28.02.1972
Neðri deild: 44. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 303 í C-deild Alþingistíðinda. (3097)

184. mál, vegalög

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, sérstaklega vegna þess að hæstv. samgrh. sagði; að ég hefði fullyrt hér, að það væri búið að ákveða að fella niður veggjaldið. Ég sagði í viðtali og hér í hv. Alþ. í fyrra, að ef ég mætti ráða, þá yrði veggjaldið fellt niður 1. jan. 1973. En það var ekki búið að ákveða það, það er rétt, það liggur ekkert bréf í rn. um það. Mér fannst það ekki rétt og ekki eðlilegt, að ég væri að taka þannig fram fyrir hendurnar á eftirmanni mínum, enda eðlilegt, að Alþ, fjalli um þetta mál, og það verður núna í vetur, þegar vegáætlunin verður rædd, tekin ákvörðun um það, hvað sem hæstv. ráðh. segir, hvort veggjaldið verður áfram eða ekki. Það verður vitanlega tekin ákvörðun um það, þegar vegáætlunin verður samin, hvort tekjur af veggjaldi á þessum vegi verða með í tekjuáætlun vegáætlunarinnar. Það er óhjákvæmilegt. Og það verður ekki áframhald á þessu veggjaldi, nema meiri hl. Alþ. verði því fylgjandi. Þetta hlýtur hæstv. ráðh. að gera sér ljóst.

Það var ekki rétt hjá hv. 2. þm. Reykn., að ég hefði fullyrt það, að hæstv. samgrh. væri ákveðinn í því að afnema gjaldið. Ég sagðist hafa ástæðu til þess að ætla það. Og sannleikurinn er sá, að mér kemur þetta dálítið á óvart, hversu neikvæður hæstv. ráðh. er. Og þegar hæstv. ráðh. er svona neikvæður, eins og í ljós kemur, þá segi ég: Það er þörf á þessu frv. Það skiptir vitanlega engu máli, hverjir eru flm. frv., ef það nær tilgangi sínum. Ég er reiðubúinn til að fylgja þessu frv., úr því að það kemur í ljós, að hæstv. ráðh. og ríkisstj. vill ekki afnema gjaldið nema lagabreyting verði gerð og hann verði knúinn til þess að meiri hl. Alþ. Þess vegna verð ég með þessu frv., nema það komi fram hjá hæstv. ráðh., að það verði óþarft, eins og ég hafði haldið.

Hæstv. ráðh. var nú að gefa það í skyn, að skoðun mín í þessu máli færi eftir því, hvort austurvegurinn yrði skattlagður eða ekki. Ég er ekki einn um þá skoðun, að það sé erfitt og ósanngjarnt að skattleggja Vesturlandsveginn og austurveginn, þótt nokkur hluti af þessum vegum verði góður og vel greiðfær. Og það er tekið fram í grg. með þessu frv., sem við eru að ræða um, að það sé ekki mögulegt að koma innheimtu veggjalds við á ýmsum vegum, og eiga flm. þar áreiðanlega við bæði austurveginn og Vesturlandsveginn. Það er alveg rétt, sem hv. 2. þm. Reykn. sagði áðan, að okkur vantar alltaf fé til vegagerðar í okkar landi, þar sem vegirnir eru margir illa uppbyggðir og slæmir enn þá. Hv.þm. talaði um, að það væri eðlilegra að hækka benzíngjaldið og þungaskattinn heldur en taka toll. Ég skal taka undir það, að það er eðlilegra að gera það. En ég vil vekja athygli á því, að það er mjög hæpið, að unnt sé að auka tekjur Vegasjóðs með því að hækka benzínið meira en búið er að gera núna í bili. Og ég held, að alþm. hafi allir verið sammála um það í fyrra, þegar benzínið var hækkað, að það væri ekki praktískt, það væri ekki rétt að fara hærra. Við erum komnir með benzínverðið svipað og það gerist í nágrannalöndunum, og það er sú hætta, sem er fyrir hendi, ef benzínið verður hækkað mikið umfram það, sem nú er, að það dragi úr sölu á benzíninu, og þá aukast tekjur Vegasjóðs ekki við það. Þungaskatturinn er mjög viðkvæmur, og hann var hækkaður gífurlega í fyrra, eins og við munum, og þegar vegáætlunin var rædd hér í fyrra, í marzmánuði og byrjun apríl, þá voru allir alþm. innilega sammála. Það voru allir sammála um það, að benzínverðið og þungaskatturinn væri orðið það hátt, að það yrði að afla Vegasjóði tekna næst þegar vegáætlun yrði samin með framlagi úr ríkissjóði. Þetta voru allir sammála um, sem tóku til máls. Og núv. hæstv. fjmrh. tók dýpst í árinni og sagði að ríkissjóður ætti að fá allar tekjur af umferðinni. Tekjur af umferðinni á s. l. ári, eins og hæstv. fjmrh., þáv. hv. 3. Vesturl., reiknaði það, voru 1200 millj. kr. Ég fór fram á það við afgreiðslu fjárl., að Vegasjóður fengi af þessum tekjum, en ekki allt. Og það var það, sem mér fannst að hlyti að vanta nú, þegar við förum að afgreiða vegaáætlun fyrir næstu ár. En ríkisframlagið var hækkað um 50 millj. í staðinn fyrir 300 millj., og þess vegna þarf einhverjar ráðstafanir að gera til fjáröflunar fyrir Vegasjóð, til þess að vegáætlun verði komið saman á viðunandi hátt. En hæstv. ráðh. og hæstv. ríkisstj. sjá væntanlega fyrir því.

Ég ætla ekki að deila við hv. 2. þm. Reykn. um það, hvers vegna Reykjanesvegurinn var gerður eins vel úr garði og raun ber vitni. Enginn vafi er á því, að flugvöllurinn, þessi alþjóðaflugvöllur og í rauninni eini millilandaflugvöllur okkar, rak þar á eftir. En ég held nú, að íbúar á Suðurnesjum, eins margir og þeir eru og eins og samgöngurnar voru á milli þessara þéttbýlisstaða, hafi átt sinn þátt í því. Og það er sannarlega rétt, að gamli Keflavíkurvegurinn var sannkallað Ódáðahraun. Hann var versti þjóðvegurinn á Íslandi ábyggilega, og einmitt vegna þess hefðu nú Suðurnesjamenn frekar öðrum átt að fagna því að fá þennan veg, sem þeir gerðu margir í hjarta sínu og gera enn í dag, því að eins og sagt var hér áðan, er haft eftir mörgum, sem um veginn fara, að þeir borgi þetta gjald með gleði, þótt þeir vitanlega vilji losna við það, og eins og nú er komið er eðlilegt að losa þá við þetta gjald að öllu leyti, eins og reyndar byrjað hefur verið á með því að innheimta ekki fleiri krónur fyrir hvern bíl nú heldur en gert var í byrjun.