10.11.1971
Neðri deild: 11. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 243 í C-deild Alþingistíðinda. (3042)

64. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég vildi aðeins segja örfá orð í sambandi við flutning þessa frv. Ég er samþykkur þessu frv. og styð það. Ég tel það sjálfsagða og eðlilega leið, að þar sem Alþ. tekur ákvörðun um það, að sjómenn fái frádrátt af tekjum sínum til skatts og útsvars, þá yrði litið á það, að þjóðarheildin eigi að bera þann frádrátt, en ekki íþyngja þeim sveitarfélögum, sem hafa tiltölulega flesta sjómenn og mesta framleiðslu fyrir þjóðarbúið. Ég tel mjög eðlilegt, að Jöfnunarsjóður greiði þessum sveitarfélögum þá skerðingu, sem þau verða fyrir af þessum sökum. Alþingi hefur hingað til verið sammála um það, að sjómenn fái slíkan frádrátt, og eins og einhver gat um áðan, þá liggja tvö frv. fyrir í þessari hv. þd. um að auka enn skattfríðindi sjómanna hvað tekjuskatt áhrærir, en við vitum, að í mörgum sjávarplássum hefur þessi frádráttur orðið mjög tilfinnanlegur.

Það má benda á, eins og hv. 11. landsk. þm. gerði, að nokkur sjávarpláss hafa veitt afslátt frá útsvarsstiga við álagningu útsvara. En við skulum líka taka það með í reikninginn, að þar hafa tekjur manna verið mjög háar á undanförnum árum, en tekjur í sjávarplássum eru í raun og veru miklu misjafnari en í öðrum sveitarfélögum, sérstaklega í þeim kauptúnum, þar sem mikið er um sjómenn og útgerð. Þar hrynja oft og tíðum tekjur þessara sveitarfélaga, þegar samdráttur verður í útgerð eða aflabrögð minnka. Þess vegna held ég, að það væri mjög vel til fallið að fara inn á þá braut, sem hv. flm. þessa frv. leggur til, og ég vona, að sú n., sem fær þetta frv. Til meðferðar, afgreiði það fljótt, þó að ég geti að sumu leyti tekið undir orð hv. 11. landsk. þm. um það, að rétt væri að ef endurskoðun á tekjustofnum sveitarfélaganna færi fram, þá væri það auðvitað afgr. í einu lagi. En ég tel, að þessi breyting sé mjög þörf, og fagna því, að þetta frv. var flutt.