03.05.1972
Neðri deild: 68. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 228 í C-deild Alþingistíðinda. (3024)

52. mál, Jafnlaunadómur

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson) :

Herra forseti. Ég harma það, að ég skyldi ekki geta verið hér viðstaddur í hv. þd., þegar mælt var fyrir málinu, eftir að um það hafði verið fjallað í n., því að vafalaust hafa við það tækifæri komið fram meginviðhorf bæði flytjanda frv. og n., sem um það fjallaði, og einnig þeirra manna, sem um það flytja nú við það. Ég skal ekki vera langorður um þetta mál, en vil þó drepa á nokkur atriði varðandi það.

Ég er í hópi þeirra manna, sem vilja umfram allt geta búið svo um hnútana í íslenzkri, löggjöf, og þá ekki síður, ef leiðir væru til þess með öðrum hætti en lagalega leiðin, að tryggja frekar en orðið er launajafnrétti og réttarjafnrétti kvenna móts við karla. Ég hef ósjaldan flutt frv. á Alþ. um launajafnrétti kvenna, þó að þau frv. hafi aldrei náð samþykki, en efnislega þó að síðustu á takmörkuðu sviði, þegar sett voru lög um það að tryggja launajafnrétti kvenna við ýmis störf í þjóðfélaginu, varðandi þær starfsgreinar, sem heyra undir verkalýðshreyfinguna. Löggjöf var afgreidd um það, að konur skyldu í þessum tilteknu starfsgreinum, sem í lögunum greindi, öðlast jafnrétti í launum á við karlmenn á vissu árabili, mig minnir 6 ára bili, og síðan var sett n. af hendi rn., Vinnuveitendasambands Íslands og Alþýðusambands Íslands til að koma þessu launajafnrétti á í áföngum á þessu 6 ára bili. Það gerðist með góðu samkomulagi, og lögin tóku gildi á sínum rétta tíma. Um þetta varð enginn ágreiningur í framkvæmd, þó að ég ætti erfitt að sætta mig við það, að þetta réttlætismál þyrfti að búta niður í 6 hluta, þangað til það loks næði fram að ganga. Afleiðingin af þessari löggjöf er svo sú, að eftir að lögin höfðu að fullu komið til framkvæmda, hurfu úr stéttarfélagasamningum allir sértaxtar um kaup kvenna og karlataxtarnir einir stóðu eftir og laun kvenna ákváðust af þeim. Þannig er launajafnrétti að fullu komið á innan verkalýðshreyfingarinnar í þeim starfsgreinum öllum, sem lögin ákváðu, og verð ég að viðurkenna það, að fulltrúi Vinnuveitendasambandsins, sem vann með mér í þessari n. ásamt ráðuneytisstjóra í félmrn. við að móta framkvæmdina, var mjög víðsýnn og frjálslyndur í því, að jafnvel miklu fleiri nytu launajafnréttisins samkv. þessum lögum en lögin beint fyrirskipuðu.

Hvað líður svo launajafnrétti kvenna að öðru leyti? Konur í opinberri þjónustu eiga að njóta launajafnréttis, og ég held, að það sé varla hægt að búa það skýrar úr garði en með lagaákvæðinu í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þar segir: „Konur og karlar hafa jafnan rétt til opinberra starfa og til sömu launa fyrir sömu störf.“ Þetta er ámóta skýrt lagaákvæði eins og í 1. gr. frv. um jafnlaunaráð, þar sem segir: „Konum og körlum skulu greidd jöfn laun fyrir jafnverðmæt störf.“ Ég sé ekki annað en þetta lagaákvæði sé jafnskýrt í gildandi lögum að því er snertir opinbera starfsmenn, konur í þjónustu hins opinbera, eins og í þessu frv.

En þá kemur að því, hvers vegna konur hafa ekki farið réttarleiðina, dómstólaleiðina til þess að heimta sinn rétt, þegar þær sem opinberir starfsmenn hafa ekki notið fullkomins launajafnréttis. Það hlýtur að byggjast á því og því einu, því að lagalegur réttur þeirra er eins skýr og ótvíræður og hann getur verið, að konur vilji líklega ekki og þá sérstaklega ekki sem konur heldur sem launþegar, fara dómstólaleiðina. Þetta ákvæði er búið að vera í lögum síðan 1954, og ég veit ekki til, að nokkur kona hafi nokkurn tíma höfðað launajafnréttismál á grundvelli þessarar skýru lagagreinar. Konur og karlar hafa jafnan rétt til opinberra starfa og til sömu launa fyrir sömu störf.

Ég er því afskaplega hræddur um það, að þó að ný lög, eiginlega með sama lagainnihaldi, séu sett, þá verði þetta e. t. v. óvirk löggjöf. Það virðist eitthvað standa í veginum fyrir því, að þessi leið sé farin, þó að lagagrundvöllur sé fyrir hendi. Ég hef margsinnis hvatt konur til þess, þegar þær hafa sýnt fram á það, að þær væru launamisrétti beittar í opinberri þjónustu, að höfða mál og fá sér dæmdan sinn rétt, brjóta þannig brautina, taka bara eitthvert skýrasta dæmið, sem um væri að ræða, þar sem væri um nákvæmlega sama starf að ræða hjá konu og karli í þjónustu sömu stofnunar, en mismunandi laun greidd. En engin kona hefur mér vitanlega fengizt til þess að höfða slíkt mál, sem hefði þó verið sannarlega verðugt að reyna sem prófmál. Ég kemst því ekki fram hjá þessari reynslu, að skýrt lagaákvæði um þetta launajafnrétti hefur ekki verið hagnýtt, þó að það sé búið að vera í gildi allt frá árinu 1954, að lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins voru afgreidd á Alþingi.

Það var í sambandi við húsnæðismálafrv. um daginn, sem ég vék að því, að við gerðum fullmikið að því, Íslendingar, að koma á fót stofnun á stofnun ofan og hafa tvær stofnanir, þar sem ekki þyrfti nema eina. Og ég verð að játa það, að þó að mér líki margt vel, sem er fram tekið í frv. um jafnlaunaráð, og þyki mörg atriði líkleg til að stuðla að launajafnrétti kvenna og karla í framkvæmd, þá er ég afar hræddur um, að það að setja á stofn nýjan dómstól um þetta sé tæpast lausn á málinu, og ég mundi óneitanlega fella mig betur við það, að þessi mál færu beint fyrir hina almennu íslenzku dómstóla eða þá, eins og bent hefur verið á, fyrir félagsdóm, sem á að úrskurða um skilning á samningsákvæðum og um ágreiningsmál út af launa- og kjaramálum milli vinnuveitenda, atvinnurekenda og launþega, vitanlega alveg án tillits til þess, hvort konur eða karlar eiga í hlut. Dómstóll á ekki endilega að þurfa að taka tillit til þess, hvort sá sem fyrir óréttinum verður, er karl eða kona. Við eigum að treysta það á okkar réttarfar í landinu, að þar gangi eitt yfir alla í samræmi við anda og bókstaf laganna.

Ég hallast því frekar að því, að við eigum, að svo miklu leyti sem hægt er, að reka þessi mál fyrir dómstólum, — sem hefur gengið treglega til þessa þrátt fyrir það að skýr lagastafur hafi verið fyrir hendi, a. m. k. fyrir alla opinbera starfsmenn, — við eigum að fela félagsdómi þetta mál, og brtt., sem í þá átt fer, sýnist mér vera eðlileg.

Umsagna var leitað, eins og eðlilegt var, bæði hjá Alþýðusambandi Íslands og Vinnuveitendasambandinu og einnig hjá Dómarafélagi Íslands. Þessar umsagnir hafa vafalaust verið kynntar hér við 2. umr. og hefur það hlotið að skýra málið á ýmsan hátt. Ég hef nú séð þessar umsagnir, og það er rétt, sem hér var sagt áðan, að þær eru frekar neikvæðar allar saman. Vinnuveitendasamband Íslands mælir algerlega gegn þessari sérstöku dagasetningu. Ég mundi ekki út af fyrir sig ,leggja mikið upp úr því, því að Vinnuveitendasambandið barðist á sínum tíma alltaf á móti launajafnrétti á þessu takmakaða sviði gagnvart verkalýðshreyfingunni. En Alþýðusambandið gefur þá umsögn, að það telji, að dómsúrskurður um svona mál geti fallið eðlilega undir félagsdóm, mælir að öðru leyti með mörgum ákvæðum frv. um jafnlaunaráð, og að því leyti er ég alveg samþykkur miðstjórn Alþýðusambandsins, að það eru mörg af ákvæðum frv., sem eru mjög til bóta og líkleg til þess að styrkja aðstöðu kvenna til þess að heimta í sínar hendur jafnrétti í framkvæmd. Mér finnst ekki skipta máli, hvort konur eru í dómnum eða ekki, og það hvarflar ekki að mér, að karlar eigi að dæma um mál karla og konur eigi að dæma um mál kvenna. Það fyndist mér fjarstæða hin mesta, kynin eigi að treysta hvort á annars réttlætiskennd að því er það snertir, og að kljúfa dómsvaldið þannig niður, það hugnast mér ekki.

Svo að ég víki að brtt., sem hér eru fyrir, þá get ég ekki annað en látið það í ljós, að breytingin við 4. gr., viðbótin, þar sem segir að leitazt skuli við að koma á sáttum um efni, sem varðar lög þessi, eftir ósk aðila, sem eiga í ágreiningi þar að lútandi, — ég held, að þessi viðbót geti ekki vakið andspyrnu neins og vænti, að allir geti á þessa viðbót fallizt, því að það, sem ég óttast einna mest með því, að settur sé sérstakur dómstóll um þessi mál, er, að það skapi e. t. v. eitrað andrúmsloft milli 1aunþegans og þess, sem hann vinnur hjá, ef misklíðarefni þeirra á milli eiga í sérhverju tilfelli að útkljást af dómi. Það held ég, að sé meginagnúinn á þessu og allra helzt ef þetta væri sérstakur dómur, sem um þetta fjallaði og gengi þá kannske allnærri samningsréttinum, sem á að vera frjáls fyrir báða aðila á vinnumarkaðinum, þann sem ræður mann til sín til starfa og þann sem tekur að sér þjónustu fyrir stofnun eða fyrirtæki. Þar á frjáls samningsréttur að vera sá grundvöllur, sem í þessum kjaramálum yfirleitt sé byggt, á. Ég held, að dómstólaleiðin verði hreint og beint undir öllum kringumstæðum að vera neyðarúrræði, þegar ekki næst fram réttur með öðrum hætti. Ég get ekki komist hjá að láta það í ljós, að ég er afar hræddur um, að það mundi verða heldur óþægilegt fyrir karl eða konu að vera áfram í þjónustu atvinnurekanda, eftir að hann hefði fengið kjör sín leiðrétt, ekki með samningsaðild, heldur með dómsúrskurði. Ég er afar hræddur um, að heldur kaldlegt samband yrði milli þessara annars nánu aðila.

Mér virðist líka, að brtt. á þskj. 650 við 5. gr. sé til bóta, en hún er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú er í samræmi við 45. gr. laga nr. 80/1938 mál rekið af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja eða Bandalagi háskólamanna eða af félagi, sem er innan vébanda annars hvors þessara bandalaga, og skal þá dómari sá, sem tilnefndur er af Alþýðusambandi Íslands í félagsdóm, víkja sæti í málinu. Í hans stað kemur dómari tilnefndur af BSRB, ef það eða félag innan þess vébanda rekur málið, eða af BHM, ef það eða félag innan þess vébanda rekur málið. Launþegi getur jafnan ákveðið að reka sjálfur mál vegna laga þessara fyrir félagsdómi.“

Þó að ég telji alveg sjálfsagt, að fulltrúi frá ASÍ skipi dóminn að öllum jafnaði, þá get ég ekki annað en talið það réttmætt, að þegar málið varðar einstakling innan BSRB, þá komi maður í staðinn í dóminn, sem sé úr þeim samtökum. Það getur verið karl eða kona vissulega, og þegar BHM á hlut að máli, þá víki hinir hvorir tveggja sæti og fulltrúi frá því komi í dóminn. Þetta finnst mér vera til bóta og mundi áreiðanlega styrkja traust þessara aðila gagnvart þessum úrskurðaraðila að eiga þar fulltrúa. Ég er alveg viss um, að BHM, sem annars hefur, ekki fengið samningsrétt sinn viðurkenndan almennt, þau samtök mundu telja þetta mjög til bóta, og ég held, að það rækist ekki á hagsmuni neins og geti þannig ekki vakið andspyrnu, — það væri þá helzt Alþýðusambandsins, sem ég álít, að eigi þó ekki rétt á manni undir þessum kringumstæðum. Þessar þrjár breytingar á þskj. 650 finnst mér vera til bóta, og ég mun styðja þær og tel mig ekki spilla á nokkurn hátt megintilgangi frv., eins og það nú liggur fyrir um jafnlaunaráð, heldur þvert á móti teldi, að þetta væri til þess líklegt, að mál afgreiddust meir með friði þeirra aðila, sem við eiga að búa.

Ég vék að því áðan, að ASÍ mælti á ýmsan hátt með efnisatriðum frv., en teldi, að slík mál, sem þarna væri um að ræða, gætu í einstökum tilfellum fallið undir félagsdóm, fremur en að búinn yrði til sérstakur dómstóll. BSRB tekur þó miklu fastari og ákveðnari afstöðu gegn þessu og þykist þar byggja á eigin reynslu. BSRB hafði talið, að það mundi finna lausn á sínum ýmsu vandamálum með sérstökum dómstóli, kjaradómi, en hefur nú fengið reynsluna af því og metur hana þannig, að bandalagið berjist nú fyrir aflnámi dómstóla, eins og segir í umsögninni, til ákvörðunar í kjaramálum. Þetta er einasta reynslan, sem við höfum af sérstökum dómi um kjaramál, og hún virðist ekki vera góð að mati þeirra manna, sem við eiga að búa, og mælir gegn lagasetningu um dómstól sem á að dæma um kjaramál kvenna.

Ég held, að við mættum vel við una, ef við fáum samþ. allt það, sem er í frv. um jafnlaunaráð, eins og það er nú, að fráteknu því, að þarna sé dómstóll á ferðinni. Ef við fáum það samþykkt, þá væri það til stórbóta til þess að þoka jafnrétti í málum kvenna fram með eðlilegum hætti, án þess að stofna til sárinda, ég gæti ímyndað mér vandræðaástands í ýmsum tilfellum, ef það yrði daglegt brauð, að launakjör fólks í þjónustu einstaklinga og fyrirtækja yrðu ákveðin með dómum.

Dómarafélagið segist gera aths. eingöngu frá lögfræðilegu sjónarmiði við frv., og á þá hlið ber vissulega líka að líta. Það staðnæmist þar við ýmis atriði, vill ekki blanda þessum ýmsu réttindaákvæðum frv. saman við lögfræðihlið málsins. Á einum stað í umsögn Dómarafélagsins segir, að lagasetning nægi oft ekki í launamálum. Það þykist ég líka hafa undirstrikað með tilvitnuninni í lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, þar sem réttur kvenna og karla til sömu launa fyrir sömu störf og réttur til allra embætta sé jafn, og þetta skýra lagaákvæði hefur ekki komið að gagni. Ég tel því, að Dómarafélagið hafi rétt fyrir sér, þegar það segir, að lagasetning ein nægi ekki til þess að tryggja launajafnrétti.

Dómararnir segja, að í frv. felist markmið og stefnuyfirlýsingar og það sé meginefni frv. fremur en réttarreglur. En það er hvort tveggja á ferðinni, og spurningin er, hvort heppilegt er að blanda þessu tvennu saman. Ég held, að markmiðið og stefnuyfirlýsingin og aðferðin til þess að koma þeim fram á öðrum vettvangi en fyrir dómstólum eigi að vera meginuppistaða þessa frv., og þannig hef ég trú á, að það hafi félagslegt gildi að fá það samþykkt.

Á einum stað í umsögn Dómarafélagsins segir, að höggvið sé nærri rétti manna um frelsi til vinnusamninga. Þetta er líklegast atriðið í frv., sem kemur fram í 6. gr., þar sem segir, að dómur jafnlaunadóms í kærumáli einstaklings sé bindandi sem ráðningarsamningur milli aðila og verði honum ekki skotið til æðra dóms. Sama gildir um ákvörðun jafnlaunadóms um málskostnað. Jafnlaunadómur getur dæmt atvinnurekanda til greiðslu sekta í ríkissjóð vegna brota á lögum þessum. Ég held, að þarna sé höggvið of nærri hinum frjálsa samningsrétti, og ég gæti hugsað, að út af þessu gæti sprottið mikil úlfúð frá hendi þeirra manna, sem væri verið að sækja mál gegn. Til þess var vitnað áðan í umsögn Dómarafélagsins, að það teldi óhæft, að sama stofnun fjallaði um dómsmál og marga aðra efnisþætti frv. Ég hygg, að þetta gæti líka verið afar óheppilegt undir mörgum kringumstæðum og það að sækja rétt sinn fyrir dómstólum eigi ekki að blandast inn í þetta annars góða félagsmálafrv., og þeir dómstólar, sem til eru í landinu a. m. k. með breytingum í þá átt, almennir dómstólar og félagsdómur, séu nægjanlegt skjól til þess að fara í, þegar í harðbakkann slær og engar aðrar leiðir finnast til lausnar á ágreiningi um launamál. Þetta er ekkert annað en réttarkröfur um fjármál, sem þarna er um að ræða, þegar deilt er um launamál, og er þannig náskylt margvíslegum verkefnum hinna almennu dómstóla og alveg sérstaklega sérsviði félagsdóms. Dómararnir segja, að þessi jafnlaunadómur sé mjög líkur kjaradómi, og mér finnst hann koma inn á sama svið og hef áður vitnað til þeirrar reynslu, sem BSRB þykist hafa af þeirri leið í kjaramálum að láta dómstól þar skera úr. Þá leið telja þeir ekki hafa gefizt vel.

Ég hnaut um það strax, þegar, ég las frv., að það væri vafasamt, hvort til þess væri ætlazt, að einstaklingarnir sjálfir, sem telja sig verða fyrir misrétti, þyrftu að höfða mál, og mér sýnist ekki, að það sé ljóst. Mér sýnist, að í frv., eins og það er, geti aðrir tekið þetta mál upp og launþegasamtök, sem þeir eigi aðild að, geti það einnig án tillits til þess, hvort einstaklingurinn óski þess eða ekki. Ég sé, að dómararnir víkja að þessu og segja, að reglur um sóknaraðild samkv. frv. séu vafasamar. Þar eiga þeir vafalaust við þetta, að það er farið út yfir þá venjulegu reglu, að aðilinn sjálfur, sem þykist misrétti beittur, verði sjálfur að höfða mál. Hér er opnuð leið til þess að aðrir geri það fyrir hann, jafnvel án þess að tekið sé fram, að hann hafi óskað þess. Þeir fara ekki stórum orðum um þetta, en segja, að reglur um sóknaraðild samkv. frv. geti verið vafasamar.

Um samninga milli launþega og atvinnurekenda fara þeir þessum orðum, að íblöndun um samninga vinnuveitenda og starfsmanna sé fráleit og fjarri réttarfarsreglum. Þarna taka þeir eiginlega dýpst í árinni, finnst mér, og má vera, að þetta sé líka allstórt atriði og þræði ekki götur venjulegra réttarfarsreglna.

Þá finna þeir að því, að refsimál megi hér höfða af einstaklingum og samtökum og segja, að það sé réttarregla á Íslandi, að refsimál séu aðeins höfuð af ákæruvaldinu. Þeir líta því þannig á í Dómarafélaginu, að hér sé farið inn á mjög óvenjulegar leiðir að því er snerti hina lögfræðilegu hlið málsins. Nú má vel vera, að það séu nýjar leiðir færar, og ekki skal ég slá því á nokkurn hátt föstu, að ekki megi fara aðrar leiðir en þær, sem hér séu þrautprófaðar réttarreglur fyrir. En þeim finnst þarna vera farið á ýmsan hátt inn á vafasamar brautir réttarfarslega. Hafi þeir rétt fyrir sér í þessu, hygg ég, að það væri réttara til þess að ná tilgangi sínum að kljúfa efni frv. nánast í tvennt, félagsmálalegu hliðina sér og það, sem snertir dómsmálin, sér og setja það undir þann dómstólinn, sem um slík mál fjallar í íslenzku þjóðfélagi, þ, e. a. s. samninga um kaup og kjör í landinu.

Ég þarf ekki að fara fleiri orðum um þetta. Það er í fyrsta lagi, að ég tel, að skýr og ákveðin lagaákvæði hafi verið fyrir hendi um langan tíma um launajafnrétti kvenna og karla í opinberri þjónustu og sá réttur til að skjóta þeim málum til dómstóla hefur aldrei, svo að ég viti, verið notaður. Sams konar ákvæði í 3. gr. frv. er því litlu líklegra til þess að verða notað. Ég tel, að frekar beri að fella þessi mál — og búa sem allra örugglegast um — undir dómstóla, sem eru til, heldur en að búa til nýjan. Ég óttast líka, að þessi mál séu svo viðkvæm, að andrúmsloft milli launþega og atvinnurekenda verði lítt þolanlegt, ef deilumálin útkljást þar með valdboði frá einni hlið. Þetta held ég, að séu meginagnúarnir á því að fara þá leið, sem þarna er þrædd. En ákvæði, sem finnst þarna í brtt. um að hafa enn opnari tilraunir til sátta, það tel ég til bóta, og að viðkomandi stéttarfélög eigi menn í dómi, þegar um þeirra mál eða þeirra félagsmanna sé að ræða, og víki þá aðrir, sem ekki eiga aðild að máli. Þessar breytingar tel ég til bóta að gera á frv.

Það á samkv. frv. að heyra undir félmrn. að framkvæma löggjöfina og setja reglugerðir til framkvæmda á henni. Ég held, að það yrði mikið vandaverk, og ég óttast því miður að ýmsu leyti, að þó að það verk færi vel úr hendi, væri vafasamt um góðan árangur af lagasetningunni að því er snertir dómsmálahliðina. Ég held því, að við eigum að hugleiða það, hvort ekki náist samkomulag um að afgreiða sem mest hina félagsmálalegu hlið, sem er áreiðanlega að mjög miklu leyti til bóta og til réttaröryggis fyrir konur samkv. þessu frv., og fella allt það, sem varðar dómsmál og dómsmeðferð, sem ætti eingöngu að koma til greina í hreinum undantekningartilfellum, — fella það undir verkefni félagsdóms og láta hæfa menn fella efnisatriði þessa frv. sem mest þar inn í félagsdómslögin.