10.12.1971
Neðri deild: 25. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 303 í B-deild Alþingistíðinda. (305)

86. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. hefur nú lokið við að flytja eina þá meinlausustu og sakleysislegustu ræðu, sem ég hef lengi heyrt, um eitt viðurhlutamesta mál, sem þingið hefur lengi haft til meðferðar. Ég undanskil að vísu kapítulana um kommissarana, en ég mun koma að því síðar.

Mín fyrstu viðbrögð við þessu frv. komu fram hér í Alþ., löngu áður en frv. var útbýtt, en ég leiddi skoðanir mínar af sjálfum stjórnarsáttmálanum, hvað ætla mætti að af honum leiddi. Það var um miðjan október, að hæstv. forsrh. gerði grein fyrir stjórnarsáttmálanum, og þá sagði ég um það mál, sem við nú erum um að fjalla, eftirfarandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Menn horfa með kvíða fram á skipulagðan áætlunarbúskap, sem svo hefur verið kallaður. Við eigum eftir að sjá þetta blessaða frv. um fjárfestingarstofnunina.“

„En það á ekki að skammta neitt. Það hefur aldrei komið til greina“, sagði hæstv. forsrh., „að stefna að hafta- og skömmtunarkerfi, það á aðeins að raða framkvæmdum.“ Það má kalla þetta ýmsum nöfnum, það má vera með orðaleik í þessu sambandi, en ef á að raða þessu á undan öðru og hinu á undan hinu o.s.frv., mundi þá ekki vera anzi skammt til þess, að það kæmi að því að skammta einum fyrsta sætið, næsta manni annað sætið, þriðja manni þriðja sætið og svo koll af kolli. Þetta gera menn, þegar menn hafa ekki trú á því, að frjálsræðið í þjóðfélaginu ráði bezt við þetta sjálft og einstaklingarnir viti sjálfir bezt, hvernig þeir eigi að fara að með þeim takmörkunum, sem einstaklingsfrelsinu að sjálfsögðu hljóta á hverjum tíma að vera settar. En hæstv. forsrh. sagði líka athyglisverð orð:

„Það á að setja á laggirnar skipulag, það á að setja á laggirnar skipulag, sem þjóni sem bezt markmiðum ríkisstj.

Þetta er einmitt það skipulag, og í stjórn þessa skipulags eiga svo einhverjir pólitíkusar að hafa völdin, náttúrlega ríkisstj. í toppinum, og það á að þjóna sem bezt markmiðum ríkisstj. Þetta eru ær og kýr sósíalismans og ær og kýr vinstri stjórnar, sem setzt hefur við völd hér á Íslandi, en af þessu hafa Íslendingar fengið nóg.

Þetta voru mín orð á þeim tíma. En þegar þessu frv. var úthýtt hér í þinginu laust eftir miðjan nóvembermánuð, þá lét ég hafa eftir mér nokkur orð í Morgunblaðinu á opinberum vettvangi um málið, og ég vil einnig leyfa mér að minna á þau. Ég sagði, með leyfi hæstv. forseta:

„Þetta geysimikla opinbera bákn er algerlega þarflaust frá mínu sjónarmiði og betur séð fyrir verkefnum þess með þeim hætti, sem verið hefur. Þetta er auðvitað ekki þarflaus stofnun frá sósíalistísku sjónarmiði, þar sem pólitísk stofnun hefur með höndum heildarstjórn fjárfestingarmála eða pólitískar stofnanir. Hér er mjög mikið vald í peningamálum falið pólitískri forsjá valdhafa og umboðsmanna þeirra, en það hlýtur óhjákvæmilega að hafa ófyrirsjáanleg áhrif á athafnafrelsi einstaklinga og þróun atvinnumála. Þetta er bákn, sem á að ráða efnahagsstefnu ríkisstj., sem hún hefur ekki enn getað gert sér sjálf grein fyrir.“

Ég skal nú víkja að ýmsum einstökum atriðum þessa máls, sem ég hygg, að muni styðja nokkuð þær staðhæfingar, sem ég hef áður haft um málið og vitnað til, og í því sambandi er einnig mjög knýjandi nauðsyn að leggja fyrir hæstv. forsrh. ýmsar spurningar í þessu máli til þess að uppiýsa eða ryðja úr vegi þokunni, sem er á mörgum mikilvægum ákvæðum í þessu frv., þar sem enginn í raun og veru fær fyrir séð, að hverju er verið að stefna.

Í 1. gr. frv. segir svo, að Framkvæmdastofnun ríkisins skuli hafa með höndum heildarstjórn fjárfestingarmála og lánveitingar samkv. lögum þessum. Um það segir einnig í aths. svo, og ég vil taka það sérstaklega upp, með leyfi forseta:

„Til frekari glöggvunar skal bent á nokkur meginatriði, sem fram koma í þessu frv. og teljast mega að miklu leyti nýmæli:

1) Ákveðið er að tengja saman í eina stofnun áætlunargerð og öflun fjármagns þannig, að samræmi og samstarf sé um áætlun og ákvörðun um framkvæmd og fjáröflun og fjármagnsráðstöfun til hennar.“

Það er nýmæli, að þessi stofnun á að hafa með höndum fjármagnsráðstöfun, lánamálin og það miklu meira en nokkurri stofnun af þessu tagi hefur áður verið falið. Fjárhagsráð var minnzt á hér, og hæstv. forsrh. bað mig um að láta mér ekki detta í hug, að það ætti að fara að setja upp eitthvert ráð í líkingu við fjárhagsráð með skömmtunum og leyfakerfi o.s.frv. Honum hefur verið mjög annt um að láta menn ekki setja þessa stofnun neitt í samband við hið gamla og góða og vinsæla fjárhagsráð.

Fjárhagsráð gat gefið út leyfi fyrir hvers konar fjárfestingum, það er rétt, innflutningsleyfi og gjaldeyrisleyfi, en með þessi leyfi þurfti að fara í fjármálastofnanir, og það gat oft og tíðum strandað á því, hvort viðkomandi maður, sem hafði leyfið, gat komið framkvæmdinni á grundvelli leyfisins í gegn sjálfur, vegna þess að fjárhagsráðið hafði ekki úthlutað honum peningum í leiðinni, lánum. Nú þarf ekki að sækja um leyfi til þess, því að lánið fylgir með, fjárveitingarvaldið, fjármagnsvaldið í ríkari mæli en nokkru sinni í einni stofnun.

Þeir þóttu hafa mikið vald keisararnir hér í gamla daga í Rússlandi, en vald keisaranna, einveldi þeirra, var barnaleikur hjá því valdi, sem fulltrúar kommúnistanna hafa haft í Sovétríkjunum á undanförnum árum. Það er vegna þess, að kommúnistarnir í Sovétríkjunum sölsuðu undir sig allt fjármálavaldið í þjóðfélaginu. Þeir hafa getað úthlutað landsins gæðum og miklum auðæfum hinna miklu Sovétríkja eftir sinni eigin vild. Þar eru kommissararnir ekkert blávatn. Hvet eru takmörkin, leyfist mér að spyrja, fyrir fjármálavaldi þessarar stofnunar? Hún á að hafa með höndum leyfaveitingar samkv. lögum þessum. Það verður að reyna að gera sér grein fyrir því, hversu langt nái það fjármálavald, sem þessi stofnun hefur. Engin grg. hefur fengizt fyrir því, ekki minnsta grg. Ég spyr: Hvað er gert ráð fyrir, að Framkvæmdasjóður hafi mikið fé til ráðstöfunar á næstu 5–10 árum? Hvað er gert ráð fyrir, að Byggðasjóður hafi mikið fé til ráðstöfunar á næstu 10 árum? Við höfum enga áætlun fengið um þetta. Hins vegar er hæstv. forsrh. að segja okkur það, sem allir þm. vita, hve miklu Framkvæmdasjóður hafi úthlutað af lánum á undanförnum árum og hve miklu Atvinnujöfnunarsjóður hafi úthlutað af lánum og hve miklu atvinnumálanefnd ríkisins hafi úthlutað af lánum. Þetta liggur allt saman fyrir í gögnum, sem hv. alþm. hafa aðgang að, en hvað er áætlað, að hér sé verið um að tefla? Það hlýtur að vera í höfði hæstv. forsrh. eða a.m.k. í tösku hans, áætlanagerð um þetta. Þeir menn, sem vilja leggja svo mikið upp úr áætlanagerðum, hljóta að hafa áætlað eitthvað um áætlanirnar fyrir fram, Ég óska eftir því, að við fáum á þessum fundi upplýsingar um þetta. Menn sjá þá dálítið betur, hve mikið vald þessari stofnun, sem hér er um að ræða, er falið.

Ég minni á það, að þegar Iðnþróunarsjóðurinn var lögfestur hér á Alþ., þá lá fyrir grg. um Iðnþróunarsjóð, áætlun um ráðstöfunarfé sjóðsins, eigin fjármunamyndun og annað fé sjóðsins á 25 ára tímabili, svo að menn vissu hér, hvað um var að ræða. Það er nokkuð mikið fé að ætla 100 millj. á ári til Byggðasjóðsins, og ég gleðst yfir því, að hann er aukinn, en á 10 ára tímabili geta nú 100 millj. árlega orðið minni en þær eru í dag. Það er kunnugt, að höfuðtekjur þessa sjóðs eru og verða tekjurnar frá álverinu í Straumsvík. Þær eru á næsta ári áætiaðar, þegar verksmiðjan er fullbyggð, um 100 millj. kr., og á skömmum tíma fara árlegar tekjur af framleiðslugjaldi áibræðslunnar upp í um 250 millj. kr. Þetta eykst allt saman, er þar safnast saman framlög ríkisins og þessi framlög, vaxtatekjur stofnunarinnar. Hvað verður þetta mikið frá ári til árs, þó að maður biðji nú ekki um meira en upplýsingar um næstu 10 ár?

Nei, hún á ekkert að gera þessi stofnun nema að vera til leiðbeiningar og sjá um, að stefna ríkisstj. sé framkvæmd. Þetta er allt saman saklaust og meinleysislegt, og það á enginn að þurfa að hræðast neitt skömmtun eða höft eða valdbeitingu o.s.frv. Má ég aðeins lesa upp hérna 12. gr. frv.?

„Lánadeild vinnur að því að samræma útlán allra opinberra stofnlánasjóða og að skipuleggja fjármagnsöflun til framkvæmda með sérstöku tilliti til þeirra framkvæmda, sem forgang þurfa að hafa samkvæmt áætlunum stofnunarinnar.“ Hvað skyldi þetta vera mikil gomma samanlagt, sem þarna á að samræma og afla fjár til? „Hún fylgist með fjárhag allra opinberra fjárfestingarsjóða ...“ Má ég spyrja hæstv. forsrh.: Hvað felst í þessu „að fylgjast með“, að þessi stofnun eigi að fylgjast með fjárhag allra opinberra fjárfestingarsjóða, hvað felst í því? Og svo á hún að gera tillögur um fjáröflun til þeirra. Síðan kemur 3. málsgr., sem nú er orðin breytt eftir meðferðina í Ed., en þar segir svo:

„Lánastofnanir og opinberir sjóðir veita Framkvæmdastofnuninni almennt yfirlit um lánveitingar til fjárfestingar og framkvæmda eftir nánari reglum, sem stjórn Framkvæmdastofnunarinnar setur. Stjórn stofnunarinnar getur að fengnu samþykki ríkisstj. sett almennar reglur um, hvers konar framkvæmdir skuli hafa forgang umfram aðrar. Skulu þá lánastofnanir og opinberir sjóðir haga lánveitingum í samræmi við það.“

M.ö.o. þá á þessi stofnun samkvæmt þessu, — eða er það ekki rétt skilið, — að geta stýrt lánveitingum allra sjóða opinberra stofnana, sparisjóða jafnt sem annarra. Er þetta rétt skilið? Þetta er ekkert smáræðis vald, sem þessi stofnun hefur, og hún á að geta gefið fyrirmæli, sem leiða til þess, að lánastofnanir allar og opinberir sjóðir hagi lánveitingum í samræmi við það. Gera mennirnir sér almennilega grein fyrir, hvað í þessu felst? Svo koma þeir og tala um það með sakleysissvip, að hér sé í raun og veru ekki neitt um að vera. Og svo kemur þessi ágæta setning, sem áreiðanlega verður minnisvarði þeirra, sem sömdu þetta frv. og leggja frv. fram, hæstv. ríkisstj.: „Engri stofnun er þó skylt að veita lán, sem hún telur ekki eðlilega tryggð.“ Mikið var, mikið var! Þær eiga bara að lána, alla lánastofnanir landsins, eftir fyrirmælum þessarar stofnunar, en þó eru þær ekki skyldugar, ef þær telja, að lánið sé ekki tryggt. Mikið hefur málið hér verið vandlega athugað og sett makalaust vel undir lekann, að lánastofnanir fari nú ekki að lána, án þess að geta tryggt lánið! Þetta er nýmæli í lögum og nýmæli, sem verður ekki til mikils sóma fyrir hæstv. forsrh.

Nei, hið pólitíska eðli þessarar stofnunar er algerlega áberandi. Menn hafa í sjálfu sér ekkert á móti því, að settar séu upp hinar og þessar stofnanir ríkisins, en þá ætlast maður til þess, að þær séu hlutlausar stofnanir og að borgararnir séu jafnir fyrir lögunum og jafnir fyrir ákvörðunum og valdi stofnananna. En þegar stofnun er komið á samkv. þeirri löggjöf, sem um hana er sett, svo rammpólitísk eins og þessi Framkvæmdastofnun, þá er verið að mismuna þegnunum í þessu þjóðfélagi, og við vitum það, að þeim verður mismunað.

Hæstv. forsrh. sagði: „Það munu koma sendinefndir utan af landi til þessara kommissara, og það er jafngott, að menn viti þá, að það eru menn, sem hafa umboð og styrk á bak við sig.“ Almenningur í þessu landi og borgararnir, sem eiga að koma og tala við þessa menn, eiga að vita það, að þetta eru kóngsins menn, sem þeir eru að tala við. Það er betra fyrir þá að hafa sig hæga.

Í 4. gr. er talað um þriggja manna framkvæmdaráð. Ég hef nú sjaldan heyrt talað um ráð, þar sem sitja þrír menn, á íslenzkri tungu. Oftast tölum við um ráð, þar sem meiri söfnuður er saman kominn. Aftur á móti er talað um stjórn, þar sem eru sjö menn, í 2. gr. Væri nú ekki betra að hafa þetta öfugt, að það væri framkvæmdaráð sjö manna, sem væri samkv. 2. gr., en framkvæmdastjórn þetta þriggja manna ráð? Eða eru menn orðnir svo forhertir að þurfa endilega að hafa rússneska málvenju og kalla þetta sovét, sbr. Sovétríkin, Ráðstjórnarríkin, sovét skal það heita.

Þá erum við komnir að kommissörunum, og þar þótti nú hæstv. forsrh. betra að setja fyrir fram undir lekann eða að reyna að gera það. Og hann taldi, að þessir menn mundu hafa svo mikið að gera, — það væri svo geysilega viðamikið þetta starf, — að það gæti enginn einn maður verið slíkur jöfur, að hann réði við það, og það þyrfti að setja þrjá menn í þetta að sínum dómi, alveg eins og t.d. bankana. Nú er það rétt, fyrst á þetta er minnzt, að í ríkisbönkunum eru yfirleitt þrír menn. En það hefur verið yfirleitt grundvallarregla, að þessir bankastjórar væru þannig frá pólitísku sjónarmiði, að stjórn og stjórnarandstaða hefðu þar sína fulltrúa, einmitt til þess að geta undirstrikað það gagnvart almenningi, að hér væri um hlutlausar bankastjórnir að ræða. Þetta er náttúrlega allt öðruvísi skipað en bankastjórn í ríkisbönkum, ef hún á að vera skipuð bara af fulltrúum eða pólitískum aðilum, sem eru þekktir stjórnmálamenn eða fylgjendur þeirra flokka, sem á hverjum tíma eru við stjórn svo að ég held, að það hafi nú verið ákaflega óheppilegt að vera að vísa í sjálfu sér til þeirra.

Auðvitað sannar brtt., sem gerð var við 4. gr. í Ed., hið pólitíska eðli kommissaranna, og hæstv. forsrh. var svo hreinskilinn að játa það, að þetta væru pólitískir menn og ættu að vera pólitískir umboðsmenn ríkisstj., en það er bætt inn þeirri málsgr., að framkvæmdaráð megi leysa frá störfum með mánaðar fyrirvara, að þeir eigi að koma og fara eins og pólitísku ráðherrarnir, þessir pólitísku kommissarar. Það er ágætt, og ég viðurkenni og virði þá hreinskilni, sem í því felst af hálfu hæstv. forsrh., að viðurkenna þetta. En þá á hann ekki að vera með þá skinhelgi í leiðinni að tala um, að þarna verði engin pólitík á ferðinni, það verði ekki, þó að þetta séu pólitíkusar.

Við þekkjum þetta nú, þótt ekki væri nema pólitík Framsfl. frá árunum 1930–1940. Það var nú ekkert smávegis pólitískt ranglæti, sem beitt var þá af fulltrúum þáv. ríkisstj. í svipaðri stofnun, sem hér er verið að tala um, eða með svipuðu kerfi, og þá voru þeir alls ráðandi. Það stefndi allt að einu marki, að efla og styrkja Sambandið og draga úr styrkleika einkaframtaksins, sérstaklega á sviði verzlunarinnar á þeim árum, og þar náði ríkisstj. stórkostlegum árangri, því að velta Sambandsins jókst að sama skapi og velta einstaklingsins minnkaði á þessum árum. En þetta voru menn, sem vissu alveg, hvað þeir voru að gera. Þeir höfðu viðurkennt, að þeir væru stjórnmálamenn. Skúli Guðmundsson heitinn, hann var stjórnmálamaður. Hann var nokkuð seigur líka og harðdrægur flokksmaður, og það var ekki bara hér í þingsölunum, sem hann var það. Það var hann einmitt líka, þegar hann fór með opinber málefni, eins og hann gerði á þessum árum.

Ef hæstv. forsrh. væri sjálfum sér samkvæmur og vildi hafa þetta í líkingu við það, sem væri með bankana, þá ætti hann að tryggja nokkurn veginn, að einn af þessum kommissörum a.m.k. væri mjög sterkur stjórnarandstæðingur. Þá hallaðist ekki á um það, að bæði stjórn og stjórnarandstaða gæti vitað, hvað þessir þrír menn sýsla, þegar þar að kemur. Það getur verið að hæstv. ráðh. hugsi sér það, og við biðum þá og sjáum, hvað setur.

Í 13. gr. frv. segir, að lánadeildin geti átt frumkvæði að stofnun nýrra fyrirtækja. Má ég spyrja hæstv. forsrh., hvað felist í þessu? Það stendur í gr., að hún láti vinna nauðsynlegar áætlanir og undirbúningsstörf og leiti síðan samvinnu við aðra aðila um að koma fyrirtækinu á fót, en getur hún komið fyrirtæki á fót án samvinnu við aðra aðila? Felst í þessu ákvæði, að þessi stofnun geti stofnað fyrirtæki ein út af fyrir sig? Þetta er atriði, sem ástæða væri til að fá upplýst.

Í 14. gr. segir: „Nú verður ákveðið með viðeigandi breytingum á lögum um aðra opinbera stofnlánasjóði að fela Framkvæmdastofnun ríkisins umsjá þeirra, og skulu þeir þá starfræktir í lánadeild með sérstöku reikningshaldi.“ Hvað þýðir þetta? Má ég spyrja hæstv. forsrh.: Eru uppi ráðagerðir um það að fela stofnuninni umsjá fleiri fjárfestingarsjóða? Í öðru lagi má ég spyrja: Hvað þýðir „að fela stofnuninni umsjá fjárfestingarsjóðs“, hvað þýðir það?

Þá segir í 16. gr.: „Lánadeildin getur, ef hagkvæmt þykir, haft vörzlu og bókhald þeirra sjóða, sem eru í umsjá Framkvæmdastofnunar ríkisins.“ Samkv. þessu þýðir m.ö.o. ekki það að hafa umsjá sjóða að hafa vörzlu og bókhald þeirra, en hvað þýðir „að hafa umsjá þeirra“? Þetta vildi ég gjarnan fá upplýst. Í aths. segir um þetta: „Enn fremur er í gr. gert ráð fyrir að Framkvæmdastofnuninni verði síðar fengin umráð fleiri fjárfestingarsjóða en þetta frv. gerir ráð fyrir.“ Þá er ekki orðið umsjá lengur notað til skýringar á gr., sem umsjáin er í. Hvað þýðir „að hafa umsjá eða umráð sjóðanna“? Er það það sama? Og hvað felst í því, þar sem fyrir liggur, að ekki felst í því að hafa vörzlu og bókhald þeirra, eða er þetta kannske opið í báða enda?

Þá kem ég að bákninu í heild, sem ég orðaði svo. Hvaða áætlanir liggja fyrir um stærð eða starfsmannaþörf þessarar stofnunar, sem hér hefur verið sett á laggirnar, við skulum segja bæði brúttó og nettó, þ.e. hvað er gert ráð fyrir, að stofnunin þurfi á miklu starfsmannaliði að halda og hvaða mundi sparast þá hjá öðrum stofnunum vegna þessa starfsmannahalds? Um þetta hljóta að vera einhverjar hugleiðingar hjá hæstv. ríkisstj., og það er mjög nauðsynlegt fyrir okkur þm., áður en við tökum afstöðu til málsins, að fá einhverjar vísbendingar um þetta. Eiga að vinna þarna 10–20 manns eða 100 manns eða 200 manns? Ríkisstj. hefur frá því hún var stofnuð, sett á laggirnar nefndir, sem í munu vera um 50 manns, í langflestum tilfellum pólitískir fylgismenn stjórnarinnar, varla í nokkru tilfelli stjórnarandstæðingar, nema eftir tilnefningu annarra aðila. Í Stjórnarráði Íslands voru fyrir nokkrum árum um 100 manns, ef ég man rétt. Þessir nefndarmenn eru um helmingurinn af stjórnarráðinu. Á þetta að vera álíka stórt bákn og stjórnarráðið, eða á það að vera helmingi stærra en stjórnarráðið? Hverju gera menn ráð fyrir í þessu sambandi?

Mig langar svo enn fremur að spyrja: Hver er áætlaður rekstrarkostnaður stofnunarinnar svona fyrstu árin, ég geri nú ekki ráð fyrir, að það geti náð langt aftur í tímann, kannske búast menn ekki við, að hún verði svo langlíf, þessi stofnun, en fyrstu árin, t.d. kjörtímabilið? Hæstv. forsrh. talar um það, að hér sé verið að sameina þrjár stofnanir í eina. Þetta á víst að skiljast svo fyrir þá, sem eru nógu einfaldir, að hér sé nú verið að spara. Rekstrarkostnaður Framkvæmdasjóðs mun hafa verið um 5 millj. kr. á s.l. ári og Atvinnujöfnunarsjóðs eitthvað svipað og Efnahagsstofnunarinnar innan við 10 millj. kr. Þetta er nú það, sem verið er að sameina. Búast menn við, að þetta nægi til rekstrarkostnaðar þessarar stofnunar, þessar 15 millj. króna, eða hvaða áætlanir hafa menn gert sér í þessu sambandi? Og ég segi enn, að þeir, sem eru svona gírugir í að gera áætlanir, hljóta að hafa áætlað þetta. Við fáum væntanlega að heyra það, áður en þessum fundi lýkur.

Meginpartur af ræðu hæstv. forsrh. fjallaði um áætlanagerð, og það er rétt, að ég víki svolítið að því máli. Það verður kannske endurtekning á því, sem mönnum hefur verið ljóst um þessi mál, eins og margt var endurtekning á því í ræðu hæstv. forsrh., sem mönnum var áður ljóst, en allt þetta tal um áætlanagerð og nauðsyn áætlana, sem hefðu betra skipulag, hjá hæstv. forsrh. er ekkert annað en til að breiða yfir, því að áætlanagerðir hafa verið hér í ríkum mæli framkvæmdar og í vaxandi mæli á undanförnum árum. Ef hæstv. ríkisstj. fannst nauðsyn til þess að endurbæta þær, sem ég efast ekki um, að þörf sé á, og auka þær, þá er það gjörsamlega vandalaust á grundvelli þeirrar löggjafar, sem fyrir hendi er, algjörlega vandalaust. Það, sem sagt hefur verið um áætlanagerð í sambandi við þetta frv., er að þessu leyti alveg út í hött. Öllu takmarki hæstv. ríkisstj. um áætlanagerðir var hægt að ná á grundvelli gildandi laga og með því þá að efla stofnanir eins og Efnahagsstofnunina og hagrannsóknadeild hennar og aðrar stofnanir, sem að þessu vinna. Þar af leiðandi kemur þetta í raun og veru ekki þessu máli við og réttlætir ekki þetta frv. Eiginlega var langlengstur hluti ræðunnar um það að réttlæta frv. á grundvelli þess, hve mikil þörf væri á áætlanagerð.

Það er líka talað mikið um þetta í sjálfu frv. og grg. Það er talað um eflingu atvinnuveganna með skipulegum áætlunarvinnubrögðum, skipulegum áætlunarvinnubrögðum! Það er nú gott, að þau séu skipuleg. Ég veit ekki, hvernig óskipuleg áætlunarvinnubrögð eiga að vera. Það er sagt, að stefnt sé að því, að íslenzkur þjóðarbúskapur þróist í framtiðinni með skipulegum hætti. Mér finnst nú nóg, að hann þróist, ef hann þróast með einhverjum hætti. Í ræðu fulltrúa ríkisstj. og skrifum stuðningsblaða hennar hefur einnig mikið verið um áætlanir talað og áætlanagerð sem eins konar allra meina bót. Í frv. sjálfu og aths. við það er þó hvergi að finna neina skilgreiningu á því, hvað áætlanagerð sé né hvernig eigi að beita henni, hvergi. Það er ekki stafur fyrir því.

Hér hefur oft verið reynt að beita áætlanagerðum í þjóðarbúskap okkar, en af litlum efnum, eins og kunnugt er, á fyrri árum og þá oftast til kvaddir einstakir sérfræðingar í það og það skiptið. Þetta hefur auðvitað, eins og eðlilegt er, ekki gefið mjög góða raun. Hins vegar er réttilega á það bent, að það hefur þróazt mjög í hinum vestræna heimi áætlunarbúskapur á síðari árum innan ramma einkaframtaks og kapítalisma, eins og hæstv. forsrh. vék að, og sérstaklega benti hann á, að engir legðu jafnmikið fé í áætlanagerðir eins og mestu auðhringarnir í heiminum. Hann þekkir nú sennilega eitthvað betur til þeirra en við ýmsir hinna. Ég get vel trúað því, að það sé eitthvað til í þessu, að þeir leggi mikið í að áætla sínar framkvæmdir. Það er auðvitað eðlilegt, og það gerir í raun og veru hver maður í sínum eigin heimilisbúskap. Þá eru menn alltaf með meiri og minni áætlanir um það, hvað sé fram undan og hvað sé rétt að gera, og hvert fyrirtæki, þótt lítið sé, er með áætlanir. Oft eru miklar áætlanir gerðar í hugum ágætra einkaframtaksmanna, án þess að þær séu nokkurn tíma settar á pappír. Af þessu hafa menn líka m.a. dregið þær ályktanir, að það væri æskilegra að hafa meiri áætlanagerð á opinberum vettvangi en verið hefur. Að þessu hefur ýmislegt hnigið á undanförnum árum.

Það var einmitt fyrrv. ríkisstj., sem lagði fram áætlanagerð um þjóðhags- og framkvæmdaáætlun, þá fyrstu frá 1963–1966, og þá gerði hæstv. forsrh., Ólafur Thors, mjög glögga grein fyrir því, hver væri tilgangurinn með þessari áætlanagerð og hvaða tilgangi hún ætti að þjóna. Síðar hefur þetta verið áréttað mörgum sinnum, og hingað hafa verið kvaddir í tíð fyrrv. ríkisstj. sérfræðingar frá Alþjóðabankanum og fleiri erlendir sérfræðingar til þess að vinna að áætlanagerð, norskir sérfræðingar t.d., sem hófu starfsemina við Vestfjarðaáætlunina, og fyrrv. fjmrh., Magnús Jónsson, gerði mjög ítarlega grein fyrir því hér fyrir tveim eða þremur árum, á hvern hátt hefði þá að undanförnu verið unnið að áætlanagerð á Íslandi og hvaða áætlanagerð teldist að mati sérfræðinga og ríkisstj. vera heppilegust.

Á síðari árum hafa þessar áætlanir haldið áfram mjög mikið. Ef þetta allt væri talið upp, sjá menn, að áætlanagerð hefur bara verið geysimikil á undanförnum árum. Þegar framkvæmdaáætlunin er Lögð fram 1963, er verið að tala um og vinna að langtímaáætlunum um samgöngumál og menntamál á vegum Efnahagsstofnunarinnar og hlutaðeigandi rn. Það er gerð byggðaáætlun fyrir Vestfirði, Norðurland og Austfirði og gerð athugun og áætlun um þróun einstakra atvinnugreina á vegum Efnahagsstofnunarinnar.

T.d. voru gerðar mjög víðtækar áætlanir um þróun iðnaðarins hér á landi. Í fyrsta lagi var gerð úttekt á iðnaðinum árið 1969, áður en við gengum í EFTA, þ.e. hvernig staða iðnaðarins væri þá. Síðan voru samin iðnþróunaráform, þ.e. áætlun um þróun iðnaðarins á Íslandi á þessum áratug á grundvelli þeirrar úttektar, sem fram hafði farið á iðnaðinum árið 1969. Þessi iðnþróunaráform hefur ríkisstj. undir höndum, og allir alþm. hafa fengið þau. Samt sem áður var það nú eitt af stefnuskráratriðum ríkisstj. að gera iðnþróunaráætlun næstu ára. Það hefði þá frekar átt að orða það þannig, að það ætti að endurskoða hana, ef menn hafa þá lesið hana og talið þörf á því að endurskoða hana, en hún liggur fyrir, ítarleg áætlun um iðnþróunina í landinu á næstu 10 árum. Það hafa verið gerðar svo á síðustu árum fyrir utan það, sem ég hef minnzt á, samgönguáætlanir. Samgönguáætlunin, sem gerð var á árunum fyrr, er m.a. undanfari að áætlun um hraðbrautir, sem gerð hefur verið. Það hefur verið haldið áfram áætlunum á sviði menntamála, og hún hefur farið að mestu leyti fram í menntmrn. sjálfu. Það hefur verið lokið við áætlun um þróun Háskóla Íslands. Gerð hefur verið áætlun um þróun iðnaðarins, eins og ég sagði. Sennilega mun lokið nú víðtækri upplýsingasöfnun og athugun, sem miðar að endurskoðun stefnunnar í landbúnaðarmálum og hugsanlegri áætlanagerð þar. Það hefur verið gengið frá Norðurlandsáætlun og samgönguáætlun fyrir Austfirði. Og aftur er hafið starf við Vestfjarðaáætlunina. Svo verðum við að hafa það líka í huga, að miklar framfarir áttu sér stað í undirbúningi opinberra framkvæmda, eftir að lög um þetta efni voru sett hér nýlega á Alþ. í tíð fyrrv. ríkisstj. Það er svo alkunnugt, að bæði bankar og stofnlánasjóðir hafa tekið upp alveg ný vinnubrögð á undanförnum árum í þessu sambandi með gerð áætlana fram í tímann með ítarlegri og miklu meiri kröfum en áður til fyrirtækja um gerð rekstraráætlana af þeirra hálfu og hagkvæmnisáætlana fram í tímann.

Ég held, að það sé alveg óvefengjanlegt, að á siðasta áratug og ekki sízt á síðari hluta hans hafa orðið alveg sérstakar framfarir, — þar er varla hægt að bera það saman við nokkuð áður, — í áætlanagerð hér á landi. En þessar áætlanir eru byggðar á traustum grunni stig af stígi og þær felast í því, að margir aðilar, bæði opinberir aðilar, lánastofnanir og fyrirtæki, hafa tekið að beita áætlanagerð og samræmt sínar áætlanagerðir og ákvarðanir.

Það væri auðvitað hægt að segja margt og miklu meira um þetta atriði, en ég skal ekki tefja tímann á því nú. En ég vil aðeins benda á þetta til þess að sýna það, að mikill hluti af ræðu hæstv. forsrh. um áætlanagerðir, sem sé verið að stofna til með þessu frv., er alveg út í hött. Fyrir hendi er möguleikinn til allrar þessarar sömu starfsemi án þess að samþ. væri þetta frv., sem hér er um að ræða, sem felur í sér allt annað og miklu meira en áætlanagerð. Það er auðvitað valdbeitingin, sem er það hættulega við þetta frv., og sem við eigum eftir að standa frammi fyrir, nema því aðeins að hæstv. forsrh. standi við það að ráða við þá menn, sem með honum starfa og sem vitað er um að vilja ofríki ríkisvaldsins sem mest og afskipti ríkisvaldsins sem mest. En ef hann segir, að þetta frv., ef að Lögum verður, verði til að styrkja einkaframtakið í landinu, þá skulum við bíða og sjá, þegar hæstv. forsrh. setur hnefann í borðið og tryggir slíkan framgang þessara mála.

Ég tel, að það sé glapræði að leggja Efnahagsstofnunina niður, hreinasta glapræði. Hún hefur áunnið sér almennt traust. Hún heyrir undir forsrn. Efnahagsstofnunina á að stórefla í því formi, sem hún er, en nú í stað þess á að gera hana að deild í stofnuninni. Maður verður að fara að kalla þetta Stofnunina. Það er eins og þetta sé orðin einhver ný persóna í þjóðfélaginu þessi stofnun. Hæstv. forsrh. talaði alltaf um stofnunina. Þetta er eins og einhver persónugervingur sósíalismans á Íslandi. Hæstv. forsrh. gerir sér ekki grein fyrir því, hvað hann er að gera. Enginn veit, hvað átt hefur, fyrr en misst hefur. Hæstv. forsrh. eru efnahagsmál e.t.v. ekki mjög hugleikin. Því meiri þörf er honum á Efnahagsstofnuninni í eigin rn. Með því móti mundi hann geta forðazt það hlutskipti, sem forsrh. landsins má ekki henda, að vera hnoðaður eins og brauðdeig í höndum annarra manna, sem stefna að og gegna allt öðru hlutverki en að auka vegsemd hæstv. forsrh., formanns Framsfl. Þetta ætti honum að vera ljóst. Smjörþefinn af slíku hlýtur form. Framsfl. að hafa fundið í síðustu alþingiskosningum. Honum getur tæpast verið rótt innanbrjósts, þegar hann lítur yfir val týndra liðsmanna Framsfl. í kosningunum. Hann gæti þegar sagt við kommúnistana í ríkisstj. svipað og rómverskur tignarmaður sagði forðum: „Fáðu mér aftur hersveitirnar mínar.“ Hvarflar það að formanni Framsfl., að báknið, stofnunin, sé líkleg til þess að skila honum aftur týnda liðinu? Nei, nátttröllið glottir. Það getur hæstv. forsrh. verið viss um.

Fyrirheit okkar stjórnarandstæðinga í upphafi þings var það, að við vildum hafa ábyrga stjórnarandstöðu, og við höfum staðið við það fyrirheit. Þess vegna höfum við lagt okkur alla fram, bæði í sambandi við þetta mál og önnur, að brjóta þau til mergjar. Þó að þessi viðleitni okkar hafi ekki borið árangur enn þá, þá munum við halda því áfram. Við munum leggja okkur alla fram að fá samþykktar breytingar til bóta á þessu frv., en megi ekki lagfæra neitt í þessari hrákasmið fyrir ofríki og valdbeitingarhneigð meiri hl. á Alþ., þá munum við vissulega greiða atkv. á móti þessu frv. Það væri þá bezt geymt undir grænni torfu. Þá ætti það að breyta um nafn og nefnast frv. til l. um Framkvæmdastofnun ríkisstj., en ekki Framkvæmdastofnun ríkisins.

Að lokum vil ég segja þetta: Mér segir hugur um, að margir þeirra þm., sem nú kunna að ljá þessu frv. lið, e.t.v. af misskilningi, og gera sér ekki grein fyrir, hvað í því getur falizt, muni síðar, og það fyrr en varir, óska þess, að þeir hefðu ekki gengið til þessa leiks.