03.05.1972
Neðri deild: 68. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 236 í C-deild Alþingistíðinda. (3026)

52. mál, Jafnlaunadómur

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Það er leiðrétting á misskilningi á misskilning ofan. Hv. síðasti ræðumaður sagði, að það tæki langan tíma að breyta hugarfari heillar kynslóðar. Mér virðist nú taka ærið langan tíma að leiðrétta mikinn misskilning eins hv. þm. Það var aðeins varðandi þetta atriði, hverjir gætu lagt mál fyrir félagsdóm. Hv. þm. endurtók hér, að það þyrfti samþykki fjögurra aðila til þess. Það gildir, þegar aðilar semja um að leggja mál fyrir félagsdóm. Hér er ekki um það að ræða. Hér er um að ræða frv., sem á að samþykkja sem lög.

Það þarf ekki, um það að semja, þegar lög eru í landinu um það, að maður hafi rétt til að snúa sér til þessa og þessa dómstóls með sín mál. Þá kemur ekki til samninga, um það, þá gilda þessi lög. Og í brtt. minni, ef hv. þm. hefur lesið hana í gegn, segir einmitt: „Launþegi getur jafnan ákveðið að reka sjálfur, mál vegna laga þessara fyrir félagsdómi.“ Hann þarf ekki einu sinni að vera því háður, að stéttarfélag hans reki málið. Ef kona t. d., sem í hlut á, vill af einhverjum ástæðum ekki láta stéttarfélag sitt reka mál fyrir sig, getur hún ákveðið, að hún geri það sjálf eða einhver, sem hún tilnefnir fyrir sig. Það er sem sagt ekki um það að ræða, að aðilarnir semji um að reka málið fyrir félagsdómi. Það geta þeir í dag að óbreyttum lögum. Núna erum við að ræða um að setja lög, þannig að hægt sé að fá málin afgreidd fyrir félagsdómi.