10.12.1971
Neðri deild: 25. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 335 í B-deild Alþingistíðinda. (309)

86. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. 4. þm. Reykn., hæstv. forseti þessarar d., flutti allóvanalega ræðu hér áðan og í allt öðrum tón og með allt annarri framsetningu en hann er vanur. Hann talaði lítið um það frv., sem hér er á dagskrá, hann minntist á Kínamálið, varnarmálin og landhelgismálið við þessar umr. Það getur út af fyrir sig verið afsakanlegt vegna þess, að ég er ekki viss um, að hv. þm. sé í hjarta sínu svo hrifinn af þessu frv., vegna þess að sögur hafa farið af því, að hann vilji vera sanngjarn og sé það í eðli sínu.

En hv. þm. var að tala um stjórnarandstöðuna. Hann gerir sér vonir um, að stjórnarandstaða Alþfl. verði nú ekki upp á marga fiska, hún geti nú linazt smátt og smátt. En það er stjórnarandstaða Sjálfstfl., sem hv. þm. gerði að umtalsefni. Hann minntist á stjórnarandstöðu Sjálfstfl. 1956 til 1958 og lét orð að því liggja, að það hefði nú eiginlega verið vegna þessarar stjórnarandstöðu, að vinstri stjórnin gafst upp á miðju kjörtímabili, en ég vil upplýsa hv. þm. um það og aðra, sem kynnu að hafa sömu skoðun og hann, að vinstri stjórnin gamla féll á eigin verkum, en ekki vegna þess, að stjórnarandstaða Sjálfstfl. hefði verið svo hörð og óábyrg. Við sjálfstæðismenn gerum okkur grein fyrir því, hvaða ábyrgð fylgir því að vera í stjórnarandstöðu. Þess vegna var það, að formaður Sjálfstfl. lýsti yfir því, að Sjálfstfl. mundi fylgja ábyrgri stjórnarandstöðu og hóflegri. Það höfum við gert í þessa mánuði, sem hæstv. ríkisstj. hefur starfað, og það hefur Sjálfstfl. alltaf gert. Nú var eins og hv. þm. væri að kvarta undan því, að stjórnarandstaðan væri eiginlega ekki nógu hörð, en það breytir ekki afstöðu okkar. Við gerum okkur fulla grein fyrir því, hvernig stjórnarandstaða á að vinna, og hún á að vera ábyrg. Við gerum okkur grein fyrir því, að það er sjálfsagt, að núv. stjórn hafi vinnufrið, ef hún vill vinna vel. En alþm. eru bundnir við sannfæringu sína, og þegar ein ríkisstj. flytur frv. til l., sem stefna að óheillavænlegu ástandi í þjóðfélaginu, þá erum við skyldugir til þess að vera á móti því.

Hv. 4. þm. Reykn. talaði um það, að við í stjórnarandstöðunni hefðum verið á móti öllu, sem núv. ríkisstj. hefur flutt hér á hv. Alþ. Það er nú ekki svo ýkja margt enn, sem hæstv. ríkisstj. hefur borið fram hér, og ekkert af því er gott. En ég vil segja hv. 4. þm. Reykn., að hvenær sem núv. stjórn kemur með gott mál. þá munum við sjálfstæðismenn fylgja því.

En það bar annað við hjá fyrrv. stjórnarandstöðu, hv. framsóknarmönnum og Alþb.-mönnum, þegar fyrrv. ríkisstj. kom með góð mál, en þá var fyrrv. stjórnarandstaða ætið á móti eða sat hjá, sagði já, já og nei, nei, og það er hægt að nefna mörg stórmál, sem fyrrv. ríkisstj. bar hér fram og lögfesti, sem fyrrv. stjórnarandstaða var á móti, en sér nú, að skakkt var að vera á móti, sér eftir því að hafa tekið skakka afstöðu. Ég vil gjarnan trúa því, að það hafi verið sannfæring fyrrv. stjórnarandstöðu, að það væri rétt að vera á móti þeim frv., sem ríkisstj. flutti, en voru til heilla fyrir þjóðfélagið.

Ég ætla þá ekki að fara fleiri orðum um ræðu hv. 4. þm. Reykn., ég get alveg búizt við því, að næst þegar þessi þm. flytur ræðu, verði hún betri og uppbyggilegri en þessi ræða var.

Það hefur verið mikið rætt um þetta frv. um Framkvæmdastofnun ríkisins og ítarlega farið út í ýmis atriði frv. af þeim sjálfstæðismönnum, sem hér hafa talað. Þess vegna er ekki nauðsynlegt, að ég eyði löngum tíma í það að ræða efni frv. ítarlega, en ég vil eigi að síður árétta það og vekja athygli á því, hvernig þetta frv. er í raun og veru og hvernig það getur orðið til skaða í þjóðfélagi okkar. Það getur, ef að lögum verður, orðið til þess að hindra þá framfara- og uppbyggingarstefnu, sem fyrrv. stjórn markaði. Það getur orðið hemill á framfarabrautinni. Það getur orðið til þess að draga úr framkvæmdum og minnka atvinnuna í landinu, eins og haftastefnan gerir alltaf.

Hæstv. forsrh. talaði um það hér í dag, að það væri meiningin með þessu frv. að vinna að því að snúa þeirri öfugþróun við, sem verið hefur með því, að fólk flytur til Reykjavíkur eða Faxaflóasvæðisins utan af landi. Ég er sannfærður um, að hæstv. forsrh. vill vinna að því, að þróunin verði jákvæð og eðlileg í þjóðfélaginu, og ég minnist þess, að þegar fyrri vínstri stjórnin var sett á laggirnar, þá sagði þáv. forsrh. eitthvað svipað og núv. forsrh., og einnig hann vildi vel, þótt hann réði ekki við gang mála. Á þessum tveimur árum, sem fyrri vinstri stjórnin starfaði, var málið þannig, að það voru 1100 manns, sem fluttu utan af landi til Reykjavíkur, en tvö árin næst á undan 739 manns. Það var vitanlega of mikið. En vinstri stjórnin fyrri sneri ekki þróuninni við. Á hennar tíð jókst fólksflutningurinn utan af landi til Reykjavíkur, og ég spyr nú: Dettur nokkrum manni í hug, að þetta frv., ef það verður lögfest, leiði til þess, að fólkið stöðvist frekar úti á landi? Er það leiðin að draga allt vald fjármála og atvinnumála saman í einn punkt hér í Reykjavík? Hæstv. forsrh. sagði í dag: „Það munu koma sendinefndir utan af landi til viðtals við framkvæmdaráðið.“ Það er enginn vafi á því, að menn munu reyna að fara til Reykjavíkur og fá úrlausn mála, en mig minnir, að hæstv. forsrh. og flokksmenn hans hafi oft talað um það, að þörf væri á að dreifa valdinu þannig, að hinir ýmsu landshlutar hefðu meiri möguleika eftirleiðis en hingað til til þess að byggja sig upp og auka atvinnu í hinum ýmsu stöðum.

Þetta frv., sem hér er um að ræða, verður mikið ríkisbákn og kostnaðarsamt. Eigi að síður minntist forsrh. hæstv. á það í dag, að það gæti orðið sparnaður af því, en hæstv. forsrh. á eftir að svara fsp. hv. 1. þm. Reykv. um það, hvað þetta muni kosta. Ég reikna ekki með því, að hæstv. forsrh. geti gefið svar við því. Ég reikna með því, að hæstv. forsrh. hafi hugmyndir um, að kostnaðurinn við þetta stóra bákn muni stóraukast frá því, sem verið hefur, en að hann hafi ekki nákvæmar tölur þar um.

Þetta bákn á að hafa sjö manna stjórn, sem kosin er af Alþ. Með því á þetta að líta sæmilega út í augum manna, en þegar betur er að gætt og frv. er lesið ofan í kjölinn, þá kemur það alls staðar fram, að það er þriggja manna ráðið, sem á að vera stóri aðilinn í þessari stofnun, en stjórnin litli aðilinn, sem hefur það hlutverk að samþykkja þær till., sem þriggja manna ráðið leggur fyrir stjórnina. Þannig mun það verða í reyndinni, og þess vegna er það, að það á að velja þriggja manna ráðið eins og kunnugt er, það á að verða pólitískt, og hæstv. forsrh. sagði hér í dag: „Þetta framkvæmdaráð á að sjá um að framkvæma stefnu ríkisstj.“ Það á að sjá um að framkvæma stefnu ríkisstj. Það fer með valdið raunverulega, þótt sjö manna stjórnin komi saman á fund til þess að samþykkja með meiri hl. En þessi pólitíska þriggja manna stjórn á að vera geðþekk hæstv. ríkisstj. Stjórnarandstaðan á þar engan hlut að og getur ekki átt samkv. yfirlýsingum hæstv. forsrh., þar sem hann fullyrðir, að þessir þrír menn eigi að vera að skapi hæstv. ríkisstj. að koma stefnu hennar í framkvæmd. En hv. stjórnarsinnar kalla þetta réttlæti. Þeir kalla þetta sanngirni að útiloka helming þjóðarinnar og kannske meiri hluta hennar, sem líklegt er nú orðið, frá áhrifum í þessari stærstu fjármála- og atvinnustofnun landsins. Ég segi nú, að um leið og þetta er ranglæti og ósanngirni, þá er þetta óskynsamlegt, vegna þess að hér á landi verður slíkt ranglæti ekki þolað til lengdar, sem betur fer.

Hæstv. forsrh. minntist á bankana. Það hefur verið rætt hér um það af mörgum, að þetta sé að vissu leyti sambærilegt, enda þótt bankarnir verði smástofnanir miðað við það, sem Framkvæmdastofnunin verður. En það þykir sjálfsagt, að bankastjórarnir í ríkisbönkunum séu frá hinum ýmsu stjórnmálaflokkum, en ekki aðeins fulltrúar þeirrar ríkisstj., sem á hverjum tíma situr.

Það, sem verst er í sambandi við þetta, og það er sama, hvað sagt er af hæstv. ríkisstj. eða stjórnarstuðningsmönnum um þessa stofnun, er það, að það er stór hætta á því, að Framkvæmdastofnunin verði í raun og veru almenn skömmtunarskrifstofa með alræðisvaldi yfir mestum hluta þess fjármagns, sem til framkvæmda er ætlað á hverjum tíma. Þegar á að raða framkvæmdum og ákveða, í hvaða framkvæmdir skuli ráðizt, þá er verið að ákveða það, hverjir skuli lifa og fá fjármagn til framkvæmda og hverjir ekki skuli fá það, og er þá talað um annað en skömmtun í þessu sambandi?

Hæstv. forsrh. talaði um það í dag, að nauðsynlegt væri að auka samræmingu og hagræðingu í þessu sambandi og samstarf stofnana. En er það nú ekki alveg ljóst, að samstarf stofnana verður í rauninni miklu minna en það hefur verið? Framkvæmdastofnunin verður ekki samstarfsaðili við aðrar stofnanir, heldur verður Framkvæmdastofnunin ráðandi aðili, sem segir fyrir verkum að austrænni fyrirmynd. En hæstv. forsrh. sagði í dag, að það væri nú alls ekki meiningin, að Framkvæmdastofnunin ætti að skipa fyrir, heldur ætti hún að taka upp samninga við hina ýmsu aðila, við sjóði og aðra aðila, sem peninga hefðu. En ég spyr: Ef samningar takast nú ekki, hvað skyldi þá verða? Skyldi þá ekki Framkvæmdastofnunin nota sér þann rétt, sem hún hefur lögum samkv. og skipa fyrir og sýna klærnar, efast nokkur um það? Það getur vel verið, að undir þeim kringumstæðum sé alltaf unnt að ná samningum, ef stofnanirnar vita það, að ef þær ekki semja góðfúslega, þá verði fjármagnið tekið með illu. Því býst ég við, að flestir vilji heldur semja og semja þá undir slíkri pressu en láta taka allt af sér á annan hátt.

Ég tel það mjög slæmt í þessu sambandi, að Efnahagsstofnunin verður deild í Framkvæmdastofnuninni og að forstöðumaður hennar verði ráðalaus deildarstjóri og undirmaður þessa pólitíska framkvæmdaráðs. Efnahagsstofnunin er hlutlaus aðili, og í stjórn Efnahagsstofnunarinnar sitja nú fulltrúar frá Hagstofu Íslands, fjmrn., Seðlabanka Íslands og Framkvæmdasjóði. Eigi að siður er því haldið fram, að samstarf vanti á milli þessara stofnana. Hagráð er skipað fulltrúum atvinnuveganna, en það á að leggja niður. Efnahagsstofnunin hefur haft náið samstarf við hagráð. Efnahagsstofnunin hefur átt formann í Framleiðnisjóði landbúnaðarins og formann nefndar, sem landbrh. skipaði 1969 til athugunar á skjölum landbúnaðarins og hvort heppilegt væri að endurskoða ýmsa þætti hans. Efnahagsstofnunin hefur átt fulltrúa í Rannsóknaráði ríkisins og formann í verðlagsráði sjávarútvegsins og hefur unnið mikið og gott starf á öllum þessum sviðum, en nú á að gera Efnahagsstofnunina að deild í Framkvæmdastofnuninni, og hún skal lúta fyrirskipunum frá þessu þriggja manna framkvæmdaráði.

Skýrslur frá Efnahagsstofnuninni hafa ekki verið rengdar, enda hafa þær verið vel unnar, og af því að nú er verið að tala um Efnahagsstofnunina, þá vil ég minna á, að hæstv. félmrh. sagði hér í ræðu um daginn, að hæstv. ríkisstj. hefði samþ. að senda öllum alþm. greinargerð og skýrslu þá, sem samninganefndirnar hafa haft um búnaðarmálin. En þar sem þessi grg. er ekki enn komin, þá vil ég biðja hæstv. forsrh. að reka nú á eftir því, að það verði framkvæmt, sem hæstv. ríkisstj. hefur samþ.

Ég vil einnig nota tækifærið og endurtaka það, sem ég sagði hér í ræðu um daginn, að bæði ég og flestir hv. alþm. óska eftir því að fá þær grg. og skýrslur, sem hæstv. ríkisstj. notaði í júlímánuði s.l., áður en hún var mynduð, og byggði skoðanir sínar á í sambandi við það, sem hún lofaði launþegum í landinu. Hún byggði loforð sitt um 20% kaupmáttaraukningu, lengingu orlofs og styttingu vinnuvikunnar á skjölum, sem hæstv. ríkisstj. fékk til athugunar, og að áliti hæstv. ríkisstj. var staða atvinnuveganna það góð, að það væri óhætt að lofa þessari kaupmáttaraukningu og þeim fríðindum, sem ég áðan nefndi. Til fróðleiks fyrir alþm. er nauðsynlegt, að þeir fái þessi gögn, vegna þess að enn eru vinnudeilurnar ekki leystar, og alþm. þurfa að vera sem fróðastir í þessum efnum. Ég veit, að hæstv. forsrh. verður við þessari áskorun minni, ekki sízt vegna þess, að margir hv. alþm. munu taka undir þessa áskorun.

Þegar ég segi það, að vinnudeilurnar eru ekki leystar, þá er það ljóst, að skipin eru bundin í höfn eitt af öðru, og það er ljóst, að ef nú verður gerður sérsamningur við Gutenberg með hærri launum, sem samræmast ekki því, sem áður hefur verið samið um, þá greiðir það ekki fyrir endanlegum samningum, — þessum sérsamningum, sem á að vera búið að semja um fyrir 15. jan. Ég segi þetta hér, því að flestir hafa áhyggjur af því, ef deilurnar leysast ekki, eins og allir fögnuðu því, að allsherjarverkfalli var afstýrt.

Það hefur verið rætt hér um, hver verkefni Efnahagsstofnun hefur haft, hagrannsóknir og annað slíkt, og unnið fyrir ríkisstj. á hverjum tíma, og hún gefur út álitsgerðir, sem byggt hefur verið á, bæði atvinnulega og efnahagslega.

Það á að sameina Framkvæmdasjóð og Atvinnujöfnunarsjóð samkv. þessu frv., og er það vitanlega alger óþarfi, og ég tel, að það sé eðlilegt, að sérstök stjórn sé fyrir hvorum þessara sjóða. Báðir þessir sjóðir hafa starfað að því að veita lán til atvinnuuppbyggingar víðs vegar um landið. Rekstrarkostnaður þessara sjóða hefur verið tiltölulega lítill.

Það á að breyta nafninu á Atvinnujöfnunarsjóði og kalla hann Byggðasjóð. Er það nú eitthvað betra nafn? Ég held ekki. Ég held, að nafnið Atvinnujöfnunarsjóður sé í rauninni miklu betra, m.a. vegna þess, hvert verkefni sjóðsins hefur verið og hvernig hann hefur starfað. Atvinnujöfnunarsjóður hefur veitt lán og styrki til þess að koma í veg fyrir atvinnuleysi og til þess að efla atvinnu í landinu, og Atvinnujöfnunarsjóði hafa verið tryggðir fastir tekjustofnar, sem aukast með hverju ári, sem liður, m.a. frá álbræðslunni.

Með þessu frv. sýnist mér sýndarmennskan vera ofarlega, m.a. með ýmsum nafnbreytingum og einnig því, þegar talað er um samræmingu og að vinna betur að áætlanagerð og öðru því, sem þetta frv. fjallar um. Ég held, að þetta frv. sé með öllu óþarft, til þess að unnt sé að vinna að áætlanagerð á hverjum tíma, eins og sjálfsagt er að gera, og eins og ég áðan sagði, þá getur það orðið til þess að hefta framkvæmdir og draga úr hinum nauðsynlegu ráðstöfunum, sem alltaf þarf að gera til þess að tryggja fulla atvinnu í landinu.

Pólitískt framkvæmdaráð hefur, að því er virðist, samkv. frv. ótakmarkað vald til þess að raða umsóknunum, að ákveða það, hverjir fái fjármagnið og hverjir fái það ekki. Hæstv. forsrh. sagði hér í dag, að það væri alls ekki meiningin með þessu frv., að mönnum eða fyrirtækjum yrði mismunað. Ég trúi því alveg, að hæstv. forsrh. meini þetta og að hann ætlist ekki til, að þannig verði unnið, en það er bara hætt við, að hæstv. forsrh. fái því ekki ráðið, hvernig framkvæmdin verður í einstökum atriðum.

Það hefur verið minnzt á það hér í dag, að áður hafi verið pólitískar skömmtunarnefndir, og ég ætla ekki að endurtaka það. En við, sem erum komnir nokkuð til ára okkar og höfum reynt þetta, vitum, að það var hlutdrægni og óréttlæti í framkvæmd þessara úthlutana, sérstaklega á árunum 1932–1939.

En nú á að lögfesta haftakerfí með þessu frv., og ég er hræddur um, að þetta haftakerfi verði til þess að hindra frjálst framtak, hindra að það geti notið sín, og að þessi höft, þótt í nýju formi séu, muni hindra og binda þá orku, sem um skeið hefur verið aflgjafi mikilla framfara í landinu. Ég er hræddur um, að stofnunin geti orðið dragbítur á ýmsar framkvæmdir, og af því geti leitt atvinnuleysi og samdrátt á mörgum sviðum. Auðvitað er það ekki meining stjórnarflokkanna, að þetta verði svo, en ef einstaklingsframtak og félagaframtak fær ekki að njóta sin, þá er svo mikil orka bundin, sem leiðir til þess, að þeir, sem skammtað er og fá fjármagn úr hinum stóra sjóði, duga ekki einir til þess að hafa á hendi allar þær framkvæmdir, sem þurfa að vera á hverjum tíma, til þess að atvinnuuppbygging geti verið með eðlilegum hætti.

Ég er sannfærður um, að almenningur í landinu mun harma það, ef nú verður vikið af þeirri framfaraleið, sem fyrrv. ríkisstj. markaði og verið hefur ráðandi í landinu síðustu 11–12 árin. Það er enginn vafi á því, að síðustu 11–12 árin eru mesta framfaratímabil, sem yfir þessa þjóð hefur komið, og nú er kunnugt, að atvinna er mikil í landinu með því að vinna að þeim málum, sem fyrrv. ríkisstj. undirbjó eða ekki var lokið við, þegar stjórnaskiptin urðu.

En með því að hefta framtak einstaklinga og félaga, með því að neita um fjármagn, sem eðlilegt er, að við fengjum, með því að íþyngja atvinnuvegunum með sköttum, eins og sagt er, að hæstv. ríkisstj. ætli að gera með frv., sem lagt verður fram bráðlega, þá er hætt við samdrætti. Atvinnureksturinn hefur nú tekið á sig kauphækkanir, styttingu vinnuviku og lengingu orlofs. Ég ætla ekki að fullyrða neitt um það, hvort þar hafi verið of langt gengið, en víst er um það, að ef atvinnuvegunum verður íþyngt um of með sköttum og margs konar álögum, þá leiðir það af sér samdrátt og hindrar nýjar framkvæmdir og uppbyggingu, og það getur leitt til alvarlegs atvinnuleysis. Almenningur í landinu óskar eftir því að hafa stöðuga atvinnu, og sú stefna, sem fyrrv. ríkisstj. markaði, hefur tryggt, að svo mætti verða. En nú á að fara að víkja út af þeirri leið með því að lögfesta þetta frv., sem hér um ræðir og getur orðið til vandræða og stöðvunar á því, sem nauðsynlega þarf að halda áfram að vinna að.

Ég talaði hér um mikið vald framkvæmdaráðsins, og það er haft eftir einum manni, sem hefur gert sér vonir um að verða einn af þremur í ráðinu, að frá næstu áramótum verði hann einn af mestu valdamönnum landsins. Það er enginn vafi á því, að þessir þrír menn, hverjir sem þeir verða, verða einhverjir valdamestu menn landsins. Þeir verða næstum því valdameiri en ráðh. Þeir verða miklu valdameiri en bankastjórar ríkisbankanna, vegna þess að þeim er gefið miklu meira vald. Þeim er gefið svo mikið vald með því, að þeir geta ákvarðað, að bankarnir og aðrar lánastofnanir láti af hendi svo og svo mikið fjármagn á hverju ári til framkvæmda, sem framkvæmdaráðið ákveður. Það var þess vegna, sem einn bankastjóri sagði fyrir stuttu: „Ef þetta verður lögfest í því formi, sem það nú er, þá verður lítið varið í það að vera bankastjóri.“ Það getur vel verið, að hann segi af sér.

Í hv. Ed. var gerð tilraun til þess að breyta frv. Sjálfstæðismenn fluttu till. um það, að forstöðumenn deilda skipuðu framkvæmdaráð. Það hefði orðið ólíkt annar svipur á þessu frv., á lögum um Framkvæmdastofnun, ef það hefði orðið. Þá hefðu forstöðumenn deildanna ekki verið niður lagðir, eins og gert verður, ef frv. verður samþ. óbreytt, og þá væri forstöðumönnum deildanna gefið það vald, sem þeir hafa unnið til að hafa. Ég vil nú, vegna þess að hæstv. forsrh. vill vera sanngjarn, fara fram á það við hann, að hann láti athuga það rækilega í hv. fjhn., hvort ekki sé nú sjálfsagt að bæta frv., að laga það nokkuð, með því að till. eins og sú, sem sjálfstæðismenn fluttu í Ed., verði samþ. hér í hv. Nd. Þá kæmi allt annar svipur á þetta mál, enda þótt stórir gallar væru á því eigi að síður, og enda þótt ég mundi ekki treysta mér til að fylgja því, teldi ég, að það yrði síður skaðlegt og til óheilla fyrir þjóðina, ef það yrði þó lagfært að þessu leyti.