28.02.1972
Neðri deild: 44. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í C-deild Alþingistíðinda. (3100)

184. mál, vegalög

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson) :

Herra forseti. Svar mitt við þeirri fsp., sem til mín var beint varðandi þetta margnefnda veggjald, var í upphafi máls míns það, — ég vænti, að það hafi ekki farið fram hjá neinum, — að ríkisstj. hefði ekki, þegar málið bar að í fsp.-formi, tekið ákvörðun um niðurfellingu eða áframhald veggjaldsins og hún hefði ekki gert það enn, þegar málið gengur hér aftur nú. Að öðru leyti ræddi ég þá málstúlkun þm. Reykjaneskjördæmis, að þeir hefðu verið beittir rangindum, Suðurnesjamenn, í sambandi við þetta mál, og ég sýknaði alveg fyrirrennara minn af því, sem lagði gjaldið á. Hann hefði ekkert ranglætisverk framið, það er mín skoðun, og ég teldi, að Suðurnesjamenn hefðu sloppið ódýrar, Reykjaneskjördæmi hefði sloppið ódýrar en nokkurt annað kjördæmi landsins, því að enginn vegaspotti fengist, það geta þm. úr öllum hinum 7 kjördæmunum vottað, að það hefur enginn þm. fengið nokkurn veg tekinn út úr röð, sem fjárveitingavaldið hefur ekki verið búið að veita fé til, nema með því að útvegað væri fé að fullu fyrir framkvæmdinni og vextir greiddir af upphæðinni. Þá fyrst hefur vegamálastjórnin fallizt á, að slíkur vegur væri tekinn fyrir og framkvæmdinni flýtt. Þessum kostum hafa Suðurnesjabúar ekki orðið að hlíta. Það er því rangt, að þeir hafi orðið fyrir misrétti. Þeir hafa notið fríðinda. Þessi vegur var tekinn út úr, settur fram fyrir aðra mannvirkjagerð með lánsfé, og undir lánsfénu hafa staðið landsmenn allir, að undanteknum þessum hluta, sem veggjaldið ber uppi.

Ég undrast það hins vegar ekkert, þótt það heyrist frá kjósendum úr öllum áttum í Reykjaneskjördæmi, að þessu verði að létta af þeim, þegar því er haldið fram við fólkið og það túlkað fyrir því, að það sé rangindum beitt. En það er ekki verið að segja því satt. Hér er farið í alls konar útúrdúra, eins og það, að vegurinn hafi ekki verið lagður fyrir Suðurnesjamenn, hann hafi verið lagður fyrir Keflavíkurflugvöll. Þetta skiptir engu máli. Svo mikið er þá víst, að þá er það eitt af mörgu góðu, sem Suðurnesjamenn njóta vegna Keflavíkurflugvallar, og eru engin rök fyrir því, að það eigi að létta gjaldinu af þeim fyrir það. (Gripið fram í.) Mörgu góðu kannske. Í ræðustól get ég nú ekki haft „góðu“ í gæsalöppum, en það gæti líka verið, að það hefðu verið gæsalappir um orðið. En hvað sem því líður, ég held, að þið séuð að mæla of mikið upp í fólki með því að telja því trú um, að það sé illa farið með það, af því að það geldur þennan smáskatt fyrir þennan góða veg.

Þegar menn segja, að það sé ekki hægt að leggja veggjald á aðra vegi hér, af því að það sé hægt að fara krókaleiðir út frá þeim, þá tel ég, að það sé einmitt það góða við það. Þá eiga menn völ, og ég er alveg viss um það, að væri kominn góður vegur 100 km hér um Vesturlandið eða 100 km austur á Suðurlandið og menn ættu kost á að fara krókavegi um holótta malarvegi, þá gerðu menn það ekki, menn mundu með glöðu geði gjalda sitt gjald, og því er nú árans verr, að „Ódáðahraun íslenzkra vega“, gamli Keflavíkurvegurinn, skuli ekki hafa fengið að halda sér við hliðina á þeim nýja, svo að Suðurnesjamenn gætu valið á milli. Ég er alveg viss um það og ég er sannfærður um það, að Suðurnesjaþm. eru sammála mér um það, að það færi enginn gamla veginn. Þá borguðu þeir líka með gleði sitt gjald. Þá mundu þeir opna budduna sína með gleði. Það þyrfti kannske að hressa hann við, þann gamla, í svipuðu ástandi og hann var, til þess að þið vitið, hvers þið eigið kost, verja kannske í það veggjaldinu. En það eitt er víst, að annaðhvort verður Suðurlandskjördæmi að missa 20 millj. kr. til vega eða kjördæmin samanlagt önnur en Reykjaneskjördæmi, ef þessu fé er svipt í burtu án þess að útvega annað í staðinn. Niðurfelling þessarar fjárupphæðar kemur ekki til greina hjá mér, vegna þeirrar þarfar, sem ég veit, að blasir við, meðan heimild er í lögum fyrir því. Að sjálfsögðu mun ég lúta vilja Alþingis. Ef Alþ. vill fella þetta niður og afla tekna í staðinn, þá er mér ljúft að þiggja það. Mér er alveg sama, hvaðan peningarnir koma. En hitt er ekki rétt, að Reykjaneskjördæmi hafi orðið fyrir þungum búsifjum af þessu eða rangindum. Það er rangtúlkun.

Þetta vildi ég nú sagt hafa að lokum og vænti þess, að mönnum sé nú kannske heldur ljósara en áður, að það er beðið eftir því úti á landsbyggðinni, að þangað komi góðir vegir, og þó ekki sé dregið úr fjárveitingu nema um þessar 20 millj., sem hér er um að ræða, þá kemur það niður annaðhvort á einhverju kjördæmi eða þeim öllum, og það er sannleikur, sem ég sagði hér áðan, að mér hafa borizt áskoranir utan af landsbyggðinni, þar sem beðið er eftir vegum, um að tvöfalda gjaldið heldur en að fella það niður. Og einn þm. sagði áðan: Ég mundi með gleði standa að því, að Keflavíkurgjaldið yrði þrefaldað. Það er af því að fólkið úti á landsbyggðinni telur sig rangindum beitt, af því að varið skuli hafa verið af almannafé mörgum hundruðum millj. kr. og landslýðurinn látinn standa undir þessu að öllu öðru leyti en því, sem þetta litla gjald hefur hrokkið til að greiða fyrir brothluta af vöxtum, svo að það eru ekki Suðurnesjamenn einir, sem tala um rangindi, heldur landslýðurinn utan Reykjaneskjördæmis, og ég álít, að það fólk hafi á réttara að standa í þessu máli.

Annað hef ég svo ekki um þetta mál að segja. Málið gengur sinn gang, fer til n. og fær sína afgreiðslu þar, og það er auðvitað á valdi Alþ. að ákveða, hvort vegagjöld skuli fella niður. En miklu ríkari þjóðir en Íslendingar hafa orðið að lúta því að innheimta skatta af góðum vegum og brúm — miklu ríkari þjóðir. Ríkustu þjóðir heims hafa gert þetta, þó að við Íslendingar komumst kannske að þeirri niðurstöðu, að við þurfum þess ekki.