16.02.1972
Neðri deild: 42. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í C-deild Alþingistíðinda. (3079)

175. mál, lögskráning sjómanna

Flm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Mál þetta hefur að nokkru verið kynnt áður í sambandi við flutning á frv. til l. um líf- og örorkutryggingu sjómanna, en eins og kemur fram í því frv., var þessi breyting á lögskráningu sjómanna boðuð. Í gildandi lögum um lögskráningu sjómanna, lögum nr. 63 frá 29. marz 1961, segir, að skylt sé að lögskrá alla þá menn, sem ráðnir eru til starfa á íslenzkum skipum, sem eru 12 rúmlestir brúttó eða stærri. Sú breyt., sem við flm. leggjum til að gerð verði á þessum lögum, er á þá leið, að lögskráningarskyldan verði færð neðar en nú er og skylt verði að lögskrá á öll þau skip, sem haldið er úti til farþegaflutninga, vöruflutninga eða fiskveiða og falla undir önnur lög, lög um eftirlit með skipum. Röksemdir okkar fyrir þessari breytingu eru m. a. þær, að við teljum, að í fyrrnefndu frv., sem áður hefur verið rætt hér í hv. d., sé nauðsynlegt, ef það frv. verði samþykkt, að slíkar tryggingar, sem þá væntanlega yrðu lögboðnar, næðu jafnframt til þess mikla fjölda sjómanna, sem nú stunda störf á hinum minni fiskiskipum allt í kringum landið. Sannleikurinn er sá, að það hefur orðið gífurlega mikil aukning á þessari skipastærð nú á allra síðustu árum, og er enginn vafi á því, að friðun fiskimiða okkar í grennd við ströndina hefur átt sinn þátt í því. Og ég tel líka, að á næstu árum sé engin ástæða til þess að efa annað en þessi þróun haldi áfram að nokkru leyti, þótt hún verði kannske ekki í sama mæli og hingað til. Við segjum í grg. með frv, þessu, að það, að ákvæði skuli ekki vera um það í lögum, að skylt sé að lögskrá á skip af þessari stærð, skapi margskonar vandamál í sambandi við lögboðnar tryggingar og jafnvel fyrirhugaðar lögboðnar og samningsbundnar tryggingar. Það má hins vegar segja, að það hafi nokkuð verið komið á móti þessu vandamáli í sambandi við hinar samningsbundnu tryggingar með breytingu þeirri, sem gerð var á lögum um Aflatryggingasjóð sjávarútvegsins á síðasta þingi, en þá var einmitt sett inn í ákvæði 17. gr. þeirra laga, að til þess að hljóta greiðslu áhafnadeildar Aflatryggingasjóðs vegna fæðiskostnaðar yrðu eigendur viðkomandi báta að tryggja áhafnir sínar sömu slysatryggingum, svo og líf- og örorkutryggingum, sem samið er um í heildarkjarasamningum sjómanna og útvegsmanna.

Utan þessa veit ég, að í vissum landshlutum hefur verið gengið enn frekar í þessa átt með samningum, en það er þó t. d. í einni löggjöf, löggjöfinni um lífeyrissjóð sjómanna, að samkv. orðanna hljóðan í þeirri löggjöf munu aðilar á þessum bátum, fiskimenn á hinum minni bátum, sem ekki er lögskráð á, ekki geta átt aðild að hinum lögboðna sjóði nema komið verði á móti, t. d. með þessari breytingu. Að vísu má semja um þau ákvæði eins og gert hefur verið á sumum stöðum fyrir svæði eða byggðarlög. En t. d. sá mikli fjöldi þeirra sjómanna, sem er aðili að hinum lögboðna sjóði, sem munu vera allir við suðurströndina, frá Hornafirði vestur um land, og Breiðafjarðarhafnirnar, auk þeirra sjómanna, sem róa frá Eyjafjarðarhöfnum og öllu Norðurlandi vestra, að undanteknum Vestmannaeyjum, sem eru með sinn sérstaka lífeyrissjóð, — þessir aðilar, þ. e. a. s. þeir sjómenn, sem eru á stærri skipum en 12 rúml. og lögskráð er á, geta átt aðild að þessum sjóðum, en hinir ekki. Ég tel, að þótt ekki sé horft til þess frv., sem þetta frv. er nú flutt beinlínis út af, þá mundi þessi eina breyting m. a. leysa það vandamál. Auk þess mun þetta líka stuðla að bættu öryggi á þessum minni bátum, því að samkv. lögskráningarlögunum yrðu slíkir bátar, sem skylt væri að lögskrá á, að sýna haffærisskírteini. Haffærisskírteini slíkra lítilla báta mundu vera fyrst og fremst fólgin í því, að eigendur bátanna mundu sanna, að bátarnir væru búnir þeim björgunar-, öryggis- og siglingatækjum, sem þeim eru nauðsynleg.

Herra forseti. Ég legg til, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. sjútvn.