02.02.1972
Neðri deild: 37. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 261 í C-deild Alþingistíðinda. (3068)

156. mál, þingsköp Alþingis

Flm. (Eysteinn Jónsson) :

Herra forseti. 26. febr. 1969 var samþ. á Alþ. svo hljóðandi till.: „Alþingi ályktar að fela þingforsetum ásamt einum fulltrúa frá hverjum þingflokki að íhuga og endurskoða starfshætti Alþingis. Álit og till. um þetta skal síðan leggja fyrir Alþingi.“

Þessi n. var síðan sett á laggirnar og hefur starfað síðan nokkuð, og fyrir áhrif frá henni, sumpart bein og sumpart óbein, hafa verið gerðar ýmsar ráðstafanir til bóta varðandi aðstöðu þingmanna og þingflokka og raunar starfshætti Alþingis. Ég ætla ekki nú að gefa yfirlit yfir það, sem gerzt hefur í þessu, hv. þm. er það mjög vel kunnugt, og læt ég því nægja að minnast á það, að þessi n. var sett á fót og henni var í raun og veru ætlað að vera starfandi áfram um nokkuð langan tíma og vera eins konar sambandsnefnd á milli forseta Alþingis og fulltrúa þingflokkanna, og þannig hefur hún unnið.

Eitt af því, sem þessi n. hefur íhugað, eru þingsköp Alþingis, og þá kom það fljótlega í ljós, að fyrir lágu till. um breytingar á þingsköp um Alþ., sem samdar voru af sérstakri n., sem sett hafði verið á laggirnar í maímánuði 1966 og hafði unnið að því að endurskoða þingsköpin og gert um það efni frv. N. um starfshætti Alþingis skoðaði þetta frv., og hefur raunar farið yfir það oftar en einu sinni á þeim tíma, sem hún hefur starfað, og hefur fallit á, að þetta frv. væri til bóta frá því fyrirkomulagi, sem nú er í ýmsum greinum varðandi þingsköp Alþingis.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er því samið af 7 manna undirbúningsnefndinni, en hefur í nesti meðmæli frá þeirri n., sem unnið hefur að því að endurskoða starfshætti Alþingis. Við flm. flytjum þetta frv. í raun og veru að ósk þessarar n. Við flytjum það með þeim fyrirvara, að við höfum óbundnar hendur um brtt., sem fram kunna að koma, eða gera sjálfir brtt., ef okkur sýnist betur mega fara um einstök atriði, en við töldum skynsamlegt. að frv. kæmi fram núna strax, það yrði ekki dregið lengur, að það kæmi fram til 1. umr. og því vísað til n. og þá í þeirri von, að frv. gæti orðið að lögum á þessu þingi. Okkur sýnist raunar mál til þess komið, því að þetta er í fjórða sinn, sem þetta frv. er flutt óbreytt.

Ég mun nú að höfðum þessum formála með örfáum orðum greina frá því, hverjar aðalbreytingarnar eru í þessu frv. frá því fyrirkomulagi, sem nú er.

Það er lagt til í fyrsta lagi, að kjörbréfanefnd Alþingis verði kosin fyrir allt kjörtímabilið í senn, en ekki hvert Alþ. eins og nú er.

Þá er lagt til, að ef sæti Ed. þm. losnar og varamaður tekur sæti hans á þingi, þá skuli sá þingflokkur, er skipa á sætið, tilnefna mann úr sínum flokki til Ed.

Í þriðja lagi er lagt til, að nm. í utanrmn. verði bundnir þagnarskyldu um þá vitneskju, sem þeir fá í n., ef formaður n. eða ráðh. kveður svo á, að þannig skuli það vera.

Í fjórða lagi eru sett ný og fyllri ákvæði um skýrslur, sem ráðh. óska að gefa Alþ., og um rétt þm. til þess að óska þess, að ráðh. gefi slíkar skýrslur.

Í fimmta lagi eru ákvæðin um fsp. í Sþ. gerð fyllri en nú er og stefnt að því að gera umr. um þær styttri og hnitmiðaðri en enn hefur átt sér stað. Er lagt til, að munnlegar fsp., sem við köllum, þ. e. a. s. þær, sem á að svara munnlega og kallaðar eru munnlegar fsp. í frv., verði teknar fyrir á sérstökum fundi í Sþ., þannig að þær dragi ekki um of tíma frá öðrum þingmálum. Þá er laga til, að það nýmæli verði tekið upp, að þm. geti borið fram skrifl. fsp., er ráðh. svara síðan skriflega. Gert er ráð fyrir því, að ræðutími verði takmarkaður meira en verið hefur fram að þessu, þannig að ráðh. megi ekki tala lengur en 10 mín. Það hefur spillt fyrirspurnatímanum á Alþ., að mjög hefur viljað við brenna, að ráðh. svari með löngum ræðum þeim fsp., sem upp eru bornar. En til þess er auðvitað ekki ætlazt. Það er í lófa lagið fyrir þann ráðh., sem ekki telur sig koma öllu því á framfæri, sem hann vill, á þeim 10 mín., sem hugsaðar eru eftir frv., að láta þá koma frá sér til viðbótar skriflega grg., sem útbýtt er til þm.

Í sjötta lagi er þess að geta, að í sambandi við útvarps- og sjónvarpsumr. er lagt til, að það nýmæli verði nú upp tekið, að útvarpa skuli innan tveggja vikna frá þingsetningu stefnuræðu forsrh. og umr. um hana. Er þá gert ráð fyrir, að slíkar umr. komi í staðinn fyrir útvarp fjárlagaræðu og umr. um hana. Þá er enn fremur stungið upp á, að á síðari hluta hvers þings skuli útvarpa almennum stjórnmálaumr., sem standi í eitt kvöld, en ekki tvö, eins og verið hefur, og skuli þessar umr. vera eldhúsumr. þær, sem fram að þessu hafa farið fram, þ. e. a. s. það er lagt til að stytta eldhúsumr. úr tveimur kvöldum í eitt.

Í sjöunda lagi er lagt til, að það nýmæli verði tekið upp, að ef Ríkisútvarpið, og þá er að sjálfsögðu átt við bæði hljóðvarp og sjónvarp, óskar að útvarpa eða sjónvarpa umr. frá Alþ. eða hluta af umr., þá verði það heimilað, að höfðu samráði við formenn þingflokka, þ. e. a. s. þetta verði á valdi forseta í samráði við formenn þingflokka.

Þetta eru aðalatriðin í þeim breytingum. sem upp á er stungið. Svo eru önnur smærri atriði, sem ekki er ástæða til þess að tefja tíma manna við að hlýða á að þessu sinni, þar sem ég geri ráð fyrir, að hver einasti þm. hljóti að setja sig inn í þetta frv. Ég skal taka það fram, að persónulega tel ég, að fleira gæti komið til greina í þessu sambandi, sem ég mun koma á framfæri fyrir mitt leyti við þá n., sem þetta mál fær til íhugunar, en ég vil aðeins minnast hér á eitt atriði.

Mér finnst fsp.-umræður á Alþingi ekki hafa tekizt nógu vel. Þær hafa orðið allt of langdregnar, og einkum finnst mér það ljóður, að sumar hafa orðið að almennum stjórnmálaumr., sem er alveg óviðeigandi og alls ekki til þess ætlazt, að svo verði. En þannig hefur þetta farið.

Þingsköp Alþingis ég held, að okkur hafi ekki tekizt eins vel með fsp.-umr. hér eins og tekizt hefur í mörgum öðrum þingum, þar sem umr. hafa fengið það snið, að ræður hafa verið örstuttar og varla sagt nokkurt óþarfa orð, aðeins miðað við að fá vitneskju, en ekki að rökræða fram og aftur. Þannig eiga þessar umr. auðvitað að vera. Mér finnst, að það ætti annaðhvort að leyfa einungis fyrirspyrjanda og ráðh. að talast við eða þá og kannske öllu heldur að takmarka enn þá meira ræðutíma þeirra, sem ekki eru fyrirspyrjendur, til að mynda leyfa þeim einungis tveggja mín. ræðu. Tveggja mín. ræða á að vera kappnóg til þess að stinga fram fsp. um viðbótarvitneskju, sem menn vilja fá. Það er algerlega ástæðulaust að ætla sér lengri tíma til þess. Þetta vil ég biðja n., sem fær þetta mál til meðferðar, að íhuga, og ég hugsa, að það væri réttara að taka síðari leiðina að takmarka meira ræðutímann, en banna ekki þátttöku annarra en þeirra, sem spyrja, því að oft gæti verið ávinningur að því, að menn styngju fram fsp. í framhaldi af upplýsingum, sem koma fram frá ráðh. eða fyrirspyrjanda. Þetta getur verið ávinningur, ef það er gert á þann hátt, sem til er ætlazt, að umr. fari fram í fsp. tíma. Þetta eigi ekki að vera pólitískar kappræður eða vera með þingmálafundasniði eða framboðsfundasniði. Það gæti einnig komið til greina að stytta þessa tíma úr 10 mín. og 5 mín., því að sannast að segja er óþarfi fyrir fyrirspyrjanda að tala í 5 mín. Fsp. liggur fyrir prentuð. Þm. reynir að setja hana þannig fram, að hún sé vel skiljanleg, og ef nákvæmlega væri rannsakað það, sem menn segja í sambandi við fsp., þá mundi það koma í ljós, að flest af því mætti algerlega missa sig og það væri í raun og veru alveg nóg að lesa fsp. upp. Venjulega eru þær samdar þannig. Menn geta gert sér nokkuð í hugarlund, hvernig þetta er framkvæmt annars staðar, á því, að t. d. í brezka þinginu er ætluð ein klst., eftir því sem ég bezt veit, á viku eða eitthvað nálægt því fyrir fsp. og svör, og á þessari einu klst. munu vera bornir upp fleiri tugir fsp. og þeim svarað. Menn geta svo á næstu vikum gert sér það að leik að bera þetta saman við þær umr., sem fara fram um fsp. hér hjá okkur.

Sannast að segja er mjög nauðsynlegt að ýta heldur undir fsp. en hitt. Þær eru alveg prýðilegur liður í störfum Alþ. og ákaflega gagnlegur þáttur. Þess vegna ættum við að ýta undir fsp., ekki gera neitt til þess að hindra þær. En leiðin til þess að ýta undir þær er að koma þeim fyrir á styttri tíma. Nú gengur þetta þannig, eins og við vitum, að það gengur mjög, lítið með mál í Sþ., aðallega vegna þess, hve fsp. taka langan tíma, þó að þær séu í raun og veru mjög fáar. Það eru í raun og veru mjög fáar fsp., sem hér eru bornar fram, samanborið við það, sem gerist í öðrum þingum. En þetta tekur hér miklu, miklu lengri tíma en annars staðar tíðkast og heldur en á og þarf að vera. Þetta er nú til skoðunar í sambandi við þetta mál.

Fleiri einstök atriði gætu að sjálfsögðu komið til greina. Ég vil loks benda á, að ég hygg nauðsynlegt að stytta nokkuð þann ræðutíma, sem hverjum flokki er ætlaður í útvarpsumr. í frv. Flokkarnir eru nú orðni 5, og ég tel, að það væri alveg nægilegt að ætla hverjum flokki í kappræðum frá Alþ. 30 mín., til að mynda skipt þannig: 15 mín. í 1. umferð, 10 mín. í 2. og 5 mín. í þeirri síðustu, í stað þess að það er ætlað aðeins meira í frv. Ég tel vel koma til greina og raunar eðlilegast að stytta umr. þannig.

Við eigum auðvitað að reyna að keppa að því að hafa sem mest af pólitískum umr., en losa okkur við langlokuræðurnar, og reyna að setja okkar mál fram í skýrara og styttra máli en okkur hefur tekizt fram að þessu. Ég hygg, að það sé mjög vel hægt, en þá þurfum við sjálfsagt að klemma okkur nokkuð með tímatakmörkunum til þess að ná lagi á þeirri íþrótt.

Það eru raunar tvö önnur atriði, sem ég tel, að ástæða hefði getað verið til að minnast á, en ég mun ekki hafa þessa framsögu lengri, en legg til, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. allshn. að lokinni þessari 1. umr.