28.02.1972
Neðri deild: 44. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 305 í C-deild Alþingistíðinda. (3098)

184. mál, vegalög

Flm. (Halldór S. Magnússon) :

Herra forseti. Þar sem ég hef hér af tveimur mönnum, hæstv. ráðh. og fyrrv. ráðh., verið sakaður annars vegar um reynsluleysi og hins vegar, um það að flytja hér frv. fyrst og fremst til þess að snapa atkv., þá get ég ekki stillt mig um að segja hér nokkur orð. Ég ætla ekki að deila við hæstv. samgrh. um það, hvort þetta frv. sé flutt fyrst og fremst til að snapa atkv. eða ekki eða hvort ég sé ötulli við það að snapa atkv. en hann. En hitt mega alþm. vita, að þetta frv. er flutt vegna þess, að ég álít og þeir hv. þm., sem flytja þetta frv. með mér, að það verði aldrei innheimt á Íslandi veggjöld, svo að nokkur sanngirni sé í, það verði aldrei jafnrétti í innheimtu veggjalda á Íslandi, einfaldlega vegna þess að það er útilokað að koma veggjöldum við alls staðar þar sem menn kynnu að vilja setja þau á.

Menn ræða um það, að sjálfsagt sé að setja veggjald á vegi sambærilega við Reykjanesbraut. Menn ræða um, að það sé sjálfsagt að setja veggjald á ef menn hafi mjög mikinn hag af því að aka viðkomandi veg umfram það, sem var áður. Og menn ræða um það, að sjálfsagt sé að setja veggjald á, ef um er að ræða mjög dýra framkvæmd, sem tekið hefur verið til erlent lán. En við skulum aðeins taka nokkur dæmi til þess að sýna, til þess að rökstyðja þá skoðun mína, að útilokað sé að koma á eða halda uppi veggjaldakerfi hér á landi, sem nokkur sanngirni sé í:

1. Ef umferð er lítil um viðkomandi veg, þá er útilokað að setja á veggjald, vegna þess að það borgar sig ekki. Það hefur verið talið, að umferðin þurfi að nema a. m. k. þúsund bifreiðum á dag að meðaltali, til þess að það borgi sig að setja á veggjald. Sem sagt, í fyrsta lagi, við getum alls ekki sett veggjald á þá vegi, þar sem umferð er minni en þetta. Það mun reyndar vera svo, að í ýmsum kjördæmum landsins er umferð hvergi á nokkrum einasta vegi yfir 1000 bifreiðar á dag, þannig að það er í sjálfu sér ekki nein hætta á því fyrir þm. einstakra kjördæma, að sett verði veggjöld á í þeirra kjördæmum.

2. Það er útilokað að setja veggjöld á vegi, ef umferð er mjög mikil. Eins og ég nefndi dæmi um í framsöguræðu fyrr á þessu þingi, þá er hægt að nefna sem dæmi um slíkan veg veginn yfir Elliðaár og upp Elliðaárbrekku, þar sem umferð er það mikil, að það er ábyggilega útilokað að setja þar á veggjald, vegna þess að umferðin mundi verða fyrir það miklu töfum af þeirri innheimtu, að það mundi ekki vera hægt að koma henni við.

Þá höfum við þarna mitt á milli þessara tveggja enda þá vegi, sem umferð er mátulega mikil um til þess að hægt sé að innheimta veggjöld. Til kemur svo enn ein takmörkun á þessu, og hún er sú, að það er útilokað að setja veggjöld á vegi, þar sem vegurinn liggur um þéttbýl svæði, og víða 1iggja vegir út af aðalveginum, því að ég vænti þess ekki, að menn láti sér detta það í hug að setja veggjöld á vegi, þar sem svo háttar til, að þeir, sem veggjöldin greiða, hvar á veginum sem þau eru svo innheimt, aka mjög mismunandi langt eftir veginum, annaðhvort örfá hundruð metra, kannske aðeins nokkra metra, eða nokkra km eða nokkra tugi km. Það er í sjálfu sér engin sanngirni í því. Sem sagt, við getum takmarkað þá vegi, sem við getum sett á veggjöld, jafnvel þótt við viljum viðhalda þeim, við þá vegi, sem umferð er mátulega mikil um og þar sem meginhluti vegarins liggur um lítt byggð svæði. Þetta er staðreynd, sem menn verða að hafa í huga, þegar þeir taka afstöðu til þessa máls.

Ég er eindregið þeirrar skoðunar, að það sé sjálfsagt nú á þessu þingi að marka þá stefnu að afnema þetta heimildarákvæði til handa ráðh. til þess að leggja á veggjöld, afnema það úr vegalögum. Það er hins vegar grundvallarskoðanamunur á milli mín og hv. 1. þm. Sunnl., þar sem hann sagði, að eðlilegra hefði verið að flytja á þessu þingi þáltill. um að skora á ríkisstj. að afnema þetta veggjald, sem nú er á Reykjanesbraut. Ég er alls ekki einungis að hugsa um veggjaldið, sem nú er á Reykjanesbraut. Ég er að hugsa um þau veggjöld, sem hugsanlega yrðu sett á hér á landi, ef þetta heimildarákvæði væri hér áfram. Ég er að hugsa um það, að við mörkum þá stefnu nú að afnema þetta heimildarákvæði einfaldlega til þess að viðurkenna það, að þm. hafa gert sér grein fyrir því, að það er ekki hægt að innheimta veggjald á Íslandi, svo að nokkurri sanngirni verði náð. Auðvitað hefði verið hægt að flytja hér þáltill. um að skora á ríkisstj., en það hefði einungis náð til þessa eina veggjalds, sem er á Reykjanesbraut og hefur þar verið innheimt í rúm 6 ár, en með því hefði engin stefna verið mörkuð um áframhaldandi innheimtu veggjalda á Íslandi.

Það er rætt um það, að það séu sérstök forréttindi að aka Reykjanesbraut, vegurinn sé byggður á kostnað allra landsmanna og þar fram eftir götunum. Ég vil leyfa mér að varpa fram þeirri spurningu, hvaða vegur á Íslandi sé ekki byggður á kostnað allra landsmanna. Vegir eru mismunandi dýrir, það segir sig sjálft. En vegir geta líka verið dýrir, þó að þeir séu ekki lagðir varanlegu slitalagi. Það er dýrt að grafa jarðgöng og það er dýrt að leggja vegi um brattar fjallshlíðar, og mér er það til efs, ef miða ætti við kostnað af vegaframkvæmdum á km., að Reykjanesbraut væri eini vegurinn í dag, sem væri innheimt veggjald á, ef það ætti að vera kostnaðarviðmiðunin, sem réði því, hvar ætti að leggja á veggjöld og hvar ekki. Nei, það er mín bjargföst sannfæring, að á þessu þingi beri að marka þá stefnu að afnema veggjöld, afnema þá heimild, sem er til handa ráðh. til þess að leggja veggjöld á einstaka vegi og brýr, fyrst og fremst vegna þess að ég er þess fullviss, að það verða aldrei innheimt á Íslandi veggjöld, þannig að með neinni sanngirni sé. Við getum sett veggjöld á einstaka vegi, en ekki aðra. Og það er alveg sama hvaða viðmiðun við viljum hafa til þess að setja á veggjöld, það verður aldrei um að ræða neina sanngirni í álagningu þeirra.

Það hefur verið rætt hér um það, að bíleigendur spari svo og svo mikið á að aka þennan veg, Reykjanesveginn. Ég geri fastlega ráð fyrir því, að bíleigendum sparist eitthvað við hverja þá vegaframkvæmd, sem framkvæmd er hér á landi. Ég geri ráð fyrir því t. d., að það kosti þá bíleigendur, sem aka til Siglufjarðar, minna að aka núna, eftir að jarðgöngin koma þar í gegn, heldur en áður. Og ég geri líka ráð fyrir því, að það megi teljast sparnaður að því að aka í gegnum jarðgöng um Oddsskarð, þegar þau verða komin. Ég geri líka ráð fyrir því, að það megi teljast sparnaður fyrir bíleigendur, þegar lagðir eru nýir vegir, eða fyrir landsmennina í þeim landsfjórðungum, þegar lagðir verða nýir vegir, sem ekki hafa verið áður. Menn geta þá ekið vegina í stað þess að þurfa að ferðast með öðru móti, með flugvélum eða skipum. Ég geri t. d. ráð fyrir því, að Djúpvegurinn verði talinn hafa í för með sér mikinn sparnað fyrir Vestfirðinga eða þá, sem hann nota. En ég vænti þess ekki, að hæstv. samgrh. vilji setja veggjald á Djúpveginn, þegar hann verður lagður. (Gripið fram í.) Já, við skulum þá sjá til með það. (Gripið fram í.) Við skulum þá bíða eftir þeirri ákvörðun. En ég vil aðeins ítreka það að lokum, að ég vonast til þess, eins og ég sagði í minni framsöguræðu, að þetta mál fái þinglega meðferð á þessu þingi og að alþm. megi bera gæfu til þess að afnema það heimildarákvæði, sem hér er í lögum, einfaldlega til þess að afnema það misrétti, sem ríkt hefur hér undanfarin ár, og koma í veg fyrir enn frekara misrétti milli landsmanna á komandi árum.