28.02.1972
Neðri deild: 44. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 298 í C-deild Alþingistíðinda. (3096)

184. mál, vegalög

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Þegar þetta mál bar hér að á þessu þingi í fsp.-formi, þá gerði ég grein fyrir afstöðu minni til þess, og ég get tekið það fram aftur, þegar þetta mál gengur nú aftur hér í þingsölunum, að afstaða mín til málsins er alveg óbreytt. Afstaða mín, eins og ég lýsti henni í vetur, var sú, að ríkisstj. hefði enn ekki tekið neina ákvörðun um það, hvort veggjaldi yrði haldið áfram eða hvort það yrði fellt niður. Og ég bætti því við, að ég teldi rétt að taka ekki ákvörðunum það fyrr en jafnframt væri tekið tillit til þess, hvort lagt yrði veggjald á aðra vegi, og ef svo yrði gert, þá væri auðvitað sjálfsagt, að þetta veggjald héldi áfram, — aðra hliðstæða vegi, mun ég hafa sagt. En ef sú yrði niðurstaðan, að ekki yrði lagt veggjald á annars staðar, þá yrði auðvitað að fella þetta veggjald niður. Ég tel það ákaflega ambögulega afgreiðslu á málinu, að Alþ. taki ákvörðun um að fella þetta niður nú, ef Alþ. svo að ári liðnu tæki ákvörðun um að taka upp veggjöld, því að þá yrði að leggja það aftur á þennan veg. Það væru heldur amböguleg vinnubrögð. Ég held, að ákvörðun um þetta mál eigi að bíða ákvörðunar um það, hvort veggjöld verði innheimt af sambærilegum vegum. Hér fá menn aðstöðu til þess að aka um 100 km leið fram og aftur og að þeirri leið ekinni er tekið af þeim þetta gjald. Þegar svo væri á öðrum vegum, hvora sem þeir liggja í austur eða norður eða vestur, þá er fyrst um sambærilega vegagerð að ræða, þó að ekki væri um steinsteypta vegi að ræða eins og hér, heldur bara vegi með olíumöl. Ég mundi telja það alveg hliðstætt.

Það er fjarri mér, að ég áfellist nokkuð fyrirrennara minn í ráðherrastóli, sem lagði þetta gjald á. Ég tel hann ekki hafa beitt Suðurnesjamenn, neinu ranglæti með því og áfellist hann á engan hátt fyrir það. Ég tel, að það sé rétt, að þeir menn, sem hafa notið þessa vegar í stað þess gamla, sem var og margir muna enn, hafi notið forréttinda. Hér var um mjög dýra vegagerð að ræða. Hún hefði orðið að bíða mörg ár, kannske áratugi, ef ekki hefði verið ráðizt í það af almannafé að leggja þennan veg og skattleggja þannig landslýðinn til þess. Þá sætu menn uppi með sinn gamla veg enn. Og til þess að rökstyðja það enn betur, að það hefur ekki verið gengið á hlut Suðurnesjamanna með innheimtu þessa veggjalds, þá má í fyrsta lagi vitna til þess, sem hv. 1. þm. Sunnl. sagði hér áðan, að samkv. öllum útreikningum sérfræðinga var talið, að það að borga þetta veggjald skilaði samt hverjum vegfaranda ávinningi í beinum útgjöldum að því er snertir viðhald bifreiðar og úthald hennar. Það hygg ég, að hafi verið réttir útreikningar. Síðan hefur gjaldið í raun og veru verið lækkað um helming. Um þetta deila menn ekki. En það, sem mér finnst skera úr um það, að Suðurnesjamenn hafa hér notið forréttinda, er það, sem gerist í sérhverju kjördæmi landsins, þegar þm. kjördæmis fara fram á, að einhver vegarspotti, sem sé torfæra í héraði, fái fjárveitingu, áður en hann er kominn á fjárlög eða vegáætlun. Hvað gerist þá? Ekki að tala um að taka slíkan veg eða vegarspotta til framkvæmda fyrr en hana er kominn á sinn stað hjá fjárveitingavaldinu, nema þm. viðkomandi kjördæmis útvegi fé sem nemi kostnaðinum og verði staðið undir vöxtum af þessum vegi að fullu. Þetta verða öll önnur kjördæmi landsins að búa við. Þetta hafa Suðurnesjamenn ekki þurft að gera nema að örlitlum hluta í gegnum þetta gjald. Þetta tel ég vera fulla sönnun þess, að það er rangt að tala hér um óréttlæti í garð þessa fólks, sem notar veginn og borgar gjaldið. Þeir hafa ekki verið beittir ranglæti. Þeir hafa notið forréttinda umfram aðra menn, og landslýðurinn allur hefur verið skattlagður fyrir þennan veg og er það enn í vaxandi mæli.

Hitt skil ég vel, að menn heyra suðað í eyru sér: Við viljum helzt sleppa við að borga þetta gjald. En mér finnst það vera lítilsigldir þm., sem ætla sér að snapa atkv. út á það eitt. Ég er eins kunnugur viðskiptum við kjósendur og hv. þm., sem flytja þetta mál, og ég hef ekki lotið að slíku, en samt fengið atkv. alveg eins og þeir.

Það eru margir, sem eru svo sanngjarnir, sem fara um þennan veg og fóru um gamla veginn áður, að þeir segja: Ég borga ekkert gjald með eins mikilli ánægju og þetta veggjald, því að mér er unun að fara þessa leið nú, sem mér var kvalræði áður fyrr, auk þess sem það kostaði mig miklu meira áður. — Og þetta er rétta myndin af því.

Hv. 1. þm. Sunnl., fyrrv. samgrh., sagði það réttilega áðan, að um það er ekkert að tala að fella þetta gjald niður nú. Það verður innheimt út þetta ár hið minnsta, og svo sjáum við til, hvort sams konar regla verður tekin upp annars staðar. Ef mikill kostnaður er við einhverja vegarlagningu hliðstætt þessari, þá á sá vogur að lúta sömu reglum og þessi hefur lotið, og verði hann losaður við veggjald, þá verður það auðvitað ekki lagt á annars staðar.

Ég vil aftur segja það um það, sem hv. 1. þm. Sunnl. sagði hér áðan, er hann sagði, að búið hefði verið að taka ákvörðun um að fella veggjaldið niður, að þetta er rangt hjá honum.

Hann hefur kannske verið búinn að því í hjartanu, en hann setti það inn í vegáætlun fyrir árið 1972 án nokkurrar klásúlu um niðurfellingu. Og það finnst hvergi í bókunum ríkisstj. eða rn., að það hafi nokkur ákvörðun verið tekin um að fella þetta gjald miður, svo að ég held því fram, að hann hafi farið rangt með þetta.

Utan af landsbyggðinni berast nú samþykktir um, ekki aðeins að þessu veggjaldi sé haldið, heldur að það sé hækkað, af því að Keflavíkurvegurinn, Suðurnesjavegurinn, hvíli á skattborgurum landsins í heild af meginþunga. Og ég verð að segja það, að þeir menn bíða lengur eftir vegum til sín, sambærilegum vegum, vegna þess fjárhagsþunga, sem nú hvílir á landslýðnum vegna þessa vegar. Ég teldi þá a. m. k. hvíla þá skyldu á þm. Suðurnesja, að þeir sæju fyrir fjármagni, a. m. k. til samgöngumála, sem kæmi þessu veggjaldi, ef þeir losuðu sig við það, því að þeir skulda landslýðnum það að leggja fé til vegagerðar annars staðar á landinu, þar sem hefur verið beðið allan þennan tíma og verður beðið enn um ófyrirsjáanlega tíð. Ég held, að það fari ekkert á milli mála, að það hefur ekkert verið ofheimt af Suðurnesjamönnum eða þeim, sem þennan veg nota, sem eru miklu fleiri en þeir. Það er ekki undan neinu að kvarta. Þeir hafa ekki verið beittir rangindum, þeir hafa notið forréttinda og vilja fá að njóta þeirra í enn ríkara mæli.

Ég er ekki sammála hv. 1. þm. Sunnl. um það, að ekki sé hægt að leggja veggjald á veginn austur og veginn norður, — aðallaga hefur hann náttúrlega í huga veginn austur, — það sé ekki hægt. Ég tel það hægt. Ég er alveg tilbúinn að segja Selfossbúum það og mönnum í Suðurlandskjördæmi, að ég telji það hægt, og þeir mundu varla efast um það, þeir mundu sannfærast um það kannske, að það væri hægt. Þeir mundu ekkert draga það í efa. Vegurinn lægi ekki alveg heim í hlað til Norðlendinga, sagði hv. þm. Suðurnesjavegurinn liggur, ekki heim í hlað hjá Sandgerðisbúum eða Grindvíkingum, og hafa þeir þó eins og aðrir orðið að borga þetta margumtalaða veggjald, og má fleiri til nefna.

Jú, það er vissulega hægt að leggja veggjald á veginn vestur og austur — og alveg eins á veginn vestur — þegar komin er sambærileg vegagerð við þessa, sem hér er um að ræða, og það er farið að jafna byrðunum nokkuð betur en áður.

Svo að ég haldi ekki uppi málþófi á neinn hátt um þetta mál, þá álít ég, að það sé enginn réttlætisgrundvöllur fyrir því að taka nú ákvörðun um að fella gjaldið niður, þá ákvörðun eigi að taka annaðhvort af eða á, þegar sambærilegir vegir eru fyrir hendi í aðrar áttir. Þá ber vissulega að láta þá sitja við sama borð og Suðurnesjamenn, þeir borgi veggjald, af það verður ákveðið, en séu lausir við það, ef því verður létt af Suðurnesjabúum. Fyrr er ekki tímabært að taka um það ákvörðun og væri álappalegt að fella þetta nú niður, ef seinna yrði svo ákveðið, kannske eftir eitt ár eða svo, að leggja veggjald á aðra og þá auðvitað aftur á Suðurnesjamenn. Og þá verður það gert, þó að þeir kæmu allir 6 með frv. um að þeir væru á móti því.