starfað enn eða a. m. k. ekki fyrir mjög skömmum tíma, er ég vissi til þess, að hún hafði ekki komið saman.

Hitt er annað mál, að þótt efndir sumra þm. séu ekki meira í samræmi við orð þeirra en þetta, þá veit ég að tilgangur flm. þessa máls er fullkomlega einlægur. Ég vil leyfa mér að setja fram nokkrar hugleiðingar um það, hvers árangurs megi vænta, ef upprunalega frv. er breytt á þann hátt, sem hv. allshn. hefur lagt til á þskj. 573, og það síðan samþ. sem lög svo breytt. Það er lagt til, að heiti frv. sé breytt og það kallist frv. til l. um jafnlaunaráð í stað frv. til l. um jafnlaunadóm. Með þessu er að vísu dregið úr hættu á því, að vandasöm úrlausnarefni um valdmörk dómstóla og eðli dómsvalds komi til með eð flækja störf þessarar stofnunar, sem lagt er til að sett verði á fót, og stefnir þessi breyting því í rétta átt um leið og hún undirstrikar, hver gerbreyting hefur átt sér stað á frv.

Það hefur einnig verið breytt fleiri atriðum,en ekki breytt um eðli stofnunarinnar. Hún er að nokkru leyti eftir frv. enn þá dómstóll, þótt hún eigi núna eftir breytinguna að heita jafnlaunaráð. 2. gr. frv. hefur einnig verið breytt með því að auka inn orðunum „skipunar í starf“. Í henni felst almenn regla og yfirlýsing, sem aðrar greinar frv. eiga að gera virka og framkvæmanlega.

Í grg. frv. var vísað til samnings Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi frá des. 1966, en þann samning hefur Ísland undirritað, en ekki fullgilt.

Þar er líka vikið að tveimur samþykktum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, sem Ísland hefur fullgilt, og þar eru nefnd lög um jöfn laun karla og kvenna frá 1961, og þessar ákvarðanir fela í sér þær reglur, sem hafa ber til hliðsjónar við ákvarðanir og úrskurði jafnlaunaráðs.

Í 3. gr. frv. hefur n. lagt til þá meginbreytingu. að jafnlaunaráð komi í stað jafnlaunadóms. Í sjálfu sér horfir þessi breyting til bóta, en ég mun láta nægja að benda á, að í 2. mgr. er haldið því ákvæði hins upprunalega frv., að málsmeðferð fyrir jafnlaunaráði skuli lúta reglum laga um meðferð einkamála í héraði, nr. 85 frá 1936, að því leyti sem við verður komið. Reglur einkamálalaganna miðast við það, sem mætti kalla ágreiningaréttarfar, þar sem tveir eða fleiri aðilar, sem eru á öndverðum meiði, leggja mál sitt undir úrskurð dómstóls og búa sjálfir í hendur hans, hvaða atvik skuli tekin til meðferðar, og hafa að mestu forræði að allri málsmeðferðinni. Ef athuguð er till. hv. allshn. um 4. gr., þar sem verkefni jafnlaunaráðs eru talin upp, kemur fram. að það sjálft á að hafa frumkvæði að því að fylgjast með þjóðfélagsþróuninni, eiga frumkvæði að því að stuðla að góðri samvinnu við atvinnurekendur og stéttarfélög og rannsaka af sjálfsdáðum misrétti í kjaramálum og vera til ráðgjafar um sitt svið. Hér er um mjög mikilvæg verkefni að ræða að mínu mati, en við starf að þeim má segja að reglur einkamálalaganna komi mjög lítið til greina. Hins vegar gæti það betur átt við um meðferð kærumálanna sem um ræðir í 5. og 6. tölul. till. allshn. um nýja 4. gr. frv. Hvergi er í till. n. eða hinu upprunalega frv. að finna neitt um starfshætti, þar sem dómstólaréttarfar á ekki við, t. d. atriði eins og það, að skylt sé að leyfa aðilum að tjá sig, áður en álit ráðsins er látið uppi. Ég tel, eins og ég kem síðar að, að meginatriðið í 5. tölul. till. um 4. gr. sé, að jafnlaunaráð fái samkv. þeim tölul. sáttahlutverk, og það verður líka að efast um, að reglur einkamálalagana um nákvæma kröfugerð, áður en sátt er reynd, eigi þar vel við. Ég vil einnig geta þess, að 4. tölul. till. um 4. gr., sem gerir ráð fyrir rannsókn af sjálfsdáðum, er einnig með þeim hætti, að einkamálareglurnar eiga ekki við fyrr en ljóst er nægilega nákvæmlega, í hverju ágreiningsefnin eru fólgin, svo sem t. d. í hverjum af 2–3 launaflokkum, sem til greina kæmu, launþegi ætti að vera. Ákveðin kröfugerð þarf að liggja fyrir um það eftir einkamálaréttarlögunum. En þar sem ekki er um skyldu samkv. reglum einkamálaréttarfars að ræða fyrir þann, sem til varna ætti að taka, til þess að sinna málum, þá er í till. n, aðeins slík skylda lögð á opinberar stofnanir og viss félagssamtök. Það er ljóst, að réttarfarsvandamál gætu orðið ærið erfið í þessu sambandi, og með tilvísun til alls þessa má fullyrða, að málsmeðferð og beiting réttarfarsreglna er vandasamt úrlausnarefni hér. M. ö. o.: reglum um dómstólaréttarfar er mjög örðugt að beita um stofnun, sem er ekki að öllu leyti dómstóll. Að mínu mati hefði hv. n. þurft að kanna þetta atriði miklu nánar en gert hefur verið. Ég leyfi mér að vona, að það atriði verði tóm til að kanna á milli umr., þannig að málið geti fengið þá meðferð, að framkvæmd þess geti orðið sem allra virkust, en ég tel, að hún verði ekki nógu virk, ef málið er samþykkt í því formi sem það liggur núna fyrir.

4. gr. frv. á eftir till. n. að breytast mikið. Í greininni er rætt um verkefni jafnlaunaráðs. Eins og ég sagði áðan, getur 4. tölul. valdið nokkrum vafa. En um 6. tölul. er það að segja, að samkv. honum er gert ráð fyrir að fela jafnlaunaráði úrskurðarvald í deilumálum, og geta slíkir úrskurðir verið jafnbindandi og ráðningarsamningar. Hér er gerð till. um, að haldið sé fyrri stefnu um að fela nýrri ríkisstofnun, sem nú heitir ekki dómur, heldur ráð, úrskurðarvald um atriði, sem ýmist geta verið svo almenns eðlis, að við eigi mat á grundvelli almennra réttarreglna, eða afmarkaður réttarágreiningur og verið dæmigert viðfangsefni fyrir almenna dómstóla. Ég vil einnig benda á það atriði, að ákvörðunin, sem till. fela í sér, um að úrskurður jafnlaunaráðs sé endanlegur og verði ekki skotið til dómstóla, getur falið í sér réttarsviptingu að sumu leyti fyrir þá aðila, sem hér eiga hlut að máli, og ég veit, að það er ekki tilgangur flm., að svo verði. Það getur risið sá vandi, að launþegi, sem hefur leitað réttar síns fyrir svona ráði með dómstólshlutverki, vildi ekki hlíta þeirri niðurstöðu og eftir almennum reglum ætti hann málskotsrétt til æðri dóms, en sá réttur er með frv. tekinn af honum.

Það er meginatriði umsagnar Dómarafélags Íslands að vara við því að leggja þetta tvennt, dómsvald og framkvæmdavald að þessu leyti, sem jafnlaunaráði er ætlað að hafa, undir sömu stofnun. En hv. allshn. hefur látið við það sitja að breyta nafninu úr dómi í ráð, en látið ruglinginn um hlutverk ráðsins óleiðréttan. Þó læt ég þess getið í þessu sambandi, að það er vitanlega til stórbóta, að reglum upphaflega frv. um sakaraðild t. d. er breytt.

Ég hef þegar lesið umsögn Dómarafélagsins. Ég er persónulega sammála því áliti félagsins, að réttarágreining í venjulegri merkingu þess orðs sé ekki skynsamlegt að taka úr höndum dómstóla, sérstaklega vegna þess að mjög fer vaxandi að tilnefna sérhæfða meðdómendur til setu í dómum um einstök mál. Tel ég það atriði mjög mikilsvert, bæði til að tryggja einstaklingum réttaröryggi og flýta málsmeðferð. Ég er einnig sammála því, sem fram kemur í umsögn Dómarafélagsins, að jafnlaunaráði, ef það verður sett á laggirnar, á að fela að hafa með höndum óvilhallt mat á störfum. Ég leyfi mér að vísa til umsagnarinnar um þessi atriði.

Samkv. þessu vil ég leyfa mér að beina því enn til hv. allshn., hvort ekki sé unnt að ná innan n. samkomulagi um þessi atriði og hverfa frá þeim till. um dómstólshlutverk jafnlaunaráðs, sem núna liggja fyrir í till. nefndarinnar.

Jafnlaunaráði er ætlað að hafa mörg önnur mikilsverð verkefni, sem greind eru í 4. gr. till. Ef ekki tekst innan n. að ná fullnægjandi samkomulagi um þetta, þá hafði ég hugsað mér að flytja brtt., sem hníga í þessa átt, sem ég hef nú lýst. Ég tók að vísu fram við 1. umr. þessa máls, að ég efaðist um, að það væri þörf á sérstökum lögum um jafnlaunadóm, og teldi, að sama tilgangi mætti ná með breyt. á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, sérstaklega ákvæðum um félagadóm og verkefni hans. Í nákvæmlega sömu átt hnígur umsögn Alþýðusambands Íslands. Ég vildi þó ekki flytja sérstakt frv. þessa efnis, því að ég tel aðalatriðið, að megintilgangi þessa frv. sé náð, og raunar tel ég, að það sé til mikilla bóta að fela sérstökum aðila ýmis þau verkefni, sem nú eru talin í 4. gr. brtt. allshn. Og í sambandi við þau verkefni langar mig líka að benda á eitt atriði, sem ég tel mjög koma til greina að fela jafnlaunaráði að annast og mun flytja sérstaka brtt. um það, en það er að láta launþegum í té ókeypis lögfræðilegar upplýsingar um réttarstöðu þeirra á þessu sviði, sem lögin fjalla um. Ég hef aflað mér upplýsinga um það hjá konum, sem mikið hafa starfað í launþegasamtökunum, að einn meginvandinn á þessu sviði sé oft fólginn í því, að konan, sem er launþegi og telur sig misrétti beitta og er það í mörgum tilvikum, viti ekki nægilega vel, til hvaða aðila hún eigi að snúa sér með sín mál, — hún eigi að geta snúið sér til einhvers, sem gæfi henni hlutlægar upplýsingar henni að kostnaðarlausu um, hvaða úrræðum hún ætti kost á, hver réttur hennar væri í einstöku tilviki. Mundi slíkt fyrirkomulag að mínu mati spara mörgum mikla fyrirhöfn og málavafstur og leiðindi. Það er lítið um réttarhjálp af þessu tagi á landi okkar, en ég tel, að full þörf sé fyrir hana, ekki sízt á þessu sviði, og tilvalið verkefni fyrir jafnlaunaráð að sjá fyrir slíkri upplýsingaþjónustu. Ég mun bera fram sérstaka brtt., sem lýtur að þessu.

Enn fremur þarf í sambandi við hlutverk ráðsins að umorða 6. tölul. 4. gr. þannig, að úr honum verði numið dómstólshlutverkið, en aftur á móti formuð till. um sáttahlutverk jafnlaunaráðs og því beri með fortölum og viðtölum við vinnuveitendur að stuðla að launajafnrétti í framkvæmd, fyrst og fremst með sáttaumleitunum. Ég tel, að einmitt það hlutverk sé mjög mikils virði. Ég vil leyfa mér í þessu sambandi að benda á starf n., þótt talsvert ólík sé og annars staðar á hnettinum, en það er mannréttindanefnd í Bandaríkjunum. Hún hefur að nokkru leyti svona blandað hlutverk. En í ljós hefur komið af hennar skýrslum, að langáhrifamestu verkefnin, sem sú .n. vinnur að, eru einmitt og í yfirgnæfandi meiri hluta mála sáttahlutverk. Enn má benda á það vald, sem jafnlaunaráði er fengið með þessu frv. til þess að kanna af sjálfsdáðum hver brögð kunni að vera að launamisrétti. Það er ekki alveg skilgreint, með hvaða ráðum megi beita þessu valdi, og viss hætta er á því, að skapazt geti vandamál út af ágreiningi um það, hvort jafnlaunaráð hafi í störfum sínum farið út fyrir valdmörk sín. Þá kemur í ljós enn ein röksemdin fyrir því, að mjög óeðlilegt er að fela þessu sama ráði dómsvald um það, hvort það sjálft hefur brotið þessi lög. Eftir frv. á jafnlaunaráð að skera úr um ágreining varðandi lög þessi. En lög þessi fjalla m. a. um verkefni og aðferðir jafnlaunaráðs, og ef ágreiningurinn beinist gegn því sjálfu, þá er það vitanlega hér sem víða annars staðar, að þar sannast sá gamli málsháttur, að enginn sé dómari í sjálfs sín sök. Þennan galla þarf sannarlega að leiðrétta.

Ég mun svo gera till. um nýja grein frv., sem fjalli um það, að um réttarágreining um skilning á þessum lögum eða kærur um brot á þessum lögum verði dæmt í félagsdómi.

Þá vil ég geta þess, að ein þeirra brtt., sem ég hef mjög hugleitt, er, að af 5 aðilum jafnlaunaráðs skyldu tveir vera konur og það bundið á lögum. Mér hafði dottið í hug, að við yrðum að tryggja, að mismunun vegna kynferðis yrði a. m. k. ekki í skipun ráðsins. En ég verð að segja, að ég er sammála þeim röksemdum hv. flm., sem komu hér fram varðandi þetta atriði. Ég tel það eðli málsins samkvæmt, að í þetta ráð verði að einhverju leyti skipaðar konur, og þá röksemd einnig, að þar sem hverjum aðila er ætlað að tilnefna einn, sé þar allharkalega að farið að binda það í lögum, að tveir skuli vera konur, sem sagt, reynslan verði að skera úr um þetta atriði. En önnur atriði, sem ég hef þegar rætt í frv., tel ég þurfa nauðsynlegrar leiðréttingar við og ekki sé unnt að bíða eftir reynslunni með að leiðrétta þau, því að ég tel, að þau liggi í augum uppi.

Ég mun svo ekki hafa fleiri orð um þetta mál, enda eru þau nú orðin nokkur. En ég hef það mér til málsbóta í því sambandi, að ég tel þetta mál vissulega mjög mikilsvert. Og ég vil segja það, að nái brtt. mínar, sem hér mun verða útbýtt, væntanlega áður en atkvgr. fer fram eftir þessa umr., fram að ganga, þá mun ég gera það, sem í mínu valdi stendur, til þess að flýta fyrir því, að þetta mál nái fram að ganga, og þar með að hjálpa til að gera þá tilraun, sem í þessu felst, til þess að gera virkt launajafnrétti og jafnrétti kynjanna til starfa yfirleitt í framkvæmd.