03.05.1972
Neðri deild: 68. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 225 í C-deild Alþingistíðinda. (3022)

52. mál, Jafnlaunadómur

Frsm. (Svava Jakobsdóttir) :

Herra forseti. Ég vil aðeins segja örfá orð vegna framkominna brtt. frá hv. 12. þm. Reykv., sem liggja hér fyrir á þskj. 650.

Aðalefni þessara brtt. varðar það, að kærum út af brotum á lögunum, sem frv. fjallar um, verði vísað til félagsdóms, en jafnlaunaráði sjálfu ekki gefið það vald að hafa úrskurð í ágreiningamálum um ráðningarsamninga. Ég hef tvennt við þessa skipan mála að athuga og ég tel þessi atriði það mikilvæg, að ég vil gjarnan ræða þau hér.

Í fyrsta lagi er grundvallarmunur á félagsdómi og jafnlaunaráði, eins og það er hugsað. Félagsdómur fjallar um ágreining um kjarasamninga. Þau ágreiningsmál, sem jafnlaunaráði er ætlað að fjalla um, eru ágreiningsmál um persónulega ráðningarsamninga. Mér skilst, að hv. 12. þm. Reykv. vilji, að þessum málum sé skotið til félagsdóms á grundvelli 44. gr., þar sem fjallað er um verkefni félagsdóms. En þar segir, að félagsdómur geti dæmt í öðrum málum en um vinnusamninga milli verkamanna og atvinnurekenda, sem aðilar hafa samið um að leggja fyrir dóminn, enda séu a. m. k. þrír af dómendunum því meðmæltir. Ég vil vekja athygli hv. þm. á því, að hér er við nokkuð ramman reip að draga fyrir þá konu, sem ætlar að skjóta máli sínu til félagsdóms. Það þurfa a. m. k. 4 aðilar að samþykkja það, að málið sé lagt fyrir, þ. e. a. s. 3 af dómendunum og svo sá aðili, sem kæran beinist gegn. Að mínum dómi er harla þröngt það nálarauga réttlætis, sem hv. 12. þm. Reykv. ætlar konum að komast í gegnum.

Í öðru lagi vil ég vekja athygli á því, að í umsögnum tveggja aðila, sem fengu þetta mál til meðferðar, Kvenréttindafélagsins og Rauðsokkahreyfingarinnar, var mælzt til þess, að það yrði bundið í lögum, að konur ættu aðild að eða yrðu skipaðar í jafnlaunaráð eða jafnlaunadóm, eins og það hét, þegar þeim var sent frv. til umsagnar. Eins og ég rakti í ræðu við 2. umr. þessa máls, þótti ekki fært að binda þetta í lögum, en því er treyst að eðli málsins samkvæmt sé nánast óhugsandi annað en konur séu skipaðar í ráðið. Félagsdómur hins vegar á sér langa hefðbundna sögu. Ég hef kynnt mér það, að það hefur aldrei í sögu félagsdóms komið fyrir, að kona hafi verið skipuð í dóminn, og jafnvel þó að félagsdómi yrði falið þetta verkefni, sem hér um ræðir, sem hliðarverkefni, þá er mjög ólíklegt, að hér yrði breyting á. Það væri hugsanlegt, ef gert yrði ráð fyrir dómaraskiptum, að þar kæmi enn kona, en ég fæ ekki séð, að brtt. hv. 12. þm. Reykv. geri ráð fyrir slíku fyrirkomulagi mála.

Þetta eru þau tvö atriði, sem ég tel svo mikilvæg, að ég sá ástæðu til þess að kveðja mér hér hljóðs og lýsa mig andvíga þessum brtt. Ég tel verr farið en heima setið, ef á að gera konum það að skyldu að sækja til félagsdóms gegnum 4 aðila, áður en þær fá samþykkt, hvort málið verði tekið fyrir eða ekki. Ég hygg, að þegar hv. 12. þm. Reykv. hugar nánar að þessum málum, muni hún sjá, að hér er um grundvallarmisskilning að ræða af hennar hálfu, og ég trúi ekki fyrr en á reynir, að hún haldi það stíft við brtt. þessa efnis, að það ráði úrslitum í afstöðu hennar.

Ég vil einnig benda á, að misrétti tekur á sig margs konar myndir. Það er ekki einvörðungu um það að ræða, hvort konu hefur verið skipað í réttan launaflokk, ef svo má orða það. Misréttið kemur oft fram í því, að konu er á ýmsum forsendum meinuð aðild að lífeyrissjóði, forsendum, sem gilda einhverra hluta vegna ekki fyrir karlmenn. Þetta varðar líka skipun í starf. Úrlausnarefnin geta verið mjög fjölþætt og vandasöm, og ég hygg, að engin stofnun nema sú, sem er sérstaklega sett á fót í því skyni að gera verulegt átak til að uppræta misrétti á öllum sviðum, þar sem það birtist á vinnustað, geti raunverulega náð árangri.

Ég hef áður bent á þann áhrifamátt, sem þessi stofnun mundi hafa með tilveru sinni einni saman. En ef farin væri leið, sem hv. 12. þm. leggur til, að farin verði, þá er ég hrædd um, að mörgum þætti árangurinn lítill.