23.02.1972
Neðri deild: 43. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 293 í C-deild Alþingistíðinda. (3092)

184. mál, vegalög

Flm. (Halldór S. Magnússon) :

Herra forseti. Ég skal ekki tefja tíma alþm. mjög lengi, en ég get þó ekki stillt mig um að gera örfáar aths. við ræðu síðasta ræðumanns, hv. 11. landsk. þm.

Ég tel, að það sé alls ekki neitt tillitsleysi við hæstv. samgrh., þó að þetta frv. sé flutt. Með þessu frv. viljum við flm. fá úr því skorið, hvort ekki sé vilji hér á Alþ. fyrir því að marka þá skýru stefnu, að veggjöld verði almennt ekki innheimt í landinu, hvort sem um er að ræða Reykjanesbraut eða aðra vegi. Einstaka þm. virðast þó vilja binda sig í þessu máli við einstaka landshluta og horfa einungis á einstök kjördæmi, en við viljum líta þannig yfir allt landið og leggjum því til, að þetta ákvæði verði afnumið úr vegalögum, þannig að svo lengi sem í það kemur ekki inn í vegalög aftur verði alls ekki innheimt veggjöld hér á landi. Við teljum þetta vera fullkomið réttlætismál, ekki einungis fyrir íbúa Reykjaneskjördæmis, heldur fyrir íbúa alls landsins, einkum og sér í lagi þá, sem geta átt von á því að búa við slíka skattlagningu, eins og Reykjanesbúar hafa þurft að búa við undanfarin rúm 6 ár.

Ég tel alls ekkert óeðlilegt, þó að hæstv. núv. samgrh. hafi ekki viljað lýsa yfir niðurfellingu þessa gjalds,nú, einfaldlega vegna þess, eins og ég gat um í minni upphafsræðu, að meðan þetta ákvæði er í vegalögum, þá lít ég svo á, að löggjafarvaldið ætlist beinlínis til þess, að ráðh. setji á veggjöld, þar sem honum þyki það henta. Og hafi veggjald einu sinni verið sett á einhvern veg, þá tel ég óeðlilegt, að meðan þetta ákvæði er í lögum sé það sama veggjald afnumið. Ég tel líka á sama hátt óeðlilegt, annað en hæstv. samgrh. setji veggjald á aðra vegi, sem hann kann að telja sambærilega, þó að það geti alltaf verið teygjanlegt hugtak, á meðan nefnd ákvæði eru í vegalögum. En það er í sjálfu sér ekki á valdi ráðh. að breyta lögunum, heldur á valdi Alþ., og þess vegna er þetta frv. lagt hér fram.

Ég vísa algerlega á bug öllum fullyrðingum um það, að flm. þessa frv. treysti ekki samgrh. og frv.-flutningurinn sé tillitsleysi við hann.

Það, að þetta sé sýndarmennska, og þá einkum og sér í lagi bent á það, að þm. Sjálfstfl. og Alþfl. hafi ekki verið boðið að vera meðflm. að frv., þá vil ég leyfa mér að benda á það, að þm. þessara flokka voru aðilar að ríkisstj. allan þann tíma, sem þetta veggjald hefur verið á, þ. e. a. s. í um það bil tæp 6 ár, og allan þann tíma tókst þeim ekki að breyta þessu gjaldi nokkuð, það hefur verið allan þann tíma. Ég tel þess vegna alls ekki óeðlilegt, að þm. núv. stjórnarflokka, fyrrv. stjórnarandstöðu, í kjördæminu ásamt mér sem varaþm. flytji þetta frv. til þess að reyna nú að koma í verk því, sem þm, fyrrv. stjórnarflokka í kjördæminu tókst ekki að koma í verk, á meðan þeir áttu aðild að stjórn.

Ég þakka samt vissulega stuðning hv. þm. við frv., og ég átti reyndar ekki von á öðru en hann og aðrir þm. Sjálfstfl. og Alþfl. í kjördæminu væru frv. meðmæltir, og ég leyfi mér fastlega að vona, að svo sé um miklu fleiri og menn líti ekki á þetta mál einungis sem málefni Reykjaneskjördæmis, því að það er trú mín, að þetta sé fullkomið réttlætismál fyrir alla landsmenn, það verði aldrei jafnrétti í veggjöldum á Íslandi og við þurfum ekki að takmarka okkur við einstök kjördæmi í því efni.